Hoppa yfir valmynd

1223/2024. Úrskurður frá 25. nóvember 2024

Hinn 25. nóvember 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1223/2024 í máli ÚNU 24100013.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 22. október 2024, kærði Vestmannaeyjabær ákvörðun umhverfis-, orku- og lofts­lagsráðuneytis að synja beiðni sveitarfélagsins um aðgang að gögnum.
 
Með erindi til ráðuneytisins, dags. 25. mars 2024, var komið á framfæri bókun af fundi bæjar­stjórn­ar Vestmannaeyjabæjar, þar sem meðal annars var lagt til að óskað yrði eftir öllum þeim upp­lýsingum sem legið hefðu til grundvallar ákvörðun ráðuneytisins að staðfesta hækkun HS Veitna á gjaldi fyrir heitt vatn í Vestmannaeyjum síðastliðna mánuði. Þar sem ekki var brugðist við erindinu var það ítrekað 3. og 12. apríl 2024. Hinn 16. apríl 2024 var kæranda tjáð að erindið væri í vinnslu, og 21. maí 2024 var erindið afgreitt og kæranda afhent tvö bréf frá HS Veitum vegna málsins. Sundurliðaðar fjárhagsupplýsingar um afkomu hitaveitustarfsemi HS Veitna í Vest­mannaeyjum voru ekki afhentar.
 
Kærandi fór með erindi, dags. 6. júní 2024, fram á að fjárhagsupplýsingarnar yrðu afhentar. Erind­ið var ítrekað 30. ágúst og 7. október 2024. Með erindi, dags. 10. október 2024, var beiðni kær­anda synjað með vísan til þess að upplýsingarnar væru vinnugögn sem aðeins hefðu verið afhent ráðu­neytinu á grundvelli eftirlitsskyldu þess með HS Veitum, auk þess sem óheimilt væri að afhenda upplýsingarnar samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Kæranda var leiðbeint um kæru­heimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt Vestmannaeyjabæjar til aðgangs að gögnum í vörslu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Ráðuneytið synjaði beiðni sveitarfélagsins á grundvelli 9. gr. upplýsinga­laga, nr. 140/2012, og leiðbeindi sveitarfélaginu um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýs­inga­mál.
 
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrir­liggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Skylda til afhend­ing­ar gagna á grundvelli upplýsingalaga hvílir að þessu leyti á stjórnvöldum, sbr. 1. mgr. 2. gr. upp­lýsingalaga, og eftir atvikum öðrum aðilum sem felldir hafa verið undir gildissvið þeirra sam­kvæmt 2. og 3. gr. laganna. Upplýsingalög taka hins vegar, samkvæmt orðalagi sínu og mark­mið­um, ekki til þeirrar aðstöðu þegar stjórnvöld óska eftir upplýsingum hjá öðrum stjórnvöldum, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 473/2013 frá 31. janúar 2013.
 
Af þessu leiðir að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið telst í því máli sem hér er til umfjöll­un­ar ekki hafa tekið ákvörðun um synjun um aðgangi að gögnum sem Vestmannaeyjabær gat sem stjórn­vald kært til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli upplýsingalaga. Verður kæru Vest­manna­eyjabæjar því vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

Úrskurðarorð

Kæru Vestmannaeyjabæjar, dags. 22. október 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsinga­mál. 
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta