1185/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024
Hinn 30. apríl 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1185/2024 í máli ÚNU 24010019.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 18. janúar 2024, kærði A synjun Lögreglunnar á Vestmannaeyjum (hér eftir einnig Lögreglan) á beiðni hans um gögn. Kærandi óskaði hinn 4. janúar 2024 eftir aðgangi að lögregluskýrslum vegna tjóns á vatnsleiðslu fyrr um veturinn. Í svari Lögreglunnar, dags. 9. janúar 2024, kom fram að gögnin yrðu ekki afhent því þau vörðuðu rannsókn sakamáls og féllu þannig utan gildissviðs upplýsingalaga, nr. 140/2012, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í kæru til nefndarinnar kemur fram að í málinu hafi orðið milljarða króna tjón og að samfélagslegir hagsmunir standi til þess að gögnin verði afhent.
Kæran var kynnt Lögreglunni í Vestmannaeyjum með erindi, dags. 29. janúar 2024, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
Umsögn Lögreglunnar barst úrskurðarnefndinni hinn 13. febrúar 2024. Í henni kemur fram að Lögreglan hafi nú til rannsóknar mál sem varðar tjón á vatnsleiðslu til Vestmannaeyja, og umbeðin gögn séu hluti af því máli. Umsögninni fylgdi nokkurt magn gagna sem að mati Lögreglunnar sýndu glögglega að málið væri til rannsóknar.
Umsögn Lögreglunnar í Vestmannaeyjum var kynnt kæranda með erindi, dags. 22. febrúar 2024, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust 7. mars 2024. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Í máli þessu hefur kæranda verið synjað um aðgang að lögregluskýrslum á þeim grundvelli að þær varði rannsókn sakamáls og falli þannig utan gildissviðs upplýsingalaga. Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er mælt fyrir um að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum er tilgreint að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála.
Lögreglan í Vestmannaeyjum kveður umbeðin gögn í málinu tilheyra sakamáli sem nú sé til rannsóknar. Málið varðar skemmdir sem urðu á neysluvatnslögn þegar togveiðiskip missti niður akkeri sem festist í vatnslögninni. Úrskurðarnefndin telur að lögregluskýrslur vegna málsins teljist varða rannsókn sakamáls í skilningi 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 18. janúar 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir