Hoppa yfir valmynd

1220/2024. Úrskurður frá 25. október 2024

Hinn 25. október 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1220/2024 í máli ÚNU 24100011.
 

Krafa og málsatvik

Hinn 17. október 2024 krafðist Isavia innanlandsflugvellir ehf. (hér eftir einnig Isavia) þess að úr­skurðarnefnd um upplýsingamál frestaði réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar nr. 1219/2024 í máli ÚNU 23090019, sem kveðinn var upp 10. október 2024, meðan málið væri til meðferðar hjá dómstólum með vísan til 1. mgr. 24. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 
Til stuðnings kröfu sinni vísar Isavia til þess að hagsmunir Colas Ísland ehf. (hér eftir einnig Colas) og Isavia yrðu skertir með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og óbætanlegum hætti verði aðgangur veitt­ur í samræmi við úrskurðarorð. Krafa um frestun sé aðallega rökstudd með tilliti til sérstakra ástæðna er varði afhendingu á gögnum samkvæmt 2., 3. og 5. tölulið 1. mgr. úrskurðarorðs en að öðru leyti sé vísað til þeirra sjónarmiða sem Colas og Isavia hafi komið á framfæri við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni. Eins og ítarlega hafi verið rakið við rekstur málsins hafi Colas mjög ríka hagsmuni af því að einingarverðum sé haldið leyndum og þá sérstaklega frá samkeppnis­aðila. Um sé að ræða nýlegar og nákvæmar verðupplýsingar og augljóst að afhending þeirra til sam­keppnisaðila muni veikja samkeppnisstöðu Colas við þátttöku í opinberum innkaupaferlum. Þetta samrýmist einnig niðurstöðu nefndarinnar um upphaflega tilboðsskrá sem nefndin taldi varða virka mikilvæga hagsmuni Colas. Almenningur hafi þannig greiðan aðgang að upplýsingum um þá afurð sem keypt hafi verið og endurgjald fyrir kaupin. Hagsmunir almennings af nákvæmum upp­lýs­ingum um einingarverð séu afar takmarkaðir og vandséð að sérstakir hagsmunir kæranda, sem ekki eigi að taka tillit til, séu aðrir en að öðlast ósanngjarnt samkeppnisforskot við þátttöku í síðari innkaupaferlum.
 
Auk framangreinds sé túlkun nefndarinnar á 1. mgr. 17. gr. laga um opinber innkaup, nr. 120/2016, ekki í samræmi við athugasemdir í greinargerð með frumvarpi til laganna enda hafi löggjafinn þar sér­staklega tiltekið að eðli einingarverða sé slíkt að birting þeirra eftir opinbert innkaupaferli sé til þess fallin að raska samkeppni og skaða viðskiptahagsmuni bjóðanda. Þannig sé kaupanda þegar af þeirri ástæðu óheimilt að afhenda slíkar upplýsingar, þó að ákvæðið hafi að öðru leyti ekki áhrif á skyldu til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga, sbr. 4. mgr. 17. gr. laga um opin­ber innkaup. Sömu sjónarmið eigi einnig við um 42. gr. veitureglugerðarinnar, nr. 340/2017. Sjón­ar­mið um að trúnaður skuli ríkja um boðin einingarverð hafi ítrekað verið staðfest í ákvörð­un­um kærunefndar útboðsmála, sbr. ákvarðanir nefndarinnar í málum nr. 32/2019, 8/2021, 12/2023 og 47/2023. Ekki geti staðist að upplýsingaréttur almennings á grundvelli 5. gr. upplýs­inga­laga veiti ríkari upplýsingarétt en ákvæði 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
 
Þótt innkaupin sem hér um ræði falli utan gildissviðs laga um opinber innkaup og reglugerðar nr. 340/2017 sé einsýnt að sömu sjónarmið eigi við um boðin einingarverð enda sé eðli upplýsinganna hið sama. Nefndinni hafi því borið að taka tillit til þessarar meginreglu útboðsréttar um trúnað við bjóð­endur, við mat á því hvort upplýsingar um einingarverð falli undir 2. málsl. 9. gr. upplýsinga­laga. Í ljósi þess verulega munar sem til staðar sé í úrskurðarframkvæmd úrskurðarnefndar um upp­lýsingamál annars vegar og ákvörðunum kærunefndar útboðsmála hins vegar, sé sérstaklega mikil­vægt að réttaráhrifum úrskurðarins sé frestað þar til niðurstaða dómstóla liggur fyrir.
 
Í samhengi við aðgang að kostnaðaráætlunum Isavia telur félagið að túlkun nefndarinnar um að einka­hagsmunir Isavia njóti ekki verndar 9. gr. upplýsingalaga standist ekki skoðun. Í fyrri úr­skurð­um nefndarinnar hafi ítrekað verið lagt til grundvallar að einungis 4. tölul. 10. gr. laganna verndi við­skiptahagsmuni opinberra aðila, þar með talið einkaréttarlegra lögaðila sem séu í opin­berri eigu. Ekki sé sérstaklega rökstutt í þessum úrskurðum hver sé ástæða þess að almennara ákvæði 9. gr. lag­anna gildi ekki einnig þar sem 4. tölul. 10. gr. sleppir. Orðalag 9. gr. sé skýrt og af­dráttarlaust. Verndar­andlag ákvæðisins nái til gagna sem varði mikilvæga virka fjárhags- eða við­skipta­hags­muna fyrirtækja og annarra lögaðila. Isavia sé einkahlutafélag í atvinnurekstri og þar með fyrir­tæki. Félagið sé hvorki stjórnvald né ríkisstofnun heldur félag með sjálfstæðan fjárhag sem rekið sé á grundvelli þjónustusamnings við ríkið. Félagið sé einnig lögaðili í samræmi við almenna notk­un hugtaksins í íslenskum rétti sem og notkun hugtaksins í 2. mgr. 2. gr. upp­lýs­inga­laga. Hugtakið einka­aðili sé einnig notað í upplýsingalögum, sbr. 3. gr. laganna, þar sem sér­stak­lega sé tekið fram að einkaaðilar geti verið í opinberri eigu. Erfitt sé að álykta annað en að slíkir einka­aðilar geti notið einka­hagsmuna í samræmi við fyrirsögn 9. gr. upplýsingalaga. Túlkun úr­skurð­ar­nefndarinnar víki svo langt frá því sem leiði af almennri textaskýringu á ákvæðinu, með íþyngj­andi hætti fyrir þá aðila sem ákvæðinu sé ætlað að vernda, að nauðsynlegt sé að dómstólar taki afstöðu til lögskýr­ing­arinnar áður en gögnin séu afhent. Þá telji Isavia að upplýsingarnar njóti vernd­ar 3. og 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga og bendir meðal annars á að kostnaðaráætlanirnar varði með óbeinum hætti fyrir­hugaðar ráðstafanir á vegum hins opinberar.
 
Loks vísar Isavia til þess að nauðsynlegt sé að fá túlkun dómstóla á inntaki 9. gr. og 10. gr. upplýs­inga­laga með tilliti til þeirra aðstæðna sem séu fyrir hendi í málinu. Ekki verði séð að dómstólar hafi áður tekið afstöðu til þess hvort opinbert fyrirtæki njóti verndar 9. gr. upplýsingalaga eða hvernig túlka skuli 3. og 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga í tengslum við nákvæmar kostnað­ar­áætl­an­ir opinberra kaupenda. Umfjöllun dómstóla um málsmeðferð og hagsmunamat í tengslum við 9. gr. upplýsingalaga hvað varði fjárhags- og viðskiptahagsmuni þriðja aðila sé einnig mjög tak­mörk­uð. Þessi skortur á dómaframkvæmd sé sérstök ástæða sem nefndinni beri að taka tillit til við ákvörðun um frestun réttaráhrifa.
 

Málsmeðferð

Með tölvupósti 17. október 2024 var Colas og kæranda í máli ÚNU 23090019, þ.e. Malbik­stöð­inni ehf., gefinn kostur að á tjá sig um kröfuna og bárust athugasemdir frá báðum aðilum 22. októ­ber 2024.
 
Kærandi mótmælir kröfu Isavia og telur að henni beri að hafna. Lögð sé áhersla á að Isavia sé í eigu opinbers hlutafélags sem sé í 100% eigu íslenska ríkisins. Á opinberum fyrirtækjum hvíli skylda að tryggja að fjármunir ríkisins séu nýttir á sem hagkvæmastan hátt og að aðgerðir þeirra séu ekki samkeppnishamlandi. Sjónarmiðum Isavia um að afhending á viðkomandi upplýsingum muni raska virkum fjárhags- og viðskiptahagsmunum Colas sé hafnað sem tilhæfulausum og ósönn­uð­um. Colas sé í verulega sterkri markaðsráðandi stöðu á mörkuðum tengdum framleiðslu og sölu á mal­biki og hafi alfarið séð um alla malbikunarþjónustu á öllum flugvallarsvæðum lands­ins í fjölda­mörg ár. Hafi þetta leitt til algjörrar einokunar fyrirtækisins á slíkum verkframkvæmd­um sem séu bæði umfangsmiklar og mjög arðbærar. Isavia þurfi einfaldlega að gera sér grein fyrir því að almenn­ingur hafi verulega ríka hagsmuni af því að fá upplýsingar um hvernig félagið ráð­stafar opin­beru fé í framkvæmdum á sínum vegum.
 
Í athugasemdum Colas er rakið að félagið taki undir kröfu og sjónarmið Isavia. Hvað varði einstök atriði og þær sérstöku ástæður sem geti átt við í málinu í skilningi 24. gr. upplýsingalaga telji Colas að eðli málsins og þýðing sé með þeim hætti að undirliggjandi séu verulegir hagsmunir fyrir félög­in og því mikilvægt að úrskurðarnefndin gefi Isavia tækifæri til að færa fram frekari sönnur á þau atriði sem séu undir í málinu fyrir dómi áður en aðgangur sé veittur. Þá liggur ekki fyrir dóma­fram­kvæmd hvað varði helstu álitaefni þessa máls, sbr. einkum 9. og 10. gr. upplýsingalaga, eins og Isavia nefni kröfu sinni til stuðnings.
 
Í samhengi við aðgang að upphaflegri tilboðsskrá félagsins og tölvupóstssamskiptum, sem kær­anda hafi verið veittur með úrskurði nefndarinnar, bendir Colas meðal annars á að óháð því hvort heimilt sé að beita því hagsmunamati sem úrskurðarnefndin byggi á, og Isavia gerir athugasemd við, telji Colas að það skorti á að heildstætt og efnislegt mat hafi farið fram á hagsmunum félagsins og rökstuðningur varpi ekki ljósi á það mat sem nefndinni hafi borið að framkvæma. Í úrskurð­inum, og aðferðafræði nefndarinnar, skorti á að gerður sé greinarmunur á almennum upplýsingum sem varða ráðstöfun opinbers fjár, sem almenningur eigi ríkan rétt til að fá aðgang að, og viðbótar­upp­lýsingum sem önnur sjónarmið eigi við um og þurfi að meta sérstaklega. Það eitt að upplýsingar varði kaup hins opinbera geti ekki leitt sjálfkrafa til þess að hagsmunir almennings af því að fá slíkar upplýsingar vegi þyngra en hagsmunir félagsins, eins og ráða megi af rökstuðningi nefndar­inn­ar.
 
Colas hafi mjög ríka hagsmuni af því að einingaverðum sé haldið leyndum. Um sé að ræða nýlegar og nákvæmar verðupplýsingar. Þá hafi ekki verið tekið tillit til hvernig tölvupóstssamskiptin sem um ræði varpi ljósi á tiltekin mun á millisamtölum og heildarverði á milli upphaflegs og uppfærðs til­boðs. Því sé um að ræða virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni sem varði framtíðarhagsmuni félags­ins og geti skaðað hagsmuni þess verði þær afhentar. Slíkar upplýsingar veiti innsýn í rekstur og stefnu félagsins og geta skapað samkeppnisaðila forskot á markaði. Samkeppnisaðilar geti þann­ig óhindrað nýtt sér slíkar upplýsingar í samkeppni við félagið til framtíðar. Ljóst er að að­gang­ur að slíkum upplýsingum sé einkum til þess fallinn að samkeppnisaðilar geti nýtt sér þær í síðari innkaupaferlum frekar en að tryggja almenningi hagsmuni um gagnsæi við ráðstöfun opin­bers fjár. Af því leiðir jafnframt að slíkar upplýsingar séu líklegar til að skaða hagsmuni félagsins og valda því tjóni verði þær afhentar.
 
Hvað varðar aðgang að öðrum gögnum sé mikilvægt að látið verði reyna á ágreiningsatriði varð­andi þau gögn fyrir dómstólum enda geti nefndin ekki útilokað að Isavia geti með frekari sönnunar­færslu fyrir dómi sýnt fram á hagsmuni félaganna af því að halda slíkum upplýsingum leyndum. Í því sambandi vísar Colas sérstaklega til upplýsinga sem úrskurðarnefndin telji að veita eigi aðgang að í samantektarskjali félagsins og nefnir dæmi úr úrskurðinum því til stuðnings. Umfjöllun nefnd­ar­innar um þessi atriði eigi það sameiginlegt að ekkert mat hafi farið fram á hagsmunum félagsins and­spænis almannahagsmunum og enginn rökstuðningur fyrir utan almenn sjónarmið. Ef úrskurð­ar­nefndin ætli að vega saman slíka andstæða hagsmuni þá sé mikilvægt að rökstuðningur nefndar­inn­ar endurspegli hvaða þýðingu slíkar upplýsingar hafi í reynd í atvinnurekstri, hvernig þær upplýsingar verði til og séu notaðar við uppbyggingu í rekstri og hvaða afleiðingar það geti haft að veita aðgang að þeim á samkeppnismarkaði.
 
Colas bendir á að upplýsingarnar byggi á áratuga reynslu og þekkingu sem byggist upp við rann­sókn­ir og þróun sem og reynslu með tilheyrandi kostnaði. Þetta séu upplýsingar sem samkeppnis­aðil­ar geti nýtt sér verði veittur aðgangur að þeim þótt almenningur kunni að líta svo á að þetta séu al­mennar upplýsingar. Samkeppnisaðilar geti því nýtt sér slíkar upplýsingar og innleitt með til­heyr­andi röskun á samkeppni.
 

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar kröfu Isavia um frestun réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsinga­mál nr. 1219/2024 í máli ÚNU 23090019, sem kveðinn var upp 10. október 2024, á meðan mál um gildi úrskurðarins verði borið undir dómstóla.
 
Í 1. mgr. 24. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er kveðið á um heimild úrskurðarnefndar um upplýs­inga­mál til að ákveða að fresta réttaráhrifum úrskurðar að kröfu stjórnvalds eða annars aðila sem nefnd­in hefur lagt fyrir að veita aðgang að gögnum telji nefndin sérstaka ástæðu til. Krafa þess efnis skal berast úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki síðar en sjö dögum frá birtingu úrskurðar. Krafa Isavia barst innan þessa tímafrests.
 
Í athugasemdum við 24. gr. í grein­argerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur fram að líta beri á ákvæðið sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sér­staklega stendur á. Í fræðiskrif­um um efnið kemur fram að til að komast að niðurstöðu um hvort rétt­lætanlegt sé að fresta réttar­áhrif­um kærðrar ákvörðunar verði ávallt að leggja heildstætt mat á þau andstæðu sjónarmið sem vegast á í hverju máli. Við matið beri að líta til réttmætra hagsmuna allra aðila málsins. Þá beri að líta til þess hversu langt er um liðið frá því að hin kærða ákvörðun var tilkynnt aðilum. Loks beri að líta til þess hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd lagt til grundvallar að með heim­ild­arákvæðinu séu fyrst og fremst höfð í huga tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hags­mun­ir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti ef veittur yrði aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu síðar að verða skýrð af dómstólum. Vísast um þetta m.a. til úrskurða nefndarinnar nr. 812/2019 og þeirra úrskurða sem þar er vísað til. Jafnframt geta haft þýðingu önnur sjónar­mið á borð við það hvort nefndin hafi byggt niðurstöðu sína á atriðum sem eru háð vafa, sbr. úr­skurð nefndarinnar nr. 577/2015. Nefndin telur rétt að árétta að ákvörðun um nýtingu heim­ild­ar til þess að fresta réttaráhrifum ræðst fyrst og síðast af mati á því máli sem um ræðir hverju sinni.
 
Verður nú leyst úr því hvort fresta eigi réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar í heild eða að hluta með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum.
 

2.

Í úrskurði nefndarinnar nr. 1219/2024 var Isavia gert skylt að afhenda kæranda tiltekin gögn sem vörðuðu Colas. Nánar tiltekið var þar um að ræða skjal auðkennt […], tilboðsskrá Colas, dags. 2. maí 2023, tölvupóstssamskipti milli Colas og Isavia á tíma­bilinu frá 25. apríl 2023 til 14. júní sama ár, og verkáætlun Colas. Þá var Isavia einnig gert skylt að afhenda kæranda samantektarskjal Colas, þó með þeim hætti að strikað skyldi yfir ýmsar upp­lýs­ingar í skjalinu. Þá var Isavia með úrskurðinum gert að afhenda gögn sem stöfuðu frá félag­inu sjálfu, nánar tiltekið tvær kostnaðaráætlanir Isavia auk tiltekins hluta af minnis­punkt­um starfs­manns félagsins.
 
Líkt og rakið er í úrskurði nefndarinnar nr. 1219/2024 hefur kærandi að hluta til fengið að­gang að fyrrgreindri tilboðsskrá og tölvupóstssamskiptum. Isavia afhenti kæranda tilboðsskrána í kjölfar beiðni hans en þar höfðu allar upplýsingar verið afmáðar að undanskildum upplýsingum um heild­ar­fjárhæð tilboðsins. Í afhentu skjali hafði þannig verið strikað yfir einingarverð vegna til­tekinna verk­þátta auk upplýsinga um heildarfjárhæð einstakra verkþátta og verkhluta. Þá afhenti Isavia einnig kæranda fyrrgreind tölvupóstssamskipti en þar höfðu tilteknar upplýsingar verið af­máð­ar sem allar áttu það sammerkt að innihalda upplýsingar um verð Colas.
 
Í úrskurði nefndarinnar reyndi meðal annars á hvort að þær upplýsingar sem höfðu verið afmáðar úr umræddum gögnum væru undanþegnar upplýsingarrétti almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upp­lýsingalaga með vísan til 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga.
 
Ekki verður séð að dómstólar hafi tekið afstöðu til sambærilegs ágreinings og leyst var úr í úrskurði nefnd­arinnar, þ.e. um afhendingu á einingarverðum tiltekinna samninga sem einkaaðilar hafa gert við opinberan aðila sem fellur undir gildissvið upplýsingalaga í þeim tilvikum þegar heildar­fjár­hæð­ir samkvæmt samningi liggja þegar fyrir og hafa verið afhentar. Úrskurðarnefndin tekur fram að þegar slíkar aðstæður eru fyrir hendi reynir bæði almennt á það hvernig hagsmunamat og nánari laga­túlkun samkvæmt 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga skuli fara fram og svo atviksbundið mat á virk­um viðskiptahagsmunum viðkomandi einkaaðila hverju sinni. 
 
Að framangreindu gættu telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að vafi um túlkun 2. málsl. 9. gr. upp­lýsingalaga við þessar aðstæður og hagsmunir Colas af því að ekki verði veittur aðgangur að gögn­unum í andstöðu við ákvæðið eins og það kann síðar að vera skýrt af dómstólum leiði til þess að sérstakar ástæður standi til þess að veita Isavia kost á að bera úrskurð nefndarinnar nr. 1219/2024 að þessu leyti undir dómstóla áður en úrskurðurinn verður fullnustaður. Telur nefndin því rétt að fresta réttaráhrifum úrskurðarins að þessu leyti í samræmi við það sem nánar greinir í úr­skurðarorði.
 
Hvað varðar samantektarskjal Colas var í úrskurði nefndarinnar lagt til grundvallar að Isavia væri óheim­ilt að afhenda tilteknar upplýsingar í skjalinu samkvæmt 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Skjal­ið er umfangsmikið og er það nokkuð sérstaks eðlis enda koma þar fram ýmsar upplýsingar sem varða mismunandi þætti í starfsemi Colas. Þótt nefndin hafi í úrskurði sínum mælt fyrir um að strikað skyldi yfir fjölmörg atriði í skjalinu þykir ekki hægt að útiloka að fullu að leitt verði í ljós undir rekstri dómsmáls að þar séu enn upplýsingar er kunni að njóta verndar 2. málsl. 9. gr. upp­lýs­inga­laga. Telur nefndin því rétt eins og hér hagar til að gefa Isavia möguleika á sönnunar­færslu af því tagi og fellst á að réttaráhrifum úrskurðarins verði einnig frestað að þessu leyti í sam­ræmi við það sem nánar greinir í úrskurðarorði.
 
Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar var Isavia einnig gert skylt að afhenda kæranda skjal auðkennt […] með vísan til þess að Colas hefði samþykkt að kær­anda yrði afhent skjalið. Þá taldi nefndin að 2. máls. 9. gr. upplýsingalaga stæði ekki í vegi fyrir afhend­ingu verkáætlunar Colas til kæranda og var meðal annars rakið í úrskurðinum að vandséð væri að hagsmunum Colas yrði hætta búin þótt kæranda og almenningi yrði veittur aðgangur að skjal­inu. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur ekkert fram komið er breytir því sem kemur fram í úrskurði nefndarinnar varðandi afhendingu þessara gagna. Verður því að hafna kröfu Isavia um að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað hvað þau varðar.
 
Að framangreindu frágengnu þarf að taka til skoðunar hvort efni séu til að fresta réttaráhrifum úr­skurðarins hvað varðar skyldu Isavia til að afhenda kæranda tvær kostnaðaráætlanir félagsins og hluta af minnispunktum starfsmanns þess. Í úrskurði í máli nr. 1219/2024 tók nefndin umrædd gögn til sjálfstæðrar skoðunar með tilliti til þess hvort veita bæri aðgang að þeim samkvæmt upp­lýs­inga­lögum. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að 9. gr. upplýsingalaga stæði ekki í vegi fyrir af­hendingu umræddra kostnaðaráætlana til kæranda enda teldust hagsmunir Isavia ekki til þeirra einka­hagsmuna sem ákvæðinu væri ætlað að vernda auk þess sem 3. og 5. tölul. 10. gr. upplýsinga­laga stæðu ekki í vegi fyrir afhendingu gagnanna. Hvað varðar aðgang að hluta af minnispunktum starfs­manns Isavia féllst úrskurðarnefndin á sjónarmið Isavia um að skjalið teldist vera vinnugagn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga en lagði til grundvallar að Isavia skyldi afhenda kæranda tiltekinn hluta skjalsins með vísan til 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekkert nýtt hafa komið fram er sýni að fyrir hendi séu laga­skilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðarins hvað varðar skyldu Isavia til að afhenda kær­anda kostnaðaráætlanir félagsins og hluta af minnispunktum starfsmanns þess. Verður kröfu Isavia því hafnað að þessu leyti.
 

Úrskurðarorð

Fallist er að hluta á kröfu Isavia innanlandsflugvalla ehf. um að fresta réttaráhrifum úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1219/2024 í máli ÚNU 23090019 enda verði málið borið undir dómstóla innan sjö daga frá birtingu þessa úrskurðar með ósk um að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttar­áhrifa samkvæmt þessu tekur einvörðungu til eftirfarandi hluta úrskurðar nr. 1219/2024:
 
Frestað skal réttaráhrifum 2. og 3. tölul. 1. mgr. úrskurðarorðsins, þ.e. um afhendingu á tilboðsskrá Col­as Ísland ehf., dags. 2. maí 2023, sbr. skjal auðkennt með rafræna skráarheitinu […] og afhendingu á tölvupóstssamskiptum milli Col­as Ísland ehf. og Isavia innanlandsflugvalla ehf. á tímabilinu frá 25. apríl 2023 til 14. júní sama ár.
 
Frestað skal réttaráhrifum 3. mgr. úrskurðarorðsins, þ.e. um afhendingu á samantektarskjali Colas Ísland ehf., auðkennt af Isavia innanlandsflugvöllum ehf. sem […].
 
Að öðru leyti er kröfu Isavia innanlandsflugvalla ehf., dags. 17. október 2024, hafnað.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta