1224/2024. Úrskurður frá 25. nóvember 2024
Hinn 25. nóvember 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1224/2024 í máli ÚNU 24020023.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 27. febrúar 2024, framsendi fjármála- og efnahagsráðuneyti kæru […] lögmanns, f.h. Endurvinnslunnar hf., til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Með tölvupósti, dags. 15. nóvember 2023, óskaði kærandi eftir upplýsingum frá Skattinum um hvort Vök Waters ehf. hefði greitt þær skýrslur sem félagið sendi inn árið 2023 en ljóst þykir að kærandi var þar að vísa til skilagjaldsskýrslna samkvæmt lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989. Skatturinn og kærandi áttu í nokkrum samskiptum sama dag þar sem kærandi tiltók meðal annars að einu upplýsingarnar sem hann óskaði eftir væri hvort greiðslur hefðu borist.
Með tölvupósti til kæranda, dags. 21. nóvember 2023, upplýsti starfsmaður Skattsins að hann væri bundinn þagnarskyldu samkvæmt 20. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019. Með tölvupósti til Skattsins, dags. 23. sama mánaðar, tiltók kærandi að hann ætti rétt á að fá afhent afrit af skilagjaldsskýrslum samkvæmt reglugerð um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota drykkjavöruumbúðir, nr. 750/2017. Kærandi hefði því rétt samkvæmt lögum til að fá upplýsingar um fjárhæð skilagjalds og umsýsluþóknunar sundurliðaðar eftir gjaldanda. Á sama grunni og eðli málsins samkvæmt ætti kærandi einnig rétt til aðgangs að upplýsingum um hvort gjöldin hefðu verið greidd. Vísaði kærandi einnig til þess að um rétt hans til aðgangs að upplýsingum færi eftir stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, og að ákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019 ætti ekki við í málinu.
Skatturinn synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 20. desember 2023. Í bréfinu var því hafnað að kærandi teldist aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga og tekið fram að um rétt hans til aðgangs að upplýsingunum færi eftir upplýsingalögum, nr. 140/2012. Þá kom meðal annars fram í bréfinu að skylda til að afhenda kæranda skilagjaldsskýrslur hvíldi á framleiðendum en ekki Skattinum. Loks hafnaði Skatturinn því að veita kæranda aðrar umbeðnar upplýsingar með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar féllu undir 20. gr. laga nr. 150/2019 sem væri sérstök þagnarskylduregla sem gengi framar ákvæðum upplýsingalaga.
Með erindi, dags. 16. febrúar 2024, kærði kærandi ákvörðun Skattsins til fjármála- og efnahagsráðuneytis á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga og með vísan til þess að í fyrri úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál, einkum úrskurði nr. 983/2021, hefði nefndin lagt til grundvallar að hún hefði ekki lögsögu í málum sem vörðuðu upplýsingar sem heyrðu undir þagnarskylduákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019. Í kæru var þess krafist að ákvörðun Skattsins yrði felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að afhenda kæranda umbeðnar upplýsingar. Þá kom fram að ef Skatturinn hefði lagt skilagjald á Vök Waters ehf. eða samið um greiðslur skilagjaldsins við félagið væri þess krafist að kærandi fengi afrit af álagningunni eða samkomulaginu ásamt upplýsingum um greiðslur og/eða vanskil félagsins.
Í kæru málsins rekur kærandi fyrirmæli laga nr. 52/1989 og reglugerðar nr. 750/2017, þar með talið hvert sé hlutverk kæranda samkvæmt lögunum og hvernig staðið sé að álagningu og innheimtu skilagjalda og umsýsluþóknunar. Hlutverk innheimtumanns ríkissjóðs sé samkvæmt lögum nr. 150/2019 að innheimta skilagjald af skilagjaldsskyldum aðilum og ráðstafa því til kæranda jafnskjótt og við verður komið, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 750/2017.
Kærandi vísar til þess að honum sé nauðsynlegt starfsemi sinnar vegna að fá umbeðnar upplýsingar. Starfsemi kæranda byggi á lögum og hann hafi lögbundnar skyldur og megi því að einhverju leyti jafna starfsemi hans til opinbers aðila. Forsenda þess að rekstur kæranda standi undir sér og að hann geti sinnt lögbundnum hlutverkum sínum sé að skilagjöld séu innheimt og þeim ráðstafað til kæranda enda sé greiðsluskylda kæranda til almennings samkvæmt 3. gr. laga nr. 52/1989 óháð því hvort skilagjald hafi verið innheimt af viðkomandi umbúðum. Af þessu leiði að sú staða geti hæglega komið upp að kærandi greiði út hærri fjárhæðir til almennings en innheimtar séu af gjaldskyldum aðilum. Sú staða sé óásættanleg og geti haft bein áhrif á og aukið áhættu í rekstri kæranda. Þá beri kæranda sem hlutafélagi að tryggja að bókhald og ársreikningur félagsins sé í samræmi við lög.
Nauðsynlegt sé fyrir kæranda að vita hvort að áætlað hafi verið fyrir vanskilum, hvort að aðili hafi greitt eða hvenær megi búast við því að greiðslur berist. Án þessara upplýsinga sé tekjustreymi kæranda rangt bókað og endurgreiðsla skilagjalda ekki í samræmi við tekjustreymi. Kærandi geti því ekki brugðist rétt við þeim aðstæðum sem skapast vegna vanskila og þurfi þess vegna að fá upplýsingar um hvað sé áætlað, hvort það sé greitt og hvenær tekjur muni koma sé samkomulag fyrir hendi um greiðslur. Sú staða sé hugsanleg, með hækkandi skilahlutfalli, að rekstur kæranda verði neikvæður ef útgreiðslur og skuldbindingar vegna óinnleystra umbúða verði hærri en tekjur hans. Kæranda sé því nauðsynlegt að fá áætlanir á gjaldskylda aðila og upplýsingar um vanskil þeirra til þess að fá rétta stöðu og yfirsýn yfir stöðu félagsins. Þá séu upplýsingarnar jafnframt nauðsynlegar til að stjórn og stjórnendur félagsins geti sinnt lögbundnum hlutverkum sínum.
Kærandi byggir á að þagnarskylduákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019 eigi ekki við í málinu. Ákvæðið sé bundið þeim fyrirvara að það eigi aðeins við um upplýsingar sem eigi að fara leynt. Umbeðnar upplýsingar eigi ekki að fara leynt enda sé með þessu orðalagi vísað til verndarhagsmuna þagnarskylduákvæðisins. Umræddir verndarhagsmunir eigi ekki við um upplýsingagjöf gagnvart kæranda.
Þagnarskylduákvæði séu sett til þess að upplýsingar komist ekki til vitundar óviðkomandi eða utanaðkomandi en í ákvörðun Skattsins sé þessum sjónarmiðum enginn gaumur gefinn. Með því að Skatturinn veiti kæranda umbeðnar upplýsingar sé ekki verið að veita „óviðkomandi“ eða „almenningi“ upplýsingar um skuldastöðu gjaldenda heldur verið að veita kæranda nauðsynlegar upplýsingar svo hann geti sinnt sínum lögbundnu hlutverkum. Þá sé ekki um að ræða upplýsingar sem varði einstaklinga, sem sé tryggð ríkari vernd að lögum, heldur upplýsingar um lögaðila.
Í umfjöllun um þagnarskyldu um fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja sé skilyrði að þessir hagsmunir séu mikilvægir svo þeir falli undir verndarhagsmuni þagnarskylduákvæða, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að breytingarlögum nr. 71/2019 við stjórnsýslulög. Jafnframt sé Skatturinn innheimtumaður skilagjalds og umsýsluþóknunar en kærandi fái gjaldið að fullu til sín og sjái um umsýslu skilagjaldsins samkvæmt 2. gr. laga nr. 52/1989 en stofnuninni beri að skila gjaldinu til kæranda jafnskjótt og það sé innheimt. Hér sé því um að ræða fyrirkomulag þar sem innheimtumaður ríkissjóðs hafi ákveðin verkefni sem snúi fyrst og fremst að innheimtu en kærandi hafi lögbundin hlutverk þegar komi að útgreiðslu. Saman myndi þetta fyrirkomulag heildstætt kerfi þar sem aðilar þurfi eðli málsins samkvæmt að hafa yfirsýn yfir hlutverk sín og verkefni hins og þurfi að miðla upplýsingum sín á milli svo kerfið virki sem ein heild.
Framangreindu til viðbótar beri við túlkun 20. gr. laga nr. 150/2019 að beita samræmisskýringu við X. kafla stjórnsýslulaga og hafa þau sjónarmið sem ítarlega séu rakin í kaflanum og lögskýringargögnum til hliðsjónar. Slík skýring leiði til þess að fullljóst sé að umræddar upplýsingar séu ekki háðar þagnarskyldu.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Skattinum með erindi, dags. 28. febrúar 2024, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Skatturinn léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.
Ríkisskattstjóri skilaði umsögn í málinu 14. mars 2024 og meðfylgjandi henni voru þau gögn sem hann taldi að kæran lyti að.
Í umsögn ríkisskattstjóra er rakið að sérstakar þagnarskyldureglur takmarki upplýsingarétt samkvæmt upplýsingalögum, sbr. gagnályktun frá 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Ríkisskattstjóri sé einn af innheimtumönnum ríkissjóðs samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 150/2019 en um innheimtumenn ríkissjóðs gildi sérstök þagnarskylduregla í 20. gr. laganna. Þær upplýsingar sem kærandi óski aðgangs að hafi að geyma upplýsingar um mögulega skuldastöðu þriðja aðila í tilteknum gjaldflokki, hvort gripið hafi verið til innheimtuaðgerða gagnvart þeim aðila og um árangur þeirra aðgerða. Þessar upplýsingar falli undir þagnarskylduákvæðið og varði efnahag gjaldanda og tekjur hans. Þar sem lög um innheimtu opinberra skatta og gjalda gilda um innheimtu skilagjalds gildi ótvíræð þagnarskylda um umræddar upplýsingar. Upplýsingalög heimili þar af leiðandi ekki afhendingu umbeðinna upplýsinga. Enn fremur sé um virka fjárhagslega hagsmuni fyrirtækis að ræða sem sanngjarnt og eðlilegt sé að leynt fari, sbr. 2. mgr. 9. gr. upplýsingalaga, enda sé um svo viðkvæmar upplýsingar að ræða samkvæmt almennum sjónarmiðum að þær eigi ekki erindi við almenning.
Umsögn ríkisskattstjóra var kynnt kæranda með tölvupósti 15. mars 2024 og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum sem hann og gerði með athugasemdum 16. apríl sama ár.
Í athugasemdum sínum krafðist kærandi þess að úrskurðarnefndin tæki málið þegar fyrir og kæmist að niðurstöðu um hvort málinu væri réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar eða hvort endursenda ætti kæruna til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þá krafðist kærandi þess að málið fengið flýtimeðferð hjá nefndinni kæmist hún að þeirri niðurstöðu að málið ætti undir hana.
Í athugasemdum kæranda áréttar hann að ákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019 feli ekki í sér sérstakt þagnarskylduákvæði með tilliti til umbeðinna upplýsinga. Tilvísun lagaákvæðisins til upplýsinga um tekjur og efnahag gjaldenda sé eini liður ákvæðisins sem geti talist fela í sér sérstaka þagnarskyldu en kærandi sé ekki að óska eftir slíkum upplýsingum. Þannig sé kærandi hvorki að óska eftir upplýsingum um tekjur né efnahag Vök Waters ehf. heldur aðeins upplýsingum um vanskil á gjöldum sem mynda tekjur í rekstri kæranda og upplýsingar um samkomulag um uppgjör. Verndarhagsmunir ákvæðisins eigi ekki við um upplýsingagjöf gagnvart kæranda um vanskil á gjöldum sem mynda tekjur kæranda.
Við úrlausn málsins beri að líta til atvika þess, orðalags 20. gr. laga nr. 150/2019, tilgangs ákvæðisins og ekki síður þeirra hagsmuna sem ákvæðinu sé ætlað að vernda. Megineinkenni sérstakra þagnarskyldureglna sé að þær hafa verið lögfestar í þeim tilgangi að tryggja trúnað um nánar tilgreindar upplýsingar. Það hvort lagaákvæði feli í sér sérstaka þagnarskyldu gagnvart upplýsingalögum velti því á túlkun ákvæðisins með hliðsjón af orðalagi þess og tilgangi. Slíkt mat sé atviksbundið og því ekki loku fyrir það skotið að upplýsingar sem almennt séu undirorpnar þagnarskyldu gagnvart almenningi séu það ekki gagnvart öðrum aðilum eins og kæranda sem hafi lögbundnar skyldur varðandi ráðstöfun skilagjalds til almennings hér á landi.
Í umsögn ríkisskattstjóra sé í engu vikið að sjónarmiðum kæranda og lögbundnum hlutverkum hans um rekstur skilakerfis drykkjarvöruumbúða hér á landi. Atvik máls þessa hljóti að teljast nokkuð sérstök í ljósi lagaskyldu kæranda varðandi starfrækslu skilakerfis einnota umbúða sem og skýrra lagafyrirmæla um að greiða skuli innheimt skilagjöld jafnskjótt og við verður komið til kæranda. Atvik málsins beri því að meta heildstætt með hliðsjón af tilgangi þagnarskylduákvæða og atvikum öllum. Ef lagareglur um trúnað séu matskenndar falli það í hlut stjórnvalda að afmarka upplýsingarétt og/eða þagnarskyldu í einstökum tilvikum með hliðsjón af þeim. Slíkt mat sé háð endurskoðun æðra setts stjórnvalds eða eftir atvikum úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem beri að taka sjónarmið kæranda til efnislegrar umfjöllunar og meta málið heildstætt.
Kærandi vísar jafnframt til 14. gr. upplýsingalaga og tiltekur að umbeðnar upplýsingar varði hann með beinum hætti enda snúi þær að tekjum hans og hafi hann því brýna og verulega hagsmuni af því að fá aðgang að umbeðnum upplýsingum. Loks bendir kærandi á að sérstök þagnarskylda takmarki ekki rétt aðila til aðgangs að gögnum um hann sjálfan samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga.
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við meðferð þess.
Niðurstaða
1.
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um það hvort félagið Vök Waters ehf. hafi staðið skil á greiðslu gjalda á grundvelli laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989.
Með vísan til hlutverks kæranda samkvæmt lögum nr. 52/1989, en hann fer með útgreiðslu skilagjalds á grunni laganna, þótt innheimta gjaldanna sé ekki á hans hendi, kann að hafa þýðingu fyrir skipulag á rekstri hans hvort og þá hvaða fjármuni hann muni fá á hverjum tíma til umsýslu á grundvelli laganna. Þegar litið er til þess að lög nr. 52/1989 gera þó ekki á neinn hátt ráð fyrir að kærandi eigi sjálfur aðild að málum sem varða álagningu gjalda á einstaka gjaldskylda aðila þá verður ekki talið að þær upplýsingar sem hann hefur óskað aðgangs að verði taldar liggja fyrir í gögnum stjórnsýslumáls, sbr. 1. og 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem hann á aðild að. Um mögulegan rétt kæranda til aðgangs að gögnum fer því ekki eftir þeim lögum. Kæru málsins er því réttilega beint til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Með vísan til sömu röksemda, um stöðu kæranda á grunni laga nr. 52/1989, verður ekki talið að þær upplýsingar sem hann hefur beðið um séu um hann sjálfan í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga eða að þær varði sérstaka lögvarða hagsmuni hans með þeim hætti að þær verði felldar undir það lagaákvæði. Af því leiðir að hér verður lagt til grundvallar að aðeins komi til álita hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að gögnum með þeim upplýsingum sem hann hefur óskað aðgangs að á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga, sem kveður á um rétt almennings til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum.
2.
Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál að liðnum þeim 30 daga fresti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, sama hvort miðað er við þann dag sem kæran barst fjármála- og efnahagsráðuneytinu eða þann dag sem ráðuneytið framsendi kæruna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 4. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, skal vísa frá kæru ef hún berst að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigarmiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Í ákvörðun sinni leiðbeindi Skatturinn kæranda um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál en ekki um kærufrest, líkt og mælt er fyrir um að skuli veita í 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ljóst að kærandi beindi kærunni til fjármála- og efnahagsráðuneytisins á þeim grundvelli að um rétt hans til aðgangs að umbeðnum upplýsingum færi eftir ákvæðum stjórnsýslulaga en samkvæmt þeim lögum skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að tilkynnt var um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Í ljósi þessara atvika verður að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist innan kærufrests og verður kærunni því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum að kærufrestur 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga hafi verið liðinn.
3.
Synjun Skattsins á ósk kæranda um upplýsingar um það hvort tiltekið fyrirtæki hafi staðið hinu opinbera skil á greiðslu gjalda á grundvelli laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, byggist á því að þær séu undirorpnar sérstakri þagnarskyldu sem mælt er fyrir um í 20. gr. laga nr. 150/2019. Tilvitnað þagnarskylduákvæði er svohljóðandi:
Á innheimtumanni ríkissjóðs hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Innheimtumanni er óheimilt, að viðlagðri ábyrgð skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um brot í opinberu starfi, að skýra frá því sem hann kemst að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um tekjur og efnahag gjaldenda. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af störfum.
Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Við framkvæmd upplýsingalaga hefur hins vegar ítrekað verið byggt á því, á grundvelli gagnályktunar frá 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, að hafi þagnarskylduákvæði í öðrum lögum að geyma nánari sérgreiningu þeirra upplýsinga sem halda beri trúnað um en leiði af ákvæðum upplýsingalaga þá teljist slíkt ákvæði fela í sér svonefnda sérstaka þagnarskyldureglu og víki sú þagnarskylda ekki fyrir upplýsingalögum heldur gangi hún þeim framar, sbr. jafnframt dóma Hæstaréttar 3. júní 2014 í máli nr. 329/2014 og 17. desember 2015 í máli nr. 263/2015.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur slegið því föstu að 20. gr. laga nr. 150/2019 teljist vera sérstakt þagnarskylduákvæði að því er varðar þær upplýsingar sem innheimtumenn ríkissjóðs hafa undir höndum um tekjur og efnahag gjaldenda, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 983/2021.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 150/2019 er innheimtumanni ríkissjóðs falið að annast innheimtu skatta og gjalda hver í sínu umdæmi. Með sköttum og gjöldum er átt við hvers konar skatta og gjöld sem lögð eru á lögum samkvæmt en skilagjald og umsýsluþóknun eru lögð á samkvæmt lögum nr. 52/1989 og er um skatta að ræða, sbr. dóm Landsréttar í máli nr. 432/2021. Þá kemur fram í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 150/2019 að innheimtumenn ríkissjóðs séu ríkisskattstjóri í umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu en sýslumenn í öðrum umdæmum. Svo sem fyrr segir fer ríkisskattstjóri með yfirstjórn Skattsins en stofnuninni er falið að annast þau verkefni sem ríkisskattstjóra er falið að sinna lögum samkvæmt, sbr. 2. mgr. 85. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur með vísan til framangreinds að upplýsingar um stöðu gjaldenda vegna innheimtu skilagjalds og umsýsluþóknunar sem innheimtumanni ríkissjóðs er falið að innheimta á grundvelli laga nr. 150/2019 séu upplýsingar um tekjur og efnahag gjaldenda í skilningi 20. gr. laganna. Sama myndi almennt eiga við um gögn sem tengjast slíkri innheimtu.
Samkvæmt öllu framangreindu verður að leggja til grundvallar að upplýsingarnar sem kærandi hefur óskað eftir varði tekjur og efnahag gjaldenda í skilningi hinna sérstöku þagnarskyldureglu í 20. gr. laga nr. 150/2019. Taka má fram að þessi sérstaka þagnarskylda gengur framar reglum um upplýsingarétt eftir II. og III. kafla upplýsingalaga, sbr. fyrrnefnda dóma Hæstaréttar. Verður ákvörðun Skattsins því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Skattsins, dags. 20. desember 2023, um að synja Endurvinnslunni hf. um aðgang að upplýsingum, er staðfest.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Sigríður Árnadóttir