1176/2024. Úrskurður frá 29. febrúar 2024
Hinn 29. febrúar 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1176/2024 í máli ÚNU 23120009.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 6. desember 2023, kærði A tafir á afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni hans um upplýsingar. Með kærunni fylgdi handritað afrit af bréfi kæranda til bæjarráðs Vestmannaeyja, dags. 6. nóvember 2023, þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um það hve margir hefðu búið í Vestmannaeyjum hinn 5. nóvember 2022 og hve margir byggju þar hinn 5. nóvember 2023. Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með erindi, dags. 17. janúar 2024, og upplýsinga óskað um það hvort beiðni kæranda hefði verið afgreidd. Í svari Vestmannaeyjabæjar, dags. 24. janúar 2024, kom fram að beiðni kæranda fyndist ekki og að því yrði að ætla að beiðnin hefði ekki borist sveitarfélaginu.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er heimilt að bera synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefndina. Hið sama gildir um synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þá leiðir af 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að til nefndarinnar má einnig kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu beiðni um upplýsingar samkvæmt upplýsingalögum. Af kæru er ljóst að kærandi telur að Vestmannaeyjabær hafi dregið óhæfilega að afgreiða beiðni hans um íbúafjölda í Vestmannaeyjum. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar hefur hins vegar komið fram að beiðnin finnist ekki í vörslum sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga þá staðhæfingu í efa. Af því leiðir að ekki getur verið um óhæfilegan drátt á meðferð málsins að ræða í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 6. desember 2023, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir