Hoppa yfir valmynd

1119/2022. Úrskurður frá 19. desember 2022

Hinn 19. desember 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1119/2022 í máli ÚNU 22070004.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 6. júlí 2022, kærði A synjun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. á beiðn­um hans um upplýsingar um starfsmannaveltu hjá félaginu, dags. 7. mars og 7. júní 2022. Í svari félags­ins, dags. 23. apríl 2022, kom fram að allar upplýsingar um starfsfólk væru meðhöndlaðar og varð­veittar í samræmi við ákvæði laga og reglna á sviði persónuverndar. Beiðni hans væri því hafnað.

Í kæru kemur fram að starfsmannavelta hjá félaginu hafi verið mikil og hröð. Slík velta sé dýr fjár­hags­lega. Að vera sífellt að þjálfa upp fólk hljóti að varða öryggi farþega, farms og áhafnar. Kærandi óski ekki eftir nöfnum eða kennitölum heldur aðeins fjölda þeirra sem koma og fara.

Kæran var kynnt Herjólfi með erindi, dags. 15. ágúst 2022, og félaginu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Herjólfur léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Herjólfs barst úrskurðarnefndinni hinn 24. ágúst 2022. Í umsögninni kemur fram að gögn sem kæran lýtur að liggi ekki fyrir hjá félaginu, þ.e. þau hafi ekki verið tekin saman. Þá er vísað til þess að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem upp­lýs­ingalög taka til nái ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfs­sambandið að öðru leyti, sbr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Herjólfur hafni öllum beiðnum um upplýsingar sem varði starfssamband félagsins við starfsmenn.

Umsögn Herjólfs var kynnt kæranda með bréfi, dags. 25. ágúst 2022, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 7. september 2022, kemur fram að kærandi hafi aðeins óskað eftir upplýsingum um hraða starfsmannaveltu hjá félaginu. Það ætti ekki að vera leyndarmál hvaða starfsmenn hætti, m.a. með hliðsjón af því að nöfn starfsmanna hverju sinni séu opinberar upplýsingar.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um um starfsmannaveltu hjá félaginu. Herjólfur segir slíkar upplýsingar ekki vera fyrir­liggj­andi, auk þess sem þær séu undanþegnar upp­lýs­inga­rétti samkvæmt 7. gr. upplýsingalaga.

Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upp­­lýsingalaga er meðal annars tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri að skilja sem svo að rétt­ur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Upp­­lýsingalög leggja því ekki skyldu á þá aðila sem falla undir lögin til þess að útbúa ný gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur einnig fram að þegar aðilum, sem falla undir gildissvið upp­lýs­­ingalaga, berst beiðni um aðgang að upplýsingum beri þeim að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sín­um, sbr. 15. gr. laganna, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörð­­un. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upp­­lýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undan­­tekningarákvæðum laganna.

Þegar svo háttar til að beiðnin nær samkvæmt efni sínu til upplýsinga sem nauðsynlegt er að vinna upp úr fyrirliggjandi gögnum er því ekki sjálfgefið að unnt sé að synja beiðninni á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga heldur ber stjórnvaldi að kanna hvort beiðandi óski aðgangs að gögnunum þar sem umbeðnar upplýsingar er að finna svo hann geti tekið afstöðu til þess hvort hann vilji fá þau afhent, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, sbr. t.d. úrskurði úr­skurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1095/2022, 1090/2022 og 919/2020.

Líkt og fram kemur í umsögn Herjólfs tók félagið einnig afstöðu til þess hvort kærandi kynni að eiga rétt til aðgangs að gögnum þar sem umbeðnar upplýsingar er að finna og var niðurstaðan sú að slíkar upp­lýsingar myndu teljast undanþegnar upplýsingarétti samkvæmt 7. gr. upplýsingalaga.

Eins og atvikum máls þessa er háttað hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu Herjólfs að samanteknar upplýsingar um starfsmannaveltu hjá félaginu séu ekki fyrir­liggjandi. Þá er Herjólfi ekki skylt að taka upplýsingarnar saman að beiðni kæranda.

Hvað varðar gögn sem unnt væri að vinna umbeðnar upplýsingar upp úr, tekur úrskurðarnefnd um upp­lýsingamál fram að samkvæmt 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga tekur réttur almennings til aðgangs að gögn­um ekki til gagna sem tengjast málefnum starfsmanna. Í 7. gr. upplýsingalaga er nánar fjallað um upp­lýsingar um málefni starfsmanna. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að réttur almennings til að­gangs að gögnum um málefni starfsmanna taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, fram­gang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Að mati úr­skurð­ar­nefnd­ar um upplýsingamál geta fallið þar undir gögn sem varða ráðningu einstakra starfs­manna og um starfs­lok þeirra. Því er fallist á það með Herjólfi að félaginu sé ekki unnt að veita kær­anda aðgang að gögn­um sem varpað geta ljósi á þær upplýsingar sem hann óskar eftir.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að fyrirliggjandi gögnum. Af 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úr­skurð­ar­nefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um að­gang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 6. júlí 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta