1182/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024
Hinn 30. apríl 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1182/2024 í máli ÚNU 23100014.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 31. júlí 2023, kærði A málsmeðferð Sjúkratrygginga Íslands á beiðni hans um aðgang að gögnum.
Með bréfi, dags. 28. apríl 2022, tilkynntu Sjúkratryggingar Íslands kæranda að gildistími á samþykki stofnunarinnar á umsókn hans um þátttöku í kostnaði við tannréttingar væri framlengdur til 1. september sama ár en samþykkið myndi falla niður að þeim tíma liðnum.
Stofnunin rökstuddi nánar ákvörðun sína með bréfi, dags. 30. júní 2022, en þar kom meðal annars fram að samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 451/2013 tæki greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands aðeins til kostnaðar við nauðsynlegar tannréttingar. Sérstök fagnefnd hefði metið að nauðsynlegum tannréttingum kæranda væri lokið.
Með bréfi, dags. 31. ágúst 2022, vísuðu Sjúkratryggingar Íslands frá umsókn kæranda um áframhaldandi greiðsluþátttöku með vísan til fyrrgreindra bréfa frá 28. apríl og 30. júní 2022. Fyrir liggur í málinu að kærandi kærði synjun Sjúkratrygginga Íslands um áframhaldandi greiðsluþátttöku til úrskurðarnefndar velferðarmála sem úrskurðaði í málinu hinn 22. febrúar 2023.
Með erindi til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 4. október 2022, óskaði kærandi eftir öllum gögnum sem lágu að baki framangreindum bréfum stofnunarinnar. Þá óskaði kærandi sérstaklega eftir öllum ákvörðunum, umsögnum, niðurstöðum og öðrum gögnum er studdu við mat fyrrnefndrar fagnefndar auk svara um á hvaða forsendum matið hefði byggt. Með kæru, dags. 12. júlí 2023, kærði kærandi afgreiðslutafir Sjúkratrygginga Íslands á framangreindri beiðni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tilkynnti Sjúkratryggingum Íslands um kæruna hinn 14. júlí 2023. Stofnunin tilkynnti nefndinni 20. sama mánaðar að umbeðin gögn hefðu verið birt í réttindagátt kæranda á vefsíðunni sjukra.is og að honum hefði verið tilkynnt um það. Samdægurs hafði nefndin samband við kæranda og tilkynnti honum að á grundvelli upplýsinga frá Sjúkratryggingum Íslands myndi nefndin fella málið niður á næsta fundi nefndarinnar sem var og gert hinn 26. júlí 2023.
Með tölvupósti, dags. 31. júlí 2023, til Sjúkratrygginga Íslands og með afriti á úrskurðarnefnd um upplýsingamál rakti kærandi að gögnin sem stofnunin hefði afhent væru ekki þau sem óskað hefði verið eftir. Í kjölfarið áttu sér stað nokkur samskipti milli kæranda og Sjúkratrygginga Íslands sem úrskurðarnefndin fékk afrit af í tölvupósti auk þess sem kærandi sendi athugasemdir til nefndarinnar hinn 1. september 2023. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tilkynnti kæranda hinn 23. október 2023 að litið væri á erindi hans frá 31. júlí 2023 sem nýja kæru til nefndarinnar.
Kærandi byggir kæru sína á því að hann hafi ekki fengið gögn afhent sem tengjast grundvelli og forsendum að baki ákvörðunum í máli hans. Þá hafi kæranda ekki fengið afhentar umsagnir eða gögn um niðurstöðu hinnar sérstöku fagnefndar, sem vísað var til í rökstuðningi Sjúkratrygginga Íslands frá 30. júní 2022.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Sjúkratryggingum Íslands með erindi, dags. 23. október 2023, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Sjúkratryggingar Íslands léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.
Umsögn Sjúkratrygginga Íslands barst úrskurðarnefndinni 6. nóvember 2023. Í umsögninni kom fram að þau gögn sem kæranda voru afhent 20. júlí 2023 væru öll gögn málsins hjá stofnuninni.
Umsögn Sjúkratrygginga Íslands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 6. nóvember 2023, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum sem hann og gerði með athugasemdum 19. sama mánaðar.
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við meðferð þess.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands á beiðni kæranda um afhendingu allra gagna er varða ákvarðanir stofnunarinnar um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna tannréttinga kæranda á grundvelli IV. kafla reglugerðar, nr. 451/2013, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar. Umræddur kafli fjallar um aukna þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar og tannréttingar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.
Ákvörðun um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði við tannlækningar og tannréttingar er ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um þátttöku í tannlæknakostnaði kæranda og svo ákvörðun stofnunarinnar um að hætta þeirri þátttöku eru því ákvarðanir sem falla undir gildissvið stjórnsýslulaga. Kærandi telst aðili að stjórnsýslumáli sem þessar ákvarðanir eru hluti af. Um aðgang aðila stjórnsýslumáls að upplýsingum sem tengjast málinu gildir meginregla 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varði. Takmarkanir á þeim rétti eru í 15.–17. gr. sömu laga. Upplýsingaréttur aðila máls samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga er víðtækari en sá réttur sem veittur er með ákvæðum upplýsingalaga.
Þau gögn sem kærandi hefur óskað aðgangs að tengjast ákvörðun Sjúkratrygginga um að hætta þátttöku í tannlæknakostnaði hans. Umbeðin gögn eru því hluti af stjórnsýslumáli sem kærandi er aðili að. Um rétt hans til aðgangs að þeim fer þar með eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda þau lög ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum tilvikum falla þannig utan gildissviðs upplýsingalaga og af því leiðir að kæruefni máls þessa fellur utan gildissviðs upplýsingalaga og ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar. Kærumálinu er því hér með vísað frá úrskurðarnefndinni.
Tekið skal fram að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga verður synjun eða takmörkun á aðgangi aðila stjórnsýslumáls að gögnum kærð til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Eins og tilgreint er í lýsingu á málsatvikum að framan var ákvörðun málsins kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um aðgang kæranda að gögnum málsins verður því borin undir sama stjórnvald.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 31. júlí 2023, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir