945/2020. Úrskurður frá 23. nóvember 2020
Úrskurður
Hinn 23. nóvember 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 945/2020 í máli ÚNU 20080003.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 6. ágúst 2020, kærði A afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni hans um aðgang að gögnum.Þann 7. mars 2019 óskaði kærandi eftir upplýsingum um hver hefði tilkynnt um búsetu hans erlendis til Tryggingastofnunar. Í svari stofnunarinnar, dags. 14. mars 2019, segir að kærandi hafi komið upp á eftirlitslista þar sem hann hafi skráð sig inn á „mínar síður“ Tryggingastofnunar erlendis frá. Stofnuninni hefði ekki borist ábending um búsetu kæranda heldur hafi málið komið upp við „innanhússvinnslu“.
Í kæru segir að skýringar Tryggingastofnunar séu lygi vegna þess að stofnunin hafi áður sagt að kærandi hafi komið upp á eftirlitslista og að hann hafi verið erlendis síðustu 8-9 ár. Ábendingin hafi líklega borist Tryggingastofnun frá systur kæranda í desember 2016.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 3. september 2020, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.Í umsögn stofnunarinnar, dags. 1. október 2020, segir að ekki hafi borist nein tilkynning vegna búsetu kæranda til stofnunarinnar heldur hafi verið um innanhússvinnslu hjá eftirliti Tryggingastofnunar að ræða sem hafi uppgötvað misræmi í búsetu hjá kæranda.
Tryggingastofnun sé falið að annast greiðslur almannatrygginga samkvæmt lögum nr. 100/2007 svo og lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Stofnunin hafi auk þess eftirlitsskyldu með því að réttar bætur séu greiddar, sbr. 45. gr. sömu laga. Til þess að stofnuninni sé mögulegt að gegna hlutverki sínu sé stofnuninni nauðsynlegt að hafa aðgang að tilteknum upplýsingum. Umsækjanda og bótaþega sé einnig skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta auk þess sem stofnunin hafi víðtækar heimildir til að afla upplýsinga frá öðrum aðilum sbr. 43. gr. almannatryggingalaganna. Þá segi í 2. mgr. 45. gr. sömu laga að heimilt sé að endurskoða bótarétt hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Þrátt fyrir þær víðtæku heimildir sem stofnunin hafi í krafti upplýsinga- og eftirlitsheimilda sinna þá sé meðalhófs gætt við alla öflun upplýsinga og ekki óskað eftir meiri upplýsingum en nauðsynlegar séu.
Í almannatryggingalögum sé einnig gerð krafa um að Tryggingastofnun sinni virku eftirliti með greiðslum og greiði eingöngu bætur til þeirra sem uppfylli skilyrði laganna um rétt til greiðslu bóta hverju sinni. Stofnunin greiði gríðarlega fjármuni af almannafé í formi bóta og annarra greiðslna, sem nemi tæplega 20% af fjárlögum hvers árs. Það sé því réttmæt krafa löggjafans að markvissu eftirliti sé beitt. Benda megi á að eftirlitskafli almannatryggingalaganna hafi verið styrktur enn frekar með lögum nr. 8/2014, en þar sé m.a. fjallað um heimild og skyldu stofnunarinnar til öflunar upplýsinga vegna eftirlits.
Varðandi þær upplýsingar sem kærandi óski eftir sé einfaldlega ekki hægt að afhenda gögn í formi tilkynningar sem stofnunin hafi ekki fengið. Það hafi einungis verið virkt eftirlit stofnunarinnar sem hafi leitt í ljós að búseta kæranda væri ekki rétt skráð en ekki tilkynning frá fjölskyldumeðlimi, líkt og kærandi haldi fram, sem leitt hafi til þessarar niðurstöðu í málum kæranda. Að því sögðu vilji stofnunin óska eftir því að málinu verði vísað frá nefndinni þar ómöguleiki valdi því að ekki sé hægt að verða við beiðni kæranda um gögn hjá stofnuninni þar sem þau séu ekki og hafi aldrei verið til.
Umsögn Tryggingastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 2. október 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.
Í athugasemdum kæranda, dags. 2. október 2020, segir að í upphafi málsins, þann 4. janúar 2017, hafi Tryggingastofnun sent kæranda tölvupóst þar sem tilkynnt hafi verið að við venjulegt eftirlit hafi komið í ljós að kærandi væri erlendis og hefði verið það síðustu 8-9 ár. Sú setning staðfesti grun kæranda um að stofnunin hafi fengið þessa vitneskju frá systur kæranda, líklega fyrir jólin 2016, þar sem tilkynnt hafi verið að kærandi byggi erlendis og hversu lengi hann hefði gert það. Tryggingastofnun hafi alltaf mótmælt þessu enda fari stofnunin gegn dómi frá Hæstarétti Íslands um að ólöglegt sé að nota tilkynningarhnapp stofnunarinnar. Tryggingastofnun hafi í staðinn viðurkennt að hafa brotið persónuverndarlög með því að hafa skoðað IP-tölu kæranda. Persónuvernd hafi úrskurðað að það sé ólöglegt með úrskurði nr. 1718/2018.
Niðurstaða
Í málinu er deilt um afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni um upplýsingar um ábendingu til stofnunarinnar vegna búsetu kæranda erlendis.Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál samkvæmt 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. Fyrir liggur að kæra þessi barst um það bil einu og hálfu ári eftir að kæranda var tilkynnt um afgreiðslu beiðninnar.
Í 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að vísa skuli kæru frá sem borist hafi að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Ekki verður séð að Tryggingastofnun hafi veitt kæranda leiðbeiningar um kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, líkt og mælt er fyrir um að skuli veita í 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki rétt að vísa kærunni frá þótt hún hafi borist eftir að kærufrestur rann út.
Af 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er.
Í svari Tryggingastofnunar við beiðni kæranda og í umsögn stofnunarinnar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að engin ábending sé fyrirliggjandi í málinu enda hafi stofnunin nálgast upplýsingar um búsetu kæranda með eigin eftirliti stofnunarinnar, sem nánar er lýst í umsögninni. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til þess að rengja fullyrðingar Tryggingastofnunar um að ekki liggi fyrir ábending um búsetu kæranda. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 6. ágúst 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir