927/2020. Úrskurður frá 25. september 2020
Úrskurður
Hinn 25. september 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 927/2020 í máli ÚNU 20030013.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 13. mars 2020, kærði A afgreiðslu nefndar um endurgreiðslur í kvikmyndagerð á beiðni hans um öll fyrirliggjandi gögn varðandi endurgreiðslubeiðni félagsins Ljósmáls ehf. vegna framleiðslu kvikmyndar.Þann 17. febrúar 2020 óskaði kærandi eftir afritum af öllum fyrirliggjandi gögnum hjá nefnd um endurgreiðslur í kvikmyndagerðar er varða félagið Ljósmál ehf. Í svari nefndar um endurgreiðslur í kvikmyndagerð, dags. 12. mars 2020, segir að nefndin sé stjórnvald sem taki ákvörðun um rétt umsækjenda til greiðslna úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 43/1999. Aðili stjórnsýslumáls vegna slíkrar endurgreiðslu sé í þessu tilviki Ljósmál ehf., en ekki einstakir aðstandendur þeirrar kvikmyndar sem framleidd var af hálfu fyrirtækisins. Við skoðun nefndarinnar á skráningu í fyrirtækjaskrá sé kærandi hvorki skráður sem stjórnarformaður, stjórnarmaður né framkvæmdastjóri Ljósmáls ehf. Því líti nefndin svo á að kærandi geti ekki verið aðili stjórnsýslumáls í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna endurgreiðslubeiðni Ljósmáls ehf. til nefndarinnar. Beiðni kæranda um upplýsingar snúi því að því hvort þau gögn sem beðið sé um aðgang að falli undir þau gögn sem beri að veita almenningi aðgang að, sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
Í svarinu segir einnig að af lestri gagna málsins í heild sinni hafi nefndarmönnum verið ljóst að ágreiningur væri um yfirráð yfir félaginu Ljósmáli ehf. Því næst er í bréfinu farið yfir málsatvik varðandi umsókn Ljósmáls ehf. um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og umfjöllun nefndarinnar um hana, þ.e. þær upplýsingar sem nefndin taldi sér heimilt að veita á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Nefndin upplýsti kæranda jafnframt um að nefndin hefði ekki afgreitt umsókn Ljósmáls ehf. um endurgreiðslu með endanlegum hætti. Nauðsynlegt væri að minna á að til þess að uppfylla skilyrði um endurgreiðslu skv. lögum nr. 43/1999 þurfi umsækjandi um endurgreiðslu að leggja fram ítarleg gögn um fjárhagsmálefni sín. Eins og áður segi sé umsækjandi Ljósmál ehf. og beiðni kæranda um upplýsingar snúi því að fjárhagsmálefnum þess félags, sem sé sá aðili sem stjórnvaldsákvörðun nefndarinnar muni beinast að. Nefndin meti það svo að slík gögn; bókhaldsgögn, kostnaðaruppgjör og önnur fjárhagsleg gögn fyrirtækja eða einstaklinga, séu alla jafna þess eðlis að þau varði mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni og séu slíkar upplýsingar undanskildar upplýsingarétti almennings með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Því til stuðnings bendi nefndin á að hún miði afstöðu sína við það að ekki hafi verið tekin endanleg stjórnvaldsákvörðun um rétt félagsins til endurgreiðslu. Það sé einnig rétt að nefna að nefndin hafi ekki óskað eftir afstöðu Ljósmáls ehf. til beiðni um aðgang að gögnum þar sem afstaða hennar byggist á almennum sjónarmiðum áður en stjórnvaldsákvörðun er tekin. Nefndinni sé ekki heldur kunnugt um að kærandi hafi beðið skráða forsvarsvarsmenn fyrirtækisins um slík gögn eða eftir atvikum óskað eftir viðbrögðum þeirra við slíkri beiðni. Nefndin líti því svo á að hún hafi með þessum pósti veitt tilteknar upplýsingar, sem almenningur eigi rétt á, um afgreiðslu máls er varðar einkahlutafélagið Ljósmál á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga, þ.e. stöðu afgreiðslu málsins hjá nefndinni, en synji kæranda um aðgang að öllum gögnum sem nefndinni hafi borist vegna þess, með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Þá var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 20. gr. upplýsingalaga.
Í viðbótarrökstuðningi við kæru sem barst úrskurðarnefndinni þann 31. mars 2020 er því hafnað að upplýsingarnar varði ekki kæranda sjálfan, sbr. 14. gr. upplýsingalaga. Af hálfu kæranda er einnig haldið fram að skráning fyrirtækjaskrár geti ekki talist úrskurður um rétt borgaranna um upplýsingar um sig sjálfa eða mál sem varði brýna hagsmuni þeirra. Þá sé ekki rétt að kærandi hafi ekki stjórnsýslulegan rétt á aðgangi að öllum upplýsingum málsins og vísað er til samnings, dags. 1. maí 2019, sem liggi umræddu verkefni til grundvallar hvað varði 8. gr reglugerð 229/2003 með síðari breytingum. Þar segi m.a. að styrkir „eru aðeins veittir sjálfstæðum framleiðendum sem hafa reynslu og/eða staðgóða þekkingu á kvikmyndagerð. Sjálfstæður framleiðandi sé fyrirtæki sem hefur kvikmyndagerð að meginstarfi.” Í ofangreindum framleiðslusamningi, dags. 1. maí 2019, komi m.a. fram að kærandi sé framleiðandi verksins. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að nokkur fagaðili í stöðu framleiðanda taki að sér verkefni án þess að hafa fulla yfirsýn yfir alla verkþætti sem tilheyri verksviði framleiðanda, þ.m.t. allar upplýsingar um fjárreiður og fjárstreymi verksins og að það skili sér til verkefnisins eins og gert sé ráð fyrir í lögum um kvikmyndasjóð og að frágangur samræmist faglegum metnaði.
Þá segir að fordæmi fyrir því að neita fagaliða verksins um allar upplýsingar kunni að vera afar umdeilt í þessu fagi. Í svari nefndarinnar komi einnig fram það sjónarmið að engar upplýsingar sem fram geti komið af hálfu eina fagframleiðandans, það er undirritaðs, geti verið málinu til úrlausnar. Rétt hefði verið að leita upplýsinga um vafamál verkefnisins í þessu tilliti hjá þeim sem málið varðar, sbr. rannsóknar- og upplýsingaskyldu, og hefði að verið í anda meðalhófs. Ekki verði því séð að afstaða nefndarinnar samræmist góðum stjórnsýsluháttum.
Kærandi segir ekki vera ágreining um yfirráð né eignarhald á félaginu, aðeins sé um vanefndir að ræða af hálfu forsvarskonu félagsins, auk þess að aðgengi kæranda að reikningum félagins, fjárstreymi og prókúru sé vegna faglegra sjónarmiða um frágang og uppgjör verksins, en að síðustu vegna ætlaðra vanefnda. Þá bendir kærandi á að ríkisskattstjóri hafi afhent kæranda tölvupóst sem varði hagsmuni þriðja aðila, Ljósmáls ehf., merktan stjórnarmanni félagsins og sé því ekki samræmi á milli þess og túlkunar nefndar um endurgreiðslur í kvikmyndagerð á 5. gr. upplýsingalaga og markmiði laganna. Þá hafi fjársýsla ríkisins upplýst um hvernig greiðslubeiðni er varði greiðslu fjársýslunnar, dags. 10. desember 2019, til félagsins var háttað en Kvikmyndamiðstöð Íslands hafi ekki gert það. Beiðni kæranda hafi því verið svarað að hluta en rekstrar- og efnahagsreikninga vanti, sem m.a. sýni fram á inneignarstöðu virðisaukaskatts og hvernig og hvar reikningar séu skráðir. Að lokum ítrekar kærandi kröfu sína um aðgang að öllum gögnum félagsins Ljósmáls ehf. sem fyrir liggi hjá nefnd um endurgreiðslur í kvikmyndagerð, þar með talin afrit samskipta, tölvupósta og fundargerða, með vísan til 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga, þar sem segi að stjórnvöld skuli gæta þess að haldið sé til haga mikilvægum upplýsingum, m.a. um samskipti við almenning og önnur stjórnvöld, svo sem með skráningu fundargerða og minnisblaða.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt nefnd um endurgreiðslur í kvikmyndagerð með bréfi, dags. 31. mars 2020, og nefndinni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.Í umsögn nefndarinnar, dags. 22. júní 2020, segir að til þess að uppfylla skilyrði laga nr. 43/1999 um endurgreiðslu fái nefndin aðgang að margvíslegum fjárhagsupplýsingum, þ.á.m. yfirliti yfir framleiðslukostnað verkefna, hreyfingalista bókhalds, eftir atvikum ársreikningum og öðrum gögnum sem tengjast fjárhagsuppgjöri vegna þess verkefnis sem krafist er endurgreiðslu vegna. Með vísan til bréfs nefndarinnar til kæranda dags. 12. mars sl., sem sé hluti af gögnum málsins, telji nefndin að aðgangur að gögnum um fjárhagsmálefni þess einkahlutafélags sem sótti um endurgreiðslu vegna verkefnisins Ljósmáls sé undanþeginn rétti almennings til upplýsinga skv. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
Nefndin leggi áherslu á það að hún sé ekki úrskurðaraðili um aðgang kæranda að þessum gögnum sem mögulegur hlutaeigandi einkahlutafélagsins, en samkvæmt opinberum skráningum í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra hefði kærandi ekki formlega stöðu gagnvart því félagi sem framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður. Einnig beri að geta þess að samkomulag hafi verið gert 14. apríl 2020 milli Ljósmáls ehf. og kæranda vegna þeirra greiðslna sem útistandandi voru til hans vegna framleiðslu verkefnisins. Nefndin hafi talið að þar með hefði ágreiningi milli þessara aðila verið lokið og að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál varðandi aðgang að gögnum Ljósmáls ehf. sem og beiðni til nefndar um endurgreiðslur í kvikmyndagerð um aðgang að gögnum yrðu þar með afturkallaðar. Í ljósi þess að svo sé ekki ítreki nefnd um endurgreiðslur fyrri afstöðu sína um synjun um aðgang að gögnum um þau fjárhagsmálefni Ljósmáls ehf. sem gerð sé grein fyrir í meðfylgjandi skjali og vísi um það til 9. gr. upplýsingalaga, enda sé sanngjarnt og eðlilegt að aðgengi almennings sé takmarkað að upplýsingum um fjárhagsmálefni fyrirtækisins. Í kæru, dags. 30. mars sl., sé verið að flækja nefnd um endurgreiðslur inn í mögulegan ágreining milli kæranda og annarra aðila og telji nefndin ekki ástæðu til að svara því sem þar komi fram og varði ekki mögulegan rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum.
Umsögn nefndar um endurgreiðslur í kvikmyndagerð var kynnt kæranda með bréfi, dags. 23. júní 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Kærandi áréttaði að um væri að ræða gögn sem tilheyri tilteknu verkefni, ekki endilega heilu fyrirtæki sem slíku, en kærandi sé lögbundinn og samningsbundinn framleiðandi þess verkefnis. Samningar því til staðfestingar liggi fyrir hjá nefnd um endurgreiðslur í kvikmyndagerð.
Með erindi til Ljósmáls ehf., dags. 6. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir því að félagið lýsti afstöðu sinni til afhendingar gagnanna, einkum hvort og þá hvernig afhending þeirra gæti skaðað hagsmuni félagsins. Í svari félagsins, dags. 18. ágúst 2020, kemur fram að kærandi hafi verið í samstarfi við Ljósmál ehf. og félagasamtökin Vitafélagið – íslensk strandmenning um gerð heimildarmyndar. Kærandi hafi verið skráður hluthafi í Ljósmáli ehf. en hafi ekki greitt hlutafé, hann sé ekki skráður stjórnarmaður félagsins. Samstarfinu hafi lokið með samkomulagi á milli aðila, dags. 14. apríl 2020, um að Ljósmál ehf. greiddi kæranda þá reikninga sem óuppgerðir væru við hann vegna leikstjórnar. Þá hafi kærandi undirritað yfirlýsingu samdægurs um að hann myndi ekki gera frekari kröfur á hendur framangreindum félögum vegna málsins. Að uppgjöri loknu hafi verið ljóst samkvæmt framangreindu samkomulagið að Vitafélagið – íslensks strandmenning væri eigandi heimildarmyndarinnar og gæti nýtt hana.
Í svari Ljósmáls ehf. segir jafnframt að þau gögn sem kærandi óski eftir geymi upplýsingar um mikilvæga fjárhagslega hagsmuni Ljósmáls ehf. og atriði er varði styrkveitingar og fjárhagsleg málefni sem varði framleiðslu heimildarmyndarinnar. Kærandi hafi þegar undirritað samkomulag um verklok og fengið alla sína reikninga greidda. Hann hafi því, að mati félagsins, enga hagsmuni af því að fá afhent gögn er varði sérstaklega endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar og fjárhagslega hagsmuni einkahlutafélags. Tekið er fram að stór hluti umræddra skjala sé fjárhagsleg gögn einkaréttarlegs eðlis, frá félaginu komin til stuðnings máli því sem hafi verið til vinnslu hjá nefnd um endurgreiðslur í kvikmyndagerð, þar á meðal tölvupóstsamskipti og hreyfingalisti. Í hreyfingalistanum komi t.d. fram nöfn fjölmargra aðila sem félagið hafi greitt fyrir vinnu og aðkomu að kvikmyndagerðinni. Ekki verði talin ástæða til þess að afhenda kæranda þau gögn, né heldur önnur gögn sem um ræði.
Samvinnu aðila vegna kvikmyndarinnar hafi lokið vegna ósættis á milli aðila sem varði m.a. fjárhagsleg málefni einstaklinga sem komið hafi að framleiðslunni. Tilgangur kæranda með beiðninni sé óljós en skýr tilgangur og rökstuðningur þurfi að fylgja slíkri beiðni er varði fjárhagslegar upplýsingar einkahlutafélags, sbr. 9. gr. og 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ljósmál ehf. telji þannig ekkert í umræddum gögnum réttlæta það að kæranda séu afhent umbeðin gögn, heldur þvert á móti. Telja verði hagsmuni félagsins vega þyngra í mati samkvæmt 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, þar sem það séu fjárhagslegar upplýsingar um félagið sjálft sem liggi fyrir í umbeðnum gögnum. Samkomulag við kæranda um málalok og greiðslur hafi þegar verið efnt og hann hafi því enga lögvarða hagsmuni af því að fá umræddar upplýsingar afhentar.
Niðurstaða
1.
Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að öllum upplýsingum um félagið Ljósmál ehf. sem fyrirliggjandi eru hjá nefnd um endurgreiðslur í kvikmyndagerð vegna umsóknar félagsins um endurgreiðslur úr kvikmyndasjóði en nefndin starfar á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga, nr. 43/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 58/2016. Kærandi kveðst vera framleiðandi þess verkefnis sem umsókn um endurgreiðslur lýtur að. Þar af leiðandi varði upplýsingarnar hann sjálfan í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Nefnd um endurgreiðslur í kvikmyndagerð afgreiddi beiðnina aftur á móti á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, þar sem umsækjandi sé félagið Ljósmál ehf. og sé kæranda ekki skráður stjórnarmaður, stjórnarformaður eða framkvæmdastjóri félagsins.
Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. en samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan, með þeim takmörkunum sem greinir í 3. mgr. 14. gr.
Í umsókn um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, dags. 10. febrúar 2020, er kærandi titlaður leikstjóri kvikmyndar en framleiðslufyrirtækið er Ljósmál ehf. Sigurbjörg Árnadóttir, stjórnarformaður, er skráð sem ábyrgðaraðili framleiðslufyrirtækisins. Samkvæmt þessu er umsækjandi um endurgreiðsluna félagið Ljósmál ehf. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lítur því svo á að félagið Ljósmál ehf. sé sá aðili sem umsóknargögn til nefndar um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar fjalla um í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Um rétt kæranda til aðgangs að umsóknargögnunum fer því eftir 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings.
Umsóknargögnin sem um ræðir eru í fyrsta lagi umsóknareyðublað um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, dags. 10. febrúar 2020 og fylgiskjöl með þeirri umsókn. Fylgiskjölin eru yfirlit um framleiðslukostnað árin 2014-2019, hreyfingarlisti yfir fjárhagsreikninga, dags. 25. janúar 2020 og ársreikningur Ljósmáls ehf. fyrir árið 2019.
Hvað varðar ársreikning Ljósmáls ehf. fyrir árið 2019, þá er um að ræða gagn sem skilað hefur verið til ársreikningaskrár og sem er aðgengilegt þar, sbr. 4. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006. Á kærandi því rétt til aðgangs að ársreikningnum. Í ljósi þess að um rétt kæranda að öðrum gögnum málsins, þ.e. umsóknareyðublaði, yfirliti yfir framleiðslukostnað og hreyfingarlista yfir fjárhagsreikninga, fer eftir 5. gr. upplýsingalaga verður að taka afstöðu til þess hvort mikilvægir virkir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir Ljósmáls ehf. standi því í vegi að upplýsingar í gögnunum séu gerðar aðgengilegar almenningi, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.
Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og ber því að túlka það þröngri lögskýringu.
Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir m.a.:
„Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“
Í athugasemdum við ákvæðið segir jafnframt:
„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“
Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.
Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við það mat verður að hafa í huga það meginmarkmið laganna að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, meðal annars í þeim tilgangi að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að opinberum aðilum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni. Þá er tiltekið í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga að ef ákvæði 6.-10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti eiga aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess.
Í útfylltu umsóknareyðublaði um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, dags. 10. febrúar 2020 koma m.a. fram upplýsingar um heiti kvikmyndar, framleiðslufyrirtæki, áætluð lok framleiðslu, áætlaður heildarframleiðslukostnaður, upplýsingar um aðra opinbera styrktaraðila framleiðslunnar og upphæð veittra styrkja. Við mat á því hvort almenningur eigi rétt til aðgangs að upplýsingum úr umsóknareyðublaðinu verður að líta til þess að með umsókninni er sótt um greiðslur úr opinberum sjóðum og hefur almenningur hagsmuni af því að geta kynnt sér hvernig staðið er að úthlutun slíkra greiðslna. Sem fyrr segir hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál yfirfarið upplýsingar í umsóknareyðublaðinu. Það er mat nefndarinnar að í því komi hvergi fram upplýsingar sem felldar verða undir 9. gr. upplýsingalaga. Hvað varðar upplýsingar um veitta styrki sérstaklega og áætlaða endurgreiðslu miðað við áætlaðan framleiðslukostnað bendir úrskurðarnefnd um upplýsingamál í því samhengi á að í úrskurðarframkvæmd hefur nefndin lagt áherslu á rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um hvernig opinberu fé er ráðstafað, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar nr. 751/2018, 806/2019, 818/2019, 873/2020, 876/2020 og 884/2020. Með vísan til þessa verður nefnd um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar gert að veita kæranda aðgang að umsóknareyðublaðinu.
Í yfirliti um framleiðslukostnað fyrir árin 2014-2019 og hreyfingaryfirliti yfir fjárhagsreikninga, dags. 25. janúar 2020 er aftur á móti að finna upplýsingar um fjárhagsmálefni Ljósmáls ehf. sem sanngjarnt er og eðlilegt er að leynt fari, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Var því nefnd um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar rétt að synja kæranda um aðgang að þeim gögnum.
2.
Í málinu liggja einnig fyrir tölvupóstsamskipti lögmanns kæranda og starfsmanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, dags. 18. febrúar 2020, en með tölvupóstssamskiptunum fylgdi reikningur frá RÚV vegna verkefnisins, dags. 31. desember 2019. Þá er um að ræða afrit af umboði kæranda til lögmanns síns, dags. 14. janúar 2020, þrír reikningar útgefnir af kæranda til Ljósmáls ehf. vegna launa, kostnaðar og þóknunar fyrir leikstjórn 2017-2019, dags. 1. nóvember 2019, reikningur útgefinn af kæranda til Ljósmáls ehf., vegna ógreiddra reikninga, dags. 18. febrúar 2019 og samningur Ljósmáls ehf. og kæranda um uppgjör, dags. 14. apríl 2020. Um er að ræða gögn sem ýmist stafa frá kæranda eða lögmanni hans eða sem kærandi hefur þegar fengið aðgang að og standa því engin rök til þess að synja kæranda um aðgang að gögnunum, enda verður ekki séð að þau falli undir nein undanþáguákvæði upplýsingalaga. Verður því nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar gert að veita kæranda aðgang að þessum gögnum.3.
Í þriðja lagi er um að ræða tölvupóstsamskipti milli stjórnarformanns Ljósmáls ehf. við starfsmenn Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, dags. 3. mars. 2020, þar sem farið er yfir skuldir Ljósmáls ehf. og skjalið „Framleiðendaskyldur – [A]“, dags. 2017, Í fyrrnefnda skjalinu er m.a. fjallað um skuldir Ljósmáls ehf. gagnvart kæranda og í síðarnefnda skjalinu virðist sem svo að fjallað sé um þau verk sem ætlast var til þess að kærandi ynni eða sæi um. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur kæranda eiga hagsmuni af því umfram almenning að geta kynnt sér upplýsingarnar, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.Réttur til aðgangs að upplýsingum samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga takmarkast meðal annars af 3. mgr. 14. gr. þar sem segir:
„Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.“
Í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir meðal annars að algengt sé að sömu gögn hafi að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptamálefni fleiri en eins aðila. Þegar fram komi beiðni um aðgang að slíkum gögnum sé þannig líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óski og hins vegar annarra þeirra sem hlut eigi að máli og kunni að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggi að baki 9. gr. laganna.
Hvað varðar tölvupóstssamskipti stjórnarformanns Ljósmáls ehf. við starfsmann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands er það mat úrskurðarnefndarinnar að hagsmunir kæranda af því að geta kynnt sér hvernig Ljósmál ehf. kynnti skuldastöðu félagsins gagnvart kæranda fyrir starfsmanni Kvikmyndamiðstöðvarinnar vegi þyngra en hagsmunir Ljósmáls ehf. af því að upplýsingarnar fari leynt. Hvað varðar upplýsingar sem ekki varða kæranda með beinum hætti er það hins vegar mat úrskurðarnefndarinnar að hagsmunir Ljósmáls ehf. af því að þær fari leynt vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að geta kynnt sér þær, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar ber því að veita kæranda aðgang að upplýsingum í tölvupóstssamskiptunum sem varða kæranda sjálfan en afmá aðrar upplýsingar, eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.
Hvað varðar skjalið „Framleiðendaskyldur – [A]“, dags. 2017, verður ekki séð að hagsmunir Ljósmáls ehf. standi til þess að efni skjalsins fari leynt. Verður því nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar gert að veita kæranda aðgang að skjalinu.
4.
Í fjórða lagi er um að ræða skjölin „minnismiði vegna launa framleiðenda og myndhandrits“, ódagsett og skjal sem virðist vera brot úr handriti. Um er að ræða gögn sem stafa frá Ljósmáli ehf. og sem úrskurðarnefndin telur rétt að fella undir 9. gr. upplýsingalaga með vísan til efnis gagnanna. Verður því að staðfesta ákvörðun nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar um að synja beiðni kæranda um aðgang að skjölum.5.
Í fimmta lagi er deilt um rétt kæranda til aðgangs að skjölunum „uppgjör kostnaðar Vitafélagsins vegna Ljósmáls“, dags. 4. nóvember 2019, „reikningsuppgjör milli Vitafélagsins og Ljósmáls“, dags. 4. nóvember 2019 og reikningsyfirlit bankareiknings sem sýnir stöðu reiknings og ógreidda reikninga, ódagsett. Að mati úrskurðarnefndarinnar er að ræða skjöl með fjárhagsupplýsingum Ljósmáls ehf. sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Verður því staðfest synjun nefndar um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar.6.
Að lokum liggja fyrir í málinu fimm fundargerðir nefndar um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar þar sem fjallað er um málefni Ljósmáls ehf. Um er að ræða bókanir nefndarinnar varðandi skort á gögnum, þ. á m. varðandi samkomulag milli framleiðenda og leikstjóra um greiðslur. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er ekkert í fundargerðunum sem varða hagsmuni sem felldir verða undir 9. gr. upplýsingalaga. Standa því ekki efni til þess að synja kæranda um aðgang að bókunum úr fundargerðunum.Úrskurðarorð
Felld er úr gildi ákvörðun nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, dags. 12. mars 2012, um að synja kæranda, A, um aðgang að eftirfarandi gögnum og það lagt fyrir nefndina að veita kæranda aðgang að þeim:1. „Umsókn um endurgreiðslu – útborgun“ dags. 10. febrúar 2020.
2. Ársreikningur Ljósmáls ehf. árið 2019.
3. Tölvupóstsamskipti lögmanns kæranda og starfsmanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, dags. 18. febrúar 2020.
4. Reikningur frá Ríkisútvarpinu fyrir „myndefni vegna Ljósmáls“, dags. 31. desember 2019.
5. Afrit af umboði lögmanns kæranda, dags. 14. janúar 2020.
6. Þrír reikningar útgefnir af kæranda til Ljósmáls ehf. vegna launa, kostnaðar og þóknunar fyrir leikstjórn 2017-2019, dags. 1. nóvember 2019.
7. Reikningur útgefinn af kæranda til Ljósmáls ehf., vegna ógreiddra reikninga, dags. 18. febrúar 2019.
8. Samningur Ljósmáls ehf. og kæranda um uppgjör, dags. 14. apríl 2020.
9. Fyrstu fjórar efnisgreinarnar og efnisgreinar 6 og 8 í tölvupóstsamskiptum á milli forráðamanns Ljósmáls ehf. og starfsmanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, dags. 3. mars 2020.
10. Framleiðendaskyldur – [A]“, dags. 2017.
11. Brot úr fimm fundargerðum nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar sem innihalda umfjöllum nefndarinnar um mál Ljósmáls ehf.
Staðfest er ákvörðun nefndar um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar um að synja beiðni kæranda um aðgang að eftirfarandi gögnum:
1. „Ljósmál – yfirlit um framleiðslukostnað“ fyrir tímabilið 2014-2019.
2. „Fjárhagur – Hreyfingalisti“ fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 31. desember 2019.
3. Efnisgreinum 5 og 7 í tölvupóstsamskiptum á milli forráðamanns Ljósmáls ehf. og starfsmanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, dags. 3. mars 2020.
4. „Uppgjör kostnaðar Vitafélagsins vegna Ljósmáls“, dags. 4. nóvember 2019.
5. Reikningsuppgjör milli Vitafélagsins og Ljósmáls“, dags. 4. nóvember 2019.
6. Reikningsyfirlit bankareiknings sem sýnir stöðu reiknings og ógreidda reikninga, ódagsett.
7. „Minnismiði vegna launa framleiðenda og myndhandrits“, ódagsett og brot úr kvikmyndahandriti.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir