1045/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.
Úrskurður
Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1045/2021 í máli ÚNU 21110005.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 5. nóvember 2021, kærði A afgreiðslu Alþingis á beiðni um aðgang að gögnum.Kæru fylgdi afrit af bréfi skrifstofustjóra Alþingis til kæranda, dags. 4. nóvember 2021, en þar kemur fram að beiðnin varði aðgang að gögnum undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa. Kærandi hafi óskað aðgangs að öllum gögnum nefndarinnar með vísan til þess að þau væru ekki öll aðgengileg á þeirri gagnagátt sem nefndin hafi komið sér upp á vef Alþingis. Þá hafi kærandi óskað eftir því að upptaka af fundi kæranda og annarra með nefndinni yrði gerð opinber á vefsvæði nefndarinnar auk upptaka af öðrum fundum nefndarinnar. Í bréfinu kemur fram að öll gögn nefndarinnar séu birt á vef Alþingis utan tiltekinna gagna sem gerð er nánari grein fyrir. Ekki verði veittur aðgangur að gögnum sem vísað sé til í bréfum lögreglustjórans á Vesturlandi þar sem þau séu merkt trúnaðarmál af hálfu lögreglu og hafi verið afhent nefndinni í trúnaði. Hvað varði upptökur eða uppritun á fundum nefndarinnar er vísað til þess að fundirnir hafi verið lokaðir og uppritun þeirra gerð í þeim tilgangi að þingmenn geti kynnt sér gögn málsins og tekið ákvörðun þegar Alþingi fjallar um gildi kosninganna, sbr. 5. gr. verklagsreglna nefndarinnar. Í þessu ljósi hyggist nefndin ekki veita aðgang að uppritunum eða upptökum frá fundum með gestum. Þá verði einnig að líta til þess að efni uppritananna geti skipt máli fyrir sakamál, sbr. til hliðsjónar 17. gr. stjórnsýslulaga. Loks var kæranda veittur aðgangur að tilteknum skjölum.
Í kæru kemur fram að ákvörðun Alþingis samrýmist augljóslega ekki sjónarmiðum um meðalhófsreglu þar sem um sé að ræða höfnun á að birta upptöku af fundi sem kærandi hafi setið með nefndinni og allir sem mættu til fundarins séu einhuga um að rétt sé að birta. Þar hafi komið fram nýjar upplýsingar sem ekki sé að finna í skriflegum kærum, m.a. vegna þess að brugðist hafi verið við svörum kjörstjórna við kærunum. Almenningur hljóti að eiga ríka hagsmuni af því að geta fylgst með störfum nefndarinnar sem hafi áður lýst því yfir að störf hennar skuli vera gegnsæ. Kærandi fái ekki séð að synjunin samræmist meginreglu um gegnsæja og málefnalega stjórnsýslu eða ákvæðum upplýsingalaga.
Kærandi segir hina kærðu afstöðu hafa veruleg áhrif á andmælarétt sinn. Hún sé sérstaklega alvarleg í ljósi þess að efni nefndarinnar varði ljóslega alla kjósendur á Íslandi. Gagnsæi í störfum nefndarinnar sé mikilvægt til að hægt sé að fylgja kærum eftir efnislega en einnig til að skapa þá ásýnd sem nauðsynleg sé fyrir traust almennings á störfum Alþingis að þessu mikilvæga verkefni.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt skrifstofu Alþingis með erindi, dags. 5. nóvember 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana.Í umsögn Alþingis, dags. 9. nóvember 2021, kemur í upphafi fram að undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa sé sérstök nefnd skipuð þingmönnum sem starfi á grundvelli 3. mgr. 1. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Um störf hennar gildi ákvæði þingskapa og starfsreglur fastanefnda Alþingis, eftir því sem við geti átt og lög heimili, sbr. ákvörðun nefndarinnar frá 6. október 2021, sem og verklagsreglur nefndarinnar sem hún hafi samþykkt þann 8. október 2021. Viðfangsefni nefndarinnar sé að undirbúa þá rannsókn kjörbréfa sem fram fari á þingsetningarfundi og sé því liður í störfum þingsins. Um aðgang að gögnum nefndarinnar fari eftir því sem nánar sé ákveðið í þingsköpum og verklagsreglum nefndarinnar.
Í umsögninni kemur enn fremur fram að Alþingi sé einn þriggja arma ríkisvaldsins í skilningi 2. mgr. stjórnarskrárinnar. Að því marki sem hlutverk eða störf Alþingis séu ekki útfærð í stjórnarskrá útfæri Alþingi sjálft störf sín með þingsköpum, sbr. 58. gr. stjórnarskrár. Með breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með lögum nr. 72/2019 hafi Alþingi markað sér þá stefnu að um stjórnsýslu Alþingis fari eftir upplýsingalögum. Í lögum um þingsköp Alþingis sé jafnframt kveðið á um að um aðgang að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis fari samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 1. mgr. 93. gr. laganna. Í 2. mgr. greinarinnar séu ákvæði um nánari útfærslu þeirrar reglu og sé m.a. vísað til reglna sem forsætisnefnd setji. Í 2. gr. upplýsingalaga komi fram að ákvæði V.-VII. kaflar laganna taki ekki til Alþingis. Með vísan til þessa þyki ljóst að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ekki það hlutverk að lögum að taka til meðferðar kærur er lúta að synjun Alþingis um afhendingu gagna eða upplýsinga. Til þess beri einnig að líta að Alþingi skipuleggi störf sín sjálft og það sé ekki meðal hlutverka framkvæmdarvaldsins að hafa með beinum hætti eftirlit með störfum þess. Því sé í raun öfugt farið.
Umsögn Alþingis var kynnt kæranda með erindi, dags. 10. nóvember 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, sem bárust þann 11. nóvember 2021, kemur fram að kærandi óski eftir því að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvort rétt sé að mál þetta heyri ekki undir nefndina. Kærandi sé ósammála þeirri lagatúlkun sem fram komi í umsögn Alþingis og telji einstaklega mikilvægt í ljósi sérstöðu þessa máls að fá úr því skorið hver afstaða úrskurðarnefndarinnar sé til þess hvort kæruheimild sé til staðra. Þá telur kærandi sjónarmið í umsögn Alþingis að vissu leyti gagnstæð þeim sem fram komu í hinni kærðu ákvörðun.
Kærandi bendir jafnframt á að beiðnin hafi lotið að því að nefndin geri opinbera á vefsvæði sínu upptöku af fundi með nefndinni sem fram fór að morgni 25. október 2021. Þar hafi mætt fjórir kærendur kosninganna og óumdeilt sé að allir hafi óskað eftir því að upptaka af þessum tiltekna fundi yrði gerð opinber. Það sé því um að ræða gífurlega litla hagsmuni sem ljóst sé að ekki gildi nokkurs konar trúnaður um enda sé ætlunin að nota upptökuna til að sýna öllum þingmönnum hana. Þá hafi nefndarformaður undirbúningskjörbréfanefndar sagt í viðtali að starf nefndarinnar yrði gagnsætt og fundir skyldu vera opnir þegar þess gæfist kostur. Frá þeirri afstöðu hafi ekki verið horfið opinberlega að því er virðist.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Alþingis á beiðni kæranda um að gögn um tiltekinn fund undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa verði gerð aðgengileg á vefnum.Með lögum nr. 72/2019 sem tóku gildi þann 11. júní 2019 var gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012 víkkað út á þann hátt að lögin tækju einnig til stjórnsýslu Alþingis eins og nánar er afmarkað í lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra. Ákvæði V.–VII. kafla upplýsingalaga taka þó ekki til Alþingis eða stofnana þess skv. lokamálslið 4. mgr. 2. gr. laganna. Í þessu felst að ákvörðun um aðgang að gögnum í vörslum Alþingis er ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 20. gr. upplýsingalaga. Sama gildir um ákvörðun Alþingis um synjun beiðni kæranda um að tiltekin gögn verði birt á vefnum en rétt er að taka fram að slíkar ákvarðanir heyra almennt ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar, sbr. til hliðsjónar úrskurð nr. 612/2016 frá 7. mars 2016. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð:
Kæru A, dags. 5. nóvember 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Kjartan Bjarni Björgvinsson
varaformaður
Sigríður Árnadóttir Símon Sigvaldason