1078/2022. Úrskurður frá 1. júní 2022
Hinn 1. júní 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1078/2022 í máli ÚNU 21080017.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 26. ágúst 2021, kærði A lögmaður, f.h. Hópbifreiða Kynnisferða ehf., synjun Isavia ohf. á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Hinn 9. júlí 2021 óskaði kærandi eftir aðgangi að eftirfarandi gögnum:
Gögn og skjöl sem sýna fram á hvað Allrahanda GL ehf. og Hópbílar hf. greiddu til Isavia ohf. í gjöld vegna afnota af svonefndum nær- og fjarstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á tímabilinu 1. mars 2019 til 30. desember 2020, t.d. reikninga, greiðslukvittanir, bankayfirlit eða innheimtubréf.
Í svari Isavia, dags. 29. júlí 2021, kom fram að þar sem beiðni kæranda beindist að hagsmunum þriðja aðila hefði verið óskað eftir afstöðu þeirra til afhendingar gagnanna. Báðir aðilar hefðu lagst gegn afhendingu þar sem gögnin innihéldu upplýsingar um viðskiptahagsmuni þeirra. Því væri beiðninni hafnað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
Í svari kæranda við synjun Isavia, dags. 4. ágúst 2021, gerði hann athugasemd við að Isavia hefði ekki framkvæmt sjálfstætt mat á því hvort afhenda bæri gögnin eða hvers vegna 9. gr. upplýsingalaga girti fyrir aðgang. Óheimilt væri að byggja synjunina einungis á afstöðu ætlaðra hagsmunaaðila. Vísaði kærandi jafnframt til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 857/2019, þar sem Isavia hefði verið gert að afhenda fyllilega sambærileg gögn og í máli þessu.
Isavia brást við erindi kæranda hinn 6. ágúst 2021. Kom þar fram að það væri afstaða Isavia að gögnin hefðu að geyma upplýsingar sem vörðuðu mikilvæga virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni samkeppnisaðila á markaði fyrir hópbílaakstur við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og markaði fyrir farþegaflutninga milli flugstöðvarinnar og höfuðborgarsvæðisins, sem féllu undir 9. gr. upplýsingalaga. Gögnin veittu upplýsingar um rekstrar- og samkeppnisstöðu þeirra aðila sem þar væru til umfjöllunar, sem samkeppnisaðilar hefðu að jafnaði ekki undir höndum í samkeppni og sem gætu skipt máli í ákvarðanatöku um daglegan rekstur og viðskipti.
Isavia mótmælti því að um sambærilega beiðni væri að ræða og í úrskurði nr. 857/2019. Þau fyrirtæki sem upplýsingarnar vörðuðu í því máli hefðu ekki sett sig upp á móti því að upplýsingarnar yrðu veittar. Þá skipti það máli að mati Isavia að í því máli hefði blaðamaður óskað eftir upplýsingum en ekki samkeppnisaðili.
Loks bar Isavia því einnig við að félagið gæti orðið brotlegt við 10. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, með því að afhenda umbeðin gögn. Í beiðninni fælist víðtæk krafa um afhendingu gagna og upplýsinga sem verða til í rekstri samkeppnisaðila sem starfa á sama markaði. Yrði fallist á beiðnina fengi kærandi upplýsingar um rekstrarkostnað og gjöld samkeppnisaðila sem hann hefði við eðlilegar aðstæður á markaði ekki aðgang að. Þá benti Isavia á að Samkeppniseftirlitið hefði talið að vísbendingar gætu verið um að móttaka eða miðlun sambærilegra gagna gætu falið í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga eða að háttsemin gæti a.m.k. raskað samkeppni.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar er forsaga málsins rakin. Isavia sé opinbert hlutafélag sem er að fullu í eigu íslenska ríkisins. Félagið reki bæði Keflavíkurflugvöll sem og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ótvírætt sé að Isavia sé í einokunarstöðu í rekstri flugvalla sem þjóna millilandaflugi á Íslandi. Isavia hafi af þeirri ástæðu yfir að ráða ómissandi aðstöðu í formi bílastæða, sölubása og annars konar innviða sem nauðsynlegir eru fyrir þjónustu hópferðafyrirtækja sem keppa á markaði fyrir farþegaflutninga milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins.
Kærandi sé hópferðafyrirtæki sem rekur meðal annars Flugrútuna (Flybus), sem býður áætlunarferðir milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins. Kærandi hafi um nokkurt skeið deilt við Isavia um fyrirkomulag gjaldtöku fyrir hópferðabíla við flugstöðina. Ágreiningurinn snúist í stuttu máli um það hvort Isavia hafi mismunað rekstraraðilum hópbifreiða sem starfrækja farþegaflutninga á milli flugstöðvarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Hin ætlaða mismunun snúist meðal annars um fyrirkomulag gjaldtöku Isavia á bifreiðastæðum fyrir hópferðabíla við flugstöðina. Kærandi telji sig hafa vísbendingar um að þau fyrirtæki sem upplýsingabeiðnin varðar hafi fyrir tilstuðlan Isavia ekki greitt gjöld að fullu fyrir notkun umræddra stæða.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar segir að það sé mat kæranda að þær upplýsingar sem óskað er eftir varði ekki svo mikilvæga og virka hagsmuni þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga að það réttlæti frávik frá meginreglu um upplýsingarétt almennings. Umbeðin gögn varði gjaldtöku á bílastæðum fyrirtækis sem sé að fullu í eigu íslenska ríkisins og þar að auki í einokunarstöðu. Hvorki verði séð að upplýsingar um slíka gjaldtöku geti talist varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni né heldur að þær veiti upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu umræddra fyrirtækja.
Almenningur hafi hagsmuni af því að starfsemi Isavia hafi hagkvæmni að leiðarljósi. Ef í ljós komi að einkaaðilar sem eiga í viðskiptum við Isavia hafi notið sérkjara sem voru ekki í boði fyrir aðra, svo sem kæranda, megi ætla að þar fari óvönduð meðhöndlun á almannafé sem jafnvel kunni að stangast á við lög.
Einnig telur kærandi að líta verði til þess að krafa hans lúti að fortíðarupplýsingum, þ.e. upplýsingum vegna tímabils sem er liðið, og í öllu falli ljóst að ekki sé um virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni að ræða, eins og áskilið er í 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga.
Kærandi mótmælir því að úrskurður nr. 857/2019 sé frábrugðinn þessu máli. Í því máli hafi fyrirtækin sem upplýsingarnar vörðuðu lagt það í hendur úrskurðarnefndarinnar að leggja mat á hvort þær væru undirorpnar 9. gr. upplýsingalaga. Þá skipti það ekki máli að blaðamaður hafi óskað eftir gögnunum í því máli, þar sem beiðni kæranda í þessu máli sé líkt og í eldra málinu byggð á 5. gr. upplýsingalaga.
Í kæru er athygli vakin á því að ýmsar viðskiptaupplýsingar um hópferðafyrirtæki sem aka til og frá Keflavíkurflugvelli séu þegar opinberar, t.d. upplýsingar um fjölda farþega í hópferðabílum eftir mánuðum árið 2016, upplýsingar um hvað Hópbílar sem og kærandi buðu í útboði um aðstöðu hópferðabifreiða á Keflavíkurflugvelli í maí 2017, og gjaldskrá Isavia á svonefndum fjarstæðum.
Þá hafnar kærandi því að 10. gr. samkeppnislaga eða 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga eigi að koma í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnunum. Ljóst sé að rekstur Isavia á þeim bílastæðum sem um ræðir sé ekki samkeppnisrekstur, þó svo að samkeppni ríki um akstur farþega á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins. Þvert á móti lúti reksturinn einokunarstöðu Isavia. Hvað varði upplýsingar um lögaðila sem eigi í viðskiptum við opinbera aðila í slíkri einokunarstöðu verði þeir að þola að tilteknar fjárhagsupplýsingar sem varpa ljósi á viðskipti þeirra við hið opinbera verði gerðar opinberar. Að framangreindu virtu sé Isavia ekki heimilt að undanþiggja upplýsingarnar aðgangi á grundvelli samkeppnissjónarmiða.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Isavia með erindi, dags. 26. ágúst 2021, og félaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Isavia léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
Umsögn Isavia barst úrskurðarnefndinni hinn 9. september 2021. Í umsögninni kemur fram að það sé ígrundað mat félagsins að gögnin innihaldi upplýsingar sem varði mikilvæga og virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni samkeppnisaðila á markaði fyrir hópbílaakstur við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á markaði fyrir farþegaflutninga milli flugstöðvarinnar og höfuðborgarsvæðisins sem falli undir undanþáguákvæði upplýsingalaga.
Gögnin veiti mikilvægar upplýsingar um rekstrar- og kostnaðarforsendur þeirra aðila sem upplýsingarnar varða, geti veitt upplýsingar um einingaverð og skipti miklu máli fyrir samkeppnisstöðu þessara aðila. Um sé að ræða upplýsingar sem samkeppnisaðilar hafi að jafnaði ekki undir höndum í samkeppni og geti skipt verulegu máli í ákvarðanatöku um daglegan rekstur og viðskipti. Þá hafi bæði félögin sem upplýsingarnar varða lagst gegn því að kæranda verði veittur aðgangur að gögnunum. Fái kærandi aðgang að umræddum upplýsingum sé einsýnt að tjón hljótist af enda sé kærandi í þeirri stöðu að nýta sér umræddar upplýsingar í samkeppni á þeim markaði sem umrædd félög starfa. Máli sínu til stuðnings vísar Isavia til úrskurðar úrskurðarnefndar upplýsingamála nr. 920/2020 þar sem uppi voru svipaðar aðstæður og hér um ræðir.
Þá er vísað til þess að Samkeppniseftirlitið hafi talið að móttaka eða miðlun sambærilegra upplýsinga geti falið í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, eða að slíkt geti hið minnsta raskað samkeppni. Við mat á því hvort um mikilvægar og viðkvæmar upplýsingar sé að ræða hafi Samkeppniseftirlitið litið til þess hvort upplýsingarnar séu til þess fallnar að draga úr óvissu á markaðnum. Minni óvissa dragi úr sjálfstæði keppinauta í ákvarðanatöku og hamli samkeppni sem Isavia telur að afhending umræddra gagna geti orðið til. Til nánari skýringar á því hvað geti talist viðkvæmar upplýsingar telji Isavia rétt að líta til löggjafar um opinber innkaup en viðskiptasamband Isavia við aðila málsins byggir á útboði um aðstöðu hópferðabifreiða á Keflavíkurflugvelli sem fram fór árið 2017. Í 42. gr. reglugerðar um innkaup aðila er annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, nr. 340/2017, sbr. 17. gr. laga um opinber innkaup, nr. 120/2016, komi fram að til viðkvæmra upplýsinga, sem fara skuli með sem trúnaðarupplýsingar, geti talist upplýsingar um rekstur, sértækar tæknilausnir, einingarverð, fjárhagsmálefni og viðskipti og aðrar þær upplýsingar sem skaðað geta hagsmuni fyrirtækisins ef aðgangur er veittur að þeim.
Isavia mótmælir því að ekki geti verið um að ræða virka hagsmuni þar sem beiðni kæranda lýtur að upplýsingum vegna tímabils sem er þegar liðið. Um sé að ræða upplýsingar er varða fjárhags- og viðskiptahagsmuni þriðju aðila og byggi á virku viðskiptasambandi þeirra við Isavia enda sé sú gjaldtaka sem óskað er upplýsinga um og reikningar henni tengdir gefnir út á grundvelli gildandi samningssambands aðila.
Umsögn Isavia var kynnt kæranda með bréfi, dags. 9. september 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 23. september sama ár, kemur fram að 6.–10. gr. upplýsingalaga beri að skýra þröngt og að Isavia hafi ekki fært sannfærandi rök fyrir því að upplýsingunum skuli haldið leyndum á grundvelli þeirra ákvæða. Þá verði að horfa til þeirrar staðreyndar að umbeðnar upplýsingar séu til þess fallnar að varpa ljósi á ráðstöfun opinberra fjármuna og takmarkaðra gæða hjá fyrirtæki sem er í einokunarstöðu. Til hliðsjónar bendir kærandi á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ítrekað staðfest að rétturinn til upplýsinga um ráðstöfun opinberra hagsmuna sé ríkari en hagsmunir fyrirtækja af því að upplýsingunum sé haldið leyndum. Kærandi telur að úrskurður nr. 920/2020 styðji ekki við ákvörðun Isavia í þessu máli, heldur þvert á móti að Isavia skuli afhenda gögnin.
Kærandi hafnar því sem fram kemur í umsögn Isavia um að afhending upplýsinganna geti falið í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, eða raskað samkeppni. Kærandi leggur áherslu á að 10. gr. samkeppnislaga takmarki ekki rétt almennings til upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 857/2019. Kærandi hafnar því jafnframt að umbeðnar upplýsingar geti talist viðkvæmar út frá sjónarmiðum um samkeppni. Í því sambandi ítrekar kærandi að gögnin varði fortíðarupplýsingar en ekki framtíðaráætlanir auk þess sem mun ítarlegri upplýsingar um rekstur fyrirtækjanna liggi nú þegar fyrir.
Úrskurðarnefnd óskaði eftir því með erindi til Isavia, dags. 4. apríl 2022, að nefndinni yrðu afhent þau gögn sem kæranda var synjað um aðgang að. Þau bárust hinn 9. maí 2022. Isavia staðfesti með erindi til nefndarinnar, dags. 16. maí sama ár, að eftirfarandi reikningar til Hópbíla og Allrahanda GL hefðu ekki verið gefnir út og lægju því ekki fyrir í bókhalds- og skjalakerfum félagsins:
1. Reikningar til Hópbíla hf. fyrir:
• Fasta húsaleigu og aðstöðugjald fyrir þrjú nærstæði fyrir mars–desember 2020.
• Fjarstæði fyrir apríl–júní og september–desember 2020.
• Veltutengda húsaleigu og aðstöðugjald fyrir apríl–desember 2020.
2. Reikningar til Allrahanda GL ehf. fyrir:
• Fjarstæði fyrir apríl–júní og september–desember 2020.
Niðurstaða
Kæranda hefur í máli þessu verið synjað um aðgang að gögnum sem sýna fram á hvað tvö hópbílafyrirtæki greiddu til Isavia ohf. í gjöld vegna afnota af svonefndum nær- og fjarstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á tímabilinu 1. mars 2019 til 30. desember 2020. Synjun Isavia styðst fyrst og fremst við 9. gr. upplýsingalaga.
Um aðgang kæranda að gögnum í máli þessu fer skv. 5. gr. upplýsingalaga, en í 1. mgr. segir að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Í 2. málsl. 9. gr. kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá upplýsingarétti almennings skv. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og ber að túlka það þröngri lögskýringu.
Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir meðal annars:
Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.
Í athugasemdunum segir jafnframt um 2. málsl. greinarinnar:
Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.
Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.
Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við mat á hagsmunum almennings skiptir almennt verulegu máli hvort og þá að hvaða leyti þær upplýsingar sem um ræðir tengjast ákvörðunum um ráðstöfun opinbers fjár og eigna.
Isavia er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins sem annast rekstur og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Hluti af starfsemi félagsins er rekstur bílastæðaþjónustu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hópferðabílar sem stunda áætlunarakstur milli flugstöðvarinnar og höfuðborgarsvæðisins aka frá nærstæðum, sem eru fyrir utan flugstöðina, og fjarstæðum, sem eru 200 til 300 metra frá flugstöðinni. Kærandi og Hópbílar hf. voru hlutskörpust í útboði sem Isavia stóð fyrir árið 2017, þar sem þeim tveimur var veitt aðstaða fyrir áætlunarakstur til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, bæði við flugstöðina á nærstæðum og innan hennar í formi aðstöðu til farmiðasölu. Félögin tvö greiða Isavia þóknun sem nemur tilteknu hlutfalli af andvirði seldra miða. Fyrir notkun á fjarstæðum greiða hópbílafyrirtæki gjald samkvæmt gjaldskrá. Gildandi gjaldskrá er frá 1. nóvember 2018 og er aðgengileg á vef Isavia. Bæði Hópbílar hf. og Allrahanda GL ehf. aka frá fjarstæðum.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir þau gögn sem Isavia afhenti nefndinni og kæranda var synjað um aðgang að. Gögnin samanstanda af reikningum sem Isavia gaf út annars vegar til Hópbíla hf. og hins vegar til Allrahanda GL ehf. á tímabilinu 1. mars 2019 til 31. desember 2020, fyrir notkun á nær- og fjarstæðum. Svo sem nánar greinir í umfjöllun um málsmeðferð að framan voru ekki gefnir út reikningar til félaganna tveggja á nánar tilgreindu tímabili árið 2020.
Það er mat nefndarinnar, með vísan til framangreinds, að gögnin teljist ekki varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra lögaðila sem fyrir koma í gögnunum og að 9. gr. upplýsingalaga standi því þannig ekki í vegi að upplýsingarnar verði afhentar kæranda. Það er vandséð að mati nefndarinnar að hvaða leyti afhending upplýsinganna kynni að valda þeim lögaðilum sem koma fyrir í gögnunum tjóni. Þá hefur Isavia ekki rökstutt það með fullnægjandi hætti að afhendingin ylli tjóni og þá hve mikið það gæti orðið. Í því sambandi verður að telja að almenn tilvísun til þess að upplýsingarnar varði samkeppnisrekstur og að afhending þeirra geti valdið tjóni felli ekki í sér nægilegan rökstuðning að þessu leyti.
Úrskurðarnefndin tekur jafnframt fram að þótt sá sem upplýsingar varðar leggist gegn afhendingu þeirra er það sjálfstætt mat opinbers aðila sem heyrir undir gildissvið upplýsingalaga að leggja mat á það hvort skilyrði séu til þess að undanþiggja upplýsingar aðgangi á grundvelli 9. gr. laganna. Tilgangur þess að óska eftir afstöðu þess sem upplýsingar varða er að upplýsa málið með fullnægjandi hætti en einnig að gera aðilanum viðvart um að óskað hafi verið eftir upplýsingunum. Slík álitsumleitun getur einnig leitt til þess að sá sem upplýsingar varða samþykki að þær verði gerðar opinberar.
Þá er til þess að líta, svo sem kærandi hefur bent á, að ýmsar upplýsingar í tengslum við þau gögn sem óskað hefur verið eftir eru þegar aðgengilegar opinberlega, svo sem upplýsingar um miðaverð viðkomandi hópbílafyrirtækja, ársreikningar þeirra, hve hátt hlutfall af andvirði seldra miða Hópbílar hf. greiðir til Isavia fyrir nærstæði, gildandi gjaldskrá fyrir fjarstæði, sem og nýlegar upplýsingar um markaðshlutdeild viðkomandi aðila á markaði fyrir áætlunarferðir á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins. Þá varða upplýsingarnar jafnframt tímabil sem er liðið, þótt vissulega byggist greiðslur að hluta til á gildandi samningssambandi milli Isavia og umræddra aðila.
Loks er óhjákvæmilegt að líta til þess að Isavia er opinbert hlutafélag. Rekstur bílastæðaþjónustu við Keflavíkurflugvöll og Flugstöð Leifs Eiríkssonar felur í sér ráðstöfun takmarkaðra gæða í eigu hins opinbera, a.m.k. að því er varðar þau nærstæði sem standa fyrir utan flugstöðina. Almenningur hefur hagsmuni af því að geta kynnt sér hvernig staðið er að slíkri starfsemi og að um hana ríki gagnsæi. Þá þurfa lögaðilar sem eiga í viðskiptum við hið opinbera hverju sinni að vera búnir undir það að upplýsingar um þeirra starfsemi verði gerðar opinberar, innan þeirra marka sem upplýsingalög setja, þótt það kunni að valda þeim einhverju óhagræði. Hefur það margsinnis verið staðfest í úrskurðarframkvæmd nefndarinnar.
Isavia nefnir að Samkeppniseftirlitið hafi talið að móttaka eða miðlun sambærilegra upplýsinga geti falið í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, eða að slíkt geti hið minnsta raskað samkeppni. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að réttur til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum hjá aðila sem heyrir undir gildissvið upplýsingalaga, líkt og Isavia gerir óumdeilanlega, verður ekki takmarkaður nema á grundvelli ákvæða 6.–10. gr. upplýsingalaga, eða ef sérstök þagnarskylduákvæði í öðrum lögum girða fyrir að heimilt sé að afhenda gögnin, sbr. gagnályktun frá 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Ljóst er að hið síðara á ekki við í máli þessu; 10. gr. samkeppnislaga, er lýtur að banni við ólögmætu samráði, telst ekki vera sérstakt þagnarskylduákvæði.
Á hinn bóginn kann að vera gagnlegt að líta til sjónarmiða um beitingu 10. gr. samkeppnislaga við mat á því hvort gögn skuli undanþegin aðgangi almennings á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, enda leggur hin síðarnefnda grein bann við afhendingu upplýsinga um viðskiptahagsmuni lögaðila á borð við viðkvæmar upplýsingar um samkeppnisstöðu hans. Úrskurðarnefndin hefur í þessu máli litið til þess við mat sitt hvort birting gagnanna kynni að raska samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem gögnin varða, eða raskað eðlilegri samkeppni að öðru leyti. Telur nefndin að birting gagnanna sé ekki til þess fallin að raska samkeppnishagsmunum verði kæranda heimilaður aðgangur að þeim.
Að því er varðar vísun Isavia til 42. gr. reglugerðar um innkaup aðila er annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, nr. 340/2017, sbr. 17. gr. laga um opinber innkaup, nr. 120/2016, telur úrskurðarnefndin að atriði sem þar eru talin upp kunni að vera samþýðanleg upplýsingum sem óheimilt sé að afhenda á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Hins vegar telur nefndin að þær upplýsingar sem kæranda hefur verið synjað um í máli þessu heyri ekki þar undir, enda er það niðurstaða nefndarinnar að ekkert sé fram komið í málinu sem sé til þess fallið að skaða hagsmuni þeirra fyrirtækja sem upplýsingarnar varða ef aðgangur er veittur að þeim, svo vitnað sé til orðalags 42. gr. framangreindrar reglugerðar.
Í ljósi alls framangreinds telur úrskurðarnefndin að Isavia hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum í málinu á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Þá standa önnur ákvæði laga því ekki í vegi að kæranda verði afhent gögnin. Verður Isavia því gert að afhenda kæranda þau gögn sem honum var synjað um aðgang að.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Isavia ohf., dags. 29. júlí 2021, er felld úr gildi. Isavia er skylt að veita A lögmanni, f.h. Hópbifreiða Kynnisferða ehf., aðgang að gögnum sem sýna hvað Allrahanda GL ehf. og Hópbílar hf. greiddu í gjöld vegna afnota af nær- og fjarstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á tímabilinu 1. mars 2019 til 31. desember 2020.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir