1122/2022. Úrskurður frá 19. desember 2022
Hinn 19. desember 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1122/2022 í máli ÚNU 22110024.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 29. nóvember 2022, kærði A, fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að synja honum um aðgang að upplýsingum um umsækjendur um stöðu forstjóra félagsins. Kærandi óskaði eftir upplýsingum um nöfn umsækjenda um starf forstjórans og fjölda umsókna með erindi, dags. 29. nóvember 2022. Sama dag barst svar frá Orkuveitu Reykjavíkur þess efnis að upplýsingar um nöfn umsækjenda yrðu ekki birtar. Fjöldi umsókna yrði gefinn upp þegar nýr forstjóri yrði kynntur til leiks.
Ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur var byggð á 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, en ákvæði 2. mgr. þeirrar greinar um að skylt væri að veita upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf þegar umsóknarfrestur er liðinn, ætti ekki við um Orkuveitu Reykjavíkur heldur aðeins um opinbera starfsmenn.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Orkuveitu Reykjavíkur með erindi, dags. 30. nóvember 2022, og félaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Orkuveita Reykjavíkur léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
Umsögn Orkuveitu Reykjavíkur barst úrskurðarnefndinni hinn 8. desember 2022. Í umsögninni kemur fram að skyldan til að birta upplýsingar um umsækjendur taki til stjórnvalda þar sem opinberir starfsmenn starfa. Við mat á því hvort störf falli þar undir sé horft til laga um opinbera starfsmenn, sbr. lög nr. 70/1996. Orkuveita Reykjavíkur sé sameignarfyrirtæki sem starfi á grundvelli laga nr. 136/2013. Þótt félagið fari með margvísleg og fjölbreytt verkefni teljist það ekki stjórnvald og sé skyldan til að birta eða veita upplýsingar um umsækjendur um störf hjá félaginu því ekki til staðar samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga.
Umsögn Orkuveitu Reykjavíkur var kynnt kæranda með bréfi, dags. 8. desember 2022, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.
Niðurstaða
Í málinu er deilt um þá ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda um stöðu forstjóra félagsins.
Orkuveita Reykjavíkur fellur undir gildissvið upplýsingalaga, nr. 140/2012, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Ljóst er að ákvæði upplýsingalaga gilda því almennt um starfsemi félagsins nema sérákvæði annarra laga kveði á um annað. Um rétt kæranda til aðgangs til upplýsinganna fer því almennt eftir meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna.
Í 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga kemur fram að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til gagna sem tengist málefnum starfsmanna. Takmörkunin er útfærð nánar í 7. gr. þar sem fram kemur í 1. mgr. að rétturinn til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til samkvæmt 2. gr. nái ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Ákvæðið er sérregla um aðgang almennings að upplýsingum sem felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um upplýsingarétt almennings.
Við setningu upplýsingalaga, nr. 140/2012, voru hins vegar samhliða settar undantekningar frá þessari sérreglu um málefni starfsmanna í 1. mgr. 7. gr. sem fram koma í 2.–4. mgr. 7. gr. Þannig er í 2. mgr. kveðið á um að þegar aðrar takmarkanir á upplýsingarétti samkvæmt lögunum eigi ekki við sé, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., skylt að veita upplýsingar um tiltekin atriði sem varða opinbera starfsmenn. Þær upplýsingar eru síðan taldar upp í fimm tölusettum liðum en meðal þeirra eru nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf þegar umsóknarfrestur er liðinn, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 7. gr.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ljóst að þegar litið er til almennra athugasemda sem og athugasemda að baki ákvæði 2. mgr. 7. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, þá taki hugtakið opinberir starfsmenn samkvæmt lögunum einungis til starfsmanna stjórnvalda. Telur nefndin einsýnt að félag í meirihlutaeigu hins opinbera eins og Orkuveita Reykjavíkur geti ekki talist til stjórnvalds í þeim skilningi sem byggt er á í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Þess í stað verður að leggja til grundvallar að Orkuveita Reykjavíkur sé einkaréttarlegur lögaðili í skilningi 2. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt því tekur sérregla 2. tölul. 2. mgr. 7. gr. ekki til upplýsinga um málefni starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur. Af því leiðir að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um hverjir hafa sótt um stöðu forstjóra félagsins getur ekki byggst á ákvæði 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga.
Í 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga er hins vegar að finna sérreglu um aðgang almennings að upplýsingum um atriði sem varða starfsmann lögaðila sem falla undir upplýsingalög samkvæmt 2. mgr. 2. gr. en sem fyrr segir heyrir Orkuveita Reykjavíkur undir síðastnefnda ákvæðið. Í 4. mgr. 7. gr. segir að skylt sé að veita upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið, sbr. 1. tölul., og launakjör æðstu stjórnenda og upplýsingar um menntun þeirra, sbr. 2. tölul. málsgreinarinnar.
Samkvæmt framangreindu er gerður greinarmunur á þeim upplýsingum sem skylt er að veita aðgang að eftir því hvort um er að ræða opinbera starfsmenn hjá stjórnvöldum eða starfsmenn lögaðila. Þar sem ekki er kveðið sérstaklega á um það í lögunum að skylt sé að veita aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjanda þegar sótt er um starf hjá lögaðilum sem falla undir upplýsingalög, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, eftir að umsóknarfrestur er liðinn, öfugt við það sem gildir um umsækjendur um störf hjá stjórnvöldum, verður að líta svo á að slík skylda sé ekki til staðar í tilviki Orkuveitu Reykjavíkur.
Með vísan til framangreinds á kærandi ekki rétt til upplýsinga um nöfn umsækjanda um starf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 1. og 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Því var félaginu heimilt að synja beiðni kæranda um nöfn umsækjanda um stöðu forstjóra hjá félaginu og verður hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 29. nóvember 2022, um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um umsækjendur um stöðu forstjóra félagsins.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir