1174/2024. Úrskurður frá 21. febrúar 2024
Hinn 21. febrúar 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1174/2024 í máli ÚNU 24010015.
Kæra og málsatvik
Hinn 16. janúar 2024 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A vegna afgreiðslu umboðsmanns barna á beiðni hans um upplýsingar. Kærandi sendi umboðsmanni barna erindi hinn 21. nóvember 2023. Í erindinu tók kærandi dæmi af foreldrum, sem færu sameiginlega með forsjá barns, sem fjárfestu í hlutabréfum fyrir hönd barnsins. Árlega fengi barnið arðgreiðslu vegna hlutabréfaeignarinnar. Óskað var álits embættisins á því fyrirkomulagi að ofgreiddur fjármagnstekjuskattur af arðinum væri endurgreiddur inn á bankareikning foreldris en ekki barnsins sjálfs.
Í öðru erindi, dags. 24. nóvember 2023, óskaði kærandi álits embættisins á þeim aðstæðum að foreldri, sem fengi endurgreiðslu inn á sinn bankareikning, vildi ekki láta fjármunina barninu í té. Nánar tiltekið óskaði kærandi eftir áliti embættisins á því hvort hitt foreldri barnsins þyrfti að kæra foreldrið til lögreglu fyrir fjárdrátt, og hvort umboðsmaður barna teldi að ráðast þyrfti í lagabreytingar vegna þessa.
Umboðsmaður barna svaraði kæranda hinn 23. nóvember og 11. desember 2023. Í fyrra svarinu kom fram að það foreldri sem tæki við endurgreiðslu frá Skattinum bæri ábyrgð á því að gera ráðstafanir til að halda fjármunum barnsins aðgreindum frá eigin fjármunum. Í síðara svarinu kom fram að almennt væri þetta fyrirkomulag ekki brot gegn réttindum barnsins og að foreldrar sem færu sameiginlega með forsjá barns skyldu reyna til þrautar að ná sátt um þetta mál með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.
Kærandi sendi embættinu tvö erindi hinn 19. desember 2023. Í fyrra erindinu voru ítrekaðar beiðnir um álit á því hvort kæra þyrfti foreldrið til lögreglu, og hvort embættið teldi þörf á lagabreytingum. Í síðara erindinu fann kærandi að því að umboðsmaður barna svaraði erindum hans nafnlaust. Óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvenær og af hvaða tilefni tekin hefði verið ákvörðun um það fyrirkomulag. Umboðsmaður barna svaraði erindunum daginn eftir og kvaðst ekki geta ráðlagt kæranda um kæru til lögreglu. Þá var þakkað fyrir að athygli embættisins væri vakin á málinu og að tekið yrði til skoðunar hvort embættið myndi setja fram ábendingu eða tillögu um úrbætur. Erindum sem beint væri til embættisins gegnum almennt netfang þess væri svarað úr því sama netfangi þar sem nafn starfsmanns kæmi ekki fram.
Samkvæmt kæru til nefndarinnar vill kærandi vita hvaða starfsmaður umboðsmanns barna svaraði erindum hans. Þá óskar hann eftir því að erindunum verði svarað efnislega með málefnalegum rökum.
Eins og mál þetta er vaxið taldi úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki þörf á að veita umboðsmanni barna frest til að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu áður en því yrði ráðið til lykta, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
Niðurstaða
Mál þetta varðar fyrirspurnir kæranda til umboðsmanns barna þar sem óskað er álits embættisins á tilteknum atriðum. Þá vill kærandi vita hvaða starfsmaður embættisins svaraði erindum hans.
Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga veita lögin rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál og tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Af þessari meginreglu leiðir að þegar aðilum sem falla undir upplýsingalög berst beiðni um upplýsingar þá ber þeim á grundvelli laganna skylda til að kanna hvort fyrir liggi í vörslum þeirra gögn með þeim upplýsingum sem óskað er eftir, sbr. 15. gr. laganna, og í kjölfarið taka rökstudda ákvörðun um hvort veita beri kæranda aðgang að gögnunum á grundvelli laganna í heild eða að hluta.
Af upplýsingalögum verður ekki leidd sambærileg skylda aðila sem heyra undir gildissvið laganna til að svara almennum fyrirspurnum sem hafa ekki tengsl við gögn í vörslum þeirra. Ekki er útilokað að þeim aðilum kunni að vera skylt að bregðast við slíkum fyrirspurnum þótt ekki liggi fyrir gögn með upplýsingunum sem óskað er eftir, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráða leiðbeiningarreglu þess efnis að stjórnvöldum sé skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Hins vegar er það almennt ekki í verkahring úrskurðarnefndar um upplýsingamál að taka afstöðu til slíkra erinda miðað við hvernig hlutverk nefndarinnar er afmarkað í 20. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarnefndin telur að fyrirspurnir kæranda í þeirri mynd sem þær voru settar fram teljist hvorki beiðnir um aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál né tilteknum fyrirliggjandi gögnum í vörslum umboðsmanns barna, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt því lítur nefndin svo á að í málinu hafi ekki verið tekin ákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, enda nær kæruheimild samkvæmt ákvæðinu aðeins til þess þegar synjað er beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum og beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Kærunni verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 16. janúar 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir