1209/2024. Úrskurður frá 25. júní 2024
Hinn 25. júní 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1209/2024 í máli ÚNU 24020019.
Kæra og málsatvik
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál barst erindi frá […] 20. febrúar 2024. Í erindinu kveður kærandi að ríkislögmaður hafi ekki orðið við beiðni um aðgang að umsögnum Landspítala, dómsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis sem ríkislögmaður aflaði við meðferð bótakröfu kæranda.
Þann 7. desember 2022 sendi kærandi þessa máls erindi til ríkislögmanns þar sem lögð var fram krafa um viðurkenningu á bótaskyldu vegna tilgreindra atvika. Ríkislögmaður aflaði af því tilefni umsagna frá dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og Landspítala. Ríkislögmaður hafnaði í kjölfarið viðurkenningu á bótaskyldu með bréfi til kæranda dags. 11. desember 2023. Með erindi til ríkislögmanns, dags. 18. desember 2023, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun að hafna kröfu kæranda um bætur. Þá óskaði kærandi eftir aðgangi að framangreindum umsögnum. Í kjölfar samskipta ríkislögmanns og kæranda í desember 2023, janúar og febrúar 2024, áréttaði ríkislögmaður fyrri afstöðu til kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu með bréfi þann 14. febrúar 2024. Í því bréfi var ekki tekin afstaða til beiðni kæranda um aðgang að gögnunum.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt ríkislögmanni með erindi, dags. 1. mars 2024. Umsögn ríkislögmanns barst úrskurðarnefndinni 6. mars 2024. Samhliða umsögninni sendi ríkislögmaður kæranda ákvörðun, dags. sama dag, um að hafna gagnabeiðni hans. Þá fylgdi umsögninni afrit af: 1) umsögn dómsmálaráðuneytis, dags. 1. mars 2023, 2) tölvupósti milli Landspítala og ríkislögmanns, dags. 17. apríl 2023, 3) umsögn Landspítala, dags. 24. apríl 2023, 4) tölvupóstum milli heilbrigðisráðuneytis og ríkislögmanns, dags. 1. og 2. nóvember 2023, og 5) umsögn heilbrigðisráðuneytis, dags. 1. desember 2023.
Í umsögn ríkislögmanns er rakið að kærandi hafi sent embættinu erindi um viðurkenningu á bótaskyldu vegna ólögmætra frelsissviptinga. Ríkislögmaður hafi aflað umsagna Landspítala, dómsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis vegna erindisins og átt í tölvupóstssamskiptum við Landspítala og heilbrigðisráðuneyti. Afstaða stjórnvalda hafi verið að skilyrði bótaskyldu væru ekki fyrir hendi. Í ákvörðun um að hafna beiðni kæranda um aðgang að framangreindum gögnum er vísað til þess að þau séu undanþegin upplýsingarétti, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og 2. mgr. 14. gr. sömu laga. Þá sé ekki talið tilefni til að veita ríkari aðgang að gögnunum en skylt er, sbr. 2. mgr. 11. gr. sömu laga.
Umsögn ríkislögmanns var kynnt kæranda með erindi, dags. 12. mars 2024, og afstöðu kæranda óskað til þess hvort hann vildi að málinu yrði haldið áfram í ljósi þess að gagnabeiðni hans hefði nú verið afgreidd. Kærandi brást við erindi úrskurðarnefndarinnar 18. mars og 9. apríl 2024. Af erindunum taldi nefndin ráðið að hann vildi að málinu yrði haldið áfram. Kærandi upplýsti nefndina 20. mars 2024 um að Landspítali hefði afhent kæranda umsögn sína í málinu. Eftir stæði því að skera úr um rétt kæranda til aðgangs að umsögnum dóms- og heilbrigðisráðuneyta.
Niðurstaða
1.
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að umsögnum sem ríkislögmaður aflaði frá nánar tilgreindum stjórnvöldum vegna erindis kæranda til ríkislögmanns þar sem krafist var viðurkenningar á bótaskyldu.
Kærandi hefur upplýst úrskurðarnefndina um að hann hafi fengið umsögn Landspítala afhenta. Eftir stendur að skera úr um rétt kæranda til aðgangs að umsögnum dómsmálaráðuneytis, dags. 1. mars 2023, og heilbrigðisráðuneytis, dags. 1. desember 2023. Vegna síðargreindu umsagnarinnar liggja einnig fyrir þrír tölvupóstar, nánar tiltekið einn tölvupóstur frá starfsmanni heilbrigðisráðuneytisins til ríkislögmanns dags. 1. nóvember 2023 og tveir tölvupóstar með svörum ríkislögmanns, dags. 1. og 2. nóvember 2023, þar sem fjallað er efnislega um kröfu kæranda um viðurkenningu bótaskyldu. Þar sem gögnin urðu til í tilefni af bótakröfu kæranda telur úrskurðarnefndin að þessi gögn falli undir kæruefni málsins og að um rétt kæranda til aðgangs að þeim fari samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, sem varðar aðgang að upplýsingum um aðila sjálfan. Með ákvörðun ríkislögmanns 6. mars 2024 var því hafnað að afhenda kæranda þessi gögn, bæði umsagnirnar og nefnda tölvupósta.
Í umsögn dómsmálaráðuneytis til ríkislögmanns kemur fram að umsögninni fylgi gögn sem fyrir liggi í ráðuneytinu. Þessi gögn voru ekki á meðal þeirra sem ríkislögmaður afgreiddi með ákvörðun sinni til kæranda, dags. 6. mars 2024, og koma því ekki til umfjöllunar í þessum úrskurði. Vilji kærandi láta reyna á rétt sinn til aðgangs að þeim gögnum skal erindi um það beint til ríkislögmanns eða ráðuneytisins.
2.
Ákvörðun ríkislögmanns byggist á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt því ákvæði nær réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til bréfaskipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Ákvæðið á einnig við þegar réttur til aðgangs að gögnum er byggður á III. kafla upplýsingalaga um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan, enda segir í 1. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna að aðgangur aðila að upplýsingum samkvæmt 14. gr. nái ekki til gagna sem talin séu í 6. gr. laganna. Heimildir til beitingar 3. tölul. 6. gr. laganna eru því hinar sömu hvort sem réttur til aðgangs er byggður á 5. gr. eða 14. gr. upplýsingalaga, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 870/2020.
Í athugasemdum við 3. tölul. 6. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir:
Hér að baki býr það sjónarmið að hið opinbera geti, á sama hátt og hver annar aðili að dómsmáli, leitað ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar sem þannig er aflað komist til vitundar gagnaðila. Ber að túlka ákvæðið þannig að það tryggi að hið opinbera standi ekki vegna upplýsingalaga höllum fæti í dómsmálum. Undanþágunni verður aðeins beitt um gögn sem verða til eða aflað er gagngert í þessu skyni og tekur því t.d. ekki til álitsgerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað er við meðferð stjórnsýslumála almennt. Hliðstæð undanþága frá upplýsingarétti aðila máls er í stjórnsýslulögum.
Orðalag ákvæðisins og athugasemdir þar að lútandi í greinargerð benda ekki til þess að gerð sé krafa um að bréfaskipti eigi sér stað eftir að dómsmál er höfðað eða beinlínis í tilefni af ákvörðun um að höfða eða taka til varna í slíku máli. Samkvæmt sjónarmiðum sem fram koma í bréfi umboðsmanns Alþingis frá 13. desember 2002, í máli nr. 3643/2002, sem lýtur að skýringu sambærilegs ákvæðis í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, og þeim athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga ber að skýra ákvæðið með það fyrir augum að tryggja jafnræði á milli aðila máls og viðkomandi stjórnvalds ef til dómsmáls kemur. Í fyrrgreindu bréfi umboðsmanns sagði enn fremur að nægilegt væri að beiðni stjórnvalds um álit sérfróðs aðila væri sett fram í tilefni af framkominni kröfu aðila máls um skaðabætur þar sem lagt er til grundvallar að leitað verði til dómstóla fallist stjórnvald ekki á kröfuna.
Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að nauðsynlegt sé að bréfaskipti stjórnvalds við sérfróðan aðila standi í beinum tengslum við mál sem þegar hefur verið höfðað eða þegar hefur verið tekin ákvörðun um að höfða. Undir undanþáguna falla einnig bréfaskipti sem til koma vegna könnunar stjórnvalds á réttarstöðu sinni í tengslum við nærliggjandi möguleika á slíkri málshöfðun, enda lúti þau ekki með beinum hætti að meðferð stjórnsýslumála. Þá tekur undanþágan samkvæmt framansögðu einnig til réttarágreinings sem lagður er í annan farveg, t.d. fyrir sjálfstæðri úrskurðarnefnd, eða þegar til greina kemur að leggja ágreining í slíkan farveg.
3.
Samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um ríkislögmann, nr. 51/1985, fer ríkislögmaður með uppgjör bótakrafna sem beint er að ríkissjóði og með vörn þeirra einkamála fyrir dómstólum og gerðardómum sem höfðuð eru á hendur ríkinu og sókn þeirra einkamála sem ríkið höfðar á hendur öðrum. Samkvæmt leiðbeiningum forsætisráðuneytisins fyrir ráðuneyti og stofnanir frá desember 2019, um verklag í samskiptum við embætti ríkislögmanns, kemur fram að allar bótakröfur sem beinast að ríkinu fari annaðhvort beint til ríkislögmanns eða til viðkomandi ráðuneytis eða stofnunar sem framsendi kröfu til hans, sjá kafla 3.2 í leiðbeiningunum. Í sama kafla kemur fram að ríkislögmaður fái fram afstöðu hlutaðeigandi ráðuneytis eða stofnunar áður en hann ákveður að fallast á bótakröfu, eða annars konar kröfu, eða hafna henni í heild eða hluta nema framkvæmd sé skýr og ótvíræð.
Ríkislögmaður er samkvæmt framansögðu sérfróður aðili sem fer með uppgjör bótakrafna sem beint er að ríkissjóði og sér um sókn eða vörn annarra ríkisaðila í dómsmálum. Af því leiðir að samskipti stjórnvalds við ríkislögmann vegna könnunar þess á réttarstöðu sinni eða vegna dómsmáls, falla undir undanþáguákvæði 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Skiptir þar ekki máli hvort viðkomandi stjórnvald eða ríkislögmaður eigi frumkvæði að samskiptunum, sbr. úrskurði nefndarinnar nr. 828/2019, 870/2020, 882/2020, 901/2020 og 958/2020.
Ríkislögmaður aflaði þeirra umsagna sem deilt er um aðgang að í málinu í tilefni af erindi kæranda til embættisins, dags. 7. desember 2022. Áðurnefndir tölvupóstar sem bárust milli ríkislögmanns og heilbrigðisráðuneytisins 1. og 2. nóvember 2023 urðu einnig til í tilefni af sama erindi kæranda. Með erindinu fór kærandi meðal annars fram á viðurkenningu á bótaskyldu vegna ólögmætra frelsissviptinga. Yfirskrift I. kafla erindisins er „krafa um viðurkenningu á bótaskyldu ríkisins gegn aðvörun um málshöfðun“. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni umbeðinna umsagna en þar kemur fram afstaða dómsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis til krafna og röksemda kæranda. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir í málinu hvort kærandi hafi eða muni höfða dómsmál telur úrskurðarnefndin að leggja verði til grundvallar að umbeðnar umsagnir og tölvupóstsamskipti hafi lotið að könnun á réttarstöðu hlutaðeigandi stjórnvalda vegna nærliggjandi möguleika á slíkri málshöfðun.
Úrskurðarnefndin telur samkvæmt framangreindu að ríkislögmanni hafi verið heimilt að hafna beiðni kæranda um framangreindar umsagnir á grundvelli 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Verður ákvörðun ríkislögmanns því staðfest, eins og greinir í úrskurðarorði. Sama á við um tölvupósta sem sendir voru milli ríkislögmanns og heilbrigðisráðuneytis, dags. 1. og 2. nóvember 2023.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun ríkislögmanns, dags. 6. mars 2024, að synja […] um aðgang að umsögn dómsmálaráðuneytis, dags. 1. mars 2023, umsögn heilbrigðisráðuneytis, dags. 1. desember 2023, og tölvupóstssamskiptum frá 1. og 2. nóvember 2023 milli ríkislögmanns og heilbrigðisráðuneytis vegna umsagnar ráðuneytisins.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir