Hoppa yfir valmynd

1191/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024

Hinn 5. júní 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1191/2024 í máli ÚNU 24010016.
 

Kæra og málsatvik

Hinn 16. janúar 2024 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá […] lög­manni, f.h. Hólmbergsbrautar 17a, húsfélags. Með erindi, dags. 8. nóvember 2023, var óskað eftir öll­um teikningum af tveimur byggingum sem byggðar höfðu verið á lóðinni Selvík 3 í Keflavík. Þá var ósk­að eftir öllum úttektarskýrslum og öðrum gögnum sem vörðuðu lóðina og byggingarnar. Loks var ósk­að upplýsinga um hverjir hefðu verið skráðir byggingarstjórar vegna framkvæmda við byggingarnar. Í erindinu var vísað til þess að lóðinni Selvík 3 hafi verið skipt upp í tvær lóðir 2022, annars vegar í Sel­vík 3 og hins vegar Hólmbergsbraut 17.
 
Í kæru kemur fram að Reykjanesbær hafi 20. nóvember 2023 afhent gögn sem vörðuðu fram­kvæmd­ir á framangreindum lóðum frá 2017–2018 en sú afhending sé ófullnægjandi þar sem kærandi hafi meðal annars óskað eftir gögnum um tvö mannvirki sem voru byggð á lóðinni 2007–2008.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Reykjanesbæ með erindi, dags. 19. janúar 2024. Í umsögn Reykjanesbæjar um kær­una, dags. 5. feb­rú­ar 2024, kom fram að með afhendingunni 20. nóvember 2023 hefðu kæranda verið afhent öll gögn sem sveitarfélagið teldi að heyrðu undir beiðnina. Engin gögn væri að finna sem kærandi hefði ekki feng­ið afhent.
 
Úrskurðarnefndin bar erindi Reykjanesbæjar undir kæranda með erindi, dags. 5. febrúar 2024, og gaf honum kost á að koma á framfæri athugasemdum um erindið. Í erindi kæranda, dags. 12. febrúar 2024, kemur fram að það geti ekki staðist að öll gögn hafi verið afhent. Grunnur að byggingu á lóðinni hafi verið byggður milli 2008 og 2010. Þá hafi lokaúttekt verið framkvæmd 1. nóvember 2010 og undirrit­uð af byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar. Það fái ekki staðist að heilt mannvirki hafi risið og hlotið lokaút­tekt af hálfu sveitarfélagsins án þess að til séu gögn um það.
 
Með erindi, dags. 23. febrúar 2024, gaf úrskurðarnefndin Reykjanesbæ kost á að bregðast við athuga­semdum kæranda. Í svari Reykjanesbæjar, dags. 6. mars 2024, eru sjónarmið sveitarfélagsins ítrekuð um að öll gögn sem heyri undir beiðni kæranda hafi verið afhent og að engum gögnum hafi verið haldið eftir.
 
Í nánari skýringum sveitarfélagsins sem bárust 17. apríl 2024 kom fram að kærandi hefði í þrígang óskað eftir gögnum um málið. Sveitarfélagið hefði í öll skiptin afhent honum þau gögn sem til væru í skjalakerfi Reykjanesbæjar.
 
Í erindi úrskurðarnefndarinnar til Reykjanesbæjar 17. maí 2024 benti nefndin á að athugasemdum kær­anda til nefndarinnar kæmi fram að kærandi teldi sig aðeins hafa fengið afhent gögn frá sveit­ar­fél­ag­inu vegna framkvæmda frá 2017 og 2018. Hins vegar væri í þeim gögnum sem sveitarfélagið hefði af­hent úrskurðarnefndinni að finna töluvert af eldri gögnum. Í skýringum sveitarfélagsins sem bárust nefnd­inni 17. maí 2024 fylgdi skjáskot úr skjalakerfinu sem sýndi þau gögn sem afhent hefðu verið, ásamt því að sveitarfélagið fullyrti að gögnin sem nefndinni hefðu borist frá sveitarfélaginu hefðu öll þegar verið afhent kæranda. Úrskurðarnefndinni barst staðfesting frá kæranda 5. júní 2024 þess efnis að honum hefðu verið afhent öll þau gögn sem sveitarfélagið afhenti nefndinni við meðferð málsins.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar afhendingu gagna um lóðina Selvík 3 í Keflavík og byggingar sem byggðar voru á lóð­inni. Kærandi telur að Reykjanesbær hafi ekki afhent öll þau gögn sem liggja fyrir hjá sveitarfélaginu og heyra undir beiðni hans.
 
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, nær réttur almennings til aðgangs að fyrir­liggj­andi gögnum sem varða tiltekið mál og tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Reykjanesbær fullyrðir að öll gögn sem liggja fyrir hjá sveitarfélaginu og heyra undir beiðni kæranda hafi verið afhent og að engum gögn­um hafi verið haldið eftir. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá full­yrðingu sveitarfélagsins.
 
Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að valdsvið úrskurðarnefndarinnar er afmarkað við það annars vegar að skera úr um ágreining þegar synjað er beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum eða beiðni um að af­henda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, og hins vegar að skera úr um rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum þegar beiðni um aðgang hefur ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar, sbr. 3. mgr. 17. gr. laganna. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrir­liggjandi eru ekki fyrir hendi þær aðstæður sem framangreindar kæruheimildir ná til. Verður því að stað­festa ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 20. nóvember 2023.
 
Að lokum skal tekið fram að það kemur í hlut annarra aðila en úrskurðarnefndarinnar að hafa eftirlit með því hvernig sveitarfélög sinna skyldum sínum um skráningu og vistun gagna, sbr. 27. gr. upp­lýs­inga­laga. Vísast í þessu sambandi einkum til ráðuneytis sveitarstjórnarmála og umboðsmanns Alþingis.
 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 20. nóvember 2023, er staðfest.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta