Hoppa yfir valmynd

1131/2023. Úrskurður frá 20. febrúar 2023

Hinn 20. febrúar 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1131/2023 í máli ÚNU 22070012.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 8. júní 2022, kærði A afgreiðslu Landspítala á beiðni hans um upplýsingar. Kærandi óskaði hinn 17. maí 2022 eftir upplýsingum um það hvaða aðilar hefðu óskað eftir að Landspítali hefði afskipti af málum sambýliskonu kæranda og hvaða heimildir þeir aðilar hefðu haft til að svipta hana frelsi sínu, sem hefði á endanum kostað hana lífið.

Í svari Landspítala, dags. 25. maí 2022, var vísað til þess að kærandi hefði í tvígang fyrr á árinu sent spítalanum erindi um sama efni. Þau erindi hefðu verið tekin fyrir hjá nefnd um aðgang að sjúkraskrár­upplýsingum. Í framhaldinu hefði erindum kæranda verið svarað, síðast hinn 29. apríl 2022 þar sem beiðni kæranda var hafnað. Af hálfu spítalans væri engu að bæta við það sem þar kæmi fram.

Með erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 7. júlí 2022, kvaðst kærandi hafa móttekið bréf frá Landspítala þar sem beiðni kæranda um upplýsingar úr sjúkraskrá sambýliskonu kæranda væri alfarið hafnað. Kærandi hefði í framhaldinu vísað málinu til landlæknis, sem hefði tekið það til með­ferðar á grundvelli 15. gr. a laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009, og staðfest niðurstöðu nefndar um að­gang að sjúkraskrárupplýsingum hinn 23. júní 2022.

Með erindi, dags. 17. nóvember 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir afriti af þeim gögnum sem inni­héldu þær upplýsingar sem kærandi óskaði eftir. Þá var Landspítala gefinn kostur á að koma á fram­færi umsögn í málinu eftir því sem spítalinn teldi tilefni til, áður en málið yrði leitt til lykta. Gögnin bárust nefndinni hinn 21. desember 2022. Þau gögn sem afhent voru nefndinni samanstanda af uppfletti­lista í sjúkraskrá sambýliskonu kæranda, sem inniheldur nöfn þeirra sem komu að ákvörðunum sem vörðuðu meðferð konunnar. Þá staðfesti Landspítali að gögn þau sem innihéldu upplýsingarnar sem kærandi hefði óskað eftir væru einungis vistaðar í sjúkraskrá sambýliskonu kæranda og ekki annars staðar hjá spítalanum.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að kæranda hefur verið synjað um aðgang að upplýsingum um sambýliskonu hans sem Landspítali telur vera sjúkraskrárupplýsingar í skilningi laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009. Erindi hans hafa verið tekin til umfjöllunar af hálfu nefndar um aðgang að sjúkra­skrár­upp­lýs­ingum auk þess sem landlæknir hefur endurskoðað ákvörðun nefnd­ar­innar.

Í 4. tölul. 3. gr. laga um sjúkraskrár er hugtakið sjúkraskrárupplýsingar skilgreint sem lýsing eða túlk­un í rituðu máli, myndir, þ.m.t. röntgenmyndir, línurit og mynd- og hljóðupptökur sem innihalda upp­­lýsingar er varða heilsufar sjúklings og meðferð hans hjá heilbrigðisstarfsmanni eða heilbrigðis­stofn­­­un og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar. Í 5. tölul. ákvæðisins er hugtakið sjúkraskrá skil­greint sem safn sjúkraskrárupplýsinga.

Um aðgang að sjúkraskrárupplýsingum er fjallað í IV. kafla laga um sjúkraskrár, sbr. til hliðsjónar 4. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, þar sem segir að um aðgang sjúklings að sjúkraskrá fari eftir ákvæðum laga um sjúkraskrár. Í 12. gr. laga um sjúkraskrár birtist sú meginregla að aðgangur að sjúkraskrám sé óheimill nema til hans standi lagaheimild samkvæmt ákvæðum laganna eða öðrum lögum. Í 14. gr. sömu laga er fjallað um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá.

Í 15. gr. laga um sjúkraskrár kemur fram að mæli ríkar ástæður með því sé umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandanda látins einstaklings, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna og láta í té afrit hennar ef þess er óskað. Ef slíkri beiðni er synjað er heimilt að bera ákvörðunina undir embætti landlæknis í samræmi við ákvæði 15. gr. a laganna.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala eru þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað eftir sjúkra­skrár­­upplýsingar sem einungis eru geymdar í sjúkraskrá sambýliskonu hans. Þá er það einnig mat úr­skurð­arnefndarinnar, út frá þeim gögnum sem spítalinn afhenti nefndinni, að upplýsingarnar séu sjúkra­­skrárupplýsingar, sbr. einnig þær rúmu skilgreiningar sem lagðar eru til grundvallar á sjúkraskrá og sjúkraskrár­upplýsingum í lögum um sjúkraskrár. Nefndin hefur ekki forsendur til að rengja þá stað­hæfingu Landspítala að upplýsingarnar séu ekki geymdar annars staðar hjá spítalanum en í sjúkra­skrá sambýliskonu kæranda.

Það er enn fremur mat úrskurðarnefndarinnar að lög um sjúkraskrár beri að skoða í þessu samhengi sem sérlög gagnvart almennum ákvæðum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Af því leiðir að ákvörðun Landspítala um að synja um aðgang að upplýsingum sem felldar verða undir sjúkra­skrár­upp­lýsingar og eru geymdar í sjúkraskrá er ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, þar sem lög um sjúkraskrár mæla fyrir um sérstaka kæruleið í þessum tilvikum, sbr. 15. gr. a laganna. Verð­ur því ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefnd um upplýs­inga­mál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 8. júní 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta