Hoppa yfir valmynd

1195/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024

Hinn 5. júní 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1195/2024 í máli ÚNU 24040012.
 

Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dags. 16. apríl 2024, óskaði […] eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tæki upp að nýju tvö mál sem lauk með úrskurðum nefndarinnar nr. 910/2020 og 1108/2022. Í þeim hefði nefndin komist að því að beiðandi ætti ekki rétt til aðgangs að upplýsingum hjá Vinnueftirlitinu um hvort stofnuninni hefði borist kvörtun um einelti af hálfu hans. Í erindi beiðanda vísar hann til úrskurðar nefndarinnar nr. 1164/2023 þar sem manni hafi verið veittur aðgangur að gögnum um símtal við lögreglu sem leiddi til afskipta lögreglunnar af honum. Beiðandi telji sambærileg sjónarmið og réðu úrslitum um aðgang kæranda að gögnunum í því máli eiga við í sínum málum. Því fari hann fram á að framangreind mál verði tekin upp að nýju hjá nefndinni.
 

Niðurstaða

Í málum úrskurðarnefndar um upplýsingamál ÚNU 20010009 og ÚNU 22030008 sem lauk með úr­skurð­um úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 910/2020, frá 11. júní 2020, og 1108/2022, frá 16. nó­vember 2022, var niðurstaðan að kærandi ætti ekki rétt til aðgangs að upp­lýs­ing­um hjá Vinnu­eftir­lit­inu um hvort borist hefði kvörtun um einelti af hálfu hans. Lagt var til grundvallar að 2. mgr. 83. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og ör­yggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, væri sérstakt þagn­ar­skyldu­ákvæði sem gengi framar upplýsingarétti samkvæmt ákvæðum upp­lýs­inga­laga, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Í úrskurði nr. 910/2020 leysti úr­skurð­ar­nefnd­in að vísu úr málinu á grundvelli upplýsingalaga, þar sem sérstaka þagnarskylduákvæðið hafði fyrir mistök verið fellt brott úr lögum nr. 46/1980 þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Hins vegar var horft til þess við hags­munamat á grundvelli upplýsingalaga að þeir sem kynnu að hafa kvartað til Vinnueftirlitsins áður en þagnarskylduákvæðið var fellt brott hefðu mátt hafa réttmætar væntingar til þess að hin sérstaka þagn­arskylda gilti um erindi þeirra.
 
Í 24. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um endurupptöku stjórnsýslumáls:
 

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

 
Að mati úrskurðarnefndar um upp­lýs­inga­mál hafa engar nýjar upplýsingar komið fram í málum beiðanda sem breytt geta niðurstöðum nefndarinnar. Því eru ekki uppfyllt skilyrði fyrir endurupptöku málanna samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.
 
Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir kemur það að mati nefndarinnar til álita ef rökstuddar vísbendingar eru um að á úrskurðum hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur að slíkar vísbendingar séu ekki til staðar. Í úrskurði nr. 1164/2023 sem beiðandi nefnir til stuðnings beiðni um endurupptöku var lagt mat á rétt kæranda til aðgangs að gögnum á grundvelli upplýsingalaga og hagsmunir kæranda af að fá aðgang að upplýsingum um einkamálefni annarra vegnir og metnir andspænis hagsmunum þeirra sem upplýsing­arnar vörðuðu af að þeim yrði haldið leyndum. Í málum beiðanda var það hin sérstaka þagnarskylda í lögum nr. 46/1980 sem girti fyrir aðgang að umbeðnum upplýsingum og lagasjónarmið sem tengdust beitingu hennar gagnvart upplýsingarétti á grundvelli upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku mála ÚNU 20010009 og ÚNU 22030008 sem lauk með úrskurð­um úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 910/2020, frá 11. júní 2020, og 1108/2022, frá 16. nóvember 2022.
 

Úrskurðarorð

Beiðni […] um endurupptöku mála ÚNU 20010009 og ÚNU 22030008 sem lauk með úrskurð­um úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 910/2020, frá 11. júní 2020, og 1108/2022, frá 16. nóvember 2022, er hafnað.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum