1001/2021. Úrskurður frá 28. apríl 2021.
Úrskurður
Hinn 28. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurðnr. 1001/2021 í máli ÚNU 20120015.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 12. desember 2020, kærði A afgreiðslu Menntamálastofnunar á beiðni hans um aðgang að upplýsingum.Með erindi, dags. 10. desember 2020, óskaði kærandi eftir upplýsingum um forsendur ráðningar nafngreinds starfsmanns Menntamálastofnunar. Menntamálastofnun svaraði erindinu með tölvupósti, dags. 11. desember 2020, þar sem fram kom að umræddur starfsmaður hefði verið ráðinn á grundvelli auglýsingar um laust starf sviðsstjóra miðlunarsviðs. Með vísan til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga tæki upplýsingaréttur almennings ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.
Í kæru kemur fram að kvartað sé yfir því að ekki sé unnt að fá svör frá Menntamálastofnun varðandi ráðningu starfsmanns. Upphaflega hafi kærandi leitað til mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem hafi vísað til þess að ráðuneytið fari ekki með starfsmannamál Menntamálastofnunar heldur beri forstjóri stofnunarinnar ábyrgð á þeim. Af þeim sökum fór kærandi fram á umræddar upplýsingar hjá Menntamálastofnun. Í kæru kemur fram að kærandi hafi áður leitað til umboðsmanns Alþingis vegna afgreiðslu Menntamálastofnunar á beiðni kæranda um upplýsingar. Í bréfi umboðsmanns hafi komið fram að ef kærandi teldi að Menntamálastofnun hefði synjað beiðni hans um upplýsingar gæti hann freistað þess að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. upplýsingalaga.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Menntamálastofnun með bréfi, dags. 19. desember 2020, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar. Umsögn Menntamálastofnunar barst með tölvubréfi, dags. 3. febrúar 2021. Í umsögninni kemur fram að beiðni kæranda um upplýsingar varðandi forsendur ráðningar nafngreinds starfsmanns hafi verið svarað með tölvupósti dags. 11. desember 2020 þar sem fram kom að umræddur starfsmaður hafi verið ráðinn á grundvelli auglýsingar um laust starf. Það sé afstaða Menntamálastofnunar að þar með sé búið að veita þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir af hálfu kæranda. Þá segir í umsögninni að starf miðlunarstjóra miðlunarsviðs stofnunarinnar hafi verið auglýst laust til umsóknar í samræmi við 7. gr. laga nr. 70/1996 og reglur nr. 1000/2019, um auglýsingar á lausum störfum. Umræddur starfsmaður hafi verið metinn hæfastur umsækjenda úr hópi 15 umsækjenda. Í umsögninni er einnig vísað til þess sem fram kom í svari Menntamálastofnunar um að upplýsingaréttur almennings nái ekki til gagna í málum sem varði umsóknir, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Meðfylgjandi umsögninni voru hlekkir annars vegar á frétt á vefsíðu Menntamálastofnunar þar sem tilkynnt var um ráðningu í starfið og hins vegar á auglýsingu um umrætt starf sem birt var m.a. á vef Fréttablaðsins.Umsögn Menntamálastofnunar var send kæranda með bréfi, dags. 16. apríl 2021, og honum veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 19. apríl 2021. Í athugasemdum kæranda kemur fram að með umsögninni sé einungis vísað til auglýsingar um starfið þar sem fram komi verkefni og ábyrgð ásamt menntunar- og hæfniskröfum er varða starfið og fréttatilkynningar um þann sem ráðinn var. Beiðnin kæranda hafi hins vegar byggst á því að fá upplýsingar um forsendur ráðningar viðkomandi einstaklings en ekki verði séð að þeirri spurningu hafi verið svarað.
Niðurstaða
1.Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Menntamálastofnunar á beiðni kæranda um forsendur ráðningar nafngreinds starfsmanns Menntamálastofnunar.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er þeim sem falla undir lögin skylt að veita almenningi, sé þess óskað, aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr laganna.
Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga segir orðrétt:
„Réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.“
Í athugasemdum við ákvæði 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur meðal annars fram eftirfarandi:
„Ákvæði 7. gr. frumvarpsins er þannig upp byggt að í 1. mgr. er lögð til sú meginregla að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki almennt ekki til upplýsinga um þau málefni starfsmanna þeirra aðila sem falla undir ákvæði frumvarpsins, sbr. 2. gr., sem lúta að umsóknum um störf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2. mgr. eru síðan ákveðnar og skýrt afmarkaðar undanþágur frá þessari reglu vegna starfsmanna stjórnvalda, í 3. mgr. er heimild vegna upplýsinga um viðurlög sem æðstu stjórnendur hafa sætt, en í 4. mgr. eru undanþágur frá þessari reglu vegna starfsmanna einkaréttarlegra lögaðila í opinberri eigu, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Með þessu móti er fært að taka skýra afstöðu til þess hvaða upplýsingar um málefni starfsmanna lúti ákvæðum upplýsingalaga um aðgangsrétt og hverjar ekki.“
Þá segir enn fremur:
„Með ákvæði 1. mgr. umræddrar frumvarpsgreinar er í fyrsta lagi lagt til að áfram verði fylgt þeirri stefnu sem mörkuð var með 4. tölul. 4. gr. gildandi laga að öll gögn máls um ráðningu, skipun eða setningu í opinbert starf verði undanþegin aðgangi almennings. Meðal gagna í slíkum málum eru umsóknir, einkunnir, meðmæli og umsagnir um umsækjendur, eins og nánar er rakið í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum sem nú eru í gildi. Hér búa einkum að baki þeir hagsmunir hins opinbera að geta átt kost á hæfum umsækjendum um opinbert starf. Óheftur aðgangur almennings að gögnum um umsækjendur geti hamlað því að hæfir einstaklingar sæki um opinber störf ef hætta væri á að upplýsingar um persónuleg málefni þeirra yrðu gerð opinber. Til þess að mæta sjónarmiðum um opna stjórnsýslu og stuðla að opinni umræðu um stöðuveitingar hjá opinberum aðilum er hins vegar lagt til að áfram verði skylt að veita upplýsingar um umsækjendur eftir að umsóknarfrestur er liðinn, sbr. 1. tölul. 2. mgr. ákvæðisins.“
Af framangreindu er ljóst að upplýsingar í tengslum við ráðningu, skipun eða setningu í opinbert starf verða felldar undir ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Hér undir falla þannig allar upplýsingar og gögn sem verða til í ráðningarferlinu m.a. um hvernig samanburði á umsóknum og mati á umsækjendum var háttað. Beiðni kæranda til Menntamálastofnunar snýr að því að fá upplýsingar um forsendur ráðningar tiltekins starfsmanns til viðbótar við þær upplýsingar sem hann hefur þegar fengið, þ.e. um auglýsingu starfsins. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður beiðnin ekki skilin öðruvísi en að hún lúti að upplýsingum um ákvörðun Menntamálastofnun um ráðningu starfsmanns og undanþegnar eru aðgangi á grundvelli 4. tölul. 6. gr., sbr. 7. gr. upplýsingalaga. Menntamálastofnun var því heimilt að synja beiðni kæranda um upplýsingar um forsendur ráðningar nafngreinds starfsmanns Menntamálastofnunar.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun Menntamálastofnunar, dags. 11. desember 2020, um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um á hvaða forsendum nafngreindur starfsmaður Menntamálastofnunar var ráðinn.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir