986/2021. Úrskurður frá 17. mars 2021.
Úrskurður
Hinn 17. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurðnr. 986/2021 í máli ÚNU 20100005.
Kæra og málsatvik
Með kæru, dags. 2. október 2020, kærði A afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á beiðni hans um aðgang að gögnum vegna meints hraðaksturs á tiltekinni lögreglubifreið sem hann ók árið 2017.Kærandi sendi lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu erindi, dags. 20. ágúst 2019, þar sem fram kom að honum hefði borist til eyrna að lögð hefði verið fram kvörtun vegna aksturslags hans í gegnum samfélagsmiðilinn facebook. Með erindinu óskaði kærandi eftir öllum gögnum málsins, þ.e. kvörtuninni sem barst gegnum facebook, skjáskoti sem tekið var úr ferilvöktun lögreglu, öllum þeim tölvubréfum sem urðu til vegna málsins og bréfi sem sýni lokaafgreiðslu málsins. Kærandi ítrekaði beiðni sína með bréfi, dags. 22 október 2019.
Í kæru kemur fram að enn hafi engin svör borist og kærandi telji afgreiðslu lögreglustjóra brjóta gegn 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 með því að upplýsa ekki innan ákveðins frests um hvort orðið yrði við beiðninni. Þar sem erindinu hafi ekki verið svarað þá sé það mat kæranda að orðið hafi óhæfilegur dráttur á afgreiðslu beiðni hans um aðgang að þeim gögnum sem hann óskaði eftir hjá lögreglunni.
Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 6. október 2020, sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæruna til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og veitti embættinu frest til 14. október 2020 til að afgreiða beiðnina. Úrskurðarnefndin ítrekaði framangreint erindi þrívegis með erindum, dags. 12. nóvember 2020, 10. desember 2020 og 21. janúar 2021.Með bréfi, dags. 26. janúar 2021, barst svar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kom að erindi kæranda hefði verið afgreitt með bréfi, dags. 22. janúar 2021, sem var meðfylgjandi bréfi lögreglustjórans til úrskurðarnefndarinnar. Með framangreindu bréfi, dags. 22. janúar 2021, var kæranda veittur aðgangur að fyrirliggjandi gögnum í málinu.
Með bréfi, dags. 4. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir staðfestingu kæranda á því að honum hefðu verið afhent þau gögn sem beiðni hans laut að og honum tilkynnt um að fyrirhugað væri að fella mál hans niður að fenginni staðfestingu hans. Í svari kæranda, dags 7. mars 2021, kom fram að kærandi gæti staðfest að hluti þeirra gagna sem óskað var eftir hefði borist honum en ekki öll gögn málsins líkt og fram hefði komið í bréfi lögreglustjóra. Af þeim sökum fór kærandi fram á að mál hans yrði tekið til úrskurðar um hvort lögreglustjóra væri skylt að afhenda öll gögn sem óskað var eftir.
Í ljósi framangreindrar afstöðu kæranda ritaði úrskurðarnefndin lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu bréf, dags 15. mars 2021, þar sem þess var óskað að nefndin yrði upplýst um hvort öll fyrirliggjandi gögn sem féllu undir beiðni kæranda um upplýsingar hefðu verið afhent. Svar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu barst með bréfi, dags. 16. mars 2021, þar sem fram kom að embættið hefði afhent kæranda þau gögn sem lægju fyrir. Málið varðandi meintan hraðakstur hafi verið afgreitt af yfirmanni kæranda sem tók ákvörðun um að aðhafast ekkert vegna tilkynningarinnar. Tilkynningin hefði ekki verið skráð í skjalastjórnunarkerfi eða önnur kerfi sem hefðbundið starfsmannamál. Það hafi ekki verið fyrr en kærandi sjálfur sendi inn erindi til Persónuverndar að málið hefði verið skráð og afgreitt á þeim grundvelli. Ekki væri um að ræða að embættið hafnaði að afhenda frekari gögn í málinu eins og kærandi héldi fram. Gögn þau sem kærandi óskaði eftir að fá afhent væru ekki til.
Niðurstaða
Í málinu er deilt um afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um aðgang að öllum gögnum vegna meints hraðaksturs á tiltekinni lögreglubifreið árið 2017. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu heldur því fram að öll fyrirliggjandi gögn hafi verið afhent og þau gögn sem kærandi óski eftir séu ekki til hjá embættinu.Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.
Í viðbótarumsögn lögreglustjóra, dags. 16. mars 2021, segir að öll gögn sem tengjast málinu hafi verið afhent kæranda og þau gögn sem hann óski eftir séu ekki til hjá embættinu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til þess að rengja þær staðhæfingar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Loks er það afstaða úrskurðarnefndarinnar að meðferð lögreglustjóra á beiðni kæranda hafi ekki verið í samræmi við málshraðareglu 17. gr. upplýsingalaga. Þannig liðu alls fimm mánuðir frá því að beiðni barst embættinu og þar til henni var svarað án þess að kæranda hefði verið skýrt frá ástæðum tafa eða hvenær ákvörðunar væri að vænta eins og áskilið er í 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin beinir því til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að afgreiða framvegis beiðnir um upplýsingar í samræmi við þær kröfur sem leiða af 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 2. október 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir