Hoppa yfir valmynd

1070/2022. Úrskurður frá 1. mars 2022

Úrskurður

Hinn 1. mars 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1070/2022 í máli ÚNU 21070009.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 14. júlí 2021, kærði A, fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, synjun nefndar um eftirlit með lögreglu (hér eftir einnig NEL), dags. sama dag, á beiðni kæranda um aðgang að 1) ákvörðun NEL nr. 38/2021, dags. 2. júní 2021, um starfshætti starfsmanna lögreglu í Ásmundarsalarmálinu og 2) kvörtun til NEL vegna vinnubragða starfsfólks héraðssaksóknara í Samherjamálinu. Synjunin var á því byggð að hvorki ákvarðanir NEL né kvartanir til nefndarinnar væru afhentar óviðkomandi þriðju aðilum. Nefndin væri bundin þagnarskyldu á grundvelli lögreglulaga.

Kæran var kynnt NEL með erindi, dags. 14. júlí 2021, og nefndinni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að NEL léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn NEL, dags. 29. júlí 2021, er í fyrstu fjallað um nefndina með almennum hætti. Hún starfi á grundvelli VII. kafla lögreglulaga, nr. 90/1996, og verkefni hennar séu m.a. að taka við kvörtunum vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald. Undir það falli kvartanir vegna háttsemi eða starfsaðferða sem ekki verða taldar refsiverðar en gætu m.a. leitt til þess að lögreglumaður yrði áminntur í starfi eða æskilegar breytingar gerðar á starfsháttum og verklagi. Þá sé nefnd um eftirlit með lögreglu bundin þagnarskyldu um þær upplýsingar og gögn sem henni berast, sbr. 7. mgr. 35. gr. a lögreglulaga.

Í samræmi við hlutverk nefndarinnar fái hún gögn sem oft varða sakamál sem ýmist er lokið eða eru enn til rannsóknar. Þá geti ákvarðanir nefndarinnar leitt til þess að starfsmannamál hefjist hjá lögreglu eða héraðssaksóknara eða eftir atvikum rannsókn sakamáls. Gögnin sem nefndin hefur undir höndum séu því í eðli sínu viðkvæm og því hafi nefndin þá reglu að afhenda aðilum máls aðeins þau gögn sem stafa frá nefndinni en ekki gögn sem stafa frá lögreglu. Er aðilum máls því bent á viðkomandi embætti um gögn sem stafa frá embættunum.

Þá hafi nefndin ekki afhent ákvarðanir sínar öðrum en aðilum máls og viðkomandi embætti. Það sé mat nefndarinnar að það sé nánast ómögulegt að gera ákvarðanir þannig úr garði að ekki sé hægt að rekja þær til þeirra aðila sem hlut eiga að máli, hvort sem það er kvartandi eða þeir lögreglumenn sem eiga í hlut. Þá sé algengt að máli sé ekki lokið hjá nefndinni með ákvörðun nefndarinnar, því nefndinni ber samkvæmt lögum að fylgja eftir ákvörðunum til að tryggja að viðkomandi embætti komist að efnislegri niðurstöðu í viðkomandi máli.

Ákvörðun um starfshætti starfsmanna lögreglu í Ásmundarsalarmálinu.

Synjun NEL um aðgang að ákvörðun NEL nr. 38/2021, dags. 2. júní 2021, um starfshætti starfsmanna lögreglu í Ásmundarsalarmálinu styðst við 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, sbr. 7. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 7. gr. komi fram að lögin taki ekki til gagna í málum sem m.a. varða framgang í starfi. Ljóst sé að ef gerðar eru aðfinnslur við störf tiltekinna starfsmanna geti slíkt haft áhrif á framgang í starfi. Því sé NEL heimilt að takmarka aðgang kæranda að ákvörðun nefndarinnar.
Þar að auki telur nefndin rétt að takmarka aðgang almennings að gögnum er varða einkahagsmuni og málefni starfsmanna lögreglu í starfi sérstaklega í þeim tilvikum er háttsemi starfsmannanna sem um ræðir gæti falið í sér ámælisverða háttsemi sem fellur undir ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Nefndin bendir á að meðferð málsins sé hvorki lokið af hálfu lögreglustjóra né af hálfu nefndarinnar. Hafi þriðji aðili fengið afrit af ákvörðun nefndarinnar afhent frá öðrum en nefndinni sjálfri breyti slíkt engu um þá afstöðu nefndarinnar að afhenda ekki gögn öðrum en eingöngu aðilum máls.

Að síðustu bendir nefndin á að í ákvörðuninni komi fram trúnaðarupplýsingar um umrætt lögreglumál sem nefndin er bundin þagnarskyldu um, sbr. 7. mgr. 35. gr. a lögreglulaga.

Kvörtun vegna vinnubragða starfsfólks héraðssaksóknara í Samherjamálinu.

Að því er varðar kvörtun til NEL vegna vinnubragða starfsfólks héraðssaksóknara í Samherjamálinu tengist kvörtunin sakamálarannsókn sem enn sé í gangi. Nefnd um eftirlit með lögreglu er bundin þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 7. mgr. 35. gr. a lögreglulaga. Í ljósi þess sé ekki unnt að verða við beiðni um afhendingu gagnanna, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 42. gr. stjórnsýslulaga.

Fallist úrskurðarnefndin ekki á framangreinda afstöðu NEL, telji nefndin æskilegt að kanna afstöðu þess sem kvörtunin stafar frá til afhendingar gagnanna, þar sem ljóst sé að í gögnunum er að finna upplýsingar um einkamálefni einstaklinga sem kunni að vera sanngjarnt og eðlilegt að leynt fari, sbr. ákvæði 9. gr. upplýsingalaga.

Kæranda var kynnt umsögn NEL með erindi, dags. 8. ágúst 2021. Í athugasemdum kæranda, dags. 17. ágúst sama ár, bendir kærandi á að nefnd um störf dómara birti úrskurði sína reglulega á vef Dómstólasýslunnar. Hið sama eigi að gilda um NEL. Varðandi fullyrðingu í umsögn NEL um að kvörtun vegna vinnubragða starfsfólks héraðssaksóknara í Samherjamálinu tengist sakamálarannsókn sem enn sé í gangi tekur kærandi fram að miðað við yfirlýsingu á vef Samherja tengist kvörtunin afmörkuðum anga af þeirri rannsókn sem leyst hafi verið úr fyrir dómstólum.

Með erindi, dags. 17. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir skýringum frá embætti héraðssaksóknara varðandi kvörtun til NEL vegna vinnubragða starfsfólks héraðssaksóknara í Samherjamálinu. Með erindi, dags. 24. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir skýringum frá ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu varðandi ákvörðun NEL nr. 38/2021. Svör héraðssaksóknara bárust 19. janúar og svör lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu bárust 24. janúar. Þau verða rakin í niðurstöðukafla þessa úrskurðar.

Þá óskaði úrskurðarnefndin með erindi, dags. 24. janúar 2022, eftir afstöðu kvartanda til NEL í Samherjamálinu til afhendingar gagnsins, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Afstaðan hans barst ekki.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að ákvörðun nefndar um eftirlit með lögreglu nr. 38/2021, dags. 2. júní 2021, um starfshætti starfsmanna lögreglu í Ásmundarsalarmálinu, og kvörtun til nefndarinnar vegna vinnubragða starfsfólks héraðssaksóknara í Samherjamálinu, dags. 1. febrúar 2021.

Bæði ákvörðun nr. 38/2021 og kvörtun til NEL tengjast rannsóknum sakamála, annars vegar Ásmundarsalarmálinu og hins vegar Samherjamálinu. Í niðurlagi 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2021, kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála.

Í úrskurðum úrskurðarnefndarinnar hefur nefndin litið svo á að undir ákvæðið falli skjöl og önnur gögn sem séu eða verði að öllum líkindum til skoðunar við rannsókn lögreglu eða annars handhafa ákæruvalds á ætluðum refsiverðum brotum. Þá hefur úrskurðarnefndin áskilið sér rétt til þess að meta það, í ljósi atvika hverju sinni, hvort aðgangur skuli veittur að gögnum á grundvelli upplýsingalaga þótt þau kunni að tengjast rannsókn sakamáls og þá skipti m.a. máli hvort ætla megi að gögnin verði tekin til skoðunar við rannsókn málsins.

Úrskurðarnefndin aflaði upplýsinga frá ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og héraðssaksóknara um tengsl ákvörðunar nr. 38/2021 og kvörtunarinnar til NEL við rannsókn hvors sakamáls um sig. Bæði stjórnvöld fara með ákæruvald skv. 18. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Í svari lögreglunnar kom fram að ákvörðun NEL nr. 38/2021 hefði hvorki verið hluti af gögnum málsins né sakarmati við rannsókn í Ásmundarsalarmálinu. Í svari héraðssaksóknara kom fram að NEL hefði sent embættinu afrit af kvörtuninni og að hún væri vistuð meðal rannsóknargagna málsins af því tilefni. Fylgiskjöl kvörtunarinnar væru gögn úr rannsókn málsins og tölvupóstssamskipti sem tilheyrðu málinu. Í kvörtuninni væru talin upp atriði sem vörðuðu málsmeðferð sakamálsins sem og upplýsingar úr gögnum rannsóknarinnar. Rannsókn málsins væri ekki lokið.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér gögnin sem kæranda var synjað um aðgang að. Það er mat nefndarinnar, m.a. með hliðsjón af svari lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að ákvörðun nr. 38/2021 varði ekki rannsókn eða saksókn sakamáls með þeim hætti að hún skuli undanþegin gildissviði upplýsingalaga á grundvelli 1. mgr. 4. gr. laganna. Um aðgang að henni fer því samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Öðru máli gegnir hins vegar um kvörtun til NEL, dags. 1. febrúar 2021. Með hliðsjón af framangreindum skýringum héraðssaksóknara lítur úrskurðarnefndin svo á að hún varði rannsókn þess máls með þeim hætti að kvörtunin sé undanþegin gildissviði upplýsingalaga. Er því óhjákvæmilegt að vísa þeim hluta kærunnar frá úrskurðarnefndinni.

2.

Synjun NEL á beiðni um ákvörðun nefndarinnar nr. 38/2021 styðst að mestu við 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Í 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga er mælt fyrir um að réttur almennings til aðgangs að gögnum nái ekki til gagna sem tengjast málefnum starfsmanna. Ákvæðið er útfært nánar í 7. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til nái ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglunni um upplýsingarétt almennings sem birtist í 1. mgr. 5. gr. laganna og ber að skýra það þröngri lögskýringu. Við úrlausn málsins reynir á það hvort þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að falli undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga á þeim forsendum að þær varði starfssamband þeirra lögreglumanna sem fjallað er um í ákvörðun NEL „að öðru leyti“.

Í athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur fram eftirfarandi:

„Upplýsingar um hvaða starfsmenn starfa við opinbera þjónustu, hvernig slík störf eru launuð og hvernig þeim er sinnt eru almennt ekki talin að öllu leyti til einkamálefna viðkomandi starfsmanns eða vinnuveitanda hans. Að hluta til kann hér að vera um að ræða mikilvægar upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Því gilda hér að nokkru marki önnur sjónarmið en almennt eiga við í vinnuréttarsambandi á almennum vinnumarkaði. Af þessari ástæðu er ekki óeðlilegt að almenningur eigi rétt á aðgangi að ákveðnum upplýsingum um það hvernig störfum sem stofnað er til í þágu opinbers verkefnis er sinnt, þar á meðal um menntun æðstu stjórnenda og starfsheiti hlutaðeigandi starfsmanna. Á hinn bóginn er viðurkennt að tilteknir hagsmunir stjórnvalda og starfsmanna sem lúta m.a. að því að varðveita traust og trúnað í starfssambandinu geta leitt til þess að réttmætt sé að takmarka þann upplýsingarétt.“

Í athugasemdum við 1. mgr. greinarinnar í frumvarpinu segir enn fremur:

„Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.“

Af framangreindum sjónarmiðum verður að ætla að ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga sé fyrst og fremst að ætlað að takmarka aðgang að gögnum þar sem taka á ákvarðanir um ,,réttindi og skyldur þeirra starfsmanna“ sem í hlut eiga. Við afmörkun þess hvaða ákvarðanir teljast vera ákvarðanir um „réttindi eða skyldur“ þeirra starfsmanna sem í hlut eiga verður í fyrsta lagi að horfa til þeirra ákvarðana í málefnum starfsmanna sem falla undir ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem kveðið er á um að stjórnsýslulögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Að auki taki ákvæðið til ákvarðana sem teknar eru á grundvelli IV. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, jafnvel þótt þær teljist ekki til stjórnvaldsákvarðana og mála sem lúta að aðfinnslum, sbr. framangreindar athugasemdir við 7. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér ákvörðun NEL nr. 38/2021. Meðal hlutverka NEL skv. 35. gr. a lögreglulaga er að taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald. Nefndin skal taka rökstudda afstöðu til hinnar ætluðu aðfinnsluverðu starfsaðferðar eða framkomu og senda viðeigandi embætti kvörtun til frekari meðferðar ef tilefni er til. Nefndin skal fylgjast með meðferð viðkomandi embættis á erindum sem stafa frá henni og embætti sem fá til meðferðar kvartanir sem heyra undir nefndina skulu tilkynna henni um niðurstöður þeirra. Fyrir liggur að NEL taldi tilefni til að senda þátt málsins sem varðaði háttsemi þeirra lögreglumanna sem til umfjöllunar eru í ákvörðun nefndarinnar til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 3. mgr. 35. gr. a lögreglulaga, svo sem einnig hefur verið greint frá í fjölmiðlum.

Í almennum athugasemdum í frumvarpi til laga nr. 62/2016 um breytingar á lögreglulögum, nr. 90/1996, segir að kæra á hendur starfsmanni lögreglu og kvörtun borgara vegna samskipta við lögreglu geti leitt til málsmeðferðar samkvæmt starfsmannalögum. Það sé hins vegar hlutverk lögreglustjóra að fara með yfirstjórn starfsmannamála, hvers í sínu umdæmi. Hið sama eigi við um ríkislögreglustjóra. Það er í samræmi við það sem fram kemur í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins um að ekki sé gert ráð fyrir því að nefndin taki beinan þátt í meðferð máls sem hún beinir annað. Þá sé heldur ekki gert ráð fyrir að hlutaðeigandi embætti sem máli er beint til sé bundið af athugasemdum eða tillögum nefndarinnar.
Að framangreindu virtu er ljóst að NEL tekur sjálf ekki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, ákvarðanir á grundvelli IV. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eða ákvarðanir um aðfinnslur. Ákvörðun nefndarinnar nr. 38/2021 telst því ekki vera gagn í máli sem varðar starfssamband þeirra lögreglumanna sem fjallað er um í ákvörðuninni „að öðru leyti“, sbr. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Verður því ekki með réttu byggt á því ákvæði til stuðnings synjun um aðgang kæranda að ákvörðuninni.

3.

Synjun NEL á beiðni kæranda um aðgang að ákvörðun nefndarinnar nr. 38/2021 er að öðru leyti byggð á því að ákvörðunin innihaldi trúnaðarupplýsingar um viðkomandi lögreglumál sem NEL sé bundin þagnarskyldu um skv. 7. mgr. 35. gr. a lögreglulaga. Þá komi fram í ákvörðuninni upplýsingar um einkahagsmuni þeirra lögreglumanna sem um ræðir að því leyti að háttsemi þeirra í málinu kunni að hafa talist ámælisverð.

Í 7. mgr. 35. gr. a lögreglulaga segir að nefndin sé bundin þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og þagnarskyldu um efni gagna og upplýsinga sem hún fær frá ákæruvalds- og löggæsluembættum á sama hátt og starfsmenn þeirra embætta. Í 4. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, segir eftirfarandi um þagnarskyldu ákærenda, þar á meðal lögreglustjóra:

„Ákærendur eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga. Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga sem varða starfshætti ákæruvalds og lögreglu og fyrirhugaðar aðgerðir í þágu rannsóknar, og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða eðli máls.“

Í athugasemdum við 4. mgr. 18. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er vísað til 22. gr. lögreglulaga, en hið síðarnefnda ákvæði var samhljóða 4. mgr. 18. gr. áður en því var breytt með lögum nr. 71/2019 um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993. Eftir breytinguna er nú hvað varðar þagnarskyldu lögreglumanna í 22. gr. lögreglulaga vísað einungis til X. kafla stjórnsýslulaga. Í athugasemdum við 22. gr. lögreglulaga í frumvarpi því sem varð að lögunum segir um upplýsingar sem varða starfshætti ákæruvalds og lögreglu og fyrirhugaðar aðgerðir í þágu rannsóknar að „mikilvægt [sé] að haldið sé leyndum upplýsingum um vissa þætti í starfsemi lögreglu og um skipulagningu og útfærslu einstakra lögregluaðgerða. Að öðrum kosti [sé] óvíst um árangur af þeim“.

Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem varð að upplýsingalögum.

Úrskurðarnefndin telur að líta beri á 4. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála sem sérstakt ákvæði um þagnarskyldu, að því er varðar upplýsingar um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsingar sem varða starfshætti ákæruvalds og lögreglu og fyrirhugaðar aðgerðir í þágu rannsóknar. Á það við bæði um lögreglustjóra og nefnd um eftirlit með lögreglu, sbr. það sem segir í 7. mgr. 35. gr. a lögreglulaga um að nefndin sé bundin þagnarskyldu um efni gagna og upplýsinga sem hún fær frá ákæruvalds- og löggæsluembættum á sama hátt og starfsmenn þeirra embætta.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér ákvörðun NEL nr. 38/2021 með hliðsjón af því hvort hún innihaldi upplýsingar sem kunni að falla undir þagnarskylduákvæði 7. mgr. 35. gr. a lögreglulaga, sbr. 4. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála. Ákvörðunin inniheldur að miklu leyti umfjöllun um verklag lögreglunnar í samskiptum við fjölmiðla og hvort miðlun upplýsinga í þessu tiltekna máli hafi verið í ósamræmi við það verklag, í ljósi þess að fjölmiðlum reyndist unnt að persónugreina einstakling sem tilgreindur var í dagbókarfærslu lögreglunnar sem afhent var fjölmiðlum. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé unnt að heimfæra þær upplýsingar undir þagnarskylduákvæði 7. mgr. 35. gr. a lögreglulaga, enda ekki hægt að líta svo á að um sé að ræða upplýsingar um starfshætti lögreglu eða fyrirhugaðar aðgerðir í þágu rannsóknar, sem mikilvægt er að sé haldið leyndum.

Nefnd um eftirlit með lögreglu telur einnig að ákvörðunin innihaldi upplýsingar um einkahagsmuni þeirra lögreglumanna sem um ræðir. Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að háttsemi þeirra „geti talist ámælisverð“, svo sem segir í ákvörðuninni. Úrskurðarnefndin telur að upplýsingarnar séu ekki þess efnis að þær falli undir þagnarskylduákvæði 7. mgr. 35. gr. a lögreglulaga, sbr. 4. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála, eigi við. Er þá m.a. til þess að líta að NEL slær því ekki föstu að háttsemin hafi verið ámælisverð. Þá telur úrskurðarnefndin að upplýsingar af þessu tagi séu þess eðlis að almenningur hafi hagsmuni af því að geta kynnt sér þær. Einnig verður að líta til 2. mgr. 41. gr. stjórnsýslulaga, sem NEL er óumdeilanlega bundin af, en þar segir að undir þagnarskyldu falli ekki upplýsingar um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda. Loks má líta til athugasemda við 9. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, þar sem segir að við mat á því hvort upplýsingar varði einkahagsmuni einstaklings þurfi að líta til þess hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna. Úrskurðarnefndin telur viðkomandi upplýsingar ekki svo viðkvæmar að það réttlæti að takmarkaður sé aðgangur að þeim.

Þá telur úrskurðarnefndin að ekki sé að finna í ákvörðun NEL nr. 38/2021 aðrar upplýsingar sem heimilt eða skylt sé að takmarka aðgang að á grundvelli upplýsingalaga. Verður því NEL gert að afhenda kæranda ákvörðunina.


Úrskurðarorð

Ákvörðun nefndar um eftirlit með lögreglu, dags. 14. júlí 2021, að synja A um aðgang að ákvörðun nefndarinnar nr. 38/2021, dags. 2. júní 2021, er felld úr gildi og lagt fyrir nefndina að veita A aðgang að ákvörðuninni.

Að öðru leyti er kæru, dags. 14. júlí 2021, vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigurveig Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta