909/2020. Úrskurður frá 11. júní 2020
Úrskurður
Hinn 11. júní 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 909/2020 í máli ÚNU 20050002.Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 17. apríl 2020, framsendi Persónuvernd, að beiðni A, kæru hans, dags. 20. febrúar 2020, vegna afgreiðslu Félagsstofnunar stúdenta á beiðni um aðgang að gögnum. Kærð var synjun Félagsstofnunar stúdenta á beiðni kæranda að öllum samskiptum kæranda eða eiginkonu hans við stofnunina vegna rakavandamála í leiguíbúð í eigu Félagsstofnunar stúdenta, öllum dómsskjölum tiltekins dómsmáls milli stofnunarinnar og byggingaraðila fasteignarinnar og niðurstöðum mælinga á fasteigninni.Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita skrifstofu Félagsstofnunar stúdenta kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu eða afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. Þá þykir óþarft að rekja það frekar sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Niðurstaða
Kæru í máli þessu er beint að Félagsstofnun stúdenta vegna afgreiðslu stofnunarinnar á beiðni um aðgang að gögnum er varða leiguíbúð Félagsstofnunar stúdenta.Í 2. og 3. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er kveðið á um þá aðila sem felldir verða undir upplýsingalög. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna taka þau til allrar starfsemi stjórnvalda. Þá taka þau til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Þá taka lögin einnig til einkaaðila, hvort sem þeir eru í opinberri eigu eða ekki, að því leyti sem þeim hefur með lögum eða með ákvörðun eða samningi sem byggist á heimild í lögum verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun eða sinna þjónustu sem kveðið er á um í lögum að stjórnvald skuli sinna eða telst að öðru leyti liður í opinberu hlutverki stjórnvalds.
Í athugasemdum við ákvæði 2. gr. í frumvarpi til þágildandi upplýsingalaga, nr. 50/1996, segir eftirfarandi um afmörkun þess hvað teljist vera starfsemi stjórnvalds:
„Gert er ráð fyrir að þau taki til allrar stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga með sama hætti og stjórnsýslulög. Þannig taka lögin til þeirrar starfsemi sem heyrir undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins.“
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands, nr. 33/1968, skal við Háskóla Íslands starfa Félagsstofnun stúdenta. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 33/1968 er kveðið á um að félagsform Félagsstofnunar stúdenta skuli vera sjálfseignarstofnun með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð. Um hlutverk stofnunarinnar segir í 2. gr. laganna að hún skuli annast rekstur og bera ábyrgð á fyrirtækjum í þágu stúdenta og beita sér fyrir eflingu þeirra samkvæmt því, sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Samkvæmt 1. málsl. 3. gr. skal stofnunin skipuð fimm mönnum, einum tilnefndum af mennta- og menningarmálaráðuneyti, einum kosnum af háskólaráði og þrem kosnum af stúdentaráði til tveggja ára í senn.
Í 4. gr. laga nr. 33/1968 er kveðið á um rekstur stofnunarinnar. Segir þar eftirfarandi:
„Stjórn stofnunarinnar aflar fjár til framkvæmda þeirra, er undir stofnunina heyra, í samvinnu við rektor og háskólaráð. Auk tekna af fyrirtækjum þeim, er Félagsstofnun stúdenta ræður yfir eftir lögum þessum og reglugerð, skal fjár til byggingarframkvæmda, rekstrar fyrirtækja og eflingar þeirra aflað sem hér segir:
1. Árleg skrásetningargjöld stúdenta við Háskóla Íslands skulu renna að hluta til stofnunarinnar, eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð fyrir Háskóla Íslands.
2. Með framlagi úr ríkissjóði, eftir því sem Alþingi ákveður hverju sinni.
3. Gjöfum, sem Félagsstofnun stúdenta kunna að berast.
4. Öðrum úrræðum, er stjórn stofnunarinnar telur tiltækileg.“
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ljóst af framangreindum ákvæðum laga um Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands nr. 33/1968, að stofnunin sé hvorki stjórnvald í skilningi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga né lögaðili í meirihluta eigu hins opinbera sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Þá varðar beiðnin ekki starfsemi sem felld verður undir upplýsingalög samkvæmt 3. gr. laganna en rekstur stofnunarinnar á leiguíbúðum er hvorki verkefni sem stjórnvaldi er falið með lögum né telst reksturinn að öðru leyti liður í opinberu hlutverki stjórnvalds. Þar sem upplýsingalög gilda ekki um beiðni kæranda um aðgang að gögnum verður að vísa kæru hans vegna afgreiðslu Félagsstofnunar stúdenta á beiðninni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 20. febrúar 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir