Hoppa yfir valmynd

1186/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024

Hinn 30. apríl 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1186/2024 í máli ÚNU 24020004.
 

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Hinn 7. febrúar 2024 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A. Í kærunni, dags. 5. febrúar 2024, kem­ur fram að Vestmannaeyjabær hafi ekki svarað erindi hans. Umrætt erindi til Vestmannaeyjabæjar frá kæranda er dagsett 3. janúar 2024, en með því óskaði kærandi upplýsinga um það hve stórt hlutfall íbúa með lögheimili í Vest­manna­eyja­bæ væri á vinnu­mark­aði. Vestmanna­eyja­bæ var kynnt kæran með erindi, dags. 20. mars 2024, og upp­lýsinga óskað um það hvort erindinu hefði verið svarað. Úrskurðarnefndinni barst svar daginn eftir þar sem fram kom að erindi kæranda fynd­ist ekki í skjalakerfi bæjarins.
 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þá leiðir af 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að til nefndarinnar má einnig kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu beiðni um upplýsingar sam­kvæmt upplýs­inga­lögum. Af kæru er ljóst að kærandi telur að Vestmannaeyjabær hafi dregið óhæfilega að afgreiða beiðni hans um það hve stórt hlutfall íbúa með lögheimili í Vestmannaeyjum sé á vinnu­mark­aði. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar hefur komið fram að beiðnin finnist ekki í skjalakerfi bæjarins. Úr­skurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga þá staðhæfingu í efa. Af því leiðir að ekki getur verið um óhæfilegan drátt á meðferð málsins að ræða í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 5. febrúar 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta