1121/2022. Úrskurður frá 19. desember 2022
Hinn 19. desember 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1121/2022 í máli ÚNU 22110021.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 24. nóvember 2022, kærði A, fréttamaður hjá Stundinni, afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands á beiðni hans um gögn. Kærandi óskaði með erindi, dags. 30. október 2022, eftir áætlun fyrirtækisins Terra um hreinsun á svæði við Spóastaði. Vegna tafa á afgreiðslu beiðninnar vísaði kærandi málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands afgreiddi beiðni kæranda með erindi, dags. 9. nóvember 2022. Kom þar fram að áætlun frá Terra lægi ekki fyrir hjá heilbrigðiseftirlitinu að öðru leyti en því sem fram hefði komið í tölvupósti til kæranda hinn 17. október 2022. Í þeim tölvupóstssamskiptum hafði kærandi spurt um það hvort Terra myndi þurfa að flytja allan úrganginn á sinn kostnað eða væri nóg fyrir fyrirtækið að hreinsa úrganginn. Svar heilbrigðiseftirlitsins var á þá leið að allur óhæfur úrgangur yrði fjarlægður, en leitast yrði við að skilja mold og annan jarðveg eftir. Terra bæri allan kostnað af aðgerðum.
Í kjölfar afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands var málið fellt niður hjá úrskurðarnefndinni. Kærandi vísaði málinu að nýju til úrskurðarnefndarinnar hinn 24. nóvember 2022, og vísaði til þess að hann teldi að heilbrigðiseftirlitið hefði áætlun Terra undir höndum. Því til stuðnings vísaði kærandi til tölvupósts sem heilbrigðiseftirlitið sendi til fulltrúa sveitarfélagsins Bláskógabyggðar í lok september 2022. Í þeim pósti hefði komið fram að ákveðið hefði verið að Terra tæki saman áætlun um hreinsun á svæðinu, þar sem m.a. skyldi koma fram áætlað umfang verkefnisins, hvert áformað væri að flytja úrganginn og áætluð verklok.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Heilbrigðiseftirliti Suðurlands með erindi, dags. 25. nóvember 2022, og heilbrigðiseftirlitinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að heilbrigðiseftirlitið léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
Umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands barst úrskurðarnefndinni hinn 28. nóvember 2022. Í henni kemur fram að áætlunin hafi legið fyrir 11. nóvember 2022. Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki í vörslum sínum sérstakt skjal með áætlun frá Terra, heldur birtist áætlunin í starfsleyfisskilyrðum vegna landmótunar á Spóastöðum, sem kynnt hefðu verið á vefsíðu heilbrigðiseftirlitsins hinn 11. nóvember 2022. Í skilyrðunum kæmi m.a. fram eftirfarandi:
Markmið starfseminnar er að hreinsa svæðið af óæskilegu efni sem hefur safnast upp [svo sem af] plasti sem að mestu eru plastpottar úr garðyrkju. Áætlað heildarmagn sem um ræðir og verður tekið til hreinsunar af svæðinu er um 100 tonn, þar af [nemur plast u.þ.b.] 10%. Verktaki notar búnað til að flokka þann úrgang frá og verður hann fluttur í Álfsnes til urðunar. Að því loknu[…] verði gengið frá svæðinu þannig að það sé tilbúið til ræktunar og falli að umhverfinu.
Umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 28. nóvember 2022, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.
Niðurstaða
Kærandi í máli þessu telur að hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands liggi fyrir áætlun Terra um hreinsun á svæði við Spóastaði. Heilbrigðiseftirlitið vísar til þess að slík áætlun liggi ekki fyrir að öðru leyti en sem kemur fram í starfsleyfisskilyrðum vegna landmótunar á Spóastöðum sem kynnt voru á vef heilbrigðiseftirlitsins í nóvember 2022.
Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.–10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga.
Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til þess að rengja þá staðhæfingu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að áætlun Terra liggi ekki fyrir. Þá hefur heilbrigðiseftirlitið jafnframt vísað kæranda á vefsíðu sína þar sem upplýsingar um málið eru aðgengilegar, sbr. 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Er því óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 24. nóvember 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir