1084/2022. Úrskurður frá 21. júní 2022
Hinn 21. júní 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1084/2022 í máli ÚNU 22040009 og 22040014.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindum, dags. 16. apríl og 27. apríl 2022, kærði A töf Garðabæjar á afgreiðslu erinda sinna til sveitarfélagsins.
Með erindi til bæjarstjóra Garðabæjar, dags. 23. mars 2022, óskaði kærandi eftir:
- Viðbrögðum bæjarstjóra við úrskurðum Persónuverndar í tveimur málum.
- Kærandi hafði kvartað til stofnunarinnar vegna háttsemi Garðabæjar og Garðaskóla. Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að háttsemin hefði ekki verið í samræmi við persónuverndarlöggjöf.
- Upplýsingum um hvað sveitarfélagið hefði gert til að koma í veg fyrir að slíkt gerðist í framtíðinni.
- Upplýsingum um áhrif ítrekaðra lögbrota starfsmanna sem B, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, væri ábyrgur fyrir á það svið sem B bæri ábyrgð á, ásamt upplýsingum um hvaða áhrif lögbrotin hefðu haft á störf og starfsframa B.
- Afriti af afsökunarbeiðnum sem Garðabær teldi sig hafa sent kæranda; kærandi kannaðist ekki við að hafa tekið á móti slíkum afsökunarbeiðnum.
Kæran var kynnt Garðabæ með erindi, dags. 20. apríl 2022.
Hinn 20. apríl 2022 sendi kærandi erindi til Garðabæjar í tilefni af því að þriðji úrskurður Persónuverndar lægi nú fyrir, þar sem niðurstaðan væri sú að vinnsla ráðgjafarfyrirtækis, sem hefði verið Garðaskóla til aðstoðar í máli dóttur kæranda, hefði ekki verið í samræmi við persónuverndarlöggjöf. Var óskað eftir viðbrögðum bæjarstjóra Garðabæjar ásamt upplýsingum um sömu atriði og fram koma í töluliðum 2 og 3 að framan.
Þá óskaði kærandi í erindinu eftir upplýsingum um:
- Hvaða áhrif úrskurðurinn kæmi til með að hafa á samvinnu Garðabæjar við ráðgjafarfyrirtækið í framtíðinni.
- Hvernig það samræmdist stefnu Garðabæjar að bæjarstjóri teldi starfsmenn sem brytu lög hafa unnið að málinu af fagmennsku, kostgæfni og heilindum.
- Hvaða áhrif það hefði þegar markmiði Garðabæjar um persónuvernd væri ekki fylgt eftir.
Þar sem erindinu hefði ekki verið svarað vísaði kærandi málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál hinn 27. apríl.
Í erindi Garðabæjar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. apríl 2022, kom fram að engin gögn lægju fyrir hjá sveitarfélaginu sem svöruðu beiðni kæranda í 3. tölulið fyrri beiðni hans. Að því er varðaði afsökunarbeiðnir, sbr. 4. tölulið sömu beiðni, hefði kærandi fengið þær munnlega. Að öðru leyti vörðuðu spurningar kæranda í erindum hans ekki aðgang að gögnum heldur væru krafa um viðbrögð eða afstöðu bæjarstjóra til tiltekinna atriða. Síðara erindi kæranda var svarað hinn 2. maí 2022.
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Í máli þessu hefur kærandi óskað eftir viðbrögðum Garðabæjar við nánar tilgreindum úrskurðum Persónuverndar og beint spurningum til sveitarfélagsins í tengslum við þá.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera „synjun beiðni um aðgang að gögnum“ samkvæmt upplýsingalögum undir nefndina sem úrskurðar um ágreininginn. Þá er kveðið á um það í ákvæðinu að hið sama gildi um synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Úrskurðarnefndin hefur í störfum sínum lagt til grundvallar að skýra verði kæruheimild 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, og þá einkum hugtakið „synjun“ sem þar kemur fram, í samræmi við önnur ákvæði laganna sem fjalla um viðbrögð stjórnvalda við beiðnum um upplýsingar.
Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga veita lögin rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum. Af þessari meginreglu leiðir að þegar aðilum sem falla undir upplýsingalög, sbr. 2. gr. laganna, berst beiðni um upplýsingar þá ber þeim á grundvelli laganna skylda til að taka afstöðu til þess hvort beiðandi eigi rétt til aðgangs að gögnum sem geyma umbeðnar upplýsingar.
Af upplýsingalögum verður ekki leidd sambærileg skylda stjórnvalda til að svara almennum fyrirspurnum sem hafa ekki tengsl við gögn í vörslum stjórnvalda. Þrátt fyrir að ekki sé útilokað að stjórnvöldum kunni að vera skylt að bregðast við slíkum fyrirspurnum þótt ekki liggi fyrir nein gögn með upplýsingunum sem óskað er eftir þá er það almennt ekki í verkahring úrskurðarnefndar um upplýsingamál að taka afstöðu til slíkra erinda miðað við hvernig hlutverk nefndarinnar er afmarkað í 20. gr. upplýsingalaga.
Í skýringum Garðabæjar hefur komið fram að varðandi tölulið 3 í fyrirspurn kæranda frá 23. mars, sem ítrekuð var 20. apríl, liggi ekki fyrir nein gögn í vörslum sveitarfélagsins. Að því er varði beiðni kæranda um aðgang að afsökunarbeiðnum frá sveitarfélaginu hafi þær verið bornar fram munnlega. Að öðru leyti hefur Garðabær staðfest að ekki liggi fyrir nein gögn í vörslum sveitarfélagsins sem varði fyrirspurnir kæranda. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að draga framangreindar staðhæfingar sveitarfélagsins í efa.
Samkvæmt framangreindri umfjöllun um 20. gr. upplýsingalaga, sbr. 5. gr. sömu laga, er ekki unnt að líta svo á að kæranda hafi verið synjað um aðgang að gögnum í skilningi 20. gr. upplýsingalaga. Því er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kærum A, dags. 16. apríl og 27. apríl 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir