Hoppa yfir valmynd

1097/2022. Úrskurður frá 5. október 2022

Hinn 5. október 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1097/2022 í máli ÚNU 22050002.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 1. maí 2022, kærði A, f.h. Ikan ehf., afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni hans um gögn. Með erindi kæranda til slökkviliðsstjórans í Borgarbyggð, dags. 14. mars 2022, óskaði hann eftir afriti af dagbók/málaskrá slökkviliðsins frá 15. nóvember 2020 til 14. mars 2022. Í erindinu kom nánar tiltekið fram að óskað væri eftir skrá yfir öll innsend erindi til slökkviliðsins í Borgarbyggð og skrá yfir útsend erindi slökkviliðsstjóra og eldvarnafulltrúa á tímabilinu.

Í erindinu óskaði kærandi líka eftir afriti af öllum bréfum frá slökkviliðsstjóra í Borgarbyggð til sveitar­félagsins og embættismanna þess frá 1. maí 2021 til 15. mars 2022 og afriti allra bréfa frá embættis­mönnum Borgarbyggðar til slökkviliðsstjóra í tengslum við ákvörðun um að loka og innsigla húsnæði kær­anda að Brákarbraut. Þá væri óskað eftir tölvupóstum og fundargerðum vegna sama máls auk samskipta slökkviliðsstjóra við Mannvirkjastofnun.

Í svari Borgarbyggðar til kæranda, dags. 20. apríl 2022, kom fram um fyrri kröfuna að engin slík skrá væri til hjá slökkviliðinu. Til stæði að taka upp tölvukerfi hjá slökkviliðinu til að slíka skrá mætti halda en það hefði ekki enn verið gert. Til viðbótar bætti Borgarbyggð við að beiðni kæranda væri ekki nægjan­lega vel afmörkuð, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.

Um síðari kröfu kæranda væri það að segja að á því tímabili sem kærandi tilgreindi hefði slökkviliðið ekki átt í neinum bréfaskiptum við nokkurn aðila vegna lokana mannvirkja við Brákarbraut, að undan­skilinni umsögn um kæru Ikan til félagsmálaráðuneytis, en afrit þeirrar umsagnar hefði verið afhent Ikan. Slökkviliðið hefði á umræddu tímabili ekki sent bréf eða móttekið bréf frá sveitarfélaginu eða embætt­ismönnum þess vegna málsins á umræddu tímabili. Hið sama ætti við um samskipti slökkviliðs við Hús­næðis- og mannvirkjastofnun.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Borgarbyggð með erindi, dags. 2. maí 2022, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Borgarbyggð léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Borgarbyggðar barst úrskurðarnefndinni hinn 17. maí 2022. Í henni kemur fram í upphafi að um sé að ræða 20. bréf kæranda til sveitarfélagsins vegna máls sem varðar lokun og innsiglun mann­virkja við Brákarbraut í Borgarnesi vegna ófullnægjandi brunavarna að mati eldvarnafulltrúa slökkviliðs sveitarfélagsins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Öllum bréfum vegna málsins hingað til hafi verið svarað efnislega og þau gögn afhent sem sveitarfélagið hafi yfir að ráða vegna málsins.

Í umsögninni kemur fram að slökkvi­lið Borg­arbyggðar hafi aldrei haft til umráða tölvukerfi þar sem haldin sé eiginleg málaskrá, þar sem upp­setn­ing slíks kerfis hafi ekki verið talin svara kostnaði. Stefnt sé að því að fjárfesta í uppfærðu tölvu­kerfi fyrir slökkviliðið. Þá kemur fram að engin gögn séu til hjá slökkviliðinu um mannvirkin við Brákarbraut 25–27 á því tímabili sem krafa kæranda nái til. Þannig komi afhending gagna sem kæran lýtur að til úr­skurð­arnefndarinnar ekki til greina.

Umsögn Borgarbyggðar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 23. maí 2022, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

Niðurstaða

Í málinu liggur fyrir sú afstaða Borgarbyggðar að ekki geti orðið af afhendingu gagna til kæranda þar sem annars vegar sé ekki til nein skrá yfir inn- og útsend erindi hjá slökkviliðinu og hins vegar liggi ekki fyrir hjá slökkviliðinu gögn um það mál sem kærandi vísar til á því tímabili sem hann hefur óskað eftir. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að draga þessar staðhæfingar Borgar­byggðar í efa.

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýs­inga­mál.

Úrskurðarorð

Kæru A, f.h. Ikan ehf., er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta