1093/2022. Úrskurður frá 29. ágúst 2022
Hinn 29. ágúst 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1093/2022 í máli ÚNU 22070015.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 14. júlí 2022, kærði A til úrskurðarnefndar um upplýsingamál töf á afgreiðslu skrifstofu Alþingis á beiðni um aðgang að stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um framkvæmda- og rekstrarkostnað Landeyjahafnar, sem kynnt var á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á Alþingi hinn 13. júní 2022.
Eins og mál þetta er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að kynna kæruna skrifstofu Alþingis og veita kost á að koma á framfæri umsögn um kæruna, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga taka lögin til allrar starfsemi stjórnvalda. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur fram að undir ákvæðið falli einungis þeir aðilar sem falið er að fara með stjórnsýslu og teljist til handhafa framkvæmdarvalds í ljósi þrískiptingar ríkisvaldsins. Með lögum nr. 72/2019 um breytingu á upplýsingalögum var bætt við ákvæði í 4. mgr. 2. gr. laganna, þar sem segir eftirfarandi:
Lög þessi taka til stjórnsýslu Alþingis eins og nánar er afmarkað í lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra. [...] Ákvæði V.–VII. kafla taka ekki til Alþingis eða stofnana þess.
Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 72/2019 kemur fram að tilgangur ákvæðisins hafi verið að víkka út upplýsingarétt almennings yfir þá starfsemi handhafa löggjafarvalds sem ætti hvað mest skylt við stjórnsýslu, til að mynda ráðstöfun fjárveitinga, innkaup og önnur fjármál, starfsmannahald, símenntun og þjónustu, upplýsinga- og tæknimál og önnur atriði sem falla undir hugtakið rekstur í víðum skilningi. Hins vegar væri gert ráð fyrir að Alþingi sjálft myndi með reglum sem forsætisnefnd setti á grundvelli laga um þingsköp Alþingis skilgreina hvaða gögn vörðuðu stjórnsýslu Alþingis og hvaða gögn vörðuðu starfsemi Alþingis sem fulltrúasamkomu. Reglur forsætisnefndar eru aðgengilegar á vef Alþingis.
Í framangreindri 4. mgr. 2. gr. upplýsingalaga kemur fram í niðurlagi að ákvæði V.–VII. kafla laganna taki ekki til Alþingis eða stofnana þess. Ákvæði um úrskurðarnefnd um upplýsingamál, þar á meðal um kæruheimild til nefndarinnar, er að finna í V. kafla laganna. Það er því ljóst að ákvarðanir Alþingis sæta ekki kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Því er óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá nefndinni. Úrskurðarnefndin vekur þó athygli kæranda á því að stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem kærandi hefur óskað eftir er aðgengileg í heild sinni á vef Ríkisendurskoðunar.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 14. júlí 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir