959/2020. Úrskurður frá 30. nóvember 2020
Úrskurður
Hinn 30. nóvember 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 959/2020 í máli ÚNU 20080018.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 26. ágúst 2020, kærði A synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum.Með tölvubréfi til dómsmálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 2020, óskaði kærandi eftir aðgangi að skýrslum hæfnisnefnda sem mátu hæfni umsækjenda um embætti ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Austurlandi sem dómsmálaráðherra skipaði nýlega. Í beiðninni kom fram að ef ráðuneytið teldi gögnin undanþegin upplýsingarétti myndi kæranda nægja að fá þau afhent með útstrikunum persónuupplýsinga og persónugreinanlegra upplýsinga.
Með tölvubréfi, dags. 26. ágúst 2020 synjaði dómsmálaráðuneytið beiðni kæranda með vísan til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá var ekki fallist á að heimilt væri að veita aðgang að umbeðnum gögnum með útstrikunum.
Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 27. ágúst 2020, var kæran kynnt dómsmálaráðuneytinu og því veittur frestur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni.Í umsögn dómsmálaráðuneytisins sem barst með bréfi, dags. 1. september 2020, kemur m.a. fram að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga segi að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfi hjá aðilum sem falli undir lögin taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf. Það sé afstaða dómsmálaráðuneytisins, m.a. með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 755/2018 að skýrslur hæfnisnefnda af þeim toga sem beiðni kæranda lýtur að teljist undanþegnar upplýsingarétti almennings. Þá taldi ráðuneytið engar undantekningar vera þar á og synjaði því jafnframt að afhenda skýrslurnar eftir að búið væri að afmá persónuupplýsingar og persónugreinanlegar upplýsingar.
Með tölvupósti, dags. 10. september 2020 var kæranda veitt færi á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnar ráðuneytisins. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti, dags. 11. september 2020. Þar kemur fram að hann geti fallist á þá afstöðu ráðuneytisins að ekki sé tilefni til að veita fullan aðgang að umbeðnum gögnum en telji enn að hann eigi rétt á takmörkuðum aðgangi.
Niðurstaða
Í máli þessu reynir á rétt almennings til aðgangs að álitsgerð hæfnisnefnda sem mátu hæfni umsækjenda um embætti ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Austurlandi sem dómsmálaráðherra skipaði nýlega.Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga segir, að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfi hjá aðilum sem falli undir lögin taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.
Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að gildandi upplýsingalögum segir m.a. um 1. mgr. 7. gr.:
„Með ákvæði 1. mgr. umræddrar frumvarpsgreinar er í fyrsta lagi lagt til að áfram verði fylgt þeirri stefnu [...] að öll gögn máls um ráðningu, skipun eða setningu í opinbert starf verði undanþegin aðgangi almennings. Meðal gagna í slíkum málum eru umsóknir, einkunnir, meðmæli og umsagnir um umsækjendur [...].“
Í 2. mgr. 7. gr. laganna eru gerðar nokkrar undantekningar á framangreindri takmörkun á upplýsingarétti og m.a. kveðið á um að veita skuli upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf þegar umsóknarfrestur er liðinn.
Engum vafa er undirorpið að umræddar álitsgerðir sem unnar voru af hæfnisnefndum sem ráðherra skipaði í tengslum við undirbúning umræddra skipana og fengið var það hlutverk að meta hæfni umsækjenda falla undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, enda fela álitsgerðirnar í sér umsögn um umsækjendur. Teljast þær því undanþegnar upplýsingarétti almennings. Verður synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni kæranda því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, dags. 26. ágúst 2020, um að synja kæranda, A, um aðgang að skýrslum hæfnisnefnda sem mátu hæfni umsækjenda um embætti ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Austurlandi er staðfest.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir