Hoppa yfir valmynd

844/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019

Úrskurður

Hinn 15. nóvember 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 844/2019 í máli ÚNU 18090007. 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 30. ágúst 2018, kærði Samgöngufélagið synjun Isavia ohf. á beiðni þess um upplýsingar vegna bílastæða við Keflavíkurflugvöll.

Með erindi til Isavia ohf., dags. 21. apríl 2017, setti kærandi fram beiðni um eftirfarandi upplýsingar:

1. Hverjar hafi verið tekjur Isavia ohf. af afnotum gjaldskyldra bílastæða fyrir utan Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli síðustu þrjú almanaksár, þ.e. árin 2014 til 2016.
2. Hvernig tekjum vegna bílastæðanna hafi verið varið.
3. Hver fjöldi gjaldskyldra bílastæða sé nú, og breytingar á fjölda þeirra síðastliðin þrjú almanaksár, þ.e. árin 2014 til 2016.
4. Hver hafi tekið ákvörðun um gjaldtökuna á sínum tíma og í hvaða formi hún hafi verið.
5. Hverju það sæti að gjaldtaka sé ekki viðhöfð á bílastæðum við aðra flugvelli í umráðum Isavia ohf.

Isavia ohf. svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 21. febrúar 2018, þar sem beiðni kæranda var hafnað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Ákvörðun félagsins var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með tölvupósti, dags. 22. febrúar 2018. Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 753/2018 var lagt fyrir Isavia að taka beiðni Samgöngufélagsins, dags. 21. apríl 2017, til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. 

Í erindi Isavia ohf., dags. 9. ágúst 2018, er farið yfir hvern lið beiðni kæranda og honum svarað. Vegna fyrsta liðar beiðninnar er vísað til þess að frekari upplýsingar úr bókhaldi félagsins en þær sem fram komi í ársskýrslu félagsins séu ekki veittar. Um sé að ræða upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni sem geti verið til þess fallnar að raska samkeppni, verði þær veittar. Vegna annars liðar beiðninnar er vísað til þess að umbeðnar upplýsingar liggi ekki fyrir hjá félaginu og falli beiðnin því utan gildissviðs upplýsingalaga. Kæranda eru veittar upplýsingar vegna þriðja liðar beiðninnar. Vegna fjórða liðar beiðni kæranda er tekið fram að ákvörðun um innheimtu gjalds fyrir bílastæði hafi verið tekin áður en upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi; að því marki sem gögn vegna fjórða liðar séu fyrirliggjandi hjá félaginu falli þau utan gildissviðs laganna, sbr. 3. mgr. 35. gr. upplýsingalaga. Vegna fimmta liðar beiðni kæranda tekur Isavia ohf. fram að engin fyrirliggjandi gögn hjá félaginu fjalli um efnið, og falli því beiðnin utan gildissviðs upplýsingalaga.

Í kæru til úrskurðarnefndar, dags. 30. ágúst 2018, er í fyrsta lagi ítrekuð sú ósk að Isavia ohf. láti í té upplýsingar um tekjur félagsins af gjaldskyldum bílastæðum við Keflavíkurflugvöll. Rekstur bílastæða geti varla talist hluti af kjarnastarfsemi Isavia ohf. Þá sé félagið í þeirri aðstöðu að geta einhliða ákveðið gjald fyrir notkun þeirra. Þeir sem vilji fara á eigin ökutæki til Keflavíkurflugvallar eigi tæpast annan kost en að greiða fyrir afnot bílastæðis samkvæmt gjaldskrá Isavia ohf. Sé miðað við fjárhæð gjalds af hverju stæði samkvæmt auglýstri gjaldskrá á vef félagsins séu vísbendingar um að gjaldtaka sé nokkuð umfram útlagðan kostnað við gerð og rekstur stæðanna, sé t.d. miðað við fjárhæð gjalds á ýmsum öðrum bílastæðum og bílageymslum hérlendis. Í ljósi þessarar aðstöðu megi rökstyðja að hagsmunir almennings af því að umbeðin gögn eða upplýsingar verði látnar í té séu ríkari en ella. Annað kunni að skapa efasemdir og jafnvel tortryggni. Kæranda sé ekki ljóst hvernig veiting upplýsinga um tekjur af bílastæðum geti raskað samkeppni Isavia ohf., hvort sem er við aðra flugvelli eða aðra sem veita bílastæðaþjónustu.

Varðandi svar Isavia ohf. við öðrum lið beiðni kæranda dregur kærandi í efa að upplýsingar liggi ekki fyrir í gögnum eða bókhaldi félagsins um það hvernig tekjum af bílastæðagjöldum hefur verið ráðstafað. Verði ekki fallist á afhendingu slíkra upplýsinga óskar kærandi eftir því að gögn verði lögð fram um það hversu miklum hluta tekna félagsins af bílastæðagjöldum hafi verið ráðstafað upp í kostnað við uppbyggingu og rekstur þeirra síðustu þrjú ár. Kærandi gagnrýnir að Isavia ohf. láti ekki upplýsingar í té sem lúti að fjórða lið beiðni sinnar þótt þær hafi orðið til fyrir gildistöku upplýsingalaga. Kærandi minnir á hve brýnt það sé að einhverjar skýringar eða rökstuðningur liggi fyrir þegar teknar eru ákvarðanir um gjaldtöku.

Málsmeðferð

Með erindi, dags. 10. september 2018, var kæran kynnt Isavia ohf. og félaginu veittur frestur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess farið á leit að úrskurðarnefndinni yrðu afhent afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn Isavia ohf., dags. 1. október 2018, er vísað til 9. gr. upplýsingalaga til stuðnings synjun félagsins á fyrsta lið beiðni kæranda, þ.e. um tekjur vegna bílastæða við Keflavíkurflugvöll, þar sem um sé að ræða viðkvæm gögn sem varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni félagsins, að því marki sem umbeðin gögn séu fyrirliggjandi hjá félaginu. Rekstur bílastæða við Keflavíkurflugvöll sé rekstur á samkeppnismarkaði. Þær upplýsingar sem óskað sé eftir séu að mati Isavia ohf. mikilvægar viðskiptaupplýsingar sem geti verið til þess fallnar að raska samkeppni, verði þeim miðlað. Nánar tiltekið sé um að ræða upplýsingar um magn seldra stæða (nýtingu), sölutölur og framleiðslukostnað (rekstrarkostnað). Isavia ohf. telur að upplýsingarnar skuli undanþegnar aðgangi kæranda á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, en telur einnig að veiting þeirra kynni að fara í bága við 10. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005.

Vísað er til þess að Samkeppniseftirlitið hafi bent á að við mat á því hvort um mikilvægar viðskiptaupplýsingar sé að ræða skuli líta til þess hvort upplýsingarnar séu til þess fallnar að draga úr óvissu á markaðnum. Minni óvissa dragi úr sjálfstæði keppinauta í ákvarðanatöku og hamli því samkeppni. Mest sé hættan á röskun samkeppni á mörkuðum þar sem fákeppni ríki. Almennt séu upplýsingar um verð og magn viðkvæmustu upplýsingarnar en viðkvæmar upplýsingar geti einnig verið upplýsingar um viðskiptamannaskrár, framleiðslukostnað, framleiðslutölur, veltu, sölutölur, afkastagetu, vöruvöndun, markaðsáætlanir, áhættuliði, fjárfestingar, tækniaðferðir svo og rannsókna- og þróunarstarf og afrakstur þess. Miðlun upplýsinga af þessu tagi geti varðað við 10. gr. samkeppnislaga.

Þær upplýsingar sem kærandi óski eftir í málinu séu nýjar upplýsingar, þ.e. upplýsingar um stöðuna í dag, sem séu þess eðlis að vegna aldurs þeirra hafi þær mikla þýðingu fyrir rekstur bílastæðanna. Isavia ohf. sé í samkeppni við aðra sem reki bílastæðaþjónustu fyrir þá sem fara um Keflavíkurflugvöll. Félagið telur að það eigi ekki að þurfa að veita upplýsingar umfram það sem samkeppnisaðilar félagsins þurfi að gera. Vísar Isavia ohf. til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 709/2017, þar sem fram kemur að upplýsingar um veltu og sölu geti talist viðkvæmar upplýsingar sem heimilt sé að synja almenningi um aðgang að, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.

Isavia ohf. vísar jafnframt til 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga til stuðnings synjuninni. Þar sem rekstur bílastæða fyrir farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll sé á samkeppnismarkaði telur félagið að ákvæðið eigi við í þessu máli. Félagið vísar til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. A-344/2010 í því samhengi, og tekur fram að Isavia ohf. sé fyrirtæki í ríkiseigu og starfi í samkeppnisrekstri. Vísað er til athugasemda við 4. tölul. 10. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, um að óheftur réttur til upplýsinga geti skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja í þeim tilvikum þegar hið opinbera þarf að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki eru skyldugir að gefa upplýsingar um stöðu sína.

Varðandi afgreiðslu Isavia ohf. um aðgang að upplýsingum sem falla undir annan lið beiðni kæranda, þ.e. um það hvernig tekjum vegna bílastæða hafi verið varið, tekur félagið fram að upplýsingalög leggi ekki þá kvöð á þá sem undir lögin falla að taka til ný gögn. Umbeðnar upplýsingar liggi ekki fyrir samanteknar hjá félaginu og því falli beiðnin utan gildissviðs upp-lýsingalaga. Um sé að ræða bókhaldsupplýsingar sem krefjast þess að þær séu teknar saman sérstaklega, sem sé ekki skylt, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 748/2018.

Vegna synjunar félagsins um aðgang að upplýsingum sem heyra undir fjórða lið beiðni kæranda, þ.e. um það hver hafi tekið ákvörðun um gjaldtökuna og í hvaða formi, eru þau sjónarmið sem fram komu í bréfi félagsins til kæranda ítrekuð.

Með bréfi, dags. 2. október 2018, var umsögn Isavia ohf. kynnt kæranda og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 18. október 2018, er áréttað að þótt Isavia ohf. telji sig eiga í samkeppni við einkaaðila um rekstur bílastæða fyrir utan Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði ekki séð að það eigi að leiða til þess að upplýsingar um tekjur af þjónustunni og ráðstöfun þeirra skuli ekki veittar. Félagið sé nánast í einokunarstöðu með bílastæðin næst flugstöðvarbyggingunni og virðist nýta sér það ótæpilega með verðlagningu á þjónustu sinni.

Með bréfi, dags. 29. ágúst 2019, ítrekaði úrskurðarnefndin beiðni nefndarinnar um afhendingu þeirra gagna er kæra lýtur að. Með bréfi, dags. 10. september 2019, barst svar frá Isavia. Kemur þar fram að um afar viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sé að ræða en fyrirtækið sé í virkri samkeppni við a.m.k. fimm önnur fyrirtæki sem sinni bílastæðaþjónustu við Keflavíkurflugvöll. Upplýsingarnar hafi verið teknar samar og afhentar í trúnaði ráðgjafa sem aðstoðað hafi félagið við viðskiptaáætlun bílastæðaþjónustu félagsins á Keflavíkurflugvelli. Í ljósi eðli þeirra og nákvæmni varpi þær ljósi á kjarnastarfsemi bílastæða KEF parking og byggi viðskiptaáætlun KEF parking á þeim. Kunni upplýsingarnar að valda félaginu tjóni komist samkeppnisaðilar yfir þær og hagnýti sér í starfsemi sinni. Umbeðin gögn bárust degi síðar. 

Með bréfi, dags. 17. október 2019, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afriti af fyrirliggjandi gögnum varðandi þá ákvörðun að hefja gjaldtöku á bílastæðum við Leifsstöð svo nefndin gæti staðreynt hvort ákvörðunin hafi verið tekin fyrir gildistöku upplýsingalaga nr. 140/2012. Með bréfi, dags. 25. október 2019, barst nefndinni svar frá Isavia ohf. þar sem tekið er fram að engin gögn séu fyrirliggjandi um ákvörðunina. Í ritinu Sögu flugvalla og flugleiðsögu, bls. 331, komi hins vegar fram að gjaldtaka hafi verið hafin á öllum bílastæðum við flugstöðina árið 2005.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um bílastæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia ohf. veitti félagið kæranda aðgang að upplýsingum um fjölda gjaldskyldra bílastæða árið 2017, þ.e. þegar beiðni kæranda var sett fram, og breytingar á fjölda þeirra síðustu þrjú almanaksár á undan, þ.e. árin 2014-2016. Stendur því eftir að leysa úr ágreiningi um afgreiðslu Isavia ohf. á þeim fjórum spurningum kæranda sem standa eftir, þ.e.: 

1. Hverjar hafi verið tekjur Isavia ohf. af afnotum gjaldskyldra bílastæða fyrir utan flugstöðina árin 2014-2016. 
2. Hvernig tekjum vegna bílastæðanna hafi verið varið. 
3. Hver hafi tekið ákvörðun um gjaldtöku á sínum tíma og í hvaða formi hún hafi verið.
4. Hverju það sæti að gjaldtaka sé ekki viðhöfð á bílastæðum við aðra flugvelli í umráðum Isavia ohf.

2.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er þeim sem falla undir lögin skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Isavia ohf. styður ákvörðun sína um að synja um aðgang að upplýsingum um tekjur af afnotum gjaldskyldra bílastæða fyrir utan flugstöðina á tilteknu tímabili við 9. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. 

Í 4. tölul. 10. gr. er að finna heimild til að takmarka aðgang almennings að upplýsingum um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra. 

Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir eftirfarandi:

„Markmiðið með þessu frumvarpi er m.a. að gefa almenningi og fjölmiðlum tækifæri á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum er varið. Óheftur réttur til upplýsinga getur á hinn bóginn skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja í þeim tilvikum þegar hið opinbera þarf að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki eru skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Af þessum sökum er lagt til að takmarkaður verði aðgangur að upplýsingum um viðskipti hins opinbera þegar svona háttar til. Meginsjónarmiðið að baki þessu ákvæði er að opinber aðili eigi að standa jafnfætis öðrum samkeppnisaðilum í viðskiptum, hvorki betur né verr. Athuga verður þó í þessu sambandi að í sumum tilvikum eru fyrir hendi skýrar reglur um skyldu stjórnvalda til þess að veita upplýsingar í tengslum við viðskipti, sbr. lög nr. 65/1993, um framkvæmd útboða. Ákvæðið er sem fyrr segir einskorðað við þá stöðu þegar opinberir aðilar eru í samkeppni við aðra aðila. Ákvæðinu verður því ekki beitt þegar hið opinbera starfar í skjóli einkaréttar eða ef opinber aðili er einn um rekstur þótt einkaréttar njóti ekki við.“

Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum og ber því að skýra það þröngri lögskýringu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur talið að til þess að stjórnvöld geti byggt takmörkun á aðgangsrétti á 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þurfi a.m.k. þremur skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi skal starfsemi þess aðila sem upplýsingabeiðni beinist að, eða upplýsingar tengjast að öðru leyti, í heild eða að hluta, vera í samkeppni við aðra aðila. Í öðru lagi þurfa þær upplýsingar sem beðið er um að tengjast þeirri starfsemi viðkomandi aðila sem telst til samkeppnisrekstrar hans. Í þriðja lagi að sú afstaða hafi verið tekin á grundvelli ígrundaðs mats á því að þeir samkeppnishagsmunir hinnar opinberu stofnunar eða fyrirtækis sem um ræðir séu það verulegir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og rétti almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga til aðgangs að umbeðnum upplýsingum. Um þetta má m.a. vísa til úrskurða nr. 823/2019, 813/2019, 764/2018 og 762/2018 auk úrskurða í málum nr. A-492/2013, A-379/2011, A-378/2011 og A-344/2010 sem kveðnir voru upp í gildistíð eldri upplýsingalaga. 

Isavia ohf. ber því við að miðlun umbeðinna upplýsinga kunni að brjóta í bága við ákvæði 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að þótt vissulega kunni að vera rétt við skýringu 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga að líta til sjónarmiða um beitingu 10. gr. samkeppnislaga þá eru lagaákvæðin um margt ólík og verndarandlag ákvæðanna er ólíkt. Verður af þessum sökum ekki fullyrt að í öllum tilvikum verði talið heimilt að takmarka aðgang að gögnum á grundvelli 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þótt þau geti talist vera „mikilvæg og viðkvæm“ þegar 10. gr. samkeppnislaga er beitt.

Þær upplýsingar sem Isavia ohf. telur heimilt að undanskilja á grundvelli ákvæðis 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga varða tekjur af rekstri bílastæða við flugstöð Leifs Eiríkssonar, sundurliðaðar eftir mánuðum. Vísað er til þess að um sé að ræða nýjar upplýsingar um magn seldra stæða, sölutölur og rekstrarkostnað. Þá er vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 709/2017 um að upplýsingar um veltu og sölu geti verið viðkvæmar upplýsingar um viðskipta- og fjárhagsmálefni fyrirtækja.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur sig ekki geta fullyrt hvort rekstur bílastæðanna teljist til samkeppnisrekstrar Isavia ohf. eða til rekstrar sem fyrirtækið sé „eitt um“ svo notað sé orðalag greinargerðarinnar. Hvað sem því líður er ljóst að til þess að njóta verndar 4. tölul. 10. gr. þurfa viðkomandi upplýsingar að uppfylla öll framangreind skilyrði.

Það er mat nefndarinnar að jafnvel þótt umræddar upplýsingarnar teljist varða samkeppnisrekstur Isavia ohf. þá varði þær ekki svo verulega samkeppnishagsmuni að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar upplýsingarétti almennings samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Er þá litið til þess að Isavia ohf. hefur ekki fært fyrir því sannfærandi rök að veiting upplýsinganna geti haft neikvæð áhrif á rekstur Isavia ohf. á bílastæðunum og valdið félaginu tjóni. Í því skjali sem úrskurðarnefndinni var látið í té eru ekki að finna upplýsingar um fjölda leigðra bílastæða eða rekstur þeirra heldur koma þar aðeins fram mánaðarlegar heildartekjur af rekstri bílastæðanna. Að auki er til þess að líta að almenningur hefur hagsmuni af því að geta kynnt sér upplýsingarnar, m.a. til þess að geta veitt Isavia ohf. aðhald sbr. 3. tölul. 1. gr. upplýsingalaga. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Isavia ohf. sé ekki heimilt að undanþiggja upplýsingarnar upplýsingarétti almennings með vísan til 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Þá er ekki um að ræða upplýsingar um viðskipti eða fjárhag þriðja aðila sem heimilt er að takmarka á grundvelli 9. gr. laganna. Verður því félaginu gert að veita kæranda aðgang að upplýsingunum. 

3.

Í málinu er einnig deilt um afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um það hvernig tekjum vegna bílastæðanna hafi verið varið og hverju það sæti að gjaldtaka sé ekki viðhöfð á bílastæðum við aðra flugvelli í um¬ráðum Isavia ohf. Isavia ohf. segir gögn með þessum upplýsingum ekki vera fyrirliggjandi og félaginu sé ekki skylt að útbúa gögn með upplýsingunum. 

Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, eins og lesa má af orðalagi ákvæðis 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin er því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendu til að draga í efa fullyrðingu Isavia ohf. um að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi að þessu leyti.

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Valdsvið nefndarinnar nær því ekki til þess að skera úr um heimild eða skyldu þeirra sem falla undir lögin til þess að taka saman upplýsingar. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kæru vegna afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni um upplýsingar um það hvernig tekjum af bílastæðum hafi verið varið og af hverju gjaldtaka sé ekki höfð á bílastæðum við aðra flugvelli í umráðum Isavia ohf. frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

4.

Að lokum er deilt um afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um það hver hafi tekið ákvörðun um gjaldtöku á sínum tíma og í hvaða formi hún hafi verið. Isavia ohf. vísar til þess að félaginu sé ekki skylt að afhenda þessar upplýsingar þar sem þær falli ekki undir upplýsingalög vegna ákvæðis 3. mgr. 35. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt ákvæðinu gilda upplýsingalög aðeins um þau gögn og upplýsingar í vörslu lögaðila skv. 2. mgr. 2. gr. og 3. gr. laganna sem urðu til eftir gildistöku þeirra. Fram kemur að það eigi þó ekki við þegar viðkomandi hafi verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun. 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur rétt að leggja til grundvallar að ákvörðun um að hefja gjaldtöku við bílastæði við flugstöð Leifs Eiríkssonar sé ekki stjórnvaldsákvörðun. Þá getur nefndin ekki annað en fallist á fullyrðingu Isavia ohf. um að gögn með upplýsingum um þá ákvörðun að hefja gjaldtöku hafi orðið til fyrir gildistöku upplýsingalaga nr. 140/2012. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun Isavia ohf. um að synja beiðni kæranda hvað þau gögn varða, sbr. 3. mgr. 36. gr. upplýsingalaga. 

Úrskurðarorð:

Isavia ohf. er skylt að veita kæranda, Samgöngufélaginu, aðgang að skjölum þar sem fram koma upplýsingar um tekjur félagsins af bílastæðum við flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir árin 2014-2016, sundurliðuðum eftir mánuðum. 

Staðfest er synjun Isavia ohf. á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um það hver hafi tekið ákvörðun um að hefja gjaldtöku við bílastæði við flugstöð Leifs Eiríkssonar og á hvaða formi ákvörðunin hafi verið tekin.

Kæru er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Sigurveig Jónsdóttir 
Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta