913/2020. Úrskurður frá 29. júní 2020
Úrskurður
Hinn 29. júní 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 913/2020 í máli ÚNU 20040005.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 7. apríl 2020, kærði A afgreiðslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á beiðni hans um aðgang að gögnum.Þann 21. júní 2018 óskaði kærandi eftir upplýsingum um bíltæknirannsóknir lögreglunnar. Fram kemur í beiðninni að nánar tiltekið væri sérstaklega óskað eftir upplýsingum um það hvort B bifvélavirkjameistari hefði verið kallaður til sem sérfræðingur, sbr. ákvæði 86. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 (eða 70 gr. brottfallinna laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991) til bíltæknirannsókna á ökutækjum. Jafnframt óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvort aðrir sérfræðingar hefðu verið kallaðir til á grundvelli sömu ákvæða. Þá óskaði hann eftir upplýsingum um fjölda mála sem viðkomandi sérfræðingar hefðu unnið fyrir lögregluna á tímabilinu 2004-2014, að báðum árum meðtöldum. Tekið var fram að ekki væri þörf á nákvæmum fjölda mála, heldur myndi ágiskun vera fullnægjandi að svo stöddu.
Í svari Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 12. mars 2020, segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nái til gagna sem séu fyrirliggjandi og varði tiltekið mál. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gildi þau hins vegar ekki um rannsóknir sakamála eða saksókn. Bíltæknirannsóknir á Íslandi séu framkvæmdar hjá Lögreglunni á Suðurlandi. Ef kærandi óski frekari upplýsinga sé eðlilegt að hann beini fyrirspurnum sínum þangað.
Í erindi kæranda til lögreglunnar, dags. 12. mars 2020, kveðst hann hafa fengið upplýsingar frá Lögreglunni á Suðurlandi við sömu fyrirspurn. Hann vilji engu að síður fá svar við fyrirspurn sinni um fjölda mála sem B og/eða aðrir sérfræðingar hafi unnið varðandi bíltæknirannsóknir fyrir Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu á þessu tiltekna tímabili, 2004-2014. Þá kveðst kærandi ekki vera að spyrja um einstök mál eins og lögreglan vísi í með synjun um upplýsingar á grundvelli 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Ástæðan fyrir kærunni sé að kærandi hafi í undirbúningi kæru vegna hegningarlagabrots og að svar við fyrirspurninni myndi að öllum líkindum styrkja kæruna.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kærandi hafi óskað eftir tölfræðiupplýsingum um framkvæmdar bíltæknirannsóknir fyrir Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2004-2014 að bárum árum meðtöldum. Óskað hafi verið eftir því að aðgreindur væri fjöldi mála sem B bifvélavirkjameistari hefði unnið að og fjöldi mála sem aðrir hefðu unnið að. Þá telur kærandi 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga ekki eiga við í málinu enda sé hvorki verið að óska eftir upplýsingum úr tilteknu sakamáli né saksókn og ekki verði með nokkru móti hægt að tengja umbeðnar upplýsingar við nein tiltekin sakamál né saksóknir. Eingöngu sé spurt um tölfræði á tilteknu tímabili. Þá tekur kærandi fram að bíltæknirannsóknir eigi við í fleiri tilfellum en þeim sem endi í sakamáli eða saksókn. Að lokum gerir kærandi mjög alvarlegar athugasemdir við að það hafi tekið lögregluna 21 mánuð að svara upphaflegu erindi hans, sérstaklega í ljósi þess að honum hafi verið synjað um aðgang að upplýsingunum.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með bréfi, dags. 14. apríl 2020, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lýtur að.Í umsögn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 15. júní 2020, segir að lögreglan hafi skoðað hvort upplýsingar um bíltæknirannsóknir væru til hjá embættinu og leiðbeint kæranda um að leita til Lögreglunnar á Suðurlandi þar sem bíltæknirannsóknir fyrir öll lögregluembættin séu framkvæmdar þar. Þá segir að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki gert samantekt á bíltæknirannsóknum og séu umbeðnar upplýsingar því ekki tiltækar hjá embættinu. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga eigi almenningur rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum í vörslum stjórnvalda með þeim takmörkunum sem greini í 6.-10. gr. laganna. Stjórnvöldum sé hins vegar hvorki skylt að útbúa ný skjöl né taka saman tölulegar upplýsingar úr skjölum sínum á grundvelli ákvæðisins, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna. Vísað er til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga þar sem tekið sé fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum nái aðeins til þeirra gagna sem til séu og fyrir liggi hjá stjórnvöldum á þeim tíma þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Upplýsingar um hvort og þá hvaða aðili hafi framkvæmt bíltæknirannsókn í sakamáli sé að finna í gögnum sakamálsins og séu hluti af málsgögnum sem undanþegin séu meginreglunni um réttindi almennings til aðgangs að upplýsingum þar sem gildissvið upplýsingalaga nái ekki til rannsóknar sakamáls eða saksóknar þess, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Þannig hafi Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ekki gögn til að afhenda, hvorki kæranda né úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Að lokum er beðist velvirðingar á töfum sem orðið hafi við afgreiðslu erindisins sem helgist af önnum hjá embættinu.
Umsögn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var kynnt kæranda með bréfi, dags. 16. júní 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar.
Í athugasemdum kæranda, dags. 22. júní 2020, mótmælir hann því að beiðninni sé synjað á þeirri forsendu að umbeðnar upplýsingar hafi ekki verið teknar saman. Á þeim forsendum væri í raun hægt að synja um aðgang að nánast öllum upplýsingum öðrum en beinum samskiptum. Kærandi gerir athugasemd við málshraða og afgreiðslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og kveðst hafa sent sömu fyrirspurn á öll önnur lögregluembætti á landinu á sama tíma og hafi fengið svör frá þeim öllum innan mánaðar. Það sé því með ólíkindum að nú tveimur árum eftir upprunalega fyrirspurn kæranda sé Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ekki búin að svara þessari einföldu fyrirspurn.
Niðurstaða
1.
Í málinu er deilt um afgreiðslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á beiðni um upplýsingar um bíltæknirannsóknir sem sérfræðingar framkvæmdu á vegum embættisins á árunum 2004-2014 á grundvelli 86. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og 70 gr. eldri laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Kærandi óskaði nánar tiltekið eftir upplýsingum um eftirfarandi:
1. Hvort B bifvélavirkjameistari hefði verið kallaður til sem sérfræðingur í bíltæknirannsóknum.
2. Hvort aðrir sérfræðingar hefðu verið kallaðir til.
3. Fjölda mála sem viðkomandi sérfræðingar hefðu unnið fyrir lögregluna á tímabilinu.
Ákvörðun lögreglunnar um að synja beiðni kæranda byggist á því að upplýsingar um bíltæknirannsóknir á vegum embættisins séu ekki fyrirliggjandi heldur þurfi að útbúa sérstaka samantekt til þess að svara fyrirspurn kæranda, sem lögreglunni sé ekki skylt að gera, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá séu umbeðnar upplýsingar eingöngu fyrirliggjandi sem hluti af málsgögnum í sakamálum en slík gögn séu undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga.
2.
Í fyrirspurn kæranda til lögreglunnar óskar hann eftir svari við því hvort tiltekinn bifvélavirkjameistari hafi sinnt bíltæknirannsóknum fyrir lögregluna og hvort aðrir sérfræðingar hefðu verið kallaðir til þess að sinna slíkum rannsóknum.Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga veita lögin rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum. Af þessari meginreglu leiðir að þegar aðilum sem falla undir upplýsingalög, sbr. 2. gr. laganna, berst beiðni um upplýsingar þá ber þeim á grundvelli laganna skylda til að taka afstöðu til þess hvort beiðandi eigi rétt til aðgangs að gögnum sem geyma umbeðnar upplýsingar.
Af upplýsingalögum verður ekki leidd sambærileg skylda stjórnvalda til að svara almennum fyrirspurnum sem hafa ekki tengsl við gögn í vörslum stjórnvalda. Þrátt fyrir að ekki sé útilokað að stjórnvöldum kunni að vera skylt að bregðast við slíkum fyrirspurnum þótt ekki liggi fyrir nein gögn með upplýsingunum sem óskað er eftir þá er það almennt ekki í verkahring úrskurðarnefndar um upplýsingamál að taka afstöðu til slíkra erinda miðað við hvernig hlutverk nefndarinnar er afmarkað í 20. gr. upplýsingalaga. Upplýsingalög leggja aftur á móti þá skyldu á þá sem falla undir lögin að kanna hvort fyrirliggjandi séu gögn með þeim upplýsingum sem óskað er eftir og í kjölfarið taka rökstudda ákvörðun um hvort veita beri kæranda aðgang að gögnunum á grundvelli laganna í heild eða að hluta.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið þær skýringar að upplýsingar um bíltæknirannsóknir sem sérfræðingar hafi sinnt á vegum embættisins sé eingöngu að finna í málsgögnum vegna rannsókna á sakamálum en samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um rannsókn sakamáls. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki ástæðu til annars en að taka trúanlegar fullyrðingar lögreglunnar um að umbeðnar upplýsingar sé aðeins að finna í málsgögnum sakamála. Þar sem upplýsingalög gilda ekki um aðgang að slíkum gögnum verður ekki hjá því komist að vísa kæru vegna afgreiðslu lögreglunnar á beiðni um aðgang að gögnum með upplýsingum um hvort tiltekin starfsmaður hafi sinnt bíltæknirannsókn fyrir lögregluna og hvort aðrir hafi sinnt slíkum rannsóknum.
3.
Kærandi óskaði einnig eftir upplýsingum um fjölda mála sem sérfræðingar hefðu unnið fyrir lögregluna við bíltæknirannsóknir á tilgreindu tímabili. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir slíka samantekt ekki vera fyrirliggjandi og hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu.Í athugasemdum við ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga í frumvarpi til upplýsingalaga er meðal annars tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Upplýsingalög leggja því ekki skyldu á þá aðila sem falla undir lögin til þess að útbúa ný gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna.
Þegar svo háttar til að beiðnin nær samkvæmt efni sínu til upplýsinga sem nauðsynlegt er að vinna upp úr fyrirliggjandi gögnum er því ekki sjálfgefið að unnt sé að synja beiðninni á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. heldur ber stjórnvaldi að kanna hvort beiðandi óski aðgangs að gögnunum þar sem umbeðnar upplýsingar er að finna svo hann geti tekið afstöðu til þess hvort hann vilji fá þau afhent, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 738/2018, 804/2019 og 833/2019. Þar sem úrskurðarnefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að gögn sem liggja til grundvallar þeirri samantekt sem kærandi óskar eftir séu undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga var Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ekki skylt að afhenda kæranda gögnin svo hann gæti sjálfur tekið saman þær upplýsingar sem óskað var eftir.
Með hliðsjón af því að ekki hafa verið teknar saman upplýsingar um fjölda mála þar sem sérfræðingar hafa verið fengnir til að sinna bíltæknirannsóknum á grundvelli laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og því að upplýsingalög leggja ekki skyldu á Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu til að taka afstöðu til þess hvort kærandi kunni að eiga rétt til aðgangs að gögnum með umbeðnum upplýsingum, svo hann geti sjálfur tekið saman fjölda mála, verður einnig að vísa þessum hluta kærunnar frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 7. apríl 2020, vegna afgreiðslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á beiðni um upplýsingar um bíltæknirannsóknir er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir