1222/2024. Úrskurður frá 30. október 2024
Hinn 30. október 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1222/2024 í máli ÚNU 24080008.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 19. júlí 2024, kærði […] mbl.is, f.h. […], blaðamanns, ákvörðun mennta- og barnamálaráðuneytis að synja beiðni um aðgang að gögnum um niðurstöður PISA-könnunarinnar sem gerð var 2022.
Með erindi, dags. 9. júlí 2024, óskaði blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is eftir aðgangi að niðurstöðum PISA-könnunarinnar sem gerð var 2022. Óskað var eftir því að niðurstöður væru sundurgreindar eftir skólum og fögum sem prófað var í, þ.e. lesskilningi, stærðfræði, náttúruvísindum og skapandi hugsun. Í svari ráðuneytisins, dags. 11. júlí 2024, var vísað til þess að allar niðurstöður PISA væru aðgengilegar á nánar tilgreindum vef Stjórnarráðsins. Á síðunni væri skýrsla um helstu niðurstöður, sem sundurliðaðar væru eftir fögum, þ.e. lesskilningi, stærðfræðilæsi og læsi á náttúruvísindi. Niðurstöður skapandi hugsunar yrðu vonandi gerðar opinberar síðar á árinu. Ekki væru gefnar út niðurstöður fyrir einstaka skóla þar sem prófið væri í eðli sínu hannað fyrir mjög stórt úrtak og niðurstöður því ekki mjög marktækar þegar horft væri á einstaka skóla.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt mennta- og barnamálaráðuneyti með erindi, dags. 23. júlí 2024, og ráðuneytinu gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að ráðuneytið afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál þau gögn sem kæran varðar.
Umsögn ráðuneytisins barst úrskurðarnefndinni 7. ágúst 2024. Í umsögninni kemur fram að niðurstöðugögn úr PISA-könnuninni árið 2022 séu opin og öllum aðgengileg á vef OECD. Sá gagnagrunnur sem þar er aðgengilegur innihaldi niðurstöður, þar á meðal fyrir Ísland, sem séu hinar eiginlegu niðurstöður könnunarinnar. Í gagnagrunninum séu engar upplýsingar sem auðkenni íslenska skóla. Í samræmi við þetta búi ráðuneytið ekki yfir gögnum sem sýna niðurstöður um frammistöðu í PISA fyrir einstaka íslenska skóla. Gögnin séu því ekki fyrirliggjandi í skilningi 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með erindi, dags. 9. ágúst 2024, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust 23. ágúst 2024. Í athugasemdunum er m.a. vísað til þess að úrskurðarnefndin hafi árið 2014 lagt fyrir Reykjavíkurborg að birta opinberlega PISA-einkunnir frá árinu 2012, sundurliðaðar eftir skólum.
Niðurstaða
Mál þetta varðar beiðni um aðgang að niðurstöðum PISA-könnunarinnar sem gerð var 2022, sundurliðuðum eftir skólum og fögum. Mennta- og barnamálaráðuneyti hefur vísað á nánar tilgreindan vef Stjórnarráðsins, þar sem finna megi skýrslu um niðurstöður könnunarinnar, sundurliðaðar eftir fögum. Ekki liggi fyrir gögn í ráðuneytinu sem hafi að geyma frekari sundurliðun niðurstaðnanna.
Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, til fyrirliggjandi gagna sem varða tiltekið mál og tiltekinna fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt 20. gr. sömu laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun beiðni um að veita aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.
Mennta- og barnamálaráðuneyti kveður þau gögn sem óskað er eftir, þ.e. niðurstöður PISA-könnunarinnar sundurliðaðar eftir skólum og fögum, ekki liggja fyrir í ráðuneytinu. Í máli sem lauk með úrskurði nefndarinnar nr. A-539/2014, sem kærandi vísar til, var staðan önnur því hjá Reykjavíkurborg lágu fyrir gögn sem innihéldu sundurliðun niðurstaðna PISA-könnunarinnar frá árinu 2012 eftir grunnskólum sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa þá staðhæfingu mennta- og barnamálaráðuneytis að þau gögn sem óskað er eftir í máli þessu liggi ekki fyrir hjá ráðuneytinu sjálfu. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður ákvörðun ráðuneytisins því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun mennta- og barnamálaráðuneytis, dags. 11. júlí 2024, í tilefni af beiðni […], blaðamanns, dags. 9. júlí 2024, er staðfest.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir