Hoppa yfir valmynd

848/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019

Úrskurður

Hinn 15. nóvember 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 848/2019 í máli ÚNU 19030006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 28. febrúar 2019, kærði A ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. (hér eftir „Herjólfs“) um synjun beiðni kæranda um aðgang að samningi sem félagið gerði við Kosmos og Kaos ehf. þann 15. nóvember 2018 um gerð heimasíðu.

Með erindi til Herjólfs, dags. 8. janúar 2019, óskaði kærandi eftir aðgangi að fyrrnefndum samningi. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2019, var erindi kæranda svarað og honum synjað um aðgang að samningnum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, með vísan til mikilvægra fjárhags- og viðskiptahagsmuna Kosmos og Kaos ehf. Í bréfinu upplýsir Herjólfur kæranda um að óskað hafi verið eftir tilboði fjögurra aðila í vefsíðugerð fyrir félagið og að þrír þeirra hafi kynnt tilboð fyrir Herjólfi. Val á tilboðsgjafa hafi ráðist af vefumhverfi annars vegar og áreiðanleika tilboðsgjafa hins vegar. Kosmos og Kaos ehf. hafi orðið fyrir valinu m.a. vegna þess að fyrirtækið átti lægsta tilboðið. Þá kom einnig fram að ástæða afgreiðsludráttar á beiðni kæranda sé sú að heimilisfang starfsaðstöðu og heimilisfang félagsins væri ekki hið sama en kærandi hafði sent bréf á heimilisfang félagsins.

Í kæru fer kærandi fram á að Herjólfi verði gert skylt að afhenda umbeðinn samning auk þess sem hann óskar eftir að úrskurðarnefndin taki afstöðu til skýringa Herjólfs um ástæðu þess að seinkun varð á svari félagsins til kæranda.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 13. mars 2019, var kæran kynnt kærða og honum veittur kostur á að skila umsögn vegna hennar og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af samningnum sem kæran lyti að.

Í umsögn Herjólfs, dags. 22. mars 2019, kemur fram að félagið telji sér ekki skylt að veita aðgang að samningnum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga en í samningnum komi fram upplýsingar sem varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni viðsemjandans, Kosmos og Kaos ehf. Í umsögn Herjólfs kom ekki fram hvort leitað hefði verið eftir samþykki Kosmos og Kaos ehf. fyrir afhendingu gagnanna en Herjólfur afhenti úrskurðarnefndinni í trúnaði afrit af umræddum samningi.

Umsögn Herjólfs var kynnt kæranda með bréfi, dags. 31. júlí 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 7. ágúst 2019, kemur fram ítrekun á því að veittur verði aðgangur að umbeðnum samningi.

Þann 19. ágúst 2018 barst úrskurðarnefndinni bréf frá lögmannsstofu f.h. Herjólfs. Þar kemur fram að Herjólfur telji sér ekki heimilt að afhenda umbeðinn samning með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Tekið er fram að ekki sé um að ræða eiginlegan samning heldur tilboð eða kostnaðaráætlun en að samningssamband aðila byggi þó á skjalinu.

Með bréfi, dags. 23. október 2019, upplýsti úrskurðarnefndin Kosmos og Kaos ehf. um efni kærunnar og óskaði eftir afstöðu fyrirtækisins til þess að veittur yrði aðgangur að samningnum. Engar athugasemdir bárust frá Kosmos og Kaos ehf.

Niðurstaða

Í máli þessu reynir á rétt kæranda til aðgangs að samningi sem Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. gerði við fyrirtækið Kosmos og Kaos ehf. um gerð nýrrar vefsíðu.

Synjun Herjólfs er byggð á 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, nema sá samþykki sem í hlut á. Þarf því að taka til athugunar hvort hagsmunir Kosmos og Kaos ehf. standi í vegi fyrir því að samningurinn verði gerður opinber.

Í athugasemdum um 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að ákvæði 9. gr. feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

Í athugasemdunum segir enn fremur um 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur fengið afrit af samningi Herjólfs og Kosmos og Kaos ehf. og metið efni hans. Í honum má finna tilboð í vefsíðugerð og kostnaðaráætlun vegna vinnunnar, þar er að finna stutta og almenna lýsingu á verkinu, upplýsingar um tímagjald og afsláttarkjör auk áætlaðs fjölda vinnustunda fyrir hvern verkþátt.

Fyrir liggur að upplýsingar um greiðslur samkvæmt samningum eru upplýsingar um fjárhagsmálefni samningsaðila. Í því felst þó ekki að sjálfkrafa sé rétt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga að halda upplýsingunum leyndum. Til þess er að líta að upplýsingar um greiðslur vegna kaupa opinbers félags á þjónustu varða með beinum hætti ráðstöfun opinberra hagsmuna. Í ljósi meginreglu upplýsingalaga, sbr. 5. gr. laganna, geta hagsmunir almennings af því að fá aðgang að slíkum upplýsingunum rutt til hliðar viðskiptalegum hagsmunum enda hafi ekki verið sýnt fram á að það valdi viðkomandi samningsaðila tjóni verði upplýsingarnar gerðar opinberar. Hefur úrskurðarnefndin m.a. byggt á því í úrskurðum sínum að það sjónarmið, að upplýsingar um umsamið endurgjald opinberra aðila til einkaaðila fyrir veitta þjónustu eða vörur skuli fara leynt, verði að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál getur ekki fallist á að þær upplýsingar sem fram koma í samningi Herjólfs við Kosmos og Kaos ehf. um gerð nýrrar vefsíðu séu þess eðlis að 9. gr. upplýsingalaga komi í veg fyrir aðgang kæranda að þeim enda eru þær ekki til þess fallnar að valda Kosmos og Kaos tjóni verði þær gerðar opinberar. Þá hefur almenningur hagsmuni af því að geta kynnt sér rekstur félaga í meirihlutaeigu hins opinbera. Með vísan til framangreinds verður Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. gert að veita kæranda aðgang að samningnum líkt og frá greinir í úrskurðarorði.

Það athugast að í kæru óskar kærandi þess að úrskurðarnefndin leggi mat á rök Herjólfs fyrir því að dregist hafi að svara beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Nefndin telur ekki annað séð en að Herjólfur hafi afgreitt beiðnina eins fljótt og auðið var og upplýst kæranda um ástæðu tafarinnar. Nefndin beinir því hins vegar til félagsins að gæta framvegis að þeim tímafrestum sem málshraðaregla 17. gr. upplýsingalaga hefur að geyma en samkvæmt ákvæðinu skal skýra aðila frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar sé að vænta, hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar.

Úrskurðarorð:

Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. ber að veita kæranda, A, aðgang að samningi Kosmos og Kaos ehf. og Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., dags. 15. nóvember 2018, um gerð nýrrar vefsíðu fyrir Herjólf.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta