Hoppa yfir valmynd

842/2019. Úrskurður frá 28. október 2019

Úrskurður

Hinn 28. október 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 842/2019 í máli 19100014.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 24. október 2019, kærði A ákvörðun Tækniskólans ehf. um að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum er varða ráðningu í starf kennara í húsasmíði við skólann.

Með erindi, dags. 13. júlí 2019, óskaði kærandi upplýsinga varðandi ráðninguna en kærandi var á meðal umsækjenda. Kærandi átti í nokkrum tölvupóstsamskiptum við Tækniskólann þar sem hann ítrekaði beiðni sína. Í tölvupósti frá Tækniskólanum, dags. 7. október 2019, kemur fram að umsóknir um störf hjá Tækniskólanum og gögn sem þeim fylgi séu trúnaðarmál, skólinn sé ekki opinber framhaldsskóli og hafi ekki fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skólinn sé hlutafélag sem hafi hlotið viðurkenningu mennta- og menningarráðherra á grundvelli 12. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008. Skólanum sé ekki heimilt, á grundvelli persónuverndarlaga nr. 90/2018, að afhenda þriðja aðila gögn um umsækjendur um störf við skólann né gögn um einstaka starfsmenn skólans.

Í kæru kemur fram að kærandi telji sig eiga rétt, á grundvelli upplýsingalaga, til aðgangs að gögnum málsins þar sem komi fram hver hafi verið ráðinn í starfið, rök fyrir ákvörðun um ráðningu, afrit af öllum gögnum umsóknarferlis auk upplýsinga um hvort og þá hverjir séu kennarar í húsasmíði við skólann án þess að hafa til þess réttindi og hvenær ráðning þeirra hafi síðast verið endurnýjuð.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012, að upplýsingum um starfsmannamál Tækniskólans ehf., nánar tiltekið hverjir hafi sótt um starf sem kennarar í húsasmíði og hvaða starfsmenn starfi við skólann sem húsasmiðir án þess að hafa til þess réttindi og hvenær ráðning þeirra hafi verið endurnýjuð.

Samkvæmt 2. gr. upplýsingalaga taka lögin til allrar starfsemi stjórnvalda og lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Samkvæmt 3. gr. laganna taka þau einnig til einkaaðila, hvort sem þeir eru í opinberri eigu eða ekki, að því leyti sem þeim hefur með lögum eða með ákvörðun eða samningi sem byggist á heimild í lögum verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun eða sinna þjónustu sem kveðið er á um í lögum að stjórnvald skuli sinna eða telst að öðru leyti liður í opinberu hlutverki stjórnvalds.

Tækniskólinn er einkahlutafélag sem er að öllu leyti í eigu einkaaðila, þ.e. Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samorku og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík. Skólinn starfar á grundvelli þjónustusamnings við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hann er að mestu leyti rekinn fyrir opinbert fé og gilda lög um framhaldsskóla nr. 92/2008 um starfsemi hans. Sá hluti af starfsemi Tæknisskólans sem lýtur að því þjónustuhlutverki sem skólinn sinnir á grundvelli laga nr. 92/2008 kann því eftir atvikum að falla undir upplýsingalög skv. 3. gr. laganna.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál geta starfsmannamál Tækniskólans hins vegar ekki talist vera hluti af þeirri opinberu þjónustu sem skólanum er falið að veita samkvæmt lögum nr. lögum nr. 92/2008 og eru starfsmenn hans ekki opinberir starfsmenn, sbr. lög nr. 70/1996. Um þetta má vísa til sjónarmiða sem fram koma í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 2830/1999, þar sem ráðning í starf deildarforseta myndlistardeildar Listaháskóla Íslands var ekki talin fela í sér meðferð á opinberu valdi. Önnur sjónarmið kunna að gilda um mál sem varða réttindi og skyldur nemenda skólans, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga um framhaldsskóla. Loks er rétt að geta þess að um aðgang að gögnum í málum sem varða ráðningar í opinber störf fer almennt samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga þegar sá sem beiðist aðgangs er meðal umsækjenda um starfið, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 794/2019 frá 31. maí 2019. Með vísan til framangreinds fellur kæra utan gildissviðs upplýsingalaga og er óhjákvæmilegt að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 24. október 2019, vegna synjunar Tækniskólans ehf. á beiðni um gögn vegna ráðningar í starf kennara við skólann er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Sigurveig Jónsdóttir                      Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta