1018/2021. Úrskurður frá 14. júní 2021.
Úrskurður
Hinn 14. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1018/2021 í máli ÚNU 21050012.Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 14. maí 2021, kærði A, lögmaður, f.h. B, tafir á afgreiðslu Kópavogsbæjar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum.Með erindi, dags. 31. mars 2021, óskaði lögmaður kæranda eftir upplýsingum og gögnum í tengslum við ráðningu Kópavogsbæjar í starf deildarstjóra launadeildar og mannauðsstjóra Kópavogsbæjar. Kærandi ítrekaði beiðnina 6., 16. og 20. apríl 2021. Kópavogsbær svaraði beiðninni 20. apríl 2021 og upplýsti að verið væri að taka saman umbeðin gögn og þess væri að vænta að þeirri vinnu myndi ljúka í lok vikunnar. Umbeðin gögn höfðu hins vegar ekki borist þegar málið var kært.
Með bréfi, dags. 18. maí 2021, var kæran kynnt Kópavogsbæ. Í svari sveitarfélagsins, dags. 26. maí 2021, var upplýst um að beiðni kæranda um gögn tengdist ráðningu í tvö störf hjá sveitarfélaginu en kærandi var á meðal umsækjenda um störfin. Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga.
Niðurstaða
Í máli þessu eru kærðar þær tafir sem orðið hafa á afgreiðslu Kópavogsbæjar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem varða ráðningu í stöðu deildarstjóra launadeildar og mannauðsstjóra hjá Kópavogsbæ en kærandi var meðal umsækjenda um starfið. Ráðning í opinbert starf er ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslu¬laga, sbr. athugasemdir við greinina í frumvarpi því sem varð að lögunum. Er kærandi því aðili stjórnsýslumáls um ráðninguna í skilningi stjórnsýslulaga.Um aðgang aðila stjórnsýslumáls að upplýsingum sem tengjast málinu gildir meginregla 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varði. Takmarkanir á þeim rétti eru í 15.–17. gr. sömu laga. Upp¬lýsinga¬réttur aðila máls samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga er víðtækari en sá réttur sem veittur er með ákvæðum upplýsingalaga.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum sam-kvæmt stjórnsýslulögum. Ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum til¬vikum falla þannig utan gildissviðs upplýsingalaga og á því hin sérstaka heimild 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga til að vísa máli til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þegar beiðni hefur ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga ekki við. Samkvæmt framangreindu fellur kæra þessi utan gildissviðs upplýsingalaga og er því óhjákvæmilegt að vísa henni frá úrskurðar¬nefnd um upp¬lýsingamál.
Úrskurðarorð:
Kæru A, f.h. B, dags. 14. maí 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir