1172/2024. Úrskurður frá 21. febrúar 2024
Hinn 21. febrúar 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1172/2024 í máli ÚNU 24010017.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Hinn 18. janúar 2024 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A, fréttamanni hjá Ríkisútvarpinu, vegna synjunar utanríkisráðuneytis á beiðni um aðgang að gögnum. Kærandi óskaði hinn 18. janúar 2024 eftir aðgangi að lagalegri greiningu á málum fyrir alþjóðadómstólum sem varða átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, sem rædd var á fundi ríkisstjórnar Íslands fyrr þann dag. Kærandi óskaði einnig upplýsinga um hver hefði unnið álitið fyrir ráðuneytið.
Í svari ráðuneytisins, dags. 18. janúar 2024, kom fram að umrædd greining kæmi fram í minnisblaði til ríkisstjórnar, sem var lagt fram af utanríkisráðherra. Minnisblöð til ríkisstjórnar væru undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Beiðninni var því hafnað. Kærandi brást við ákvörðun ráðuneytisins sama dag og tók fram að ekki væri óskað eftir minnisblaðinu heldur sjálfu skjalinu sem innihéldi greininguna. Enn fremur væri óskað upplýsinga um hver hefði unnið greininguna fyrir ráðuneytið og hvort hún hefði verið send á önnur ráðuneyti. Ráðuneytið svaraði kæranda síðar sama dag og kvað greininguna ekki vera sjálfstætt gagn heldur væri hún hluti af minnisblaðinu til ríkisstjórnar. Greiningin hefði verið unnin af ráðuneytinu sjálfu og ekki send til annarra ráðuneyta.
Kæran var kynnt utanríkisráðuneyti með erindi, dags. 19. janúar 2024, og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
Umsögn utanríkisráðuneytis barst úrskurðarnefndinni hinn 24. janúar 2024. Umsögnin var kynnt kæranda sama dag og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að minnisblaði utanríkisráðherra til ríkisstjórnar Íslands sem inniheldur lagalega greiningu á málum fyrir alþjóðadómstólum sem varða átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Um rétt kæranda til aðgangs að gagninu fer samkvæmt upplýsingarétti almennings sem kveðið er á um í 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Aðgangur samkvæmt ákvæðinu lýtur takmörkunum sem meðal annars er kveðið á um í 1. tölul. 6. gr. laganna, en utanríkisráðuneyti synjaði beiðni kæranda á þeim grundvelli. Samkvæmt ákvæðinu tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi.
Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga segir að undanþágan gildi um öll gögn sem undirbúin eru fyrir fundi þar sem saman koma tveir ráðherrar eða fleiri, hvort heldur sem það sé á formlegum ríkisstjórnarfundi eða við aðrar óformlegri aðstæður. Í skýringum ráðuneytisins kemur fram að hið umbeðna gagn hafi verið tekið saman fyrir slíkan fund. Efni skjalsins styður þær skýringar ráðuneytisins. Með vísan til þessa verður staðfest ákvörðun ráðuneytisins um að synja beiðni kæranda um aðgang að minnisblaðinu.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun utanríkisráðuneytis, dags. 18. janúar 2024, að synja A, fréttamanni hjá Ríkisútvarpinu, um aðgang að minnisblaði utanríkisráðherra sem var á dagskrá fundar ríkisstjórnar Íslands hinn 18. janúar 2024.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir