Hoppa yfir valmynd

955/2020. Úrskurður frá 30. nóvember 2020

Úrskurður

Hinn 30. nóvember 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð
nr. 955/2020 í máli ÚNU 20080023.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 25. ágúst 2020, kærði A afgreiðslu Herjólfs ohf., dags. 19. ágúst 2020, á beiðni um upplýsingar um útboðsferli, ákvörðun og rök félagsins fyrir töku tilboðs vegna raforkukaupa. Í svari Herjólfs er vísað til þess að í fundargerð 33. fundar félagsins frá 7. janúar 2020, þar sem endanleg afgreiðsla á töku tilboðs hafi verið afgreidd, komi m.a. fram að Ríkiskaup hafi annast útboðsferlið. Tvö tilboð hafi borist og hafi það verið ákvörðun stjórnar að taka tilboði frá lægstbjóðanda. Í kæru er vísað til þess að í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 920/2020, sé það haft eftir Herjólfi að það sé sjálfsagt að upplýsa um útboðsferlið, ákvörðun og rök félagsins fyrir töku tilboðs. Kærandi vilji að kveðið verði á um það í úrskurði að Herjólfur standi við þau orð sín.

Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita Herjólfi ohf. kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu eða afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni um upplýsingar um útboðsferli, ákvörðun og rök félagsins fyrir töku tilboðs vegna raforkukaupa. Í svari Herjólfs til kæranda er vísað til þess að umbeðnar upplýsingar sé að finna í fundargerð 33. fundar félagsins frá 7. janúar 2020. Þá er kærandi upplýstur um að tvö tilboð hafi borist og hafi það verið ákvörðun stjórnar að taka tilboði frá lægstbjóðanda. Með vísan til framangreinds og fyrri samskipta Herjólfs og kæranda telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál Herjólf hafa svarað kæranda með fullnægjandi hætti og vísað kæranda á hvar umbeðnar upplýsingar er að finna. Þá er kæranda bent á að af upplýsingalögum verður ekki leidd skylda þeirra sem undir lögin falla til að svara almennum fyrirspurnum sem hafa ekki tengsl við gögn. Þar sem ekki liggur fyrir synjun beiðni um aðgang að gögnum sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga verður kærunni vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 25. ágúst 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta