881/2020. Úrskurður frá 24. mars 2020
Úrskurður
Hinn 24. mars 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 881/2020 í máli ÚNU 19100016.Krafa um endurupptöku og málavextir
Með erindi, dags. 28. október 2019, óskaði A eftir endurupptöku mála úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 19050024 og 19060008 sem lyktaði þann 27. september 2019 með úrskurðum nr. 829/2019 og 830/2019. Kærurnar beindust að Þekkingarsetri Vestmannaeyja ses. og komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að kærunum bæri að vísa frá á grundvelli þess að upplýsingalög nr. 140/2012 næðu ekki til Þekkingarsetursins þar sem það væri hvorki stjórnvald né lögaðili í 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, sbr. 2. gr. upplýsingalaga. Auk þess var 3. gr. upplýsingalaga ekki talin eiga við í málinu enda sneru kærur ekki að töku stjórnvaldsákvarðana eða veitingu þjónustu sem kveðið er á um í lögum að stjórnvald skuli sinna eða telst að öðru leyti liður í opinberu hlutverki stjórnvalds.Niðurstaða
Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:
1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“
Beiðni kæranda um endurupptöku byggist á því að Vestmannaeyjabær sé á meðal stofneigenda Þekkingarsetursins og fer kærandi fram á að „umbeðnar upplýsingar“ séu afhentar.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál var ljós sú staðreynd að Vestmannaeyjabær væri á meðal stofneigenda Þekkingarseturs Vestmanneyja ses. þegar úrskurðað var í umræddum málum. Þá liggur fyrir að Þekkingarsetrið fellur ekki undir gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012 eins og það er afmarkað í 2. gr. laganna. Að mati nefndarinnar byggjast úrskurðir nr. 829/2019 og 380/2019 því ekki á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.
Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurðum hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til framangreinds er hafnað beiðni um endurupptöku úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 829/2019 og 830/2019 frá 27. september 2019.
Úrskurðarorð:
Beiðni A, dags. 28. október 2019, um endurupptöku úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 829/2019 og 830/2019 frá 27. september 2019 er hafnað.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir