935/2020. Úrskurður frá 20. október 2020
Úrskurður
Hinn 20. október 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 935/2020 í máli ÚNU 20070012.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 15. júlí 2020, kærði Ríkisútvarpið ohf. synjun ríkisskattstjóra á beiðni um afhendingu gagna.Með tölvupósti, dags. 21. maí 2020 óskaði kærandi eftir afriti af gögnum fyrirtækjaskrár um raunverulegt eignarhald félaganna 365 hf., Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., ION Finance ehf., Lyfja og heilsu hf., PCC BakkiSilicon hf. og Rhea ehf. Nánar tiltekið óskaði kærandi eftir öllum gögnum fyrirtækjaskrár sem tengdust skráningu raunverulegra eigenda þessara félaga. Þar með talið gögnum sem staðfestu raunverulegt eignarhald félaganna og hefðu borist fyrirtækjaskrá á grundvelli f-liðar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 82/2019 um skráningu raunverulegra eigenda.
Jafnframt óskaði kærandi eftir gögnum sem fyrirtækjaskrá kynni að hafa aflað að eigin frumkvæði til að staðfesta raunverulegt eignarhald félaganna. Enn fremur óskaði kærandi eftir öllum upplýsingum sem félögin hefðu veitt á rafrænu formi í tengslum við skráningu raunverulegra eigenda, svo og möguleg tölvupóstsamskipti eða bréfaskipti við félögin, forsvarsmenn þeirra eða raunverulega eigendur, eða við aðra sem fyrirtækjaskrá kynni að hafa haft samskipti við vegna skráningarinnar. Óskaði kærandi eftir gögnum um raunverulegt eignarhald frá upphafi skráningar raunverulegra eigenda en ekki aðeins gögnum sem tengdust núgildandi skráningu.
Með tölvupósti, dags. 16. júní 2020, var gagnabeiðni kæranda synjað. Þar kemur fram að ríkisskattstjóri hafi kynnt sér sjónarmið ráðgjafa um upplýsingarétt almennings samkvæmt upplýsingalögum. Það sé þó mat ríkisskattstjóra, grundvallað á ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga um skráningu raunverulegra eigenda nr. 82/2019, að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að upplýsingum umfram þær sem birtar séu á heimasíðu Skattsins, þ.e. nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð og -ár, búsetuland, ríkisfang og umfang og tegund eignarhalds. Í fyrrgreindu ákvæði sé um að ræða tæmandi talningu á þeim upplýsingum sem almenningur skuli hafa aðgang að samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Um sé að ræða ákvæði yngri sérlaga sem gangi framar ákvæði 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og eigi upplýsingalögin því ekki við um aðgang almennings að upplýsingum um skráningu raunverulegs eiganda umfram þær sem þegar séu birtar almenningi.
Í kæru er þess krafist að veittur verði aðgangur að umbeðnum upplýsingum á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Verði talið að umrædd gögn geymi fjárhags- eða einkaupplýsingar sem sanngjarnt og rétt sé að leynt fari geri kærandi þær kröfur til vara að sér verði veittur aðgangur að hluta umbeðinna gagna þannig að afmáður verði sá hluti sem heimilt teljist að takmarka aðgang að, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Kærandi sé fjölmiðill og starfi á grundvelli laga nr. 38/2011 um fjölmiðla og sérlaga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Við úrlausn á upplýsingabeiðni kæranda þurfi því að gæta að markmiðum upplýsingalaga og hlutverki fjölmiðla í því samhengi.
Samkvæmt ákvæði 5. gr. upplýsingalaga sé stjórnvaldi skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varði tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greini í 6.–10. gr. laganna. Meginreglan sé því sú að réttur til aðgangs að gögnum sé fyrir hendi nema sérstakar takmarkanir séu á því gerðar samkvæmt upplýsingalögum eða sérlögum. Þá beri stjórnvöldum samkvæmt almennt viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum að túlka undanþáguákvæði frá upplýsingarétti almennings þröngt.
Í kæru segir að synjun embættis ríkisskattstjóra byggi á því að ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga um skráningu raunverulegra eigenda nr. 82/2019 tiltaki með tæmandi hætti þær upplýsingar sem almenningur skuli hafa aðgang að og þ.a.l. sé embættinu óheimilt að veita almenningi aðgang að upplýsingum umfram þær sem birtar séu á heimasíðu Skattsins, þ.e. nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð- og ár, búsetuland, ríkisfang og umfang og tegund eignarhalds. Þá er vísað í úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 819/2019 þar sem segi að almennt verði ekki gagnályktað frá ákvæðum er heimili aðgang að tilteknum upplýsingum þannig að þær upplýsingar sem ekki séu sérstaklega tilgreindar skuli teljast undanþegnar upplýsingarétti eins og embætti ríkisskattstjóra virðist gera. Í 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga sé tekið fram að almenn ákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá þessu ákvæði hafi hins vegar verið talið að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líði öðrum lagaákvæðum um upplýsingaskyldu. Þegar um sé að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan taki til séu sérgreindar, fari það eftir „efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga“, eins og segi í skýringum við 4. gr. frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum, sbr. t.a.m. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 16. júní 2017 í máli nr. 682/2017. Samsvarandi skýringar hafi verið að finna við 2. gr. frumvarps til eldri upplýsingalaga nr. 50/1996.
Kærandi byggir á því að ákvæði laga nr. 82/2019 feli ekki í sér sérstakt þagnarskylduákvæði, þar sem sérgreint sé hvaða upplýsingum skuli haldið leyndum. Raunar sé hvergi vikið að þagnarskyldu í ákvæðum laganna, hvorki almennri þagnarskyldu né sérstakri. Upplýsingalög gildi því fullum fetum um upplýsingabeiðni kæranda. Með vísan til framangreinds telji kærandi að embætti ríkisskattstjóra hafi verið óheimilt að synja um afhendingu umbeðinna gagna.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 16. júlí 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 11. ágúst 2020, um kæruna er áréttað að þrátt fyrir að markmið upplýsingalaga sé að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna meðal annars í þeim tilgangi að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að opinberum aðilum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni, sbr. 1. gr. laganna, þá geymi lögin ekki svigrúm fyrir stjórnvöld til að veita fjölmiðlum annan eða meiri aðgang að gögnum en almenningi. Úrlausn upplýsingabeiðni kæranda muni því veita fordæmi fyrir meðferð annarra slíkra beiðna frá almenningi, óháð því hverjir beiðendur verði.
Þá fjallar ríkisskattstjóri um lagagrundvöll synjunarinnar, þ.e. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 82/2019 um skráningu raunverulegra eigenda. Afstaða ríkisskattstjóra sé að í ákvæðinu sé að finna tæmandi talningu á þeim upplýsingum sem almenningur skuli hafa aðgang að samkvæmt lögunum. Um þá málsástæðu sé í rökstuðningi kæranda einungis vísað til þeirrar athugasemdar í niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 819/2019 (í máli ÚNU 19040004) að almennt verði ,,ekki gagnályktað frá ákvæðum er heimila aðgang að tilteknum upplýsingum“. Af því tilefni bendi ríkisskattstjóri á að í tilvitnuðu máli nefndarinnar hafi verið deilt um hvort gagnályktað yrði frá eftirfarandi þágildandi lagaákvæði um vörumerkjaskrá, á þann hátt að upplýsingar sem ekki féllu undir ákvæðið væru undanþegnar upplýsingarétti: „Öllum er heimilt að kynna sér efni vörumerkjaskrárinnar, annað hvort með því að skoða hana eða með því að fá endurrit úr henni. Þá eiga allir rétt á að fá vitneskju um hvort merki er skráð.“
Ríkisskattstjóri segir nefndina hafa komist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki og um aðgang að þeim upplýsingum sem ekki féllu undir ákvæðið færi samkvæmt upplýsingalögum. Enda yrði ekki séð af þágildandi vörumerkjalögum að löggjafinn hafi ætlað að tryggja að slíkar upplýsingar yrðu undanþegnar upplýsingarétti almennings. Þessu sé ólíkt farið þegar komi að því ákvæði sem synjun ríkisskattstjóra sé byggð á. Svo sem heiti 7. gr. laga nr. 82/2019 beri með sér og áréttað sé í greinargerð með því frumvarpi er varð að lögunum, þá sé í greininni að finna ákvæði um aðgang að skrá um raunverulega eigendur.
Í 1. mgr. greinarinnar séu taldir upp í fimm stafliðum þeir aðilar sem hafi aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur en í 2.-4. mgr. sé nánar afmarkaður aðgangur hvers af þessum aðilum fyrir sig. Þannig skuli aðilar sem vísað er til í stafliðum a-e hafa óheftan aðgang að „öllum skráðum upplýsingum og gögnum“, aðilar samkvæmt d-lið skuli hins vegar hafa aðgang að „nauðsynlegum upplýsingum og gögnum“ og aðilar skv. e-lið, þ.e. almenningur, skuli hafa aðgang að „upplýsingum um nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð og -ár, búsetuland, ríkisfang og umfang og tegund eignarhalds“. Ljóst sé að þessi stafliðaskipting og mismunandi lýsing á aðgangi myndi engum tilgangi þjóna ef upptalning á því sem almenningur hafi aðgang að væri einungis sett fram í dæmaskyni og almenningur hefði að meginstefnu aðgang að öllum gögnum um raunverulega eigendur, svo sem kærandi virðist byggja á.
Bendir ríkisskattstjóri á að sú víðtæka upplýsingasöfnun sem tekin hafi verið upp með lögunum sé í skýrum og afmörkuðum tilgangi, þ.e. að afla réttra og áreiðanlegra upplýsinga um raunverulega eigendur lögaðila í atvinnurekstri svo að unnt sé að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sbr. 1. gr. laganna. Í því skyni sé ríkisskattstjóra falið afar víðtækt vald til að kalla eftir hvaða upplýsingum og gögnum sem verða vilji til að tryggja rétta skráningu, sbr. 6. mgr. 4. gr. laganna. Jafnvel sé kveðið á um að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum nema í undantekningartilvikum.
Að mati ríkisskattstjóra verði ákvæði laga nr. 82/2019 um aðgang almennings því ekki skilin á annan veg en að með þeim sé leitast við að tryggja samræmi, gagnsæi og jafnræði hvað varði þær tegundir af upplýsingum sem veittar verði um hina raunverulegu eigendur í stað þess að aðgengi að öllum þeim fjölda upplýsinga verði háður tilvikabundnu mati hverju sinni þegar aðgangsbeiðni sé sett fram. Þetta eigi sér meðal annars stað í aðfararorðum 34 að tilskipun (ESB) 2015/849 en tiltekið sé í frumvarpi til laga nr. 82/2019 að með því sé lagt til að þau ákvæði tilskipunarinnar sem breyti ákvæðum 30. og 31. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 verði tekin efnislega upp í íslenska löggjöf.
Að lokum fjallar ríkisskattstjóri um það sem fram kemur í kæru varðandi ákvæði 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, um að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt þeim lögum. Þá segir að hann telji tilefni þessarar umfjöllunar kæranda ekki ljóst þar sem í synjun ríkisskattstjóra sé hvergi vikið að þagnarskylduákvæðum laga. Þannig sé t.d. enginn ágreiningur um að ekki sé sérstaklega vikið að þagnarskyldu í lögum nr. 82/2019, að frátöldum fyrrnefndum ákvæðum 6. mgr. 4. gr. laganna sem víki slíkum skyldum til hliðar fyrir upplýsingaöflun ríkisskattstjóra. Hins vegar sé í þessu sambandi rétt að minna á að á ríkisskattstjóra og starfsfólki hans hvíli samt sem áður lögboðin þagnarskylda, sbr. 117. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og nú X. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með áorðnum breytingum og varði brot refsingu samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga. Að öðru leyti en rakið hafi verið að framan sé af hálfu ríkisskattstjóra vísað til umþrættrar synjunar hans og þeim röksemdum sem þar komi fram.
Umsögn ríkisskattstjóra var kynnt kæranda með bréfi, dags. 11. ágúst 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
Úrskurðarnefnd um upplýsingmál óskaði þann 28. september 2020 eftir upplýsingum um hvernig gögn með hlutafjármiðum kæmust í vörslu fyrirtækjaskrár. Fyrirtækjaskrá svaraði fyrirspurninni á þá leið að skráningin væri á ábyrgð félaga og bærust gögnin frá þeim. Þrátt fyrir að hlutafjármiðar ættu uppruna sinn í skattskilum félaganna þá hefði fyrirtækjaskrá ekki aðgang að þeim gögnum sem bærust eða yrðu til vegna innheimtustarfa ríkisskattstjóra.
Niðurstaða
1.
Í málinu er deilt um rétt kæranda, sem er fjölmiðill, til aðgangs að öllum gögnum í vörslum fyrirtækjaskrár sem tengjast skráningu á raunverulegu eignarhaldi tiltekinna fyrirtækja, frá upphafi slíkrar skráningar.Synjun ríkisskattstjóra byggist á því að í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda, sé að finna tæmandi talningu á því hvaða upplýsingar um raunverulegt eignarhald skuli vera aðgengilegar almenningi. Þá vísar ríkisskattstjóri í 34. lið aðfararorða tilskipunar (ESB) 2015/849, en 30. og 31. gr. hennar voru innleiddar með lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Í umrædum lið er fjallað um jafnvægi á milli hagsmuna almennings, af því að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og réttinda hinna skráðu, m.a. með tilliti til friðhelgi einkalífs og persónuverndar.
Í ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 82/2019 segir:
„Almenningur […] skal hafa aðgang að upplýsingum um nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð og -ár, búsetuland, ríkisfang og umfang og tegund eignarhalds.“
Í athugasemdum um ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 82/2019 segir eftirfarandi:
„Í 7. gr. er að finna ákvæði um aðgang að skrá um raunverulega eigendur en með ákvæðinu eru innleidd ákvæði 5. mgr. og 6. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 eins og þeim var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843. Auk innleiðingarinnar er í ákvæðinu kveðið á um aðgang skattyfirvalda að upplýsingum um raunverulega eigendur.“
Þá segir:
„Í 1. mgr. eru taldir upp í fimm stafliðum þeir aðilar sem hafa aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur, en þeir aðilar eru skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, eftirlitsaðilar og önnur stjórnvöld sem gegna réttarvörslu samkvæmt lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, tilkynningarskyldir aðilar í skilningi framangreindra laga þegar þeir framkvæma áreiðanleikakönnun og almenningur. Um er að ræða innleiðingu á a–c-lið 5. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 eins og henni var breytt með tilskipun 2018/843/EB. Einnig er lagt til skattyfirvöld hafi aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur vegna skatteftirlits, upplýsingaskipta milli landa og skattrannsókna.“
Í athugasemdum um 4. mgr. 7. gr. segir eftirfarandi:
„Með 4. mgr. er innleitt ákvæði c-liðar 5. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 eins og henni var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843 en í ákvæðinu er kveðið á um að almenningur skuli hafa aðgang að upplýsingum um nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð og -ár, búsetuland, ríkisfang og stærð og tegund eignarhalds.“
Ákvæði 5. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) eins og því var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843 hljóðar svo:
„Member States shall ensure that the information on the beneficial ownership is accessible in all cases to:
(a) competent authorities and FIUs, without any restriction;
(b) obliged entities, within the framework of customer due diligence in accordance with Chapter II;
(c) any member of the general public.
The persons referred to in point (c) shall be permitted to access at least the name, the month and year of birth and the country of residence and nationality of the beneficial owner as well as the nature and extent of the beneficial interest held.
Member States may, under conditions to be determined in national law, provide for access to additional information enabling the identification of the beneficial owner. That additional information shall include at least the date of birth or contact details in accordance with data protection rules.“
Samkvæmt 7. gr. laga um skráningu raunverulegra eigenda skulu tilteknar upplýsingar vera aðgengilegar í skrá um raunverulega eigendur. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er ekki tækt að gagnálykta frá ákvæðinu svo að óheimilt sé að veita almenningi aðrar upplýsingar en þar eru upp taldar. Er það í samræmi við þann skilning sem leggja má í ákvæði 5. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB), eins og því var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843 en þar segir að almenningur skuli „að minnsta kosti“ hafa aðgang að þeim upplýsingum sem þar eru upp taldar. Jafnframt verður að hafa í huga að í 15. lið aðfararorða tilskipunarinnar er með beinum hætti gert ráð fyrir því að aðildarríkin geti leyft meiri aðgang en þann sem er veittur samkvæmt tilskipuninni.
Að auki verður að orða undanþágur frá upplýsingarétti með skýrum hætti en í lögum nr. 82/2019 kemur hvergi fram að sérstök þagnarskylda skuli ríkja um aðrar upplýsingar sem þar eru nefndar. Þar af leiðandi er ekki hægt að líta svo á að með ákvæði 4. mgr. 7. gr. sé kveðið á um að óheimilt sé að veita aðgang að öðrum upplýsingum um raunverulega eigendur en þeim sem gera skal aðgengilegar í skrá. Verður því synjun ríkisskattstjóra ekki byggð á ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga um skráningu raunverulegra eigenda.
2.
Í umsögn sinni vísaði ríkisskattstjóri að lokum í þagnarskylduákvæði 117. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt en þar segir:„Á ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og yfirskattanefnd hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga. Þeim er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum XIV. kafla almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra frá því er þeir komast að í sýslan sinni um tekjur og efnahag skattaðila. Þagnarskyldan helst þótt menn þessir láti af störfum.“
Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012.
Þagnarskylduákvæði 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt er sérgreind með þeim hætti að hún nær til upplýsinga um „tekjur og efnahag skattaðila“. Af orðalagi ákvæðisins leiðir að það nær ekki til upplýsinga um raunverulegt eignarhald félaga. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eru öll gögnin sem ríkisskattstjóri hefur afhent úrskurðarnefndinni gögn sem fyrirtækjaskrá hafa verið afhent frá einstaklingum og lögaðilum á grundvelli laga nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda. Ljóst er því að ekki er um að ræða gögn sem ríkisskattstjóra hafa borist á grundvelli laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eða í hlutverki ríkisskattstjóra sem innheimtumanns ríkisjóðs. Telur úrskurðarnefndin því ljóst að umrædd gögn og upplýsingar sem þau hafa að geyma verða ekki felld undir þagnarskylduákvæði 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt.
Samkvæmt framangreindu verður því leyst úr rétti kæranda til aðgangs að gögnunum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012.
3.
Af 1. mgr. 5. gr. upplýsinglaga leiðir að sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Ekki er skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. en málsgreinin tekur til þeirrar skyldu að veita aðgang að öðrum hlutum gagns ef takmarkanir 6.-10. gr. eiga aðeins við um hluta gagns.Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og ber því að túlka það þröngri lögskýringu.
Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir m.a.:
„Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“
Þá segir um 1. málsl. 9. gr.:
„Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál.“
Í athugasemdunum segir enn fremur að undir 9. gr. upplýsingalaga geti fallið upplýsingar um hvort tiltekið mál er snertir ákveðinn einstakling sé eða hafi verið til meðferðar. Dæmi um slík tilvik séu t.d. upplýsingar um það hvort tiltekinn einstaklingur hafi lagt fram umsókn um leyfi til að ættleiða barn, umsókn um fjárhagsaðstoð frá félagsmálastofnun eða umsókn um fóstureyðingu.
Í athugasemdum segir jafnframt um 2. málsl. 9. gr.:
„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“
Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.
Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við mat á hagsmunum almennings skiptir almennt verulegu máli hvort og þá að hvaða leyti þær upplýsingar sem um ræðir lúta að ákvörðunum um ráðstöfun opinbers fjár og eigna.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir umbeðin gögn, sem ríkisskattstjóri afhenti nefndinni í trúnaði. Hvað varðar gögn um raunverulega eigendur félaganna 365 hf. og Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. verður til þess að líta að umræddir lögaðilar teljast til fjölmiðlaveitu í skilningi 15. tölul. 2. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, samkvæmt e-lið 21. gr. sömu laga skal birta upplýsingar um eignarhald á fjölmiðlaveitu á heimasíðu fjölmiðlanefndar. Var ákvæði þetta sett til þess að tryggja gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum.
Gengið er út frá því í lögum nr. 38/2011 að almenningur hafi ríka hagsmuni af því að geta kynnt sér upplýsingar um raunverulega eigendur fjölmiðlafyrirtækja. Þá er það mat úrskurðarnefndarinnar að upplýsingarnar sem um ræðir í þessu máli veiti ekki slíka innsýn inn í fjárhagsmálefni viðkomandi eigenda að birting þeirra gangi gegn friðhelgi einkalífs þeirra eða valdi tjóni. Er við það mat óhjákvæmilegt að horfa til þess að ákvæði laga nr. 38/2011 gera ráð fyrir að upplýst sé um eignarhald á fjölmiðlaveitu óháð því hversu stór eða lítill eignarhlutur viðkomandi einstaklings eða lögaðila er. Þar af leiðandi er ekki heimilt að undanþiggja upplýsingar um eignarhald félaganna upplýsingarétti á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Þetta á þó ekki við upphæð hlutafjármiða sem afhentir voru fyrirtækjaskrá en úrskurðarnefndin telur þær upplýsingar falla undir 9. gr. upplýsingalaga. Verður því ríkisskattstjóra gert að afmá þær upplýsingar, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Að auki telur nefndin rétt að undanþiggja bréf A lögmanns til B lögmanns, dags. 17. apríl 2014 á sama grundvelli.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur einnig yfirfarið gögn um raunverulega eigendur félaganna ION Finance ehf., Lyfja og heilsu hf., PCC BakkiSilicon hf. og Rhea ehf. Að mati nefndarinnar geta þær upplýsingar um eignarhald félaga sem fyrir liggja í málinu ekki talist til viðkvæmra upplýsinga um einkahagi einstaklinga né mikilvæga virka viðskipta- eða fjárhagshagsmuni lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Hins vegar ber ríkisskattstjóra að afmá upplýsingar um upphæðir hlutafjármiða á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Þá telur úrskurðarnefndin óheimilt, með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, að veita kæranda aðgang að upplýsingum um vegabréfsnúmer sem fram kemur í tilkynningu um raunverulega eigendur félagsins PCC BakkiSilicon hf., dags. 3. mars 2020, og afriti af vegabréfi sem fylgdi sömu tilkynningu, en þær upplýsingar varða einkahagsmuni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari í skilningi 9. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarorð
Ríkisskattstjóra er skylt að veita kæranda, Ríkisútvarpinu ohf., aðgang að gögnum fyrirtækjaskrár um raunverulegt eignarhald félaganna 365 hf., Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., ION Finance ehf., Lyfja og heilsu hf., PCC BakkiSilicon hf. og Rhea ehf. Þó skal afmá upplýsingar um upphæðir á hlutafjármiðum.Þá skal afmá upplýsingar um vegabréfsnúmer sem fram kemur í tilkynningu um raunverulega eigendur félagsins PCC BakkiSilicon hf., dags. 3. mars 2020, og afrit af vegabréfi sem fylgdi sömu tilkynningu.
Að auki er ríkisskattstjóra óheimilt að veita kæranda aðgang að bréfi A lögmanns til B lögmanns, dags. 17. apríl 2014.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir