1095/2022. Úrskurður frá 5. október 2022
Hinn 5. október 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1095/2022 í máli ÚNU 22010006.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 15. janúar 2022, kærði A afgreiðslu Matvælastofnunar á beiðni hans um upplýsingar. Kærandi óskaði hinn 30. desember 2021 eftir svörum við eftirfarandi spurningum:
- Hve margir hafi verið settir í rúningsbann á vegum Matvælastofnunar.
- Hve margir hafi verið settir í bann við kaup á kálfum á vegum Matvælastofnunar.
- Hvert sé hlutverk og ábyrgð forstjóra Matvælastofnunar.
- Hvaða reglur gildi um flutning á sláturgripum.
- Hvaða reglur gildi um starfsmenn Matvælastofnunar að því er varðar meinta heimild þeirra til að reka gripi inn og fara inn í útihús án leyfis bónda, og gera skýrslu.
- Hvort starfsmönnum Matvælastofnunar sé ekki skylt að segja sannleikann, og hver viðurlög séu ef þeir gera það ekki.
- Hverjir svari andmælum.
- Hvort héraðsdýralæknir ráði öllu á sínu svæði og ef ekki, hverjir þá.
- Hvort eðlilegt sé að tiltaka í skýrslu að ákveðin atriði hafi verið skoðuð, sem í reynd hafi ekki verið skoðuð, og hvort ekki skuli taka myndir af því sem hafi verið lagfært.
- Hversu oft sé farið til sumra búfjáreigenda.
- Hvar það komi fram í lögum að landeigandi skuli hirða hræ eftir aðra.
- Hvort menn á vegum Matvælastofnunar geti skotið dýr án leyfis landeiganda á jörð hans.
- Hvort sauðfjárbændur þurfi að hafa tvöfalt rými, þ.e. hvort gera þurfi til að mynda ráð fyrir plássi fyrir 200 kindur ef bóndi er með 100 kindur á fóðrun.
- Hvort þeir sem séu með hross þurfi ekki að hafa skjól, eða hvort það sé nóg að hafa hól.
- Hvort það sé í lagi að setja á markað gripi sem sýktir eru af campylobacter jejuni.
- Hvort það sé ekki bannað að hafa aðeins stálmottur í fjárhúsum og ef svo er, af hverju það sé enn.
Í svari Matvælastofnunar til kæranda, dags. 11. janúar 2022, kom fram að fyrirspurnir kæranda uppfylltu ekki skilyrði upplýsingalaga, enda lyti erindið ekki að afhendingu gagna. Af þeim sökum skyldi kæranda gefinn kostur á að afmarka erindi sitt nánar og tiltaka hvaða gagna væri óskað aðgangs að. Yrði það ekki gert myndi stofnunin ekki taka erindið til afgreiðslu.
Hinn 18. janúar 2022 framsendi kærandi þær spurningar sem hann hafði borið upp við stofnunina hinn 30. desember til forstjóra Matvælastofnunar. Kæranda var svarað daginn eftir. Kom þar fram að allar spurningar kæranda væru á borðum þeirra sérfræðinga sem hefðu með málaflokkinn að gera, sem myndu svara honum eins og mögulegt væri. Einhver þeirra atriða sem kærandi spyrði um mætti lesa um á vefsíðu Matvælastofnunar, svo sem um skoðunaratriði við eftirlit.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Matvælastofnun með erindi, dags. 17. janúar 2022, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Matvælastofnun léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
Umsögn Matvælastofnunar barst úrskurðarnefndinni hinn 2. febrúar 2022. Í umsögninni kemur fram að heiti upplýsingalaga sé óheppilegt og geti valdið misskilningi, því lögin fjalli ekkert um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum frá stjórnvöldum. Eðlilegra væri að lögin hétu lög um rétt almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum, sem væri afmarkaðra hugtak og gæfi betur til kynna um hvað málið snerist.
Að því er varðaði töluliði 1 og 2 í fyrirspurn kæranda væri engin samantekt eða skjal til hjá Matvælastofnun um það hve margir hefðu verið settir í rúningsbann eða bann við kaup á kálfum. Stofnuninni væri ekki skylt að búa til ný skjöl, sbr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Um hlutverk og ábyrgð forstjóra Matvælastofnunar, sbr. tölulið 3, gæti kærandi lesið í lögum um Matvælastofnun, nr. 30/2018, en ekki kallað eftir lögunum á grundvelli upplýsingalaga.
Um töluliði 4 og 5 í fyrirspurn kæranda væri það að segja að um starfsemi kæranda giltu lög um matvæli, nr. 93/1995, og lög um dýravelferð, nr. 55/2013, auk fjölda reglugerða. Kæranda bæri að kynna sér þá löggjöf sem gilti um reksturinn. Matvælastofnun bæri vitanlega ákveðna leiðbeiningarskyldu í þessum efnum, en ekki væri þó hægt að svara þessum spurningum kæranda með því að veita honum aðgang að gögnum hjá stofnuninni. Því hafi beiðni kæranda verið synjað. Um þá töluliði sem eftir stæðu í fyrirspurn kæranda var vísað til þess að um væri að ræða spurningar sem hvorki beindust að fyrirliggjandi gögnum sem vörðuðu tiltekið mál hjá Matvælastofnun né tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Því væri stofnuninni óskylt að svara umræddum spurningum á grundvelli upplýsingalaga.
Umsögn Matvælastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 3. febrúar 2022, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust daginn eftir. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
1.
Í málinu er deilt um afgreiðslu Matvælastofnunar á erindi kæranda, sem samanstendur af fyrirspurnum m.a. um rúningsbann, bann við kaup á kálfum og framkvæmd eftirlits hjá Matvælastofnun. Stofnunin vísaði frá erindi kæranda þar sem það lyti ekki að afhendingu gagna og uppfyllti þar af leiðandi ekki skilyrði upplýsingalaga. Í umsögn Matvælastofnunar er ýmist vísað til þess að stofnuninni sé óskylt að búa til ný gögn sem svari fyrirspurnum kæranda, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, eða að fyrirspurnir hans beinist ekki að fyrirliggjandi gögnum tiltekins máls eða tilteknum fyrirliggjandi gögnum hjá stofnuninni.
2.
Um beiðni kæranda um upplýsingar um hve margir hafi verið settir í rúningsbann og bann við kaup á kálfum á vegum Matvælastofnunar, sbr. töluliði 1 og 2 í beiðni, hefur stofnunin gefið þær skýringar í umsögn til úrskurðarnefndarinnar að hvorki sé til samantekt né skjal um þetta efni sem hægt sé að veita aðgang að. Úrskurðarnefndin tekur af þessu tilefni fram að þegar svo háttar til að beiðni um aðgang að upplýsingum og gögnum nær samkvæmt efni sínu til upplýsinga sem nauðsynlegt er að vinna upp úr fyrirliggjandi gögnum er ekki sjálfgefið að unnt sé að synja beiðninni á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. heldur ber stjórnvaldi að kanna hvort beiðandi óski aðgangs að gögnum þar sem umbeðnar upplýsingar er að finna svo hann geti tekið afstöðu til þess hvort hann vilji fá þau afhent, sbr. 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Þegar umbeðnar upplýsingar er að finna í mörgum fyrirliggjandi gögnum ber eftir atvikum að afhenda aðila lista yfir mál og/eða málsgögn sem ætla má að beiðni hans geti beinst að í þeim tilgangi að hann geti tilgreint þau mál eða þau málsgögn sem hann óskar eftir aðgangi að, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.
Í málinu liggur fyrir að þessum hluta beiðni kæranda var vísað frá þrátt fyrir að gögn málsins gefi til kynna að Matvælastofnun haldi utan um framangreindar upplýsingar, þótt þær liggi ekki fyrir í samanteknu formi. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt því að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni er fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun, hvað varðar tölulið 1 og 2 í beiðni, er að þessu leyti þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Matvælastofnun að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar sem felur m.a. í sér að afmarka beiðni kæranda við gögn hjá stofnuninni sem liggja fyrir og heyra undir beiðni kæranda, og taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til að fá aðgang að þeim gögnum, í heild eða að hluta.
3.
Í ákvörðun Matvælastofnunar og umsögn til úrskurðarnefndarinnar hefur stofnunin vísað til þess að beiðni kæranda beinist að öðru leyti ekki að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál hjá stofnuninni né tilteknum fyrirliggjandi gögnum, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.
Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga veita lögin rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum. Af þessari meginreglu leiðir að þegar aðilum sem falla undir upplýsingalög berst beiðni um upplýsingar þá ber þeim á grundvelli laganna skylda til að kanna hvort fyrir liggi í vörslum þeirra gögn með þeim upplýsingum sem óskað er eftir, sbr. 15. gr. laganna, og í kjölfarið taka rökstudda ákvörðun um hvort veita beri kæranda aðgang að gögnunum á grundvelli laganna í heild eða að hluta.
Af upplýsingalögum verður ekki leidd sambærileg skylda aðila sem heyra undir gildissvið laganna til að svara almennum fyrirspurnum sem hafa ekki tengsl við gögn í vörslum þeirra. Ekki er útilokað að þeim aðilum kunni að vera skylt að bregðast við slíkum fyrirspurnum þótt ekki liggi fyrir gögn með upplýsingunum sem óskað er eftir, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráða leiðbeiningarreglu þess efnis að stjórnvöldum sé skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Hins vegar er það almennt ekki í verkahring úrskurðarnefndar um upplýsingamál að taka afstöðu til slíkra erinda miðað við hvernig hlutverk nefndarinnar er afmarkað í 20. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarnefndin fellst á þær skýringar Matvælastofnunar að beiðni kæranda, samkvæmt töluliðum 3 til og með 16, beinist ekki að fyrirliggjandi gögnum sem varði tiltekið mál hjá stofnuninni né tilteknum fyrirliggjandi gögnum, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Nefndin telur því að stofnuninni hafi verið heimilt að vísa beiðni kæranda frá að þessu leyti, enda verður ekki séð að fyrirspurnir kæranda, a.m.k. í þeirri mynd sem þær voru settar fram, lúti að afhendingu gagna í vörslum Matvælastofnunar. Þá er ljóst að stofnunin veitti kæranda leiðbeiningar og gaf honum færi á að afmarka beiðni sína nánar, svo sem skylt er samkvæmt 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefndin að ekki sé unnt að líta svo á að kæranda hafi verið synjað um aðgang að gögnum í skilningi 20. gr. upplýsingalaga. Því er óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að öðru leyti en greinir í kafla 2 að framan.
Úrskurðarorð
Beiðni A, dags. 30. desember 2021, er vísað til Matvælastofnunar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu hvað varðar töluliði 1 og 2 í beiðni. Kæru A er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir