1165/2023. Úrskurður frá 8. desember 2023
Hinn 8. desember 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1165/2023 í máli ÚNU 23110005.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Hinn 2. nóvember 2023 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A lögfræðingi, f.h. B, í tilefni af því að barnaverndarþjónusta Mið-Norðurlands afhenti kæranda ekki gögn.
Með erindi, dags. 25. október 2023, var f.h. kæranda óskað eftir öllum gögnum máls hennar hjá barnaverndarþjónustunni. Erindið var ítrekað tveimur dögum síðar. Í svari barnaverndarþjónustunnar, dags. 27. október 2023, kom fram að beiðnin væri afgreidd samkvæmt verklagsreglum samstarfssveitarfélaga í barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands, um afhendingu gagna um persónuupplýsingar. Erindi kæranda var ítrekað hinn 30. október 2023 með vísan til 45. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Þar kom fram að ef gögnin yrðu ekki afhent í síðasta lagi daginn eftir yrði málinu vísað til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá var óskað afhendingar á samningi um umgengni sem kæranda hefði verið sagt að gerður hefði verið við hana.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar er þess krafist með vísan til 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, að kæranda verði afhent þau gögn sem óskað var eftir. Kærandi sé aðili að málinu og eigi ótvíræðan rétt á að fá afhent öll þau gögn sem varða mál hennar, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Kæran var kynnt barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands með erindi, dags. 10. nóvember 2023, og barnaverndarþjónustunni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að barnaverndarþjónustan léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
Umsögn barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands barst úrskurðarnefndinni hinn 24. nóvember 2023. Þar kemur fram að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að gögnum. Unnið sé nú að því að taka saman gögnin, í samræmi við verklagsreglur um afhendingu gagna um persónuupplýsingar samstarfssveitarfélaga í barnavernd Mið-Norðurlands, til að tryggja örugga úrvinnslu persónuupplýsinga.
Óþarft er að rekja nánar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af því leiðir að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi.
Barnaverndarþjónusta Mið-Norðurlands hefur staðhæft að beiðni kæranda hafi ekki verið synjað og að unnið sé að því að taka saman gögnin. Úrskurðarnefndin telur í samræmi við það að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að gögnum. Þar af leiðandi hefur í málinu ekki verið tekin ákvörðun sem er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga. Verður því þegar af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Í fyrirliggjandi kæru kemur fram að kærandi sé aðili að því máli/málum sem hún hafi óskað aðgangs að hjá barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands og eigi ótvíræðan rétt á að fá afhent öll þau gögn sem varða mál hennar, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort kæran lúti að gögnum í stjórnsýslumáli sem kærandi hafi aðild að, en bendir af þessu tilefni á að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Ákvarðanir um að synja aðila máls um aðgang að gögnum í slíkum tilvikum verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þá bendir nefndin einnig á að um rétt aðila að barnaverndarmálum til aðgangs að gögnum slíks máls er fjallað í 45. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, líkt og kærandi hefur sjálfur bent á í samskiptum við barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands. Samkvæmt 6. gr. þeirra laga er heimilt er að skjóta úrskurðum og öðrum stjórnvaldsákvörðunum barnaverndarþjónustu, þ.m.t. um aðgang að gögnum, til úrskurðarnefndar velferðarmála eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Slík sérákvæði um kærurétt ganga framar hinni almennu kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru A f.h. B, dags. 2. nóvember 2023, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir