960/2020. Úrskurður frá 17. desember 2020
Úrskurður
Hinn 17. desember 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 960/2020 í máli ÚNU 20090030.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 28. september 2020, kærði A blaðamaður, ákvörðun hjúkrunarheimilisins Skjóls, dags. 23. september 2020, um synjun beiðni um aðgang að gögnum.Með upphaflegri gagnabeiðni kæranda, dags. 3. september 2020, var óskað eftir því að hjúkrunarheimilið Skjól veitti aðgang að gögnum í fjórum tölusettum liðum:
1. Nafnhreinsaðri atvikaskrá Skjóls.
2. Gögnum um launakjör æðstu stjórnenda Skjóls, þ.m.t. Sigurðar Rúnar Sigurjónssonar, forstjóra, Kristínar Högnadóttur, Stellu K. Víðisdóttur, Sigurbjörns Björnssonar og Guðnýjar H. Guðmundsdóttur.
3. Gögnum um föst launakjör deildarstjóra Skjóls, þ.m.t. Unnar Berglindar Friðriksdóttur, Önnu Bjargar Arnljótsdóttur og Katarzyna Anna Kaczmar.
4. Gögnum um áherslur og kröfur um árangur í starfi æðstu stjórnenda sem fram koma í ráðningarsamningi eða öðrum gögnum og upplýsingar um menntun þeirra.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram um fyrsta lið beiðninnar að samkvæmt gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 takmarki sértæk þagnarskylduákvæði laga rétt til aðgangs samkvæmt lögunum. Í 12. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 komi fram að starfsmaður í heilbrigðisþjónustu skuli gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þagnarskyldan haldist þó að sjúklingur andist og þó að starfsmaður láti af störfum. Í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 sé hugtakið sjúkraskrárupplýsingar skilgreint sem „Lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, þ.m.t. röntgenmyndir, línurit og mynd- og hljóðupptökur sem innihalda upplýsingar er varða heilsufar sjúklings og meðferð hans hjá heilbrigðisstarfsmanni eða heilbrigðisstofnun og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar.“ Í 5. tölul. ákvæðisins er hugtakið sjúkraskrá skilgreint sem safn sjúkraskrárupplýsinga. Almennt orðuð og rúm skilgreining á hugtakinu sjúkraskrá leiði til þess að skýra verði hugtakið rúmt.
Að teknu tilliti til þessa sé litið svo á að þau gögn sem kærandi óskar eftir aðgangi að teljist til sjúkraskrárgagna enda sé atvikaskráning hluti af sjúkraskráningu heilbrigðisstofnana. Um rétt til aðgangs að þeim fari því samkvæmt lögum um sjúkraskrár. Í 12. gr. lagannakomi fram að aðgangur að sjúkraskrám sé óheimill nema samkvæmt ákvæðum laganna eða annarra laga. Ekki hafi verið sýnt fram á að lög heimili aðgang að umbeðnum gögnum.
Jafnvel þótt nöfn væru afmáð úr skýrslum telur Skjól að um sjúkraskrárgögn sé að ræða í framangreindum skilningi. Við það megi bæta að gögn geti verið persónugreinanleg jafnvel þótt nöfn hafi verið afmáð úr þeim en einstaklingur teljist persónugreinanlegur ef unnt sé að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenni hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
Í atvikaskrá megi finna fjölmarga þætti, þ. á m. viðkvæmar upplýsingar, sem einkenni hlutaðeigandi og sé miðlun slíkra upplýsinga óheimil nema eitt af ákvæðum 9. og 11. gr. persónuverndarlaga séu uppfyllt. Ekki hafi verið sýnt fram á slíka heimild í því tilviki sem hér um ræðir. Í þessu samhengi megi einnig benda á að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga sé óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi til laganna segi að erfitt sé að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem rétt sé að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga séu þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Hins vegar sé engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu allar undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt 9. gr. laganna.
Um 2. tölulið beiðni kæranda segir í hinni kærðu ákvörðun að ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga hafi almennt verið túlkað á þann veg að það nái einungis til æðstu stjórnenda, þ.e. forstöðumanna ríkisstofnana, ráðuneytisstjóra ráðuneyta o.frv. Ekki verði því séð að hægt væri að reyna að byggja á því ákvæði varðandi launakjör annarra starfsmanna en forstjóra Skjóls, Sigurðar Rúnars Sigurjónssonar. Verði því beiðni um upplýsingar um launakjör annarra starfsmanna Skjóls svarað sem hluta af 3. tölulið beiðni kæranda.
Varðandi beiðni um afhendingu upplýsinga um launakjör forstjóra er því hafnað af hálfu Skjóls að félaginu sé skylt að afhenda slík gögn á grundvelli upplýsingalaga. Skjól sé sjálfseignarstofnun og falli ekki undir gildissvið upplýsingalaga skv. 2. gr. laganna, enda sé Skjól ekki stjórnvald og ekki að neinu leyti í eigu ríkisins. Upplýsingalögin geti hins vegar gilt um starfsemi Skjóls á grundvelli 3. gr. laganna. Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga sé tilgreind sú meginregla persónuverndar að almennt séu samningar milli vinnuveitanda og starfsmanns hans undanþegnir upplýsingarétti almennings. Sú regla sé enn fremur áréttuð í 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga þar sem gögn sem tengjast málefnum starfsmanna séu undanþegin upplýsingarétti almennings á grundvelli laganna. Þá komi fram í 9. gr. laganna að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í frumvarpi sem varð að lögunum komi m.a. fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhagsmálefni einstaklinga. Þannig sé t.d. almennt óheimilt að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild. Þessi ákvæði séu í samræmi við meginreglur persónuverndar og almennar reglur um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga sem mælt sé fyrir um í 9. gr. laga nr. 90/2018. Meginreglan sé þannig sú að gögn sem tengjast málefnum starfsmanna séu undanþegin upplýsingarétti almennings.
Samkvæmt 2. og 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga sé þó skylt að veita nánar tilgreindar upplýsingar um málefni opinberra starfsmanna sem starfa hjá stjórnvöldum og lögaðilum sem falla undir 2. gr. laganna. Upplýsingaskylda um launakjör starfsmanna, skv. 2. og 4. mgr. 7. gr., takmarkist þannig við starfsmenn stjórnvalda og opinberra aðila sem falla undir lögin skv. 2. gr. Sú upplýsingaskylda nái því ekki til einkaaðila sem falla undir lögin á grundvelli 3. gr. laganna, líkt og Skjól. Skjóli sé þar af leiðandi almennt ekki heimilt að afhenda þriðja aðila upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda sinna. Hins vegar bendir Skjól á að í ársreikningum þess komi fram upplýsingar um heildarlaun forstjóra og stjórnarmanna. Þessar upplýsingar séu opinberar upplýsingar og kæranda bent á hvar þær megi finna.
Varðandi föst launakjör annarra starfsmanna, þ.e. 3. tölulið beiðni kæranda, er beiðninni hafnað með vísan til þess að undantekningar 3. og 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nái ekki til starfsmanna Skjóls. Hið sama á að mati heimilisins við um 4. tölulið beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um áherslur og kröfur um árangur í starfi æðstu stjórnenda. Hins vegar sé talsvert af þeim gögnum þegar opinber og er kæranda bent á kröfulýsingu velferðarráðuneytisins fyrir hjúkrunar- og dvalarrými frá september 2016. Menntun æðstu stjórnenda á Skjóli sé í samræmi við þær kröfur.
Í kæru kemur fram að kærandi fallist ekki á það með hjúkrunarheimilinu Skjóli að atvikaskrá falli undir sjúkraskrá. Það geti ekki staðist enda séu ítarlegar upplýsingar unnar upp úr þeim gögnum af embætti Landlæknis til opinberrar birtingar á hverju ári, sem og í hluta- og aðalúttektum embættisins á heilbrigðisstofnunum. Atvikaskráin, nafnhreinsuð, sé mikilvægur hlekkur í umfjöllun kæranda um bágar aðstæður á hjúkrunarheimilinu. Um 2.-3. tölulið beiðninnar fellst kærandi ekki á þá skýringu að sjálfseignarstofnunin Skjól falli ekki undir stjórnsýslulög, enda sé stofnunin rekin fyrir opinbert fé, undir opinberri kröfugerð, undir opinberu eftirliti og í opinberum erindagjörðum. Auk þess séu stofnaðilar hennar að hluta opinberir aðilar, svo sem Þjóðkirkjan og Reykjavíkurborg. Kærandi fellst hins vegar á rök heimilisins varðandi fjórða tölulið beiðninnar.
Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 28. september 2020, var hjúkrunarheimilinu Skjóli kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana, jafnframt því sem óskað var eftir afritum af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 23. október 2020. Þar kemur fram að Skjól byggi á því að vísa beri beiðni kæranda um aðgang að nafnhreinsaðri atvikaskrá heimilisins frá þar sem umbeðið gagn sé ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Atvikaskráningin sé hluti af sjúkraskrárupplýsingum einstaklinga og í sjúkraskrárkerfinu Sögu sé ákveðin atvikaskráningareining. Hægt sé að taka út eigin skýrslur um tiltekið atvik og einnig sé hægt að senda atvikaskráningar beint í miðlægan grunn embættis Landlæknis. Að taka saman slíkar atvikaskráningar sé þó alltaf sérvinnsla sem Skjóli sé ekki skylt að leggja í, sbr. 5. gr. upplýsingalaga.Þá byggir hjúkrunarheimilið á því að vísa beri beiðninni frá þar sem um sé að ræða sjúkraskrárgögn, líkt og í hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt 9. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 beri heilbrigðisstofnunum, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu að halda skrá um óvænt atvik í þeim tilgangi að finna skýringar á þeim og leita leiða til að tryggja að þau endurtaki sig ekki. Með óvæntu atviki sé átt við óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni. Atvik þessi séu tilkynningaskyld til embættis landlæknis samkvæmt 10. gr. laganna. Í tilkynningu til landlæknis komi fram ítarlegar upplýsingar um sjúklinginn og hið óvænta atvik. Í tilkynningu eigi jafnframt að fylgja afrit af allri sjúkraskráningu um atvikið. Atvikaskráning feli því í sér ítarlega sjúkraskráningu um meðferð sjúklings og atvik sem henni tengjast. Megi því ætla að atvikaskráning gæti verið persónugreinanleg, jafnvel þótt nöfn sjúklinga séu afmáð úr henni. Með vísan til skilgreiningar laga á hugtakinu sjúkraskrárupplýsingar verði ekki annað séð en að atvikaskráning falli þar undir.
Skjól hafnar röksemdum kæranda sem lúta að því að ítarlegar upplýsingar séu unnar upp úr atvikaskráningu. Embætti Landlæknis hafi eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum og sé embættinu því heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar og lyfjanotkun einstaklinga. Það sé því skýr lagaheimild fyrir afhendingu á þeim sjúkraskrárupplýsingum sem atvikaskráning felur í sér til embættisins en sama gildi ekki um afhendingu slíkra gagna til fjölmiðla eða almennings samkvæmt upplýsingalögum.
Hjúkrunarheimilið Skjól byggir jafnframt á því að vísa eigi beiðni kæranda að þessu leyti frá þar sem hún sé ekki nægilega vel afmörkuð, sbr. 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, og þar sem of tímafrekt og viðamikið verkefni fælist í því að afgreiða hana, sbr. 1. tölul. 4. mgr. ákvæðisins. Væntanlega yrði að yfirfara öll sjúkragögn stofnunarinnar sem tók til starfa árið 1987.
Um 2. og 3. tölul. beiðni kæranda eru í umsögn Skjóls að mestu endurteknar þær röksemdir sem er að finna í hinni kærðu ákvörðun. Þá er bent á að það sé vel þekkt lögskýringarregla að undantekningar skuli skýrðar þröngt. Þar sem 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga feli í sér undantekningu á þeirri meginreglu persónuréttar að launaupplýsingar einstaklinga séu trúnaðarmál verði að skýra hugtakið „opinbera starfsmenn“ í 2. mgr. 7. gr. þröngt. Starfsmenn Skjóls séu ekki opinberir starfsmenn. Loks beri að hafa til hliðsjónar að nýleg persónuverndarlöggjöf geri miklar kröfur til skýrleika lagaheimilda til vinnslu persónuupplýsinga. Kærði byggi á að 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga sé ekki fullnægjandi lagaheimild til öflunar og dreifingar persónuupplýsinga um starfsmenn Skjóls.
Með erindi, dags. 26. október 2020, var kæranda kynnt umsögn hjúkrunarheimilisins Skjóls og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
Niðurstaða
1.Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður á fjölmiðli, til aðgangs að gögnum í vörslum hjúkrunarheimilisins Skjóls. Annars vegar er um að ræða svokallaða atvikaskrá heimilisins en hins vegar gögn sem hafa að geyma upplýsingar um tiltekna starfsmenn þess.
Um atvikaskrá heilbrigðisstofnana er fjallað í 9. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Þar kemur fram að heilbrigðisstofnanir, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem veita heilbrigðisþjónustu skulu halda skrá um óvænt atvik í þeim tilgangi að finna skýringar á þeim og leita leiða til að tryggja að þau endurtaki sig ekki. Með óvæntu atviki er átt við óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni. Óvæntu atvikin skulu tilkynnt Landlækni án tafar auk þess sem upplýsa skal sjúkling um þau og nánustu aðstandendur þegar það á við. Ljóst er að hjúkrunarheimilið Skjól telst heilbrigðisstofnun í skilningi laga, sbr. 4. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, og er því skylt að færa atvikaskrá samkvæmt lögum nr. 41/2007. Jafnframt er ljóst að upplýsingalög taka samkvæmt 3. gr. laganna til þess hluta heimilisins sem felst í veitingu heilbrigðisþjónustu á grundvelli laga nr. 40/2007 og telst færsla atvikaskrár ótvírætt liður í því hlutverki heimilisins.
Samkvæmt gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga takmarka sérstök þagnarskylduákvæði laga rétt til aðgangs samkvæmt lögunum. Í 12. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 kemur fram að aðgangur að sjúkraskrám sé óheimill nema til hans standi lagaheimild samkvæmt ákvæðum laganna eða öðrum lögum. Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 607/2016 frá 18. janúar 2016 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að synjun á aðgangi að slíkum gögnum verði ekki borin undir úrskurðarnefndina þegar um sé að ræða aðstandanda látins sjúklings, sbr. einnig úrskurð nr. 932/2020 frá 20. október 2020 sem fjallaði um rétt sjúklings til aðgangs að gögnum úr eigin sjúkraskrá.
Í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. gildandi laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 er hugtakið sjúkraskrárupplýsingar skilgreint sem „Lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, þ.m.t. röntgentmyndir, línurit og mynd- og hljóðupptökur sem innihalda upplýsingar er varða heilsufar sjúklings og meðferð hans hjá heilbrigðisstarfsmanni eða heilbrigðisstofnun og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar.“ Í 5. tölul. ákvæðisins er hugtakið sjúkraskrá skilgreint sem safn sjúkraskrárupplýsinga. Með hliðsjón af þessari víðu skilgreiningu á hugtakinu sjúkraskrá telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál engum vafa undirorpið að atvikaskrá heilbrigðisstofnunar hafi eingöngu eða nær eingöngu að geyma upplýsingar sem teljist til sjúkraskrárupplýsinga. Er þar með ljóst að um rétt sjúklings og aðstandenda til aðgangs að henni fer samkvæmt sérákvæðum laga um sjúkraskrár nr. 55/2009. Verður ákvörðun um synjun slíkrar beiðni um aðgang að upplýsingum því ekki borin undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál heldur er mælt fyrir um sérstaka kæruheimild í 15. gr. a laganna til embættis Landlæknis, sbr. einnig 4. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.
Hið sama gildir þó ekki um rétt annarra en sjúklings og aðstandenda til aðgangs að sjúkraskrá hans, enda er engum sérákvæðum um þann rétt fyrir að fara í lögum nr. 55/2009. Með hliðsjón af 12. gr. laganna er slíkur aðgangur að meginstefnu óheimill, nema til hans standi lagaheimild samkvæmt ákvæðum laganna eða öðrum lögum. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál fela upplýsingalög í sér slíka lagaheimild í 1. mgr. 5. gr. laganna, að teknu tilliti til takmörkunarákvæða 6.-10. gr. laganna, en auk þess má benda á rétt almennings til aðgangs að upplýsingum úr sjúkraskrám samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014, sbr. t.d. 3. mgr. 26. gr. þeirra laga. Er þannig ljóst að um rétt annarra en sjúklings og aðstandenda hans til aðgangs að upplýsingum úr sjúkraskrá hans fer samkvæmt almennum ákvæðum upplýsingalaga og laga um opinber skjalasöfn og er kæru í málinu réttilega beint til úrskurðarnefndar um upplýsingamál að þessu leyti.
2.
Fallast má á með hjúkrunarheimilinu Skjóli að atvikaskrá hljóti að mestu að geyma upplýsingar sem háðar eru takmörkun 9. gr. upplýsingalaga, en samkvæmt 1. málsl. ákvæðisins er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum er tekið fram að það sé engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu allar undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt ákvæðinu, þar á meðal upplýsingar um heilsuhagi. Í tilefni af röksemdum sem fram koma af hálfu hjúkrunarheimilisins Skjóls er þó ástæða til að árétta að lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 takmarka ekki ein og sér þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er hins vegar ekki unnt að útiloka fyrir fram að unnt sé að afhenda kæranda einhverjar upplýsingar úr skránni, eftir atvikum með því að afmá nöfn og fleiri upplýsingar. Úrskurðarnefndin telur eins og lagaskilum er hér háttað að ekki sé annað tækt en að gera þá kröfu til stjórnvalda að taka upplýsingabeiðnir annarra en sjúklinga og aðstandenda þeirra til meðferðar á grundvelli upplýsingalaga.
Af framangreindu er ljóst að við meðferð beiðni kæranda um aðgang að atvikaskrá hjúkrunarheimilisins Skjóls bar því að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna, þ.m.t. 9. gr. Það var ekki gert heldur látið duga að synja beiðninni á þeirri röngu forsendu að sú staðreynd að um sé að ræða sjúkraskrárupplýsingar komi ein og sér í veg fyrir aðgang kæranda að þeim.
Ekki er unnt að fallast á það með hjúkrunarheimilinu að atvikaskráin teljist ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga enda hefur komið fram að Skjóli sé hæglega unnt að nálgast upplýsingar úr henni, þar með talið með því að sækja upplýsingar um einstök atvik. Við slíkar aðstæður getur ekki talist vera um sérvinnslu að ræða eða að meðferð beiðni krefjist þess að ný gögn séu útbúin. Þá er beiðni kæranda augljóslega afmörkuð með nægilega skýrum hætti til að unnt sé án verulegrar fyrirhafnar að afmarka hana við tiltekin gögn í vörslum hjúkrunarheimilisins Skjóls í skilningi 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, enda er ljóst af umsögn heimilisins um kæruna að enginn vafi sé um það hvaða gögn kærandi óskar aðgangs að eða hvar megi nálgast þau. Loks hefur heimilið ekki rökstutt með fullnægjandi hætti að meðferð beiðninnar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teljist af þeim sökum fært að verða við henni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Af hálfu heimilisins hefur það eitt komið fram að skráin nái aftur til ársins 1987 en ekki er ljóst hve umfangsmikil skráin er eða hversu mikinn tíma taki að yfirfara upplýsingar úr henni með hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga. Í því sambandi áréttar úrskurðarnefndin að ákvæði 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga felur í sér þrönga undantekningarreglu frá lögbundnum upplýsingarétti almennings og krefst beiting hennar að sýnt sé fram á að meðferð beiðni myndi leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum aðila til að sinna öðrum hlutverkum sínum.
Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur beiðni kæranda um aðgang að nafnhreinsaðri atvikaskrá hjúkrunarheimilisins Skjóls ekki hlotið þá meðferð sem upplýsingalög gera kröfu um. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati úrskurðarnefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella ákvörðun heimilisins úr gildi og vísa beiðninni aftur til þess til nýrrar og lögmætrar meðferðar.
3.
Ágreiningsefni málsins lýtur að öðru leyti að rétti kæranda til aðgangs að gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um launakjör tiltekinna starfsmanna hjúkrunarheimilisins Skjóls auk gagna um áherslur og kröfur um árangur í starfi æðstu stjórnenda sem fram koma í ráðningarsamningi eða öðrum gögnum og upplýsingar um menntun þeirra. Í þessu sambandi er áréttað að upplýsingalög taka skv. 3. gr. einungis til heimilisins að því leyti sem því hefur verið falið að taka stjórnvaldsákvarðanir eða sinna þjónustu sem kveðið er á um í lögum að stjórnvald skuli sinna eða telst að öðru leyti liður í opinberu hlutverki stjórnvalds. Launakjör og launagreiðslur heimilisins til starfsmanna sinna teljast ekki til slíkrar starfsemi og verður réttur til aðgangs að upplýsingum um þessi efni því ekki byggður á upplýsingalögum. Hið sama gildir um upplýsingar um áherslur og kröfur um árangur í starfi æðstu stjórnenda sem fram koma í ráðningarsamningi eða öðrum gögnum og upplýsingar um menntun þeirra. Bresta því skilyrði fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál til að taka málið til meðferðar að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, og verður kæru hvað það varðar vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Ákvörðun hjúkrunarheimilisins Skjóls, dags. 23. september 2020, um synjun beiðni A um aðgang að nafnhreinsaðri atvikaskrá hjúkrunarheimilisins er felld úr gildi og lagt fyrir heimilið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.
Kærunni er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Símon Sigvaldason Sigurveig Jónsdóttir