Hoppa yfir valmynd

891/2020. Úrskurður frá 22. apríl 2020

Úrskurður

Hinn 22. apríl 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 891/2020 í máli ÚNU 19110009.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 15. nóvember 2019, kærði Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmaður, f.h. A, ákvörðun Hveragerðisbæjar um að synja beiðni um aðgang að gögnum er varða dóttur kæranda.

Með beiðni, dags. 15. júlí 2019, óskaði kærandi eftir eftirfarandi gögnum hjá stjórnsýslu bæjarins frá 1. janúar 2016 til 1. janúar 2019:

Frá bæjarstjóra, bæjarstjórn og bæjarráði óskaði kærandi eftir afriti af öllum gögnum sem varða afgreiðslu mála dóttur kæranda, þar á meðal í trúnaðarmálabók bæjarfélagsins.

Frá skóla- og velferðarsviði Árnesþings óskaði kærandi eftir afriti af gögnum sem varða umsóknir, afgreiðslu umsókna og afrit af þjónustumati sem félagsþjónustan hefði stuðst við vegna þjónustu við dóttur kæranda.

Kærandi óskaði eftir atvikaskýrslum ásamt gögnum sem sýna afgreiðslu mála vegna allra atvika sem áttu sér stað á tímabilinu og voru tilkynnt skóla- og velferðarsviði Árnesþings og bæjarstjóra, meðal annars skýrslum vegna frávika á þjónustu á tímabilinu. Þá var sérstaklega óskað eftir atvikaskýrslum um eftirfarandi atvik:

1. Afritum af verkskýrslum, umsókn og afgreiðslu þjónustu vegna ráðningar á starfsmanni veturinn 2016-2017 sem fylgdarmanns og bílstjóra á einkabíl.
2. Afritum af gögnum vegna ferlis í upphafi skólaárs 2017 þegar ekki var tiltækur fylgdarmaður í ferðaþjónustubíl.
3. Gögnum um afgreiðslu máls vegna vantraustsyfirlýsingar á þáverandi félagsfulltrúa.
4. Afritum af atvikaskýrslu vegna atviks þegar dóttir kæranda var brottnumin af starfsmanni ferðaþjónustu fatlaðra í Hveragerði.
5. Afritum af afgreiðslu mála er varða samning við leigubíla á Selfossi, einstaklingsmiðaðar verklagsreglur og leiðbeiningar vegna samninganna haustið 2018.

Í beiðni kæranda var vísað til ákvæða upplýsingalaga nr. 140/2012 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beiðnin var ítrekuð með tölvupóstsendingum, dags. 18. september 2019, 3. október 2019 og 9. október 2019. Með svari, dags. 9. október 2019, upplýsti bæjarstjóri Hveragerðisbæjar að vonir stæðu til að hægt væri að senda umbeðin gögn „fyrir helgi“.

Með bréfi, dags. 16. október 2019, var beiðni kæranda afgreidd. Veittur var aðgangur að ýmsum gögnum sem Hveragerðisbær taldi falla undir beiðnina. Hins vegar var tekið fram að ekki yrði veittur aðgangur að upplýsingum sem varði ráðningarmálefni starfsfólks sveitarfélagsins, svo sem vinnuskýrslur. Þá var upplýst að samningur sem vísað var til í síðasta lið beiðni kæranda hefði ekki verið gerður og sveitarfélagið teldi sér ekki heimilt að afhenda gögn sem vörðuðu þriðja aðila.

Í kæru, dags. 15. nóvember 2019, kemur fram að kærandi krefjist þess aðallega að aðgangur að umbeðnum gögnum verði veittur í heild á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Til vara er þess krafist að rýmri aðgangur verði veittur en þegar hefur verið gert, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2019, var Hveragerðisbæ kynnt kæran og veittur frestur til að koma að umsögn og frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að.

Með bréfi, dags. 22 nóvember 2019, bárust frekari athugasemdir og rökstuðningur kæranda vegna kærunnar. Kærandi telur rökstuðning Hveragerðisbæjar ófullnægjandi og nauðsynlegum tilvísunum til lagaákvæða áfátt. Vegna fyrstu tveggja þátta beiðninnar tekur kærandi fram að sérstaka athygli veki hversu fá gögn hafi verið afhent. Vegna þriðja þáttarins virðist augljóst að ekki hafi verið farið yfir beiðnina þar sem henni hafi einfaldlega ekki verið svarað. Um önnur umbeðin gögn segir kærandi að unnt sé að afhenda þau að hluta, til dæmis með því að afmá viðkvæmar upplýsingar um launakjör og aðrar persónuupplýsingar. Þá sé unnt að afhenda gögn sem varði ekki að öllu leyti starfsmannamálefni. Auk þess geti þriðji aðili ekki haft mikla hagsmuni af takmörkun á aðgangi að gögnum miðað við kæranda. Kærandi bendir sérstaklega á að engin gögn hafi verið afhent frá skóla- og velferðarsviði Árnesþings. Rökstuðning skorti um þetta og veki spurningar um það hvort viðkomandi gögn séu einfaldlega ekki til. Loks bendir kærandi á að óskað hafi verið eftir afriti af matsskjali sem notað sé hjá félagsþjónustu vegna kæranda. Ekkert slíkt matskjal virðist vera notað eða vera til hjá bæjarfélaginu.

Umsögn Hveragerðisbæjar barst með bréfi, dags. 6. janúar 2020. Þar kemur fram að vegna fyrstu tveggja liða gagnabeiðni kæranda hafi verið veittur aðgangur að öllum gögnum sem til séu hjá sveitarfélaginu. Hveragerðisbær telur afgreiðslu sína á öðrum liðnum fullnægjandi enda hafi foreldrar fengið þjónustumat frá Greiningarstöð ríkisins. Varðandi þriðja liðinn sé ekki til heildstæð skýrsla um öll atvik eða mál hjá sveitarfélaginu. Réttur almennings til aðgangs taki aðeins til gagna sem séu til hjá stjórnvaldi en ekki til þess að gögn séu búin til.

Hvað fyrsta tölulið beiðninnar varðar tekur Hveragerðisbær sérstaklega fram að umbeðin gögn varði ráðningu tiltekins starfsmanns sem fylgdarmanns og bílstjóra dóttur kæranda. Umbeðin gögn falli undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga og ekki verði séð að verk- og vinnuskýrslur sem óskað er aðgangs að falli undir þessar undanþágur. Hveragerðisbæ sé því óheimilt að veita aðgang að gögnunum. Um annan og fjórða töluliðinn tekur sveitarfélagið fram að veittur hafi verið aðgangur að öllum gögnum sem til séu. Hveragerðisbær telur að gögn samkvæmt þriðja tölulið beiðninnar falli undir ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga og að undanþágur sem fram koma í 2.-5. mgr. eigi ekki við. Loks kemur fram að Hveragerðisbær hafi endurskoðað ákvörðun sína um synjun beiðni kæranda samkvæmt fimmta tölulið beiðninnar og telji rétt að veita kæranda aðgang að þeim.

Með erindi, dags. 7. janúar 2020, var umsögnin kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust með erindi, dags. 16. janúar 2020. Þar kemur fram að kærandi óski eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál taki til skoðunar hvort rétt sé að Hveragerðisbær hafi afhent öll þau gögn sem beðið var um. Sérstaka athygli veki að engin gögn hafi verið afhent vegna tímabilsins 1. janúar 2016 til 1. október 2017 og aðeins þrjú skjöl sem ekki stafi frá trúnaðarmálabók sveitarfélagsins. Varðandi annan lið beiðninnar áréttar kærandi að ekki skipti máli hvort þjónustumat hafi borist frá öðrum aðilum þar sem beiðnin hafi verið lögð fram til að ganga úr skugga um að notast sé við rétt þjónustumat. Þá hafi engin afrit umsókna, afgreiðslu umsókna og atvikaskýrslna verið afhent. Um töluliði 1 og 3 vísar kærandi til fyrri sjónarmiða en um töluliði 2 og 4 beina kærendur því til úrskurðarnefndarinnra að kanna hvort rétt sé að engin gögn séu til hjá sveitarfélaginu. Loks beina kærendur því til úrskurðarnefndarinnar að kanna hvers vegna umbeðið afrit af einstaklingsbundnum verklagsreglum, leiðbeiningarskjal sem fylgir verklagsreglum og viðbragðsáætlun hafi ekki verið afhent. Kærandi telur að umbeðin gögn hafi verið send Hveragerðisbæ frá Öryrkjabandalagi Íslands í nóvember 2018.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi erindi til Hveragerðisbæjar, dags. 23. mars 2020, þar sem vakin var athygli á því að samkvæmt gögnum málsins hefði kæranda verið synjað um aðgang að afritum af verk- og vinnuskýrslum vegna ráðningar fylgdarmanns og bílstjóra dóttur kæranda og gögnum um afgreiðslu erindis vegna vantraustsyfirlýsingar á þáverandi félagsfulltrúa bæjarins. Þessi gögn hafi hins vegar ekki verið afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál og var ósk um afrit á grundvelli 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga ítrekuð.

Í svari Hveragerðisbæjar, dags. 6. apríl 2020, kom fram að kærandi hefði fengið allflest gögn um kvörtun vegna félagsfulltrúa bæjarins í hendur áður. Með svarinu fylgdu gögn um málið en af hálfu bæjarins var tekið fram að önnur gögn væru ekki til. Þá fylgdi ráðningarsamningur starfsmanns en tekið fram að önnur gögn vegna ráðningarsambands hans við sveitarfélagið væru ekki til vegna þess tímabils er um ræðir.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum sveitarfélags sem varða ólögráða dóttur kæranda. Af gögnum málsins er ljóst að kæranda hefur verið veittur aðgangur að umbeðnum gögnum að hluta en ágreiningur er um rétt til aðgangs að eftirfarandi gögnum:

1. Afritum af gögnum sem varða umsóknir, afgreiðslu umsókna og afrit af þjónustumati sem félagsþjónusta Hveragerðisbæjar hefur stuðst við vegna þjónustu við dóttur kæranda.
2. Afritum af verkskýrslum, umsókn og afgreiðslu þjónustu vegna ráðningar á starfsmanni veturinn 2016-2017 sem fylgdarmanns og bílstjóra á einkabíl.
3. Gögnum um afgreiðslu máls vegna vantraustsyfirlýsingar á þáverandi félagsfulltrúa.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að af upphaflegri gagnabeiðni kæranda, dags. 15. júlí 2019, verður ráðið að réttur til aðgangs að þeim gögnum sem hún tekur til geti byggst á ólíkum lagagrundvelli. Þannig kann réttur kæranda til aðgangs að byggjast á upplýsingalögum, stjórnsýslulögum og ákvæðum annarra laga eftir því um hvaða gögn ræðir.

2.

Af hálfu Hveragerðisbæjar hefur komið fram að sveitarfélagið telji afgreiðslu sína á beiðni kæranda um gögn sem tengjast þjónustumati varðandi dóttur kæranda fullnægjandi þar sem kærandi hafi fengið gögn afhent frá Greiningarstöð ríkisins.

Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að upplýsingaréttur almennings samkvæmt upplýsingalögum er ekki takmarkaður við að leita upplýsinga hjá einu stjórnvaldi í einu og getur beiðandi haft réttmætar ástæður fyrir því að bera saman upplýsingar í vörslum tveggja eða fleiri opinberra aðila.

Hins vegar er til þess að líta að ákvarðanir um veitingu þjónustu á grundvelli laga nr. 40/1991, þar á meðal þjónustu á grundvelli 29. gr. laganna um akstursþjónustu, teljast til stjórnvaldsákvarðana, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þeirri ástæðu fer um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem tilheyra stjórnsýslumáli ólögráða dóttur hans, þ.m.t. þjónustumati sem deilt er um í þessu máli, eftir ákvæðum stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varði.

Í 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Samkvæmt framangreindu fellur kæran því utan gildissviðs upplýsingalaga að þessu leyti og verður því að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

3.

Varðandi beiðni kæranda um aðgang að afritum af verkskýrslum, umsókn og afgreiðslu þjónustu vegna ráðningar á starfsmanni veturinn 2016-2017 sem fylgdarmanns og bílstjóra á einkabíl hefur komið fram af hálfu bæjarins að ekki liggi fyrir önnur gögn en ráðningarsamningur, dags. 26. maí 2016. Í umsögn sveitarfélagsins er vísað til þess að umbeðin gögn undir þessum lið falli undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga en samkvæmt ákvæðinu tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna hjá aðilum sem lögin taka til ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.

Í 2. mgr. 7. gr. er að finna undantekningar frá þessari reglu. Þar segir að þegar aðrar takmarkanir á upplýsingarétti samkvæmt lögunum eigi ekki við, sé þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skylt að veita upplýsingar um eftirtalin atriði sem varða opinbera starfsmenn:

1. nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf, þegar umsóknarfrestur er liðinn,
2. nöfn starfsmanna og starfssvið,
3. föst launakjör annarra starfsmanna en æðstu stjórnenda,
4. launakjör æðstu stjórnenda,
5. áherslur og kröfur um árangur í starfi æðstu stjórnenda sem fram koma í ráðningarsamningi eða öðrum gögnum og upplýsingar um menntun þeirra.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að með föstum launakjörum sé m.a. átt við ráðningarsamninga og aðrar ákvarðanir eða samninga sem kunni að liggja fyrir um föst laun starfsmanna. Undanþágur frá hinni almennu reglu, um að almenningur eigi ekki rétt til aðgangs að gögnum í málum er varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti, sbr. 1. mgr. 7. gr., byggjast á þeirri forsendu að þrátt fyrir að upplýsingar um starfssamband geti talist til einkamálefna starfsmanns, fela ýmsir samningar stjórnsýslunnar við starfsmenn sína í sér ráðstöfun opinberra hagsmuna. Það er því mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að synjun á aðgangi kæranda að umbeðnum ráðningarsamningi verði ekki reist á 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur byggt á því í fyrri úrskurðum sínum að þrátt fyrir framangreint geti ráðningarsamningar innihaldið upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, sbr. t.d. úrskurði nr. 661/2016 og 666/2016. Í athugasemdum við 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 í frumvarpi til laganna segir að engum vafa sé undirorpið að þar undir falli viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd nr. 77/2000. Hugtakið viðkvæmar persónuupplýsingar er skilgreint í 8. tölul. 2. gr. þeirra laga og þar eru meðal annars taldar upp upplýsingar um stéttarfélagsaðild.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar að veita beri kæranda aðgang að ráðningarsamningi, dags. 26. maí 2016, á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Áður ber að afmá upplýsingar um einkamálefni starfsmannsins eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Að fenginni þessari niðurstöðu er óþarft að taka afstöðu til þess hvort kærandi á rétt á aðgangi að samningnum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

4.

Hvað varðar beiðni kæranda um aðgang að gögnum um afgreiðslu máls vegna vantraustsyfirlýsingar á þáverandi félagsfulltrúa (félagsráðgjafa) Hveragerðisbæjar hefur sveitarfélagið vísað til þess að umbeðin gögn falli undir ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga og að undanþágur sem fram koma í 2.-5. mgr. eigi ekki við.

Undir rekstri málsins afhenti Hveragerðisbær úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af gögnum sem sveitarfélagið hefur undir höndum og tengjast málinu en fram kom að kærandi hefði áður fengið „allflest“ þeirra í hendur áður. Skoðun úrskurðarnefndarinnar rennir stoðum undir þessa niðurstöðu, enda er í flestum tilvikum um að ræða erindi kæranda og annarra aðila, þ. á m. Öryrkjabandalags Íslands og réttindagæslumanns fyrir fatlað fólk, sbr. reglugerð
nr. 973/2012, til Hveragerðisbæjar, ýmist bréflega eða með tölvupósti ásamt svörum sveitarfélagsins. Gögnin bera með sér að kærandi hafi annað hvort sent eða fengið afrit af þeim öllum, að frátöldum samskiptum þar sem tölvupóstsamskipti eru framsend öðrum starfsmönnum sveitarfélagsins. Með hliðsjón af framangreindu standa engin rök til að takmarka aðgang kæranda til aðgangs að gögnunum á grundvelli 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga eða annarra lagaákvæða og verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Hveragerðisbæ að veita kæranda aðgang að þeim.

5.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann dragi í efa að ekki séu frekari gögn í vörslum Hveragerðisbæjar sem falli undir gagnabeiðni hans. Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar Hveragerðisbæjar um að öll fyrirliggjandi gögn er varða beiðni kæranda og eru fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu hafi verið yfirfarin við meðferð beiðninnar. Hafi Hveragerðisbær ekki haldið skráningu um öll gögn í tengslum við þjónustu við kæranda og dóttur kæranda í samræmi við skráningarskyldu 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga og laga um opinber skjalasöfn er það ámælisvert. Það fellur hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndar um upplýsingamál að hafa eftirlit með því. Eru því ekki forsendur til að verða við beiðni kæranda um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál kanni hvort Hveragerðisbær hafi frekari gögn í vörslum sínum um þau málefni sem beiðni hans lýtur að.

Það athugast að samkvæmt gögnum málsins var upphafleg gagnabeiðni kæranda send til Hveragerðisbæjar þann 15. júlí 2019. Hún var hins vegar ekki afgreidd fyrr en með erindi sveitarfélagsins, dags. 16. október 2019, að undangengnum ítrekunum kæranda og án þess að fyrirmælum 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga væri fylgt. Samkvæmt ákvæðinu skal taka ákvörðun um það hvort orðið verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða mál. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál gerir athugasemd við málsmeðferð Hveragerðisbæjar að þessu leyti.

Úrskurðarorð

Hveragerðisbæ ber að veita kæranda, A, aðgang að gögnum um afgreiðslu máls vegna vantraustsyfirlýsingar á félagsráðgjafa sveitarfélagsins og ráðningarsamning sveitarfélagsins við B, dags. 26. maí 2016. Áður skal afmá úr samningnum upplýsingar um aðild að stéttarfélagi.

Kæru er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta