1153/2023. Úrskurður frá 20. október 2023
Hinn 20. október 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1153/2023 í máli ÚNU 23060001.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 1. júní 2023, kærði A synjun Akraneskaupstaðar á beiðni hans um gögn. Kærandi óskaði hinn 17. maí 2023 eftir aðgangi að skipulagslýsingum sem lagðar hefðu verið fram á fundi skipulags- og umhverfisnefndar tveimur dögum áður, annars vegar varðandi breytingar á aðalskipulagi Akraness (Jaðarsbakkar) og hins vegar breytingar á deiliskipulagi (Jaðarsbakkar). Erindið var ítrekað í tvígang.
Svar Akraneskaupstaðar barst hinn 31. maí 2023. Þar kom fram að litið væri svo á að málið væri enn í vinnslu hjá bæjaryfirvöldum. Því væri erindi kæranda synjað.
Kæran var kynnt Akraneskaupstað með erindi, dags. 2. júní 2023, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Akraneskaupstaður léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Í erindi Akraneskaupstaðar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. júní 2023, var upplýst um að skipulagslýsingin hefði verið afgreidd af bæjarstjórn á fundi hennar hinn 13. júní 2023 og gagnið birt sem fylgiskjal með fundargerðinni. Sama dag hefði kærandi verið upplýstur um þetta og honum beint á vefslóð á síðu Akraneskaupstaðar þar sem gagnið væri að finna.
Með erindi, dags. 22. júní 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til þess hvort málinu skyldi haldið áfram hjá nefndinni eða hvort kærandi teldi afhendingu Akraneskaupstaðar vera fullnægjandi þannig að fella mætti niður málið. Kærandi brást við erindinu samdægurs og kvaðst vilja að nefndin skæri úr um það hvort Akraneskaupstað hefði borið að afhenda sér umbeðin gögn þegar hann bað fyrst um þau, því kærandi hefði enga tryggingu fyrir því að þau gögn sem honum hefðu verið afhent 13. júní 2023 væru þau sömu og hann óskaði eftir í upphafi.
Úrskurðarnefndin gaf Akraneskaupstað kost á að koma á framfæri umsögn um kæruna í ljósi afstöðu kæranda hinn 22. júní 2023. Umsögn sveitarfélagsins auk afrits af umbeðnum gögnum í málinu bárust nefndinni hinn 27. júní 2023. Í umsögninni er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af kærunni í ljósi þess að umbeðin gögn hafi verið afhent. Þá sé gagnið sem birt var í kjölfar fundar bæjarstjórnar hinn 13. júní 2023 alveg sama gagn og afgreitt var frá skipulags- og umhverfisnefnd hinn 15. maí 2023. Það sjáist glögglega séu eiginleikar skjalsins, sem birt var 13. júní, skoðaðir en þar komi fram að skjalið hafi verið búið til 8. maí 2023 og því síðast breytt 11. maí sama ár.
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um synjun Akraneskaupstaðar á beiðni kæranda um aðgang að skipulagslýsingum sem lagðar voru fram á fundi skipulags- og umhverfisnefndar um miðjan maímánuð. Synjunin var ekki studd með vísan til ákvæða upplýsingalaga en í umsögn sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar kom fram að litið hefði verið svo á að gögnin teldust vinnugögn. Meðan málið var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni var kæranda veittur aðgangur að hinum umbeðnu gögnum með því að vísa honum á vefslóð á síðu Akraneskaupstaðar.
Af 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er. Í þessu máli háttar svo til að kærandi hefur nú fengið aðgang að þeim gögnum sem honum hafði áður verið synjað um aðgang að. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa að um sé að ræða sömu gögn og lágu fyrir hjá sveitarfélaginu þegar beiðni kæranda barst. Þá gerir nefndin heldur ekki athugasemd við að sveitarfélagið hafi vísað kæranda á vefslóð þar sem gögnin væri að finna í stað þess að afhenda honum afrit af þeim, enda er gert ráð fyrir því í upplýsingalögum að slík afhending teljist fullnægjandi, sbr. 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Að öllu framangreindu virtu er ljóst að ekki liggur lengur fyrir ákvörðun um að synja kæranda um aðgang að gögnum og verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 1. júní 2023, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir