Hoppa yfir valmynd

1082/2022. Úrskurður frá 1. júní 2022

Hinn 1. júní 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1082/2022 í máli ÚNU 22040010.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 20. apríl 2022, kærði A afgreiðslu Orkustofnunar á beiðni hans um upplýsingar og rökstuðning fyrir því að hafa ekki verið boðaður í viðtal, en kærandi var meðal umsækjenda um starf sviðsstjóra hjá Orkustofnun.

Eins og mál þetta er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að kynna kæruna Orkustofnun og veita stofnuninni kost á að koma á framfæri umsögn um kæruna, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Þá er óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga.

Niðurstaða

Fyrir liggur að kærandi var meðal umsækjenda um starf hjá Orkustofnun. Ráðning í opinbert starf er ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. athugasemdir við greinina í frumvarpi því sem varð að lögunum. Er kærandi því aðili stjórnsýslumáls um ráðninguna í skilningi stjórnsýslulaga.

Um aðgang aðila stjórnsýslumáls að upplýsingum sem tengjast málinu gildir meginregla 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varði. Takmarkanir á þeim rétti eru í 15.–17. gr. sömu laga. Upplýsingaréttur aðila máls samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga er víðtækari en sá réttur sem veittur er með ákvæðum upplýsingalaga.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum tilvikum falla þannig utan gildissviðs upplýsingalaga. Samkvæmt framangreindu fellur kæra þessi utan gildissviðs upplýsingalaga og er því óhjákvæmilegt að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 20. apríl 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta