Hoppa yfir valmynd

864/2020. Úrskurður frá 29. janúar 2020

Úrskurður

Hinn 29. janúar 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 864/2020 í máli ÚNU 19050014.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 13. maí 2019, kærði A, blaðamaður, ákvörðun Isavia ohf. um synjun beiðni um gögn. Málavextir eru þeir að með erindi, dags. 20. apríl 2019, óskaði kærandi eftir aðgangi að gögnum sem nefnd væru undir lið 3.2. og 3.3. á stjórnarfundi nr. 138/2018, dags. 28. september 2018. Um væri að ræða gögnin „Samantekt um ríkisaðstoð og stöðvunarheimild – minnisblöð frá ytri lögfræðingum og greiðsluáætlun WOW Air“. Isavia ohf. synjaði beiðninni 7. maí 2019 með vísan til 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samdægurs óskaði kærandi eftir upplýsingum um fyrir hvaða dómsmál minnisblaðið um ríkisaðstoð hefði verið tekið saman. Hinn 13. maí 2019 svaraði Isavia ohf. því að minnisblaðið hefði verið tekið saman í tilefni dómsmáls á milli félagsins og ALC vegna kyrrsetningar flugvélar. Tekið er fram að ákvæði 3. tölul. 6. gr. taki einnig til þeirrar stöðu þegar til athugunar er hvort höfða eigi mál.

Í kæru segir kærandi það ekki stemma að skjalsins hafi verið aflað gagngert til afnota í dómsmáli sem höfðað hafi verið rúmlega hálfu ári eftir að skjalið var lagt fyrir stjórnarfund.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 14. maí 2019, var kæran kynnt Isavia ohf. og félaginu veittur frestur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun félagsins. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn Isavia ohf., dags. 31. maí 2019, kemur fram að kæranda hafi verið synjað um aðgang að tveimur minnisblöðum, annars vegar minnisblaði um reglur um ríkisstyrki og hins vegar minnisblaði um 1. mgr. 36. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998. Minnisblöðin hafi verið lögð fram á stjórnarfundi félagsins. Við úrlausn málsins verði að líta til aðdraganda og áhrifa þess að minnisblöðin voru útbúin og jafnframt til þeirra áhrifa sem ákvarðanir á grundvelli minnisblaðsins höfðu. Þá verði að horfa til skýringa við ákvæði 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga en samkvæmt þeim sé nægjanlegt að aðeins sé möguleiki á að aðila verði stefnt. Tilgangur reglunnar sé að tryggja rétt þeirra sem falli undir upplýsingalög til að leita ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar sem þannig sé aflað komist til vitundar gagnaðila. Túlka beri ákvæðið þannig að það tryggi að hið opinbera og þeir aðilar sem falli undir upplýsingalög standi ekki, vegna upplýsingalaga, höllum fæti í dómsmálum. Reglan sem sé sambærileg við reglu stjórnsýslulaga sé sett til að stjórnvöld og aðrir sem falli undir upplýsingalög njóti jafnræðis á við aðra aðila, sem hugsanlega séu að undirbúa málaferli gegn þeim, með því að þurfa ekki að birta bréfaskipti sín við sérfróða aðila sem séu þeim til ráðgjafar við málshöfðun eða rekstur dómsmáls. Ljóst sé að samkvæmt ákvæðinu þurfi dómsmál ekki að hafa verið höfðað áður en að gagnanna hafi verið aflað og ekki sé tiltekinn ákveðinn hámarkstími sem þurfi að líða frá því að upplýsinganna hafi verið aflað þar til dómsmál sé höfðað.

Í umsögninni segir einnig að aðdragandi þess að minnisblöðin hafi verið útbúin sé sá að stjórn félagsins hafi staðið frammi fyrir ákvörðunum er tengdust rekstri félagsins og viðskiptavinum þess. Hafi verið viðbúið að sú ákvörðun, sem staðið hafi verið frammi fyrir, myndi enda hjá dómstólum, sem hún hafi gert. Vegna þessa hafi félagið óskað eftir sérfræðiáliti á því hvernig félagið gæti brugðist við og hvaða varnir það gæti haft uppi í deilum um heimild félagsins til að veita greiðslufrest og beita stöðvunarheimild. Ekki sé um meðferð almennra mála hjá félaginu að ræða heldur verði að telja að um afar einstakt mál hafi verið að ræða, þ.e. aðdraganda að falli WOW Air og kyrrsetninguna sem farið hafi fram í kjölfarið. Líkt og sjá megi af fundargerðum stjórnar hafi ýmsar vangaveltur verið í gangi á þessum tíma, óvíst hafi verið hvort og þá hvenær WOW Air færi í þrot eða hvernig haga bæri starfseminni fram að þeim tíma.

Í umsögninni kemur einnig fram að í minnisblaðinu um kyrrsetningarheimild loftferðalaga sé bæði að finna álit lögmanns um veikleika heimildarinnar auk rökstuðnings fyrir beitingu hennar. Þá sé ljóst að málaferli hafi hafist eftir að Isavia ohf. óskaði eftir minnisblöðunum og sé þar að finna hluta af málatilbúnaði félagsins. Mjög slæmt og óeðlilegt væri að vegna yfirstandandi dómsmáls þyrfti annar málsaðila að þola það að varnir hans yrðu gerðar opinberar.

Að lokum kemur fram að í minnisblöðunum sé að finna upplýsingar sem takmarkanir gildi um vegna mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna Isavia ohf. Ákvarðanir stjórnar Isavia ohf. hafi verið teknar með viðskiptalega hagsmuni félagsins að leiðarljósi og verði félagið fyrir tjóni ef gögnin yrðu birt almenningi. Fyrirtæki í almennum rekstri verði að geta tekið ákvarðanir án þess að allar forsendur séu birtar. Viðskiptalegar ákvarðanir hafi verið teknar á grundvelli minnisblaðanna en þar sé að finna forsendur sem byggt hafi verið á við ákvörðun innheimtu og gjaldtöku.

Með bréfi, dags. 31. maí 2019, var kæranda gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnar Isavia ohf. Athugasemdir kæranda bárust sama dag. Kærandi telur ekki rétt að skjölin hafi verið tekin saman gagngert í tengslum við dómsmál. Á fundi stjórnar nr. 135/2018 þann 23. ágúst 2018, komi fram í fundargerð að stjórnarmaður hafi spurst fyrir um hvernig félagið gæti tryggt greiðslur frá flugrekendum sem kæmust í vanskil við félagið. Upplýst var að ríkar heimildir væru til að tryggja greiðslu gjalda sem fallið hefðu til hjá flugrekandanum, t.d. með því að stöðva loftfar. Óskað hefði verið eftir skriflegri greinargerð um slíkar heimildir.

Kærandi mótmælir þeirri fullyrðingu Isavia ohf. að viðbúið hafi verið að málið myndi enda fyrir dómstólum enda hafi ekkert legið fyrir um það í ágúst 2018 hvort WOW Air færi í þrot eður ei. Hið sama gildi um fullyrðingu félagsins um að því hafi verið fyllilega ljóst að þær ákvarðanir sem yrðu teknar á þessum tímapunkti myndu leiða til málshöfðunar. Skilyrðið um að skjalanna hafi verið aflað „gagngert í þessu skyni“ sé því einfaldlega ekki uppfyllt sama hvað hafi gerst síðast meir. Þá segir að þótt skjölin hafi síðar meir komið að notum við rekstur dómsmálsins þá geti það ekki þýtt að skjalið sé undanþegið afhendingarskyldu. Væri fallist á slíkt myndu stjórnvöld og opinber hlutafélög einfaldlega skutla óþægilegum skjölum inn í hin ýmsu dómsmál til að komast hjá því að afhenda þau.

Með bréfi, dags. 18. desember 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir upplýsingum um fyrir hvaða dómsmál Isavia ohf. aflaði álitsgerðar um reglur um ríkisaðstoð. Með bréfi, dags. 30. desember 2019, svaraði Isavia ohf. því að álitsgerðarinnar hefði verið aflað vegna þeirra mála sem rekin voru í Héraðsdómi Reykjaness, Landsrétti og Hæstarétti gegn ALC á árinu 2019 og jafnframt í máli gegn ríkinu og ALC sem þingfest yrði 9. janúar 2020 í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að tveimur minnisblöðum sem geyma lögfræðilega álitsgerð sem unnin var fyrir Isavia ohf. Annars vegar er um að ræða minnisblað, dags. 26. september 2018, um það hvort greiðslufrestur á gjöldum flugrekanda geti talist ríkisstyrkur í skilningi 61. gr. EES-samningsins og hins vegar minnisblað um stöðvunarheimildir ákvæðis 1. mgr. 136. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 og hvort ákvæðinu verði beitt við greiðslustöðvun eða gjaldþrot flugrekanda.

Ákvörðun Isavia ohf. um að synja beiðni kæranda um aðgang að minnisblöðunum er aðallega reist á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í ákvæðinu er kveðið á um að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til bréfaskipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað, sbr. 4. gr. laga nr. 72/2019. Regluna var einnig að finna í eldri upplýsingalögum nr. 50/1996.

Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga nr. 140/2012 er tekið fram að að baki undanþágunni búi það sjónarmið að hið opinbera geti, á sama hátt og hver annar aðili að dómsmáli, leitað ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar sem þannig sé aflað komist til vitundar gagnaðila. Beri að túlka ákvæðið þannig að það tryggi að hið opinbera standi ekki vegna upplýsingalaga höllum fæti í dómsmálum. Undanþágunni verði aðeins beitt um gögn sem verði til eða aflað sé gagngert í þessu skyni og taki því t.d. ekki til álitsgerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað sé við meðferð stjórnsýslumála almennt.

Með lögum nr. 72/2019 var orðalagi ákvæðisins breytt. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til breytingalaganna segir m.a. að í ljósi þess að ýmiss konar réttarágreiningur hins opinbera sé útkljáður með öðrum hætti en málshöfðun fyrir dómi, til að mynda fyrir sjálfstæðum úrskurðarnefndum, þyki rétt að breyta orðalagi 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga þannig að opinberir aðilar geti átt samskipti við sérfræðinga í tengslum við slíka málsmeðferð án þess að gagnaðili fái aðgang að þeim. Ítrekað er að áfram sé gerð sú krafa að undanþágunni verði aðeins beitt um gögn sem verði til eða aflað sé gagngert í þessu skyni en ekki um álitsgerðir eða skýrslur sem aflað sé við meðferð stjórnsýslumála almennt.

Ákvæði 3. tölul. 6. gr. felur í sér undantekningarreglu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings og ber því að túlka ákvæðið þröngt.

Isavia ohf. gaf þær skýringar 30. desember 2019 að félagið hefði aflað álitsgerðanna vegna málareksturs vegna aðdraganda að falli og falls WOW Air, bæði vegna þeirra mála sem hafi verið rekin í Héraðsdómi Reykjaness, Landsrétti og Hæstarétti gegn ALC árið 2019 og jafnframt í máli gegn ríkinu og ALC sem þingfest yrði 9. janúar 2020 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þrátt fyrir að álitsgerðirnar geymi fremur almenna umfjöllun um réttarreglur, annars vegar reglur á sviði Evrópuréttar um ríkisstyrki og hins vegar um tiltekið ákvæði loftferðalaga, hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu Isavia ohf. að félagið hafi aflað álitsgerðanna til að kanna réttarstöðu sína í tengslum við réttarágreining eða til undirbúnings dómsmáls. Ekki skiptir máli í því samhengi að dómsmál hafi ekki verið höfðað á þeim tíma þegar minnisblöðin voru útbúin. Að mati nefndarinnar bera minnisblöðin í það minnsta nægilega með sér að þeirra hafi verið aflað í tengslum við aðgerðir Isavia ohf. gegn WOW Air. Er þá einnig litið til þeirra aðstæðna sem í stefndi á þeim tíma þegar minnisblaðanna var aflað. Þá telur nefndin rétt að benda á að samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga fellur heimild stjórnvalds, til að takmarka aðgang almennings að gögnum sem aflað er í tilefni af meðferð dómsmáls, ekki niður þegar dómsmálinu lýkur heldur þegar átta ár eru liðin frá því að umrædd gögn urðu til, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga. Með vísan til framangreinds verður ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun Isavia ohf. um að synja beiðni kæranda um aðgang að minnisblöðunum tveimur.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Isavia ohf. um að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að minnisblaði um reglur um ríkisstyrki og minnisblaði um 1. mgr. 136. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, bæði dagsett 26. september 2018.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta