1163/2023. Úrskurður frá 8. desember 2023
Hinn 8. desember 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1163/2023 í máli ÚNU 22110003.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 4. nóvember 2022, kærði A synjun […]bæjar á beiðni hans um aðgang að gögnum. Með erindi, dags. 18. október 2022, óskaði kærandi eftir gögnum sem kynnt voru á fundi hjá […]bæ hinn 6. október sama ár. Efni fundarins var bygging […]mannvirkis […] og fundinn sátu oddvitar meirihluta bæjarstjórnar, bæjarstjóri, byggingar- og mannvirkjafulltrúi, verkfræðingur […] og arkitekt […].
Bæjarstjóri […]bæjar svaraði erindinu samdægurs og afhenti kæranda fundargerð af fundinum. Sú fundargerð var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 20. október 2022. Í umræðum á fundinum óskaði kærandi að nýju eftir þeim gögnum sem kynnt hefðu verið. Hinn 27. október 2022 óskaði kærandi enn eftir sömu gögnum en fékk það svar frá bæjarstjóra […]bæjar samdægurs að engin frekari gögn lægju fyrir í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Sama dag óskaði kærandi eftir gögnunum frá […]. Í svari […], dags. sama dag, kom fram að öll dreifing gagna væri á ábyrgð bæjarstjóra. Svarinu fylgdu engin gögn.
Á fundi bæjarráðs, dags. 3. nóvember 2022, lagði kærandi fram fyrirspurn og óskaði enn eftir gögnum sem kynnt hefðu verið á fundinum hinn 6. október sama ár. Fulltrúar meirihluta bæjarráðs lögðu þá fram bókun þess efnis að tillögur hefðu verið kynntar á fundinum en engin gögn lögð fram.
Kærandi telur að sem bæjarfulltrúi í bæjarstjórn […]bæjar eigi hann rétt til aðgangs að þessum gögnum með vísan til samþykkta um stjórn bæjarins auk sveitarstjórnarlaga.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt […]bæ með erindi, dags. 7. nóvember 2022, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að sveitarfélagið léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
Umsögn […]bæjar barst úrskurðarnefndinni hinn 21. nóvember 2022. Í umsögninni kemur fram að á fundinum hinn 6. október 2022 hafi aðeins verið gerð grein fyrir þeim gögnum sem tilgreind væru í fundargerðinni en gögnin ekki afhent sveitarfélaginu þar sem þau væru enn í vinnslu hjá […]. Til stæði að […]bær fengi gögnin afhent þegar þau væru tilbúin. Gögnin teljist því ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Þá leiki vafi á því hvort úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi úrskurðarvald varðandi rétt sveitarstjórnarmanna til aðgangs að gögnum samkvæmt sveitarstjórnarlögum, þar sem innviðaráðuneytinu sé ætlað að skera úr um rétt eða skyldu þeirra sem lúta eftirliti þess samkvæmt lögunum.
Umsögn […]bæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 22. nóvember 2022, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki. Óþarft er að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem kynnt voru á fundi hjá […]bæ hinn 6. október 2022 í tilefni af byggingu […]mannvirkis. […]bær kveður gögnin ekki hafa legið fyrir þegar kærandi óskaði eftir þeim, þar sem þau hefðu aðeins verið kynnt á fundinum en ekki afhent sveitarfélaginu. Kærandi telur að gögnin hljóti að hafa legið fyrir og vísar til þess að sem sveitarstjórnarfulltrúi hjá […]bæ eigi hann rétt til aðgangs að gögnum hjá sveitarfélaginu samkvæmt samþykktum um stjórn […]bæjar og sveitarstjórnarlögum.
Í 28. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, er mælt fyrir um rétt til aðgangs að gögnum og þagnarskyldu:
Vegna starfa sinna í sveitarstjórn á sérhver sveitarstjórnarmaður rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem fyrir liggja í stjórnsýslu sveitarfélags og varða málefni sem komið geta til umfjöllunar í sveitarstjórn.
Sveitarstjórnarmaður skal eiga eðlilegan aðgang að skrifstofu og stofnunum sveitarfélagsins í þeim tilgangi að kynna sér starfsemi sveitarfélagsins og rekstur.
Sveitarstjórn skal í samþykkt um stjórn sveitarfélags mæla nánar fyrir um rétt sveitarstjórnarmanna til að fá afhent afrit gagna sem falla undir 1. mgr. og um fyrirkomulag og framkvæmd aðgangs að skrifstofu og stofnunum sveitarfélags skv. 2. mgr.
Sveitarstjórnarmenn skulu gæta trúnaðar um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt ákvæðum X. kafla stjórnsýslulaga.
[…]bær hefur útfært rétt sveitarstjórnarmanna til aðgangs að gögnum í 20. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins. Er þar meðal annars í 2. mgr. kveðið á um málsmeðferð þegar beiðni er lögð fram og í 3. mgr. segir að séu gögn undanþegin upplýsingarétti almennings sé óheimilt að taka af þeim afrit og fara með þau af skrifstofu, sbr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga, nema að höfðu samráði við bæjarstjóra eða viðkomandi yfirmann.
Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga hefur ráðherra eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laganna er aðila máls heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess samkvæmt 109. gr. laganna.
Kærandi er sveitarstjórnarfulltrúi í sveitarstjórn […]bæjar. Ákvæði 28. gr. sveitarstjórnarlaga veita honum rýmri rétt en hann hefur samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga til aðgangs að gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja í stjórnsýslu […]bæjar og varða málefni sem komið geta til umfjöllunar í sveitarstjórn. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ákvæðið beri að skoða í þessu samhengi sem sérákvæði gagnvart almennum ákvæðum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Af því leiðir að ákvörðun […]bæjar gagnvart kæranda verður ekki kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál heldur til þess ráðherra sem fer með málefni sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 111. gr. laganna. Verður því að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 4. nóvember 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir