Hoppa yfir valmynd

1060/2022. Úrskurður frá 3. febrúar 2022

Hinn 3. febrúar 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1060/2022 í máli ÚNU 21110003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 3. nóvember 2021, kærði A afgreiðslu Vatnajökulsþjóðgarðs á beiðni um aðgang að gögnum.

Hinn 8. september 2021 óskaði kærandi eftir afriti af tilkynningu stofnunarinnar til lögreglu vegna meints utanvegaaksturs í þjóðgarðinum og vísaði í tilkynningu á vefsíðu stofnunarinnar, dags. 6. september 2021, undir fyrirsögninni „Akstursskemmdir í Vonarskarði“. Þegar kæranda hafði ekki borist efnislegt svar frá stofnuninni 3. nóvember 2021 vísaði kærandi málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í kæru vísar kærandi til VII. kafla upplýsingalaga og meginreglu 1. mgr. 4. gr., sbr. 3. gr. Árósasamningsins um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál, sem fullgiltur var af Íslands hálfu 16. september 2011, og til sömu meginreglu í 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2003/4/EB um aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn, XX. viðauka, og er því skuldbindandi fyrir Ísland, sbr. lög nr. 2/1993.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Vatnajökulsþjóðgarði með erindi, dags. 5. nóvember 2021, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að Vatnajökulsþjóðgarður léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Vatnajökulsþjóðgarðs barst úrskurðarnefndinni hinn 16. nóvember 2021. Þar segir að fyrir mistök hafi farist fyrir að svara beiðni kæranda efnislega innan tímamarka og beðist sé velvirðingar á því. Hins vegar telji stofnunin umrædd gögn þess eðlis að synja beri um afhendingu þeirra og byggi það álit á því að samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, hafi þjóðgarðsverðir eftirlit með því að ákvæði laganna, reglugerða og stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn séu virt. Þjóðgarðsverðir annist samskipti við lögreglu og önnur eftirlitsstjórnvöld vegna brota á fyrrnefndum lögum og reglum. Þegar þjóðgarðsvörður tilkynni um brot til lögreglu gildi um meðferð málsins almennar reglur laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og sé forræði málsins og rannsókn á hendi lögreglu, sbr. 2. þátt sakamálalaga. Vatnajökulsþjóðgarður líti svo á að þegar tilkynning hafi verið send lögreglu sé þætti stofnunarinnar í málinu lokið nema lögregla óski eftir frekari aðkomu eða gögnum eða upplýsingum.

Þá kemur fram að þjóðgarðsvörður hafi orðið þess áskynja að skemmdir hafi orðið vegna aksturs utan vega í Vonarskarði. Málið hafi verið tilkynnt og rannsókn málsins sé í höndum lögreglu en Vatnajökulsþjóðgarði ekki kunnugt um stöðu þess. Stofnunin hafi birt frétt um akstursskemmdirnar á vefsíðu sinni þar sem greint hafi verið frá atvikum í almennum orðum. Ítarlegri upplýsingar um vegsummerki komi fram í tilkynningu þjóðgarðsvarðar til lögreglu. Afhending þeirra upplýsinga geti varðað rannsóknarhagsmuni og telji þjóðgarðurinn að lögregla, sem beri ábyrgð á rannsókninni, eigi að taka ákvörðun um hvort þær verði afhentar.

Í umsögn Vatnajökulsþjóðgarðs segir jafnframt, í tilefni af vísun kæranda til ákvæða VII. kafla upplýsingalaga, að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna gildi þau ekki um rannsókn sakamáls né saksókn. Þegar af þeirri ástæðu telji stofnunin að kærandi eigi ekki kröfu á afhendingu gagna á grundvelli upplýsingalaga. Þar sem forræði sakamálsins og rannsóknarinnar sé í höndum lögreglu og afstaða lögreglu til afhendingar liggi ekki fyrir muni Vatnajökulsþjóðgarður því að óbreyttu ekki afhenda kæranda umrædd gögn. Umrædd tilkynning varði meint lögbrot óþekktra aðila sem valdið hafi skemmdum en að mati stofnunarinnar innihaldi tilkynningin og fylgigögn hennar ekki upplýsingar um umhverfismál sem falli undir skilgreiningu 29. gr. upplýsingalaga.

Umsögn Vatnajökulsþjóðgarðs var kynnt kæranda með bréfi, dags. 16. nóvember 2021, og henni veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum er tilgreint að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála.

Kærandi óskaði eftir afriti af tilkynningu Vatnajökulsþjóðgarðs til lögreglunnar á Suðurlandi um akstur utan vega í Vonarskarði, sem er óheimill samkvæmt 15. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007. Tilkynningin, eða skýrslan, greinir þannig frá meintu lögbroti og er hún ótvírætt hluti af rannsókn sakamáls. Aðgangur að henni verður því ekki byggður á ákvæðum upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Synjun á beiðni um aðgang að henni verður þar af leiðandi ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, og verður kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 3. nóvember 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta