Hoppa yfir valmynd

1183/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024

Hinn 30. apríl 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1183/2024 í máli ÚNU 24010013.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 31. janúar 2024, kærði A ákvörðun ríkislögreglustjóra að synja beiðni hans um aðgang að hljóðupptöku af símtali milli B og fjarskipta­mið­stöðv­ar ríkislögreglustjóra […]. Í kæru er rakið að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi með úrskurði nr. 1164/2023 gert ríkislögreglustjóra skylt að veita kæranda aðgang að afriti af símtalinu. Ríkislögreglustjóri hafi hins vegar aðeins afhent kæranda endurrit af símtalinu og vilji ekki afhenda hljóð­­upptökuna.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt ríkislögreglustjóra með erindi, dags. 5. febrúar 2024, og embættinu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Umsögn ríkislögreglustjóra barst úrskurðarnefndinni 7. mars 2024. Umsögninni fylgdi erindi rík­islögreglustjóra til kæranda, dags. 27. febrúar 2024, þar sem beiðni hans var synjað með formlegum hætti.
 
Í umsögn ríkislögreglustjóra kemur fram að í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 1164/2023 hafi verið ákveð­ið að afhenda kæranda aðeins endurrit af símtalinu en synja kæranda um aðgang að hljóðupptöku á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýs­inga­laga, nr. 140/2012, með vísan til þess að upptakan innihaldi upplýsingar sem varði einkamálefni ann­arra og að hagsmun­ir þeirra af því að upptakan fari leynt vegi þyngra en hagsmunir kæranda af að fá aðgang að henni. Þá sam­þykki B ekki að upptakan verði afhent.
 
Þá segir í umsögninni að afhending hljóðupptökunnar fæli í sér miðlun persónugreinanlegra upplýs­inga, sem falli undir gildissvið laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og teljist til vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laganna. Endurriti símtalsins hafi verið miðlað og ekki verði séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá hljóðupptökuna afhenta, meðal annars þar sem engar upplýsingar úr símtalinu hafi verið undanskildar í því endurriti sem afhent var kæranda.
 
Umsögn ríkislögreglustjóra var kynnt kæranda með erindi, dags. 12. mars 2024, og honum veittur kost­ur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Þær bárust 15. mars 2024. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
 
Við afgreiðslu málsins vék nefndarmaðurinn Hafsteinn Þór Hauksson af fundi með vísan til 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.
 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að hljóðupptöku af símtali milli B og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra 21. júlí 2022. Ríkislögreglustjóri ákvað í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 1164/2023 að afhenda kæranda endurrit af símtalinu en hafna afhendingu hljóðupptökunnar.
 
Í framangreindum úrskurði lagði nefndin til grundvallar að í lögum væri ekki mælt fyrir um að trúnaður skyldi ríkja um samskipti tilkynnanda og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Þá var það mat nefnd­­arinnar að um rétt kæranda til aðgangs að símtalinu færi samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, um aðgang að gögnum sem geyma upplýsingar um aðila sjálfan, þar sem tilefni sím­tals­ins var að óska aðstoðar lögreglu vegna kæranda. Nefndin telur þessi sjónarmið eiga við um aðgang kær­anda að hljóðupptöku af símtalinu og að leysa skuli úr rétti hans til aðgangs að upptökunni sam­kvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, með þeim takmörkunum sem greinir í 3. mgr. sömu greinar. Tek­ið skal fram að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, takmarka lögin ekki þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í upplýsinga­lög­um. Ákvæði þeirra laga geta því ekki ein og sér komið í veg fyrir aðgang að gögnum á grundvelli upp­­­lýsingalaga.
 
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér þá hljóðupptöku sem deilt er um rétt til aðgangs að í málinu, og fellst á að hún hafi að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra í skilningi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Á hinn bóginn verður að telja að hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að hljóðupptökunni séu ríkir, enda hefur nefndin í fyrri úrskurði kveðið á um að kærandi eigi rétt á afriti upptökunnar.
 
Nefndin fellst ekki á að það að kær­andi hafi undir höndum endurrit af símtalinu leiði til þess að hann hafi ekki lögmæta hagsmuni af því að fá aðgang að hljóðupptökunni. Hljóðupptaka af símtali inniheldur ekki aðeins upplýsingar um hvað er sagt heldur fangar líka blæbrigði og andrúmsloft sem erfitt eða úti­lok­að er að koma til skila í endurriti. Slíkt getur gert kær­anda kleift að bæði skilja atburðarásina til hlítar og stað­­reyna að viðbrögð lögreglu í málinu hafi verið eðlileg. Hér ber einnig að horfa til þess að í 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga kemur orðrétt fram að eftir því sem við verður komið skuli veita aðgang að gögn­um á því formi eða sniði og á þeim tungumálum sem þau eru varðveitt á nema þau séu þegar aðgengileg al­menningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Þegar gögn eru eingöngu varðveitt á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír.“ Umbeðið gagn er fyrirliggjandi í formi hljóð­upp­töku.
 
Að framangreindu virtu er það mat úr­skurð­ar­nefndar um upplýsingamál að hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að hljóðupptöku af sím­tal­inu vegi þyngra en hagsmunir annarra af því að upptakan fari leynt. Verður því fallist á að kær­andi eigi rétt til aðgangs að hljóðupptöku af símtalinu.
 

Úrskurðarorð

Ríkislögreglustjóri skal afhenda A hljóðupptöku af símtali milli B og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra […]. 
 
 

Trausti Fannar Valsson, formaður
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum