1072/2022. Úrskurður frá 1. mars 2022
Úrskurður
Hinn 1. mars 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1072/2022 í máli ÚNU 22020007.Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 16. febrúar 2022, kærði A tafir á afgreiðslu sveitarfélagsins Rangárþings eystra á beiðni um rökstuðning og gögn máls í tengslum við ráðningu í starf hjá VISS, vinnu- og hæfingarstöð, á Hvolsvelli. Kærandi var meðal umsækjenda um starfið.
Eins og mál þetta er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að kynna kæruna Rangárþingi eystra og veita sveitarfélaginu kost á að koma á framfæri umsögn um hana, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Þá er óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga.
Niðurstaða
Fyrir liggur að kærandi var meðal umsækjenda um starf hjá VISS, vinnu- og hæfingarstöð, á Hvolsvelli. VISS starfar m.a. á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, auk tengdra reglugerða. Ráðning í opinbert starf er ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. athugasemdir við greinina í frumvarpi því sem varð að lögunum. Er kærandi því aðili stjórnsýslumáls um ráðninguna í skilningi stjórnsýslulaga.
Um aðgang aðila stjórnsýslumáls að upplýsingum sem tengjast málinu gildir meginregla 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varði. Takmarkanir á þeim rétti eru í 15.–17. gr. sömu laga. Upplýsingaréttur aðila máls samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga er víðtækari en sá réttur sem veittur er með ákvæðum upplýsingalaga.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum tilvikum falla þannig utan gildissviðs upplýsingalaga. Samkvæmt framangreindu fellur kæra þessi utan gildissviðs upplýsingalaga og er því óhjákvæmilegt að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 16. febrúar 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir