Hoppa yfir valmynd

936/2020. Úrskurður frá 20. október 2020

Úrskurður

Hinn 20. október 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 936/2020 í máli ÚNU 20080002.

Kæra og málsatvik

Í janúar 2020 óskaði A eftir því við utanríkisráðuneytið að honum yrðu afhent afrit af gögnum í málum sem varða borgaraþjónustu og heimferðaraðstoð við hann og son hans. Með erindi, dags. 13. mars 2020, var kærandi upplýstur um að unnið væri að því að taka saman gögn málsins. Þann 28. maí 2020 gerði kærandi athugasemd við að honum hefðu enn ekki borist gögnin. Í svari ráðuneytisins, dags. sama dag, segir að afgreiðsla málsins hafi dregist verulega þar sem starfsemi ráðuneytisins hafi breyst þegar Covid-19 faraldurinn stóð sem hæst. Starfsmenn hafi sinnt öðrum verkefnum á neyðarvöktum alla daga frá því neyðarstigi hafi verið lýst yfir á Íslandi þann 6. mars 2020 en á þeim tíma hafi ráðuneytinu borist ríflega 400 erindi á dag.

Þann 23. júní 2020 kærði kærandi töf utanríkisráðuneytisins á afgreiðslu beiðninnar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál en kæran var kynnt ráðuneytinu þann 25. júní 2020. Ráðuneytið upplýsti um að tafir yrðu á afgreiðslu málsins vegna sumarleyfa starfsfólks en þann 24. júlí 2020 barst úrskurðarnefndinni staðfesting á því að gagnabeiðni kæranda hefði verið afgreidd. Samkvæmt skýringum ráðuneytisins voru kæranda afhent öll gögn í borgaraþjónustumáli hans, samtals 285 skannaðar blaðsíður, auk vinnuskjals sem sýndi tímalínu atvika í málinu. Tekið var fram að engin gögn hefðu verið þess eðlis, að mati ráðuneytisins, að ekki hefði verið talið rétt að afhenda þau málsaðila. Í kjölfarið felldi úrskurðarnefnd um upplýsingamál niður kærumálið.

Með erindi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. ágúst 2020, kærði kærandi afgreiðslu utanríkisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum. Í kæru kemur fram að utanríkisráðuneytið hafi ekki afhent kæranda öll málsgögn heldur synjað honum um aðgang að gögnum sem varða samskipti íslenska sendiráðsins í Kína og kambódískra yfirvalda. Í kæru segir að íslenska sendiráðið hafi sent tvo tölvupósta til kambódískra yfirvalda, dags. 9. og 10. desember 2019, vegna sonar kæranda. Kærandi telji önnur gögn vegna þessa, en þau sem hafi verið afhent, vera fyrirliggjandi. Í þeim gögnum sem hann hafi fengið afhent hafi ekki verið að finna svör frá Kambódíu við þessum erindum sendiráðsins.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt utanríkisráðuneytinu með bréfi, dags. 7. ágúst 2020, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn utanríkisráðuneytisins, dags. 11. ágúst 2020, segir að ráðuneytið hafi afhent kæranda öll gögn málanna UTN20010176 og PEK19020004 sem varði borgaraþjónustu og heimferðaraðstoð við kæranda og barn hans. Með umsögninni fylgdu gögn málsins og tímalína sem sýnir málsatvik. Fram kemur að kærandi hafi sótt gögnin til ráðuneytisins þann 27. júlí 2020. Þá er tekið fram að málsnúmer UTN20010472 sem vísað sé til í tímalínu, hafi verið stofnað til utanumhalds kröfu kæranda um gagnaafhendingu, en ekki verið notað heldur hafi verið gengið frá afhendingu gagnanna á upprunalegu málsnúmeri, UTN20010176. Varðandi kvörtun kæranda yfir afhendingu gagna séu „note verbale“ og tölvupóstar frá sendiráðinu í Peking til kambódískra yfirvalda hluti þeirra gagna sem kæranda hafi verið afhent þann 27. júlí. Engin svör hafi hins vegar borist frá kambódískum stjórnvöldum við þeim erindum.

Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 19. ágúst 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum, dags. sama dag, mótmælir kærandi því að hafa fengið öll gögn málsins. Þá segir hann að gögn sem sýni fram á ákveðin atriði séu ekki á meðal þeirra gagna sem hann hafi fengið afhent. Í því samhengi nefnir kærandi m.a. hvaðan upplýsingar um að sonur kæranda hafi verið sóttur til stjúpmóður sinnar og færður til íslensks ræðismanns hafi komið, hvaðan fullyrðing Barnaverndarstofu um að sonur kæranda hafi verið vanræktur komi. Einnig hvaðan þær upplýsingar komi að kærandi geti ekki farið til Taílands vegna vandamála þar. Svona megi endalaust telja upp að gögn sannarlega vanti. Að lokum krefst kærandi þess að fá öll gögn málsins en hann telji utanríkisráðuneytið hylma yfir margítrekuð lögbrot gegn kæranda og syni hans í málinu.

Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu utanríkisráðuneytisins á beiðni kæranda um öll gögn varðandi borgaraþjónustumál sitt en af hálfu ráðuneytisins hefur komið fram að kæranda hafi þegar verið afhent öll gögn sem fyrir liggi hjá ráðuneytinu og að ekki hafi verið talin ástæða til þess að synja kæranda um nein gögn.

Af 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er.

Úrskurðarnefndin hefur fengið afrit af þeim gögnum sem kæranda voru afhent ásamt tímalínu sem skýrir atvik málsins. Í ljósi þeirra gagna og skýringa utanríkisráðuneytisins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að öll fyrirliggjandi gögn sem varða mál kæranda hafi þegar verið afhent honum. Þannig er ekki um að ræða ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 4. ágúst 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta