1223/2024. Úrskurður frá 25. nóvember 2024
Hinn 25. nóvember 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1223/2024 í máli ÚNU 24100013.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 22. október 2024, kærði Vestmannaeyjabær ákvörðun umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis að synja beiðni sveitarfélagsins um aðgang að gögnum.
Með erindi til ráðuneytisins, dags. 25. mars 2024, var komið á framfæri bókun af fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, þar sem meðal annars var lagt til að óskað yrði eftir öllum þeim upplýsingum sem legið hefðu til grundvallar ákvörðun ráðuneytisins að staðfesta hækkun HS Veitna á gjaldi fyrir heitt vatn í Vestmannaeyjum síðastliðna mánuði. Þar sem ekki var brugðist við erindinu var það ítrekað 3. og 12. apríl 2024. Hinn 16. apríl 2024 var kæranda tjáð að erindið væri í vinnslu, og 21. maí 2024 var erindið afgreitt og kæranda afhent tvö bréf frá HS Veitum vegna málsins. Sundurliðaðar fjárhagsupplýsingar um afkomu hitaveitustarfsemi HS Veitna í Vestmannaeyjum voru ekki afhentar.
Kærandi fór með erindi, dags. 6. júní 2024, fram á að fjárhagsupplýsingarnar yrðu afhentar. Erindið var ítrekað 30. ágúst og 7. október 2024. Með erindi, dags. 10. október 2024, var beiðni kæranda synjað með vísan til þess að upplýsingarnar væru vinnugögn sem aðeins hefðu verið afhent ráðuneytinu á grundvelli eftirlitsskyldu þess með HS Veitum, auk þess sem óheimilt væri að afhenda upplýsingarnar samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Kæranda var leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um rétt Vestmannaeyjabæjar til aðgangs að gögnum í vörslu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Ráðuneytið synjaði beiðni sveitarfélagsins á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og leiðbeindi sveitarfélaginu um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Skylda til afhendingar gagna á grundvelli upplýsingalaga hvílir að þessu leyti á stjórnvöldum, sbr. 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, og eftir atvikum öðrum aðilum sem felldir hafa verið undir gildissvið þeirra samkvæmt 2. og 3. gr. laganna. Upplýsingalög taka hins vegar, samkvæmt orðalagi sínu og markmiðum, ekki til þeirrar aðstöðu þegar stjórnvöld óska eftir upplýsingum hjá öðrum stjórnvöldum, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 473/2013 frá 31. janúar 2013.
Af þessu leiðir að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið telst í því máli sem hér er til umfjöllunar ekki hafa tekið ákvörðun um synjun um aðgangi að gögnum sem Vestmannaeyjabær gat sem stjórnvald kært til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli upplýsingalaga. Verður kæru Vestmannaeyjabæjar því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru Vestmannaeyjabæjar, dags. 22. október 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Sigríður Árnadóttir