894/2020. Úrskurður frá 30. apríl 2020
Úrskurður
Hinn 30. apríl 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 894/2020 í máli ÚNU 19110006.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 13. nóvember 2019, kærði A, blaðamaður, töf Ríkisútvarpsins ohf. á afgreiðslu beiðni hans um aðgang að gögnum.
Hinn 7. ágúst 2019 óskaði kærandi eftir afriti af fundargerðum stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. Beiðnin var sett fram í tvennu lagi, annars vegar vegna tímabilsins frá 1. janúar 2018 og til þess dags sem beiðnin var sett fram, og hins vegar vegna tímabilsins 1. janúar 2013 til 31. desember 2017, en kærandi óskaði þess að fyrri hluti beiðninnar yrði afgreiddur fyrst. Kærandi ítrekaði beiðnina með tölvupóstum 26. september, 1. október og 11. nóvember 2019 og kærði loks töf Ríkisútvarpsins á afgreiðslu beiðninnar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Ríkisútvarpinu ohf. með bréfi, dags. 14. nóvember 2019, þar sem úrskurðarnefndin beindi því til félagsins að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðninnar í síðasta lagi 22. nóvember 2019. Veittir voru frekari frestir að beiðni félagsins til 26. nóvember 2019.
Hinn 13. desember 2019 óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir upplýsingum um hvort Ríkisútvarpið ohf. hefði afgreitt beiðni kæranda. Hinn 16. desember 2019 barst það svar frá félaginu að stefnt væri að því að afgreiða beiðnina fyrir 21. desember en óvíst væri hvort unnt væri að afgreiða þann hluta beiðninnar sem lyti að fundargerðum eldri en 1. janúar 2018 fyrir þann tíma.
Hinn 27. desember 2019 barst bréf frá Ríkisútvarpinu ohf. þar sem fram kom að bera þyrfti undir stjórn félagsins hvort rétt væri að afmá upplýsingar úr gögnunum er lytu að einkamálefnum starfsfólks og viðskiptahagsmunum félagsins. Væri því ekki unnt að afgreiða beiðnina fyrr en í fyrsta lagi í byrjun janúar 2020.
Hinn 24. janúar 2020 óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál enn á ný eftir upplýsingum um hvort beiðni kæranda hefði verið afgreidd. Ríkisútvarpið ohf. svaraði því 29. janúar 2020 að gagnabeiðnin væri á dagskrá stjórnarfundar sem haldinn yrði 5. febrúar. Úrskurðarnefndin ítrekaði fyrirspurnina 6. febrúar 2020 en ekki bárust svör frá Ríkisútvarpinu ohf.
Með erindi, dags. 12. febrúar 2020, óskaði kærandi þess að úrskurðarnefndin tæki fyrri hluta beiðni hans, sem sneri að fundargerðum stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. frá 1. janúar 2018 til 7. ágúst 2019, til meðferðar í samræmi við 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærandi óskaði þess að síðari hluti beiðninnar, sem sneri að fundargerðum frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2017, yrði áfram til meðferðar hjá Ríkisútvarpinu ohf.
Með erindi, dags. 14. febrúar 2020, fór úrskurðarnefndin fram á að Ríkisútvarpið ohf. léti nefndinni í té afrit af fundargerðum stjórnar frá 1. janúar 2018 til 7. ágúst 2019. Í kjölfarið yrði kveðinn upp úrskurður um rétt kæranda til aðgangs að gögnunum. Enn fremur var Ríkisútvarpinu ohf. gefinn kostur á að koma að rökstuðningi fyrir því að upplýsingar í gögnunum ættu að fara leynt, væri það afstaða stofnunarinnar. Úrskurðarnefndin áréttaði mikilvægi þess að Ríkisútvarpið ohf. léti sig málið varða og greindi frá sjónarmiðum sínum í þeim efnum enda væri um að ræða gögn sem stöfuðu frá félaginu. Var félaginu veittur frestur til 24. febrúar. Hvað varðar hinn hluta beiðni kæranda, fundargerðir stjórnar frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2017, ítrekaði úrskurðarnefndin að Ríkisútvarpið ohf. tæki ákvörðun um afgreiðslu eins fljótt og við yrði komið.
Hinn 25. febrúar 2020 afhenti Ríkisútvarpið ohf. úrskurðarnefndinni afrit af fundargerðum stjórnar félagsins frá 1. janúar 2018 til 7. ágúst 2019 ásamt rökstuðningi fyrir því að tilteknar upplýsingar í fundargerðunum ættu að fara leynt. Í rökstuðningnum kemur fram að félagið telji fundargerðirnar eða eftir atvikum hluta þeirra vera vinnugögn í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga og því undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 5. tölul. 6. gr. laganna. Þá innihaldi þær upplýsingar sem varði mikilvæga einka- og fjárhagshagsmuni einstaklinga eða fyrirtækja, sbr. 9. gr., upplýsingalaga og upplýsingar sem lúti að rekstrar- og samkeppnisstöðu félagsins og sem séu undanskildar á grundvelli 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Auk þess geymi þær upplýsingar um málefni starfsmanna, sbr. 7. gr. Af þeim sökum telji félagið sér einungis heimilt að veita kæranda aðgang að hluta umbeðinna gagna, sbr. 3. mgr. 5. gr.
Í rökstuðningnum er því næst fjallað um starfssvið stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. samkvæmt lögum nr. 23/2013 og starfsreglum stjórnar. Starfssvið stjórnarinnar lúti að margvíslegum þáttum og mörg málefni sem komi á hennar borð sem stjórnin þurfi að fjalla og taka ákvarðanir um. Þá er vísað til þess að aðilum er falli undir upplýsingalög hafi verið talið heimilt að synja um aðgang að gögnum sem til verði við undirbúning töku matskenndra ákvarðana og mótun tillagna um áætlanir eða aðgerðir sem og við undirbúning ákvarðana á borð við samninga við einkaaðila, enda kunni afstaða til fyrirliggjandi mála að breytast við ákvörðunarferlið.
Ríkisútvarpið ohf. telur umfjöllun sem komi fram undir eftirfarandi liðum í fundargerðunum vera vinnugögn:
1. Upplýsingar undir lið 2c á 176. fundi.
2. Upplýsingar undir lið 2b á 178 fundi.
3. Upplýsingar undir lið 3 á 181. fundi.
4. Upplýsingar undir lið 4 á 183. fundi.
5. Upplýsingar undir lið 4 á 184. fundi.
6. Upplýsingar undir liðum 2b, 3 og 6 á 185. fundi.
7. Upplýsingar undir lið 3 á 186. fundi.
8. Upplýsingar undir lið 5 á 187. fundi.
9. Upplýsingar undir lið 2c á 192. fundi.
Um sé að ræða umfjöllun um ýmis málefni sem lýsi undirbúningi tiltekinna ákvarðana eða lykta máls hjá stjórn Ríkisútvarpsins ohf. en ekki sé um að ræða upplýsingar um endanlega ákvörðun um afgreiðslu mála.
Fallist úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki á að heimilt sé að undanþiggja upplýsingarnar úr fundargerðunum á þeim grundvelli að um sé að ræða vinnugögn telur félagið heimilt að afmá þær með vísan til annarra undanþáguákvæða upplýsingalaga, þ.e. á grundvelli 4. tölul. 6. gr., sbr. 7. gr., eða á grundvelli 9. gr. eða 10. gr. laganna.
Vísað er til þess að upplýsingar sem fram komi undir lið 2 á 177. fundi og lið 2 á 181. fundi falli undir 4. tölul. 6. gr., sbr. 7. gr. upplýsingalaga, þar sem þau feli í sér persónulegar upplýsingar um hagi starfsmanna eða frammistöðu þeirra í starfi. Þá séu í fundargerðunum upplýsingar sem felldar verði undir 9. eða 10. gr. upplýsingalaga. Sé um að ræða upplýsingar sem varði einkahagsmuni einstaklinga og lögaðila auk viðkvæmra upplýsinga sem kunni að skaða hagsmuni félagsins verði þær gerðar opinberar. Þá sé í einhverjum tilvikum fyrir að fara upplýsingum vegna mála eða samningaviðræðna sem enn sé ólokið, sbr. t.d. undir liðum 2b og 6 í fundargerð 185. fundar. Auk þess komi fram upplýsingar um skoðanaskipti milli stjórnarmanna sem telja megi sanngjarnt og eðlilegt að leynt fari, sbr. 9. gr. upplýsingalaga en dæmi séu um að úrskurðarnefndin hafi fallist á að slíkar upplýsingar séu afmáðar, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 846/2019.
Ríkisútvarpið ohf. telur umfjöllun sem komi fram undir eftirfarandi liðum í fundargerðunum falla undir 9. og 10. gr. upplýsingalaga:
1. Lið 2c á 176. fundi.
2. Lið 2 á 177. fundi.
3. Lið 2b á 178. fundi.
4. Lið 3 á 181. fundi
5. Lið 4 á 183. fundi.
6. Lið 4 á 184. fundi.
7. Liði 2b, 3 og 6 á 185. fundi.
8. Lið 3 á 186. fundi.
9. Lið 5 á 187. fundi.
10. Lið 2c á 192. fundi.
Í umsögninni segir að afstaða Ríkisútvarpsins ohf. sé sú að veita kæranda aðgang að fundargerðum stjórnar félagsins frá tímabilinu 1. janúar 2018 til 7. ágúst 2019 með þeim takmörkunum sem tilgreindar hafi verið í umsögninni og í þeim gögnum sem nefndinni hafi verið látin í té í tengslum við málið. Þá er beðist velvirðingar á þeim töfum sem hafi orðið við vinnslu málsins.
Umsögn Ríkisútvarpsins ohf. var kynnt kæranda með bréfi, dags. 8. mars 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 11. mars 2020, er farið fram á að í þeim tilfellum sem fallist verði á að umfjöllun stjórnar um ákveðið mál eigi að fara leynt verði heiti dagskrárliða látið standa.
Niðurstaða
1.
Í málinu er deilt um rétt kæranda, sem er blaðamaður, til aðgangs að fundargerðum stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. á tímabilinu 1. janúar 2018 til 7. ágúst 2019. Beiðni kæranda, dags. 7. ágúst 2019, hafði ekki verið afgreidd þann 12. febrúar 2020 en þá óskaði kærandi eftir því að úrskurðarnefndin kvæði upp úrskurð um rétt hans til aðgangs að fundargerðunum á grundvelli 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
Ríkisútvarpið ohf. afhenti úrskurðarnefndinni umsögn vegna kærunnar þar sem rökstutt er hvaða upplýsingar félagið telur rétt að afmá úr fundargerðunum áður en þær verða afhentar kæranda. Í umsögn félagsins kemur fram sú afstaða að rétt sé að veita kæranda aðgang að fundargerðunum að öðru leyti. Þar af leiðandi verður aðeins leyst úr því hvort félaginu sé heimilt eða skylt að afmá upplýsingar úr fundargerðunum með vísan til ákvæða 6.-10. gr. upplýsingalaga.
2.
Í fyrsta lagi telur Ríkisútvarpið ohf. rétt að afmá upplýsingar úr fundargerðunum þar sem um sé að ræða vinnugögn. Vinnugögn eru undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Hugtakið vinnugagn er skilgreint svo í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga að um sé að ræða gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls.
Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga segir um 1. mgr. ákvæðisins að stjórnvöldum sé falið að taka ýmsar matskenndar ákvarðanir og móta tillögur um áætlanir eða aðrar aðgerðir. Eins geti verið að stjórnvöld þurfi að undirbúa ýmsar aðrar ákvarðanir, svo sem um samninga við einkaaðila. Oft geymi lög ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þurfi að fullnægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar, eða þau sjónarmið eða markmið sem að skuli stefnt. Þegar stjórnvöld standi frammi fyrir slíkum verkefnum verði þau iðulega að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli úr máli skuli leyst. Af því leiði að það taki einatt einhvern tíma að móta afstöðu til fyrirliggjandi mála og á því tímabili kunni ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram komi nýjar upplýsingar.
Í athugasemdunum er einnig tekið fram að gögn sem til verði í slíku ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Því sé eðlilegt að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að þeim þótt stjórnvöldum sé einnig á grundvelli reglunnar um aukinn aðgang að gögnum heimilt að afhenda slík gögn, standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Enn fremur er tekið fram að þessi afmörkun á upplýsingaréttinum sé í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.
Í athugasemdum við 8. gr. kemur enn fremur fram að til þess að skjal teljist vinnugagn þurfi þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf að vera undirbúningsgagn í reynd, það skal útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það má ekki hafa verið afhent öðrum. Tekið er fram að í öðru skilyrðinu felist það m.a. að gögn sem útbúin eru af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljist ekki til vinnugagna. Í þriðja skilyrðinu, þ.e. að gagn hafi ekki verið afhent öðrum, felst það m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, telst það almennt ekki lengur til vinnugagna.
Af ákvæði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga leiðir að meta þarf heildstætt á grundvelli framangreindra sjónarmiða hvort umbeðin gögn uppfylli það skilyrði að teljast í reynd vinnugögn. Teljist gagn vera vinnugagn að hluta eða öllu leyti þarf síðan að taka afstöðu til þess hvort veita beri aðgang að þeim á grundvelli 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í fyrri úrskurðum lagt til grundvallar að fundargerðir geti uppfyllt það skilyrði að teljast vinnugögn, sbr. úrskurði nefndarinnar nr. 716/2018 og 538/2014. Af 8. gr. upplýsingalaga leiðir að við mat á því hvort gagn teljist vinnugagn í skilningi 5. tölul. 6. gr. laganna skal einkum litið til þess í hvaða skyni gagnið var útbúið og hvers efnis það er.
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni fundargerða stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. árin 2017 og 2018 en þær eru 19 talsins. Í fundargerðunum eru skráðar umræður stjórnar um ýmis málefni félagsins. Að mati úrskurðarnefndarinnar samræmist efni fundargerðanna að mestu vinnugagnahugtaki 8. gr. upplýsingalaga, sem félaginu er heimilt að undanþiggja upplýsingarétti með vísan til 5. tölul. 6. gr. laganna. Í samræmi við þetta liggur það fyrir nefndinni að leggja mat á hvort Ríkisútvarpinu ohf. sé skylt að veita kæranda aðgang að þeim upplýsingum sem félagið vill afmá úr fundargerðunum með vísan til þess að um vinnugögn sé að ræða, á grundvelli 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.
Í 3. mgr. 8. gr. segir að þrátt fyrir 5. tölul. 6. gr. beri að afhenda vinnugögn ef:
1. þar kemur fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls,
2. þar koma fram upplýsingar sem er skylt að skrá samkvæmt 1. mgr. 27. gr.,
3. þar koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram,
4. þar kemur fram lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði.
Í athugasemdum um 3. mgr. 8. gr. segir eftirfarandi:
„Þrátt fyrir að stjórnvald, eða lögaðili sem fellur undir gildissvið laga þessara, kunni að hafa útbúið tiltekið gagn í eigin þágu og til nota við meðferð máls getur efni þess engu að síður verið slíkt að rök standi til að veita almennan aðgang að því. Í ljósi þessa er í 3. mgr. 8. gr. lagt til að aðgang beri að veita að gögnum sem annars teldust innri vinnuskjöl stjórnvalds í fjórum tilvikum. Í fyrsta lagi þegar gögn hafa að geyma upplýsingar um endanlega afgreiðslu máls. Þetta getur til að mynda átt við þegar stjórnsýslunefnd afgreiðir mál með vísun til minnisblaðs sem lagt hefur verið fyrir fund. Í öðru lagi er tekið fram í 2. tl. 3. mgr. 8. gr. að undantekningin taki ekki til upplýsinga sem stjórnvaldi var skylt að skrá skv. 27. gr. laganna. Í 3. tl. málsgreinarinnar kemur fram að veita skuli aðgang að vinnuskjali ef í því koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma fram annars staðar. Með þessu orðalagi er einkum vísað til upplýsinga um mikilvægar staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum er ekki að finna annars staðar en kunna að hafa haft áhrif á ákvörðunartöku. Rökin að baki þessari reglu eru einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun og af þeim orsökum sé ekki rétt að undanþiggja þær aðgangi almennings enda þótt þær sé aðeins að finna í vinnuskjölum. Samsvarandi undanþágu frá upplýsingarétti aðila máls og fram kemur í 3. tl. 3. mgr. er að finna í stjórnsýslulögum. Að síðustu er svo lagt til í 4. tl. 3. mgr. 8. gr. að veita beri aðgang að vinnuskjölum ef þar kemur fram lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði. Ef stjórnvald hefur tekið saman slíkar upplýsingar verður að telja mikilvægt að almenningur geti átt rétt á að kynna sér þær, enda skipta slíkar upplýsingar oft miklu um verklag stjórnvalds og grundvöll að töku einstakra ákvarðana.“
Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið þær upplýsingar sem Ríkisútvarpið ohf. telur rétt að afmá úr fundargerðunum á grundvelli 5. tölul, 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga, með vísan til þess að upplýsingarnar sem þar komi fram teljist til vinnugagna. Um er að ræða upplýsingar sem koma fram undir lið 2c á 176. fundi, lið 2b á 178. fundi, lið 3 á 181. fundi, lið 4 á 183. fundi, lið 4 á 184. fundi, liðum 2b, 3 og 6 á 185. fundi, lið 3 á 186. fundi, lið 5 á 187. fundi og lið 2c á 192. fundi. Það er mat nefndarinnar að upplýsingarnar sem þar koma fram verði ekki felldar undir ákvæði 3. mgr. 8. gr. laganna. Telur úrskurðarnefndin í því sambandi rétt að benda á að þótt stjórn Ríkisútvarpsins ohf. kunni eftir atvikum að vera skylt að skrá þær upplýsingar sem þetta mál lýtur að á grundvelli 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga þá tekur orðalag 2. tölul. 3. mgr. 8. gr. laganna, einungis til upplýsinga sem skylt er skrá vegna töku stjórnvaldsákvarðana samkvæmt 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga. Er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Ríkisútvarpinu ohf. sé heimilt að undanþiggja upplýsingarnar sem hér um ræðir upplýsingarétti almennings á grundvelli undanþáguákvæðis 5 .tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga.
3.
Í öðru lagi telur Ríkisútvarpið ohf. óheimilt að veita kæranda aðgang að upplýsingum sem fram koma undir lið 2 á 177. fundi og lið 2 á 181. fundi, á þeim grundvelli að um sé að ræða upplýsingar sem felldar verði undir undanþáguákvæði 4. tölul. 6. gr., sbr. 7. gr og 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki vafa leika á því að upplýsingarnar sem fram koma undir þessum liðum varði viðkvæma einkahagsmuni einstaklinga. Er því félaginu óheimilt að veita kæranda aðgang að upplýsingunum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga.
4.
Í þriðja lagi telur Ríkisútvarpið ohf. að afmá eigi upplýsingar undir lið 2c á 176. fundi, lið 2 á 177. fundi, lið 2b á 178. fundi, lið 3 á 181. fundi, lið 4 á 183. fundi, lið 4 á 184. fundi, liðum 2b, 3 og 6 á 185. fundi, lið 3 á 186. fundi, lið 5 á 187. fundi, lið 2c á 192. fundi. Vísað er til 9. og 10. gr. upplýsingalaga því til stuðnings. Þar sem úrskurðarnefndin hefur fallist á að félaginu sé heimilt að undanþiggja upplýsingar sem fram koma undir framangreindum liðum fundargerðanna með vísan til 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga verður ekki tekin afstaða til þess hvort félaginu sé einnig heimilt að undanþiggja þær upplýsingarétti á grundvelli 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Í ljósi atvika málsins mun úrskurðarnefndin hins vegar fjalla um hvort Ríkisútvarpinu ohf. sé óheimilt að veita aðgang að upplýsingum sem fram koma í framangreindum liðum fundargerðanna á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Hefur nefndin þá í huga að af 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga leiðir að Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að veita aðgang að gögnum sem falla undir 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga, svo og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, að því marki sem aðrar lagareglur standa því ekki í vegi.
Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.
Úrskurðarnefndin telur upplýsingar um skoðanaskipti stjórnarmanna um málefni Ríkisútvarpsins ohf. ekki verða felldar undir 9. gr. upplýsingalaga enda lúta þær hvorki að persónulegum einkahagsmunum stjórnarmannanna né að mikilvægum viðskiptahagsmunum þriðju aðila. Er því ekki fallist á að Ríkisútvarpinu ohf. sé heimilt að afmá upplýsingar úr fundargerðunum á þeim grundvelli nema hvað varðar lið 2 á 177. fundi og lið 2 á 181. fundi eins og nefndin hefur þegar komist að niðurstöðu um að sé ekki aðeins heimilt félaginu heldur skylt.
5.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur tilefni til þess að gera athugasemdir við afgreiðslu Ríkisútvarpsins ohf. á beiðni kæranda. Frá því kærandi lagði fram upprunalega beiðni sína um fundargerðir stjórnar félagsins og þangað til þær voru afhentar úrskurðarnefndinni liðu 203 dagar eða tæplega sjö mánuðir.
Í 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að tekin skuli ákvörðun um það hvort orðið verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
Með lögum nr. 72/2019, er breyttu upplýsingalögum nr. 140/2012, var nýrri málsgrein bætt við 17. gr. laganna. Í henni kemur fram að hafi beiðni um aðgang að gögnum ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar sé beiðanda heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurði um rétt hans til aðgangs. Í almennum athugasemdum við frumvarp til laga nr. 72/2019 segir eftirfarandi um málsmeðferðartíma gagnabeiðna á grundvelli upplýsingalaga:
„Málshraði við afgreiðslu beiðna um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum getur haft verulega þýðingu. Í mörgum tilvikum er beiðanda þörf á skjótri úrlausn málsins, til að mynda þegar fjölmiðlar óska aðgangs að upplýsingum um opinber málefni til að miðla þeim til almennings. Óhóflegar tafir á töku ákvörðunar, endurskoðun hennar eða afhendingu umbeðinna gagna fela í sér óréttlætanlegar takmarkanir á upplýsingarétti almennings.“
Í athugasemdunum segir enn fremur að 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga feli í sér reglu um hámarksafgreiðslutíma beiðna um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum.
Í athugasemdum við ákvæði 3. mgr. 17. gr. segir eftirfarandi:
„Taka ber fram að þrátt fyrir að lagður sé til 40 daga hámarksafgreiðslutími gagnabeiðna mun áfram gilda sú meginregla 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga að taka skal ákvörðun um afgreiðslu beiðni svo fljótt sem verða má. Þá ber áfram að skýra aðila frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar sé að vænta, dragist það fram yfir sjö daga. Skilja verður fyrirmæli 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga á þann veg að unnt eigi að vera að afgreiða flestar beiðnir innan sjö daga. Sá hámarksafgreiðslutími sem hér er lagður til mun því aðeins eiga við í undantekningartilvikum og er minnt á að samkvæmt 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga er heimilt að hafna beiðnum í undantekningartilfellum ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki telst af þeim sökum fært að verða við henni. Ef fyrirsjáanlegt er að meðferð beiðni taki lengri tíma en 40 virka daga, og ástæður þess er einungis að rekja til umfangs umbeðinna gagna eða annarrar nauðsynlegrar vinnu, er líklegt að skilyrði 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga til synjunar beiðninnar séu uppfyllt. Sú regla sem lögð er til í 13. gr. frumvarps þessa mun því fyrst og fremst eiga við þegar afgreiðsla beiðni tefst úr hófi og ástæður þess er að rekja til athafnaleysis eða annarra óréttlætanlegra tafa á málsmeðferð þess aðila sem hefur beiðni til meðferðar.“
Við þinglega meðferð var ákveðið að frestur skyldi vera 30 dagar í stað 40 eins og gert hafði verið ráð fyrir þegar frumvarpið var lagt fram fyrir Alþingi. Að öðru leyti er ákvæðið óbreytt og athugasemdirnar eiga því eftir sem áður við.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekkert skýra þann mikla drátt sem varð á afgreiðslu á beiðni kæranda og tafirnar verða ekki réttlættar með vísan til umfangs umbeðinna gagna eða sérstaks eðlis upplýsinganna. Nefndin beinir því til Ríkisútvarpsins ohf. að gæta framvegis að reglum um málshraða, sbr. 17. gr. upplýsingalaga og 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarorð
Ríkisútvarpinu ohf. ber að veita kæranda aðgang að fundargerðum stjórnar félagsins frá tímabilinu 1. janúar 2018 til 7. ágúst 2019.
Þó er félaginu heimilt að synja kæranda um aðgang að upplýsingum sem fram koma undir eftirfarandi liðum fundargerðanna:
1. 2c á 176. fundi.
2. 2b á 178. fundi.
3. 3 á 181. fundi.
4. 4 á 183. fundi.
5. 4 á 184. fundi.
6. 2b, 3 og 6 á 185. fundi.
7. 3 á 186. fundi.
8. 5 á 187. fundi.
9. 2c á 192. fundi.
Þá er félaginu skylt að afmá upplýsingar sem fram koma undir eftirfarandi liðum fundargerðanna:
1. 2 á 177. fundi.
2. 2 á 181. fundi. Skylt er að afmá síðustu fjögur orð fyrstu setningar efnisgreinar undir lið 2.1.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir