Hoppa yfir valmynd

1222/2024. Úrskurður frá 30. október 2024

Hinn 30. október 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1222/2024 í máli ÚNU 24080008.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 19. júlí 2024, kærði […] mbl.is, f.h. […], blaðamanns, ákvörðun mennta- og barnamálaráðuneytis að synja beiðni um aðgang að gögnum um niðurstöður PISA-könn­unarinnar sem gerð var 2022.
 
Með erindi, dags. 9. júlí 2024, óskaði blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is eftir aðgangi að niður­stöð­um PISA-könnunarinnar sem gerð var 2022. Óskað var eftir því að niðurstöður væru sundur­greind­ar eftir skólum og fögum sem prófað var í, þ.e. lesskilningi, stærðfræði, náttúruvísindum og skap­andi hugsun. Í svari ráðuneytisins, dags. 11. júlí 2024, var vísað til þess að allar niðurstöður PISA væru aðgengilegar á nánar tilgreindum vef Stjórnarráðsins. Á síðunni væri skýrsla um helstu niður­stöður, sem sundurliðaðar væru eftir fögum, þ.e. lesskilningi, stærðfræðilæsi og læsi á nátt­úru­vísindi. Niðurstöður skapandi hugsunar yrðu vonandi gerðar opinberar síðar á árinu. Ekki væru gefn­ar út niðurstöður fyrir einstaka skóla þar sem prófið væri í eðli sínu hannað fyrir mjög stórt úr­tak og niðurstöður því ekki mjög marktækar þegar horft væri á einstaka skóla.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt mennta- og barnamálaráðuneyti með erindi, dags. 23. júlí 2024, og ráðuneytinu gefinn kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að ráðuneytið afhenti úr­skurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál þau gögn sem kær­an varðar.
 
Umsögn ráðuneytisins barst úrskurðarnefndinni 7. ágúst 2024. Í umsögn­inni kemur fram að niður­stöðu­gögn úr PISA-könnuninni árið 2022 séu opin og öllum aðgengileg á vef OECD. Sá gagna­grunn­ur sem þar er aðgengilegur innihaldi niðurstöður, þar á meðal fyrir Ísland, sem séu hinar eigin­legu niðurstöður könnunarinnar. Í gagnagrunninum séu engar upplýsingar sem auðkenni ís­lenska skóla. Í samræmi við þetta búi ráðuneytið ekki yfir gögnum sem sýna niðurstöður um frammi­stöðu í PISA fyrir einstaka íslenska skóla. Gögnin séu því ekki fyrirliggjandi í skilningi 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 
Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með erindi, dags. 9. ágúst 2024, og honum gefinn kostur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Þær bárust 23. ágúst 2024. Í athugasemdunum er m.a. vísað til þess að úrskurðarnefndin hafi árið 2014 lagt fyrir Reykjavíkurborg að birta opin­ber­lega PISA-einkunnir frá árinu 2012, sundurliðaðar eftir skólum.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni um aðgang að niðurstöðum PISA-könnunarinnar sem gerð var 2022, sund­ur­liðuðum eftir skólum og fögum. Mennta- og barnamálaráðuneyti hefur vísað á nánar tilgreindan vef Stjórnarráðsins, þar sem finna megi skýrslu um niðurstöður könnunarinnar, sundurliðaðar eftir fögum. Ekki liggi fyrir gögn í ráðuneytinu sem hafi að geyma frekari sundurliðun niðurstaðnanna.
 
Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, til fyrirliggjandi gagna sem varða tiltekið mál og tiltekinna fyrirliggjandi gagna. Sam­kvæmt 20. gr. sömu laga er heimilt að kæra til úrskurðar­nefnd­ar um upplýsingamál synjun beiðni um að veita aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.
 
Mennta- og barnamálaráðuneyti kveður þau gögn sem óskað er eftir, þ.e. niðurstöður PISA-könn­un­arinnar sundurliðaðar eftir skólum og fögum, ekki liggja fyrir í ráðu­neyt­inu. Í máli sem lauk með úrskurði nefndarinnar nr. A-539/2014, sem kærandi vísar til, var staðan önnur því hjá Reykja­víkur­borg lágu fyrir gögn sem innihéldu sundurliðun niðurstaðna PISA-könnunarinnar frá árinu 2012 eftir grunn­skólum sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa þá staðhæfingu mennta- og barnamálaráðuneytis að þau gögn sem óskað er eftir í máli þessu liggi ekki fyrir hjá ráðuneytinu sjálfu. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synj­un á afhend­ingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upp­lýs­inga­laga. Verður ákvörðun ráðu­neyt­is­ins því stað­fest.
 

Úrskurðarorð

Ákvörðun mennta- og barnamálaráðuneytis, dags. 11. júlí 2024, í tilefni af beiðni […], blaðamanns, dags. 9. júlí 2024, er staðfest.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta